Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2019 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, þriðjudaginn 16. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2019.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 21. janúar 2019 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 22. nóvember 2018 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. sama mánaðar og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. mars 2019 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi sem barst nefndinni 1. apríl 2019. Málskotsnefnd óskaði eftir afriti af skuldabréfi kæranda og sendi LÍN nefndinni afritið 2. júlí 2019.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán hjá LÍN á árunum 2011 til 2016. Kærandi hóf þriggja ára doktorsnám við háskóla í Englandi árið 2013. Samkvæmt innritunarvottorði háskólans var kærandi skráður í þriggja ára nám. Kærandi mun síðan hafa framlengt nám sitt um tvö ár án vitneskju LÍN. Í gögnum málsins kemur fram að öll samskipti milli kæranda og LÍN eru á þann veg að kærandi ritar á ensku og LÍN svarar á íslensku. Í 28. nóvember 2017 sendi LÍN kæranda tilkynningu með tölvupósti um lokun skuldabréfs. Þar sagði eftirfarandi:

Efni:

Lokun skuldabréfs nr. G-[...]. Kt: [...].

Meginmál:

Ágæti námsmaður [...].

Á árinu 2018 verða liðin tvö ár frá því þú fékkst síðast afgreitt námslán frá LÍN eða skilaðir síðast upplýsingum um lánshæfan námsárangur til sjóðsins. Sjóðnum ber því að loka skuldabréfi þínu og miðast dagsetning lokunar við lok skólaársins eða þann 29.06.2016, sbr. grein 7.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í framhaldi af því munu endurgreiðslur námslána þinna hefjast þann 30. júní 2018. Sérstök athygli er vakin á því að námsmenn sem halda áfram lánshæfu námi án þess að sækja um námslán geta átt rétt á að framangreindum lokunardegi verði frestað, að því gefnu að viðkomandi hafi ekki gert lengra hlé á námi en sem nemur einu ári. Þú gætir því átt rétt á slíkri frestun ef þú varst í lánshæfu námi námsárið 2016-2017 svo og ef þú skilar lánshæfum námsárangri á haustönn 2016. hægt er að sækja um frest á lokun skuldabréfs á „Mitt svæði“ í gegnum heimasíðu sjóðsins www.lin.is. Þú hefur frest til og með 15.12.2017 til að sækja um að lokun skuldabréfs verði frestað. Staðfesting á námsárangri á námsárinu 2016-2017 þarf að fylgja með umsókn eða staðfesting á innritun í lánshæft nám á haustönn 2017 svo hægt sé að afgreiða umsóknina. Nánari upplýsingar um lokun skuldabréfa er að finna í 7. kafla í úthlutunarreglum LÍN. Vinsamlegast athugið að skilafrestur gagna vegna umsóknar um frestun er til og með 15.01.2018 vegna náms sem stundað var námsárið 2016-2017 en 15.03.2018 vegna náms á haustönn 2017.“

Kærandi hafði ekki samband við LÍN innan umsóknarfrestsins sem var til 15. desember 2017, en sendi þann 7. janúar 2018 staðfestingu frá háskólanum í Bretlandi um að hann væri skráður í fullt nám og að lokafrestur til að ljúka náminu væri til 14. nóvember 2018. Kærandi upplýsti einnig að hann ætti í erfiðleikum með aðganginn að heimasvæði sínu hjá LÍN og gæti ekki sett inn gögn þar. Í svari LÍN til kæranda kom fram að beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs hefði komið of seint og væri henni synjað. Jafnframt var kæranda skýrt frá að fyrsta afborgun skuldabréfsins yrði 30. júní 2018. LÍN tilkynnti kæranda um frágang skuldabréfsins þann 11. júní 2018.

Þann 15. júní 2018 tilkynnir LÍN kæranda um tekjutengda afborgun 2018 og óskar upplýsinga um tekjur hans. LÍN upplýsti kæranda síðan um lokun skuldabréfsins þann 25. júní 2018 og sendi kæranda jafnframt yfirlit yfir námslánagreiðslur til hans. LÍN sendi kæranda tilkynningu um lokun skuldabréfsins þann 29. júní 2018. Kom þar fram að tvær afborganir væru árlega af skuldabréfinu, 1. mars og 1. september. Fyrsta afborgunin væri þó þann 30. júní og væri það föst afborgun ársins 2018. Næsta afborgun væri 1. september 2018. Vakin var athygli á að kærandi gæti sótt um greiðsludreifingu á námslánum og þannig fengið að skipta mánaðarlegum afborgunum niður á 6 mánaðarlegar greiðslur. Boðið væri að skipta afborgun 30. júní í tvær greiðslur með gjalddaga 1. júlí og 1. ágúst.

Kærandi svarar LÍN 29. júní 2018 þar sem hann upplýsir að tölvupóstar frá sjóðnum hafi farið í „spam holder“ og því hafi hann ekki svarað LÍN frá því í janúar 2018. Fór kærandi þess á leit að fá að greiða 30. júní afborgunina með mánaðarlegum greiðslum. Kærandi ítrekar þessa fyrirspurn sína 10. júlí og segir það vandkvæðum bundið fyrir hann að greiða stóra fjárhæðir þar sem hann sé enn í námi. Hann stefni að því að ljúka því í nóvember og hafi fyrir nokkrum mánuðum byrjað í hlutastarfi. Ítrekar kærandi að hann eigi í erfiðleikum með aðgang að svæði sínu hjá LÍN sem og íslenskan bankareikning.

LÍN svarar kæranda 1. ágúst 2018 og upplýsir að gjalddaginn 30. júní 2018 sé kominn í milliinnheimtu til TCM og að ekki sé heimilt að greiða með mánaðarlegum afborgunum. Er kæranda bent á heimasíðu sjóðsins en þar séu upplýsingar um greiðsluleiðir erlendis frá en einnig sé hægt að setja gjalddagana á greiðslukort en þá sé gjalddaginn greiddur í einni greiðslu.

Kærandi sendi tölvupóst til LÍN 3. ágúst 2018 þar sem hann ítrekar að LÍN hafi gefið honum skamman frest í nóvember 2017. Það breyti því ekki að hann sé enn í námi og hafi verið önnum kafinn þegar honum barst erindi LÍN. Hann hafi sent svar þegar honum hafi gefist tími til þess. Óski hann þess að bera málið undir stjórn LÍN.  LÍN svarar kæranda sama dag og ítrekar þann frest sem veittur hafi verið til að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins. Var kæranda einnig bent á að til þess að komast á svæði LÍN þurfi svokallaðan Íslykil og var kæranda leiðbeint um hvernig mætti afla hans. Ekki væri þörf á íslenskum bankareikningi eða kreditkorti til að greiða kröfu LÍN og að hægt væri að greiða með millifærslu.

Kærandi sendi tölvupóst til LÍN þennan sama dag þar sem hann segir eftirfarandi: „I just read Article 7 of the loan repayment and it states clearly that „Repayment shall commence two years after completion of studies.“ Therefore I‘m not sure why do I need to start with repayments since I‘m a student until October 2018?

Þann 30. ágúst 2018 sendi kærandi síðan formlega beiðni um að mál hans yrði borið undir stjórn LÍN. Kom fram í erindi kæranda að hann hafi fengið tveggja vikna frest til að sækja um frestun á lokun skuldabréfs. Á þessum tíma hafi hann verið önnum kafinn og ekki skoðað tölvupóst sinn. Um leið og hann hafi áttað sig á málinu hafi hann farið á skrifstofu skólans en hún hafi verið lokuð vegna jólafría. Hafi honum tekist að afla nauðsynlegra gagna í byrjun janúar um að hann væri enn við nám.  Kærandi ítrekar að þó svo að hann hafi ekki sent gögn í tæka tíð þá breyti það ekki þeirri staðreynd að hann væri enn í námi og samkvæmt reglu nr. 7 ætti hann ekki að byrja afborganir fyrr en tveimur árum eftir lok náms. Kærandi ítrekar að hann hafi ekki efni á að greiða afborganir þar sem hann hefði nýlokið greiðslu skólagjalda og eiginkona hans hefði misst vinnuna. Kærandi kveðst ekki átta sig á því af hverju ekki sé tekið tillit til þess að hann sé enn í námi.  Fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að námslok yrðu miðuð við þann tíma er hann lyki námi sínu þar sem samkvæmt 7. gr. skyldi hefja endurgreiðslur námslána tveimur árum eftir námslok. Hefði hann lagt fram gögn um námslok sín og færi þess á leit að endurgreiðslur myndu ekki hefjast fyrr en tveimur árum eftir að hann hefði lokið námi.

Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda þann 22. nóvember 2019, sbr. bréf LÍN dagsett 26. nóvember 2018.

Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kærunni að LÍN hafi veitt kæranda afar skamman frest eða tvær vikur til að skila staðfestingu á að hann væri enn í námi. Á þessum tíma hafi kærandi verið önnum kafinn við doktorsritgerð sína og því ekki skoðað tölvupóst sinn. Um leið og hann hafi áttað sig á málinu hafi hann farið á skrifstofu háskólans til að afla ganga en þá hafi verið búið að loka yfir hátíðirnar í desember og leiðbeinandi hans farinn í frí. Kæranda hafi þó tekist í byrjun janúar að afla viðeigandi gagna sem hann hafi sent LÍN. LÍN upplýst hann um að umsóknin hafi komið of seint. Kærandi vísar einnig til þess að LÍN hafi ekki upplýst hann um rétt hans til að kæra meðferð málsins.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hann hafi ekki sent umsókn innan frestsins þá sé það óumdeilt að hann uppfylli skilyrði 7. gr. um að fá að hefja endurgreiðslu námslána tveimur árum eftir námslok. Hann hafi greitt skólagjöld í febrúar 2018 og eigi í erfiðleikum með að greiða afborgun námslána sökum þess og að eiginkona hans hafi misst vinnuna.  Kærandi óskar eftir endurskoðun ákvörðunar stjórnar LÍN. Hann telur sig eiga lagalegan rétt á því að hefja endurgreiðslur námslánsins tveimur árum eftir námslok.

Í andmælabréfi sínu ítrekar kærandi að LÍN hafi haft vitneskju um að hann yrði í námi til 14. nóvember 2017. Hann hafi þó þurft að framlengja námið til nóvember 2018. Kærandi sendi meðfylgjandi nokkur staðfestingarbréf frá háskólanum um að hann yrði í námi til nóvember 2017. Hafi hann sent þessi gögn til LÍN á sínum tíma. Um er að ræða bréf frá árunum 2015 og 2016 um að kærandi sé skráður í fullt nám og að áætluð námslok séu 14. nóvember 2017. Kærandi telur að LÍN hafi virt þessi gögn að vettugi við ákvörðun á stöðu hans. Kærandi kveðst ekki átta sig á því hvers vegna LÍN telji að stöðu hans sem nemanda hafi lokið á árinu 2016. Kærandi kveðst ekki víkja sér undan því að greiða námslánin en óski þess að fá að hefja endurgreiðslur tveimur árum eftir námslok eins og reglur kveði á um.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN kemur fram að kærandi hafi fengið námslán hjá sjóðnum vegna doktorsnáms í Englandi sem hann hafi hafið haustið 2013. Hafi kærandi þegið námslán vegna námsins til og með vorönn 2016. Fullt doktorsnám í Englandi taki þrjú ár en hægt sé að ljúka því á fimm árum. Samkvæmt gögnum frá háskólanum hafi kærandi hafi verið skráður í þriggja ára nám. Hann hafi síðar framlengt námið um tvö ár án vitneskju LÍN. 

LÍN hafi tilkynnt kæranda um lokun skuldabréfs í lok nóvember 2017 í samræmi við reglur sjóðsins og upplýst hann um umsóknarfrest vegna þessa. Kærandi hafi ekki sótt um frestun á lokun innan tilskilins frests og hafi skuldabréfi hans því verið lokað og lánið sett í innheimtu. Fram kemur í svörum LÍN að kærandi hafi ekki haft samband fyrr en 7. janúar 2018 þegar hann hafi sent staðfestingu á fyrirhuguðum námslokum. Vísar LÍN í grein 7.1 í úthlutunarreglum þar sem fram komi að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hætti að þiggja lán og að miðað sé við lok síðasta aðstoðartímabils. Reglur um lokun skuldabréfa séu skýrar og auk þess hafi kæranda verið tilkynnt um fyrirhugaða lokun og honum gefinn tími til að sækja um frestun á lokun. Ekkert liggi fyrir um að mistök hafi verið gerð af hálfu starfsmanna LÍN við afgreiðslu málsins né að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um innan frestsins. Hafi beiðni kæranda um undanþágu því verið synjað. Niðurstaða stjórnar LÍN sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um heimild LÍN til að loka skuldabréfi kæranda þrátt fyrir að hann hafi enn verið í námi og hvort að sá frestur sem LÍN hafi veitt kæranda til að leggja fram tilskilin gögn hafi verið ósanngjarn. Þá hefur kærandi einnig vísað til þess að í samskiptum við LÍN í janúar 2018 hafi honum ekki verið veittar upplýsingar um kærurétt.

Námslok

Um námslok, lokun skuldabréfa og málsmeðferð við lokun skuldabréfa er fjallað um í lögum um LÍN og úthlutunarreglum hvers námsárs.

Í 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestist fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir.

Í stöðluðum skilmálum skuldabréfs G-lánsins sem kærandi hefur undirritað segir: „Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Stjórn sjóðsins ákveður hvað teljist námslok í þessu sambandi.“ Þá segir í niðurlagi í meginmáli skuldabréfsins að um skuldabréfið gildi „að öðru leyti“ gildi „ákvæði laga nr. 21/1992 með áorðnum breytingum.“

Í úthlutunarreglum LÍN vegna námsársins 2017-2018 eru ákvæði um lokun skuldabréfs eftirfarandi:

7.1 Gengið frá skuldabréfi.

Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Á það jafnt við um námsmenn sem ljúka námi og námsmenn sem hverfa frá námi án þess að ljúka því. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þegar frágangur hefst á lokun skuldabréfs skulu lántakanda og ef við á ábyrgðarmanni sendar upplýsingar um upphæð skuldabréfsins sem til stendur að loka.

 [...]

Efnislega samhljóða ákvæði hafa verið í reglum LÍN öll þau námsár sem kærandi hefur stundað nám. Í reglunum kemur fram að „skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils“ og að það tímamark teljist „námslok“ í skilningi laga og reglugerðar um LÍN. Þegar námsmaður þiggur lán er fyrsti gjalddagi þess því ekki ákveðinn að öðru leyti en að hann skuli vera tveimur árum eftir námslok, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN og skilmála skuldabréfa LÍN. Getur stjórn LÍN m.a. ákveðið hvað teljist námslok.

Samkvæmt úthlutunarreglum settum á grundvelli laga um LÍN geta „námslok“ m.a. verið þrátt fyrir að námsmaður hafi ekki lokið námi. Ákvörðun LÍN um námslok er stjórnvaldsákvörðun. Með tilkynningu LÍN til námsmanna í aðdraganda slíkrar ákvörðunar er námsmönnum gefinn kostur á að gera athugasemdir og eftir atvikum að óska eftir því að námslokum verði frestað.

Tilkynning LÍN til kæranda 28. nóvember 2017 var send kæranda á tölvupóstfang hans og er ekki deilt um í málinu að hún hafi borist honum réttilega. Í tilkynningunni segir að á árinu 2018 séu liðin tvö ár frá því kærandi hafi fengið námslán síðast afgreitt og beri LÍN því „að miða dagsetningu lokunar við lok skólaársins eða þann 29.06.2016, sbr. grein 7.2 í úthlutunarreglum sjóðsins.“ þá segir að í framhaldi af því muni endurgreiðslur hefjast þann 30. júní 2018. Með bréfinu var kæranda þannig tilkynnt um þá afstöðu LÍN að miða bæri námslok hans við tiltekna dagsetningu, enda eins og áður greinir er dagsetning fyrsta gjalddaga námsláns ekki ákveðin þegar námsmaður þiggur lán. Það kemur fram í tilkynningunni að kærandi hafi frest til að sækja um frestun til 15. desember. Er einnig bent á að skilfrestur gagna vegna umsóknar um frestun sé til og með 15. janúar 2018 vegna náms sem stundað er námsárið 2016-2017 og til 15. mars 2018 vegna náms á haustönn 2017.

Kærandi kveðst hafa verið önnum kafinn í námi sínu og því ekki haft ráðrúm til að afla tilskilinna gagna í tæka tíð. Þá hafi skrifstofa háskólans verið lokuð þegar kærandi hafi hafist handa um að afla gagnanna. Hafi fresturinn í ljósi þessa verið of stuttur.

Ekki verður talið að frestur til 15. desember 2017, sem kærandi hafði til að senda beiðni um frestun á lokun skuldabréfs, alls 17 dagar, hafi verið of stuttur, einkum í ljósi þess að það nægði kæranda að sækja um frest og leggja fram tilskilin gögn síðar, þ.e. 15. janúar 2018 vegna náms á námsárinu 2016-2017 og til 15. mars 2018 vegna náms á haustönn 2017. Þá er ekki tæk sú viðbára kæranda að hann hafi ekki skoðað tölvupóst sinn á þessu tímabili.

Í 7. gr. laga um LÍN segir einnig að stjórn LÍN skilgreini „hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli.“ Þessu ákvæði til fyllingar koma svo áður tilvitnuð ákvæði 10. gr. reglugerðar um LÍN og greinar 7.1 í úthlutunarreglunum sem eru skýr að því leyti að „námslok“ geta verið talin fyrir hendi þó svo að námsmaður sé enn í námi og að almennt séu námslok miðuð við „síðasta aðstoðartímabil.“ Við umsókn um námslán lýsa umsækjendur því yfir að þeir hafi kynnt sér ákvæði úthlutunareglnanna sem þar að auki eru aðgengilegar á ensku á heimasíðu LÍN og hafa verið a.m.k. síðan á árinu 2008. 

Kærandi sótti síðast um námslán hjá LÍN fyrir námsárið 2015-2016. Samkvæmt áður tilvitnuðum úthlutunarreglum LÍN er skuldabréfi [...] lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils.“ Var LÍN því rétt að tilkynna kæranda um námslok og ákvarða þau í lok skólaársins 2015-2016 þegar kærandi sendi ekki inn beiðni um frestun á lokun skuldabréfs fyrir tilskilinn frest. Er því ekki fallist á þau sjónarmið kæranda að hann hafi ekki þurft að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins í janúar 2018 þar sem hann hafi ennþá verið í námi. 

Málsmeðferð LÍN

Þrátt fyrir að ekki verði fallist á þá beiðni kæranda um að miða námslok hans í skilningi 7. gr. laga um LÍN við eiginleg námslok telur málskotsnefnd rétt að víkja að meðferð máls kæranda í kjölfar þess að LÍN synjaði honum um frestun námsloka.

Kærandi hefur í kæru sinni bent á að hann hafi ekki verið nægjanlega upplýstur um rétt sinn til að kæra meðferð málsins. Það var ekki fyrr en kærandi hafði með tölvupósti 3. ágúst 2018 óskað upplýsinga um meðferð ágreiningsmála að LÍN benti honum á möguleika þess að bera málið undir stjórn. Eins og áður er getið telst ákvörðun LÍN um námslok kæranda stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr., 20. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald þegar það tilkynnir aðila máls um ákvörðun sína sem er rökstudd leiðbeina um „kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru.“

Fjallað er um úrlausn ágreiningmála hjá LÍN í 5. gr. laga um LÍN þar sem fram kemur að það sé hlutverk stjórnar LÍN „að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum.“  Þar segir einnig að ákvörðunum stjórnar LÍN megi vísa til málskotsnefndar LÍN. Þegar aðili kærir mál sitt til málskotsnefndar LÍN án þess að hafa áður borið ágreininginn undir stjórn LÍN ber nefndinni því að vísa  kærunni frá og benda viðkomandi á að bera málið fyrst undir stjórn LÍN.

Ákvörðun LÍN um synjun á beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs sem tilkynnt var kæranda þann 12. janúar 2018 var samkvæmt framansögðu ekki kæranleg með beinum hætti til málskotsnefndar LÍN og var kæranda ekki leiðbeint með hvaða hætti hann gæti leitað réttar síns. Sú þrönga túlkun LÍN á hinni sérstöku leiðbeiningaskyldu sem felst í 20. gr. stjórnsýslulaga leiðir til þess að í starfsemi sjóðsins er einungis upplýst um kæruheimild til málskotsnefndar þegar aðila er tilkynnt um ákvörðun stjórnar LÍN sem er kæranleg skv. 5. gr. laga um LÍN en ekki á fyrri stigum þegar teknar eru aðrar stjórnvaldsákvarðanir í starfsemi sjóðsins.

Markmið leiðbeiningaskyldu stjórnvalda er m.a. að gera aðila máls kleift að leita réttar síns og halda málum sínum fram gagnvart stjórnvöldum á sem auðveldastan og virkastan hátt. Þannig kann stjórnvaldi að vera rétt að bregðast við þegar það sér að aðila er ekki kunnugt um atriði sem er mikilvægt til þess að hann gæti hagsmuna sinna. Kjarni þeirrar leiðbeiningarskyldu sem felst í 20. gr. stjórnsýslulaga er einmitt að gera aðila kleift að leita réttar síns. Telja verður að það leiði af bæði hinni sérstöku leiðbeiningarskyldu 20. gr. stjórnsýslulaga og hinni almennu leiðbeiningarskyldu 7. gr. laganna að m.a. þegar stjórnvaldsákvarðanir eru teknar hjá LÍN að það beri að leiðbeina aðilum sérstaklega um hvernig meðferð deilumála hjá LÍN er háttað og með hvaða hætti mál verði síðan borin undir málskotsnefnd til að gera þeim kleift að gæta hagsmuna sinna.

Sambærilegt álitamál kom til kasta umboðsmanns Alþingis í máli nr. 621/1992 og var um frumkvæðismál að ræða. Í málinu taldi umboðsmaður vísbendingar vera fyrir hendi um að innflytjendum væri ekki nægjanlega kunnugt um að bera þyrfti mál undir tollstjóra til sérstaks úrskurðar áður en málið yrði borið undir ríkistollanefnd. Það yrði að telja til vandaðra stjórnsýsluhátta og í samræmi við óskráðar réttarreglur um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda, en fjallað var um málið fyrir gildistöku stjórnsýslulaga, að almenningi væru veittar kæruleiðbeiningar. Í málinu taldi umboðsmaður að skort hefði kæruleiðbeiningar en ekki var fyrir hendi bein kæruleið, heldur þurfti fyrst að bera málið undir tollstjóra.  Með vísan til álitsins telur málskotsnefnd að leiðbeiningaskylda LÍN um meðferð ágreiningsmála sé víðtæk og taki ekki aðeins til leiðbeininga þegar upp kemur ágreiningur og eftir slíkum leiðbeiningum er leitað heldur að LÍN geri almennt grein fyrir slíkum úrræðum þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir við meðferð mála hjá sjóðnum.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða málskotsnefndar að ekki hafi verið gætt að ákvæðum 20. gr., sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga um að leiðbeina kæranda nægjanlega og tímanlega um rétt hans til að bera mál sitt undir stjórn LÍN og síðan eftir atvikum til málskotsnefndar LÍN.

Í samskiptum sínum við LÍN 29. júní og 10. júlí 2018 upplýsir kærandi að hann sé enn í námi og eigi því erfitt með að greiða afborgunina í einu lagi. Fer hann þess á leit að fá að skipta greiðslum (monthly instalments). Kærandi fær ekki svör frá LÍN fyrr en í byrjun ágúst og er honum þá tjáð að ekki sé hægt að verða við beiðni hans um að skipta greiðslum í mánaðargreiðslur og einnig að umsóknarfresturinn sé útrunninn. Af gögnum málsins verður ekki séð að viðbrögð LÍN við málaleitan kæranda hafi verið fullnægjandi eða í samræmi við góða stjórnsýsluhætti eða leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar kærandi fór þess á leit við LÍN í lok júní að fá að skipta greiðslum var ekki runninn út frestur til að sækja um slíkt. Í erindi sínu gerði kærandi jafnframt grein fyrir vandræðum sínum að komast inn á „Mínar síður“ hjá LÍN til að sækja um slíka fyrirgreiðslu. Í þessu sambandi bendir málskotsnefnd á að þrátt fyrir að stjórnvald geti boðið uppá rafræna meðferð stjórnsýslumáls þá verður að telja að sérstaka lagaheimild þurfi til að einskorða afgreiðslu á erindi frá borgurunum við rafræna meðferð, sbr. athugasemdir í frumvarpi við 2. gr. laga nr. 51/2003 um breyting á stjórnsýslulögum. Hefði LÍN því verið rétt að aðstoða kæranda eða leiðbeina honum á annan hátt um hvernig hann gæti greitt út þeim tæknilegu vandamálum sem hann átti í. Svo virðist sem samningar um greiðsludreifingu í banka gildi eingöngu um íslenskar fjármálastofnanir. Ekki hafa komið fram neinar skýringar af hálfu LÍN hvers vegna greiðendum í öðrum löndum er ekki gefinn kostur á að skipta greiðslum sem þeir millifæra sjálfir á reikning LÍN.

Þá eru þau svör LÍN að kæranda hafi ekki verið heimilt að skipta afborgun sinni upp í mánaðarlegar greiðslur beinlínis röng í ljósi þess að samkvæmt reglum LÍN er heimilt að skipta greiðslunni milli tveggja mánaða. Ekki reyndi því á hvort kærandi vildi skipta greiðslum með þessum hætti ef á annað borð tækist að greiða úr þeim tæknilegu örðugleikum sem kærandi átti við að etja.

Í erindi sínu lýsti kærandi því einnig gagnvart LÍN að hann hefði takmarkaðar tekjur þar sem hann væri enn í námi og að eiginkona hans hefði misst vinnuna nýlega. Þrátt fyrir þessar upplýsingar frá kæranda um greiðsluerfiðleika vegna yfirstandandi náms var honum aldrei bent á möguleika þess að athuga með skilyrði undanþágu frá endurgreiðslu skv. 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka er eins og áður greinir ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun stjórnar LÍN úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 22. nóvember 2018 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka