Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2018 - Endurgreiðsla námslána - synjun á beiðni um niðurfellingu dráttarvaxta

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, miðvikudaginn 18. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2018.

Kæruefni

Málskotsnefnd barst þann 16. október 2018 kæra kærenda á þeirri ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. ágúst 2018 um að að synja kröfu kærenda um að fá að greiða ófyrndar og gjaldfallnar afborganir skuldabréfs vegna námsláns lántaka sem þau höfðu gengist í ábyrgð á án greiðslu dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Ennfremur höfðu kærendur óskað eftir því að fá að greiða framvegis af láninu samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Gera kærendur þá kröfu fyrir málskotsnefnd að hún breyti hinni kærðu ákvörðun og gefi kærendum kost á að greiða ófyrndar og þegar gjaldfallnar afborganir skuldabréfsins án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar og að standa framvegis skil á greiðslum skuldabréfsins í samræmi við ákvæði þess.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna sama dag og hún barst og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var samdægurs sent afrit þess bréfs. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. nóvember 2018 og var afrit þess sent kærendum 26. sama mánaðar og þeim jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærendur sendu málskotsnefnd athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 11. desember 2018 sem barst málskotsnefnd 17. desember 2018. Var afrit þess sent stjórn LÍN þann sama dag. Þann 8. apríl 2019 óskaði málskotsnefnd nánari upplýsinga um afstöðu kærenda til málareksturs LÍN á hendur þeim fyrir héraðsdómi vegna ábyrgðarinnar með það fyrir augum að skoða hugsanleg áhrif þess máls á meðferð kærumálsins fyrir málskotsnefnd. Svarbréf kærenda barst 26. sama mánaðar og var framsent stjórn LÍN þann sama dag. Með bréfi til LÍN dagsettu 5. maí 2019 óskaði málskotsnefnd eftir nánar tilgreindum gögnum málsins. LÍN sendi umbeðin gögn til málskotsnefndar 20. maí 2019 og upplýsti jafnframt að sátt hefði tekist með aðilum í dómsmálinu. Gögnin voru send kærendum 29. maí 2019 og bárustu viðbótarathugasemdir kærenda 21. júní 2019. Voru þær framsendar LÍN sem sendi málskotsnefnd tölvupóst með ítrekun á fyrri athugasemdum.

Málavextir

Kærendur eru ábyrgðarmenn á námsláni lántaka hjá LÍN sem hann stofnaði til með skuldabréfi nr. G-00000 þann 19. október 2005, upphaflega að fjárhæð 5.000.000 krónur. Kærandinn A gekkst í ábyrgð þann 19. október 2005. Kærandinn B undirritaði viðbótarábyrgð þann 19. nóvember 2005 vegna væntanlegra námslána lántakans sem LÍN veitti honum þann 18. apríl 2006 að fjárhæð 926.859 krónur. Samkvæmt helstu málavöxtum sem raktir eru í dómi Hæstaréttar nr. 305/2017 í máli LÍN á hendur kærendum og öðrum gögnum málsins hóf lántaki að greiða af láninu á árinu 2008. Fyrstu þrjár afborganir skuldabréfsins 1. mars 2008, 1. september 2008 og 1. mars 2009 voru greiddar en síðan urðu vanskil á afborgun með gjalddaga 1. september 2009. Þann 24. september 2009 var lántaka veitt heimild til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og lýsti LÍN kröfu vegna gjalddagans 1. september 2009 og eftirstöðva skuldabréfsins. Lántaki stóð ekki við nauðasamning og sótti um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga þann 25. janúar 2011. Frumvarp til greiðsluaðlögunar tók ekki til LÍN, sbr. g. lið og i. lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010. Frumvarpið mætti andstöðu lánardrottna og leitaði lántaki eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a. laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 18. gr. laga nr. 101/2010. Var samningurinn staðfestur á grundvelli frumvarpsins með úrskurði héraðsdóms 21. desember 2011, sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaði 18. janúar 2012. Samningurinn tók ekki til kröfu LÍN á hendur kærenda, sbr. b. lið 1. mgr. 63. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

LÍN krafði lántaka um greiðslu fastrar afborgunar af skuldabréfinu með gjalddaga 30. júní 2012 og síðan aukaafborgun með gjalddaga 11. desember 2012. Voru 26.865 krónur greiddar inn á skuldina á síðar nefnda gjalddaganum. Síðan krafði LÍN lántaka um afborganir næstu gjalddaga skuldabréfsins sem voru 1. mars og 1. september 2013 og 1. mars 2014. Vanskil urðu af hálfu lántaka á fyrrgreindum afborgunum. LÍN sendi kærendum árlegt yfirlit um stöðu lánsins 31. janúar 2012, 6. febrúar 2013 og 17. febrúar 2014. Þá sendi LÍN kærendum innheimtuviðvaranir vegna fyrrgreindra gjaldddaga sem voru í vanskilum með bréfum dagsettum 14. ágúst 2012, 3. september 2013, 3. október 2013, 2. desember 2013, 3. febrúar 2014, 5. febrúar 2014, 7. mars 2014, 13. mars 2014 og 20. mars 2014. 

Bú lántaka var tekið gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014 að kröfu hans sjálfs. Varð krafa LÍN um eftirstöðva skuldabréfsins gjaldkræf gagnvart kærendum við það tímamark, sbr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. LÍN gerði kröfu í þrotabú lántaka 2. apríl 2014 og tilkynnti kærendum bréflega þann sama dag um gjaldþrotaskiptin og kom þar jafnframt fram að samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 99. gr. 21/1991 hafi allar kröfur á hendur lántaka fallið í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, þ.á m. námslánsskuld hans. Var kærendum boðið að gera upp kröfuna með skuldabréfi til tíu ára. Skiptalok í þrotabúi lántaka voru þann 9. júní 2014 og mun ekkert hafa greiðst upp í kröfu LÍN.

LÍN höfðaði mál á hendur kærendum á grundvelli ábyrgðarkröfunnar með stefnu dagsettri 5. nóvember 2014. Krafðist LÍN þess að þau yrðu dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 6.446.862 krónur með dráttarvöxtum af nánar greindum fjárhæðum frá 30. júní 2012 til greiðsludags ásamt málskostnaði. Tóku kærendur til varna í málinu en það var fellt niður 12. nóvember 2015 að kröfu LÍN. LÍN höfðaði síðan mál að nýju þann 14. mars 2016 á sama grundvelli. Í kjölfarið höfðaði LÍN einnig mál gagnvart lántaka í því skyni að fá viðurkenningu á sliti á fyrningu kröfu sinnar á hendur honum samkvæmt skuldabréfinu. Var það mál síðar fellt niður fyrir héraðsdómi að kröfu LÍN, sbr. dómsátt þess efnis, dags 29. nóvember 2017 í máli nr. E-1083/2016. Kom fram í sáttinni að málið væri fellt niður í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í tveimur samkynja málum 2. nóvember 2017. Í umræddum dómum féllst Hæstiréttur ekki á að LÍN uppfyllti skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti um að fá slitið fyrningu krafna sinna gagnvart lántökum í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi þeirra. 

Eftir að LÍN höfðaði málið gegn kærendum upplýsti LÍN lántaka og kærendur um möguleika lántaka á að rjúfa fyrningu gagnvart sér með greiðslu skuldarinnar. Í tölvupósti lögmanns LÍN til lögmanns lántaka og kærenda þann 15. mars 2016 segir að LÍN hafi þá almennu stefnu að heimila öllum að koma lánum sínum í skil og greiða áfram eftir upphaflegum kjörum. Við gjaldþrot verði breyting á vegna óvissu um gildissvið fyrningarreglna. Væri fyrning rofin með fullnægjandi hætti væri hægt að leggja þessa stefnu LÍN til grundvallar gagnvart þeim sem hafi farið í gegnum gjaldþrotaskipti. Í bréfinu var tilboð um að fara yfir málið með aðilum en að öðrum kosti yrði flutningi þess haldið áfram fyrir héraðsdómi. Kærendur nýttu sér ekki þetta úrræði og var rekstri málsins haldið áfram.

Kærendur voru dæmd til greiðslu kröfunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2017 í máli E-964/2016. Höfðu kærendur m.a. vísað til þess í málinu að LÍN hefði gjaldfellt lánið án þess að gefa þeim kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Með því hefði LÍN sýnt af sér tómlæti og að auki komið í veg fyrir að þau ættu þess kost að bregðast við með að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins eins og þær hafi staðið á gjalddaga. Um þetta sagði í dómi héraðsdóms:

„Þá liggur ennfremur fyrir samkvæmt því sem rakið hefur verið að stefndu var sannanlega boðið með bréfum, 2. apríl 2014, að taka yfir skuldbindingar aðalskuldara gagnvart stefnanda með skuldabréfi til tíu ára, sbr.  4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Er því þar með einnig hafnað að stefnandi hafi gerst sekur um tómlæti í þessum efnum líkt og stefndu halda fram.“

Eftir dóm héraðsdóms höfðu aðilar aftur samskipti sín á milli um mögulegar málalyktir með sátt. Sagði í tölvupósti lögmanns kærenda til umbjóðenda sinna 5. og 6. apríl 2017 að hann hefði fengið þær munnlegu upplýsingar frá lögmanni LÍN að kærendum stæði enn til boða að koma láninu í skil. LÍN myndi veita afslátt af vöxtum en að greiða þyrfti upp vanskil sem mætti gera með skuldabréfi til 10 ára á seðlabankavöxtum með 1% vöxtum að auki. Eftir það yrði að greiða af námsláninu með hefðbundnum hætti. Skilyrði væri að lántaki viðurkenndi skuldbindingu sína. Ekki varð samkomulag milli aðila.

Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 305/2017 frá 27. mars 2018 var tekin afstaða til þess hvort meðferð LÍN í máli kærenda hefði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Sagði Hæstiréttur m.a. að með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms yrði að hafna málsástæðu kærenda um að LÍN hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í dóminum kom síðan fram að hluti kröfunnar, þ.e. sá hluti kröfu sem hefði átt að koma til greiðslu á gjalddögum 1. september 2009, 1. mars 2010 og 1. september 2010 hefði fallið niður fyrir fyrningu og kröfufjárhæð þ.a.l. ekki skýr af hálfu LÍN. Var málinu því vísað frá Héraðsdómi.

Í kjölfar frávísunar málsins frá Hæstarétti sendu sendu kærendur bréf til LÍN þar sem þau fóru fram á að fá að greiða af láninu í samræmi við upphaflega skilmála þess og greiða af því áfram eins og námsláni og að lántaki kæmi aftur inn sem aðalskuldari en kærendur sem ábyrgðarmenn. Vísuðu kærendur til þess að skylda LÍN gagnvart þeim hafi ekki orðið virk fyrr en eftir að dómur Hæstaréttar hafi fallið og þá fyrst hafi þau getað tekið afstöðu til þess hvort þau vildu láta gjaldfella lánið eða taka við því. Ekki hafi verið hægt að ætlast til þess að kærendur tækju við námsláni og byrji að greiða af því á þeim tíma sem þeir hafi litið svo á að þeim bæri ekki skylda til þess. Með hinni kærðu ákvörðun þann 27. ágúst 2018 synjaði stjórn LÍN beiðni kærenda.

LÍN stefndi kærendum á ný til greiðslu ábyrgðarskuldbindingarinnar með stefnu sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. september 2018. Í kjölfar þessa sendu kærendur kæru sína til málskotsnefndar LÍN.

LÍN og kærendur gerðu með sér réttarsátt um lyktir dómsmálsins þann 16. maí 2019. Var lántaki einnig aðili að sáttinni og tókst hann á hendur greiðsluskyldu á skuldabréfi sem var útgefið til 15 ára að fjárhæð 8.688.960 krónur. Kærendur tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðsluloforði lántaka í hlutföllunum 84,74% og 15,26% hvort um sig. Um var að ræða markaðskjarabréf, þ.e. vextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, að viðbættu 1% vaxtaálagi. Fram kom í úrskurði héraðsdóms um málskostnað að LÍN hafi gefið eftir 50% af dráttarvöxtum.

Sjónarmið kærenda  

Í kærunni segir að um réttarsamband kærenda og LÍN eftir gildistöku laga nr. 32/2009 fari eftir ákvæðum þeirra laga. Vísað er til þeirrar skyldu LÍN að senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna um tiltekin atriði svo fljótt sem kostur er. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningaskylu og sé slík vanræksla veruleg skuli ábyrgð falla niður. Samkvæmt 3. mgr. verði ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslur af dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem falli til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því ábyrgðarmanni hafi sannanlega verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Þá sé tekið fram í 4. mgr. 7. gr. að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðamanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Séu þessi ákvæði reist á því að sjónarmiði að eðlilegt sé að ábyrgðarmanni sé veittur kostur á að bæta úr vanefndum aðalskuldara áður en hann verði sjálfur beittur vanefndaúrræðum vegna þeirra.

Vísa kærendur til þess að LÍN hafi ekki gefið þeim kost á að greiða gjaldfallnar afborganir skuldabréfsins í samræmi við ákvæði þess án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar og án þess að höfuðstóll þess væri gjaldfelldur gagnvart þeim í heild sinni. Telja kærendur að innheimtuaðgerðir LÍN gagnvart þeim hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 32/2009.

Kærendur vísa til tölvupóstsamskipta við LÍN þar sem fram komi að í kjölfar dóms Hæstaréttar hafi þau farið þess á leit að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins og standa framvegis skil af því. Hafi beiðni þessi verið í samræmi við það sem LÍN hafi boðið kærendum í kjölfar dóms héraðsdóms í máli LÍN gegn þeim. Eins og málið horfi við kærendum virðist sem LÍN hafi ákveðið að hegna þeim fyrir það að leita réttar síns með málskoti til Hæstaréttar. Að mati kærenda getur það ekki talist málefnalegur grundvöllur synjunar á beiðni kærenda að þeir hafi ákveðið að bíða niðurstöðu Hæstaréttar áður en þeir tækju afstöðu til þess boðs LÍN að greiða gjaldfallnar afborganir. Benda kærendur á í þessu sambandi að Hæstiréttur hafi vísað málinu frá héraðsdómi þar sem umstefndar kröfur hafi að hluta til verið fyrndar og kröfugerð LÍN ekki nægjanlega skýr til að unnt væri að fella dóm á grundvelli hennar. Hafi þannig verið fullt tilefni til málskotsins.

Kærendur ítreka að í stað þess að samþykkja nú eðlilega beiðni kærenda um að fá að greiða gjaldfallnar afborganir og taka við greiðslu lánsins hafi LÍN gert ítrustu kröfur og krafið kærendur um háar fjárhæðir vegna vaxta og innheimtukostnaðar. Að mati kærenda geti þessi afstaða sjóðsins ekki samrýmst þeirri skyldu hans samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að gæta jafnvægis milli almannahagsmuna og þeirrar einkahagsmuna borgaranna sem í hlut eigi hverju sinni. Krefjast kærendur þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt og kærendum verði veittur kostur á að greiða ófyrndar og þegar gjaldfallnar afborganir skuldabréfsins án dráttarvaxta og innheimtukostnðaðar og að standa framvegis skil á greiðslum skuldabréfsins í samræmi við ákvæði þess.

Í viðbótarathugasemdum kærenda í tilefni af beiðni málskotsnefndar um upplýsingar vegna málshöfðunar LÍN á hendur kærendum vísa kærendur til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9345/2017. Telja kærendur að af álitinu verði ályktað að almennt séu ekki til staðar heimilir kærustjórnvalda til að fresta eða vísa frá kærumálum í tilvikum þar sem mál hefur verið borið undir dómstóla að frumkvæði lægra stjórnvalds. Þar sem löggjafinn hafi ekki farið þá leið að veita lægra settu stjórnvaldi sérstaklega heimild til að skjóta máli til dómstóla með þessum réttaráhrifum verði því almennt að ganga út frá því að málskot lægra setts stjórnvalds til dómstóla hafi ekki slík réttaráhrif í för með sér. Engin heimild sé í lögum nr. 21/1992 um LÍN og verði því að ganga út frá því að málskot af hálfu lánasjóðsins til dómstóla breyti engu um kærurétt til málskotsnefndar og úrskurðarskyldu hennar.

Þá verði einnig að hafa í huga að eðlismunur sé á sakarefni þess dómsmáls sem sé rekið af hálfu LÍN á hendur kærendum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og þess kærumáls sem til meðferðar er fyrir málskotsnefndinni. Hvað sem líði heimild LÍN til að afla sér aðfaraheimildar með dómi vegna skyldna sem sjóðurinn hefur lagt á borgarana með stjórnvaldsákvörðunum sínum sé ljóst að sjóðurinn hafi enga heimild að lögum til að leita úrlausnar dómstóla um efni slíkra skyldna, enda hafi löggjafinn falið LÍN sem stjórnvaldi að ákveða það á fyrsta stjórnsýslustigi og málskotsnefndinni á kærustigi.

Benda kærendur á að sakarefni dómsmálsins sé ekki hin kærða ákvörðun heldur greiðsluskylda kærenda á grundvelli hennar. Réttaráhrif dóms um þessa skyldu lúti ekki að efni eða gildi hinnar kærðu ákvörðunar heldur einungis að þessari greiðsluskyldu. Hin kærða ákvörðun muni því standa óhögguð óháð niðurstöðu dómsmálsins. Að sama skapi muni efnisdómur um tilvist greiðsluskyldu kærenda engu breyta um sakarefni kærumálsins enda geti aðfarahæfur dómur um skyldu samkvæmt stjórnvaldsákvörðun ekki bætt úr annmörkum á ákvörðuninni sjálfri ef þeir eru til staðar. Sú staða sem sé uppi í máli þessu sýni augljóslega þá annmarka sem fylgi því að lægra sett stjórnvald leiti atbeina dómstóla til að framfylgja ákvörðunum sem séu kæranlegar til æðra stjórnvalds áður en kærufrestur er liðinn eða æðra stjórnvald hefur fellt endanlegan úrskurð sinn í málinu. Vekja kærendur athygli á í þessu sambandi að einu lögfestu heimildir LÍN til að leita atbeina dómstóla lúti að því að bera endanlega úrskurði málskotsnefndarinnar undir dómstóla. Séu þessar heimildir í samræmi við stigskiptingu stjórnsýslunnar á þessu sviði. Heimildir til að bera mál undir dómstóla áður en þau hafi verið til lykta leidd fyrir nefndinni samrýmist þessari stigskiptingu illa eins og atvik í þessu máli séu til marks um. Ljóst sé að hið lægra setta stjórnvald en ekki borgarinn verði að bera hallann af slíkum árekstrum.

Kærendur áréttuðu að lokum að ólíkt því sem sem við eigi um málskotsnefndina séu fyrir hendi lögfestar heimildir dómstóla til að fresta málum eða vísa þeim frá vegna annarra mála sem séu til meðferðar á sama tíma, sbr. 3. mgr. 102. gr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr 91/1991 um meðferð einkamála. Dómurinn hafi því úrræði til að bregðast við telji hann tilefni til þess. Telja kærendur með vísan til framangreindra röksemda að engar forsendur séu til að fresta afgreiðslu málsins eða vísa því frá vegna meðferðar áðurgreinds dómsmáls.

Í athugasemdum sem kærendur sendu nefndinni þann 21. júní 2019, þ.e. eftir að kærendur og LÍN höfðu gert með sér réttarsátt, kom fram að kærendur hefðu þurft að taka til varna vegna málshöfðana LÍN í alls fimm dómsmálum og hefði ekkert þeirra endað með efnislegri niðurstöðu. Hafi greiðsluskylda kærenda ekki orðið ljós fyrr en með dómi Hæstaréttar í máli aðila þann 27. mars 2018 (Hrd. 305/2017). Jafnvel þó málinu hafi verið vísað frá hafi kærendur lesið úr rökstuðningi dómsins að þeim væri skylt að greiða. Þó hafi verið áfram ýmis álitaefni um greiðsluskyldu kærenda sem eðlilegt væri að skorið yrði úr. Sama dag og dómurinn hafi fallið hafi kærendur boðist til þess að ganga inn í lánið og greiða af skuldabréfinu framvegis í samræmi við skilmála þess í samræmi við ákvæði laga um ábyrgðarmenn.

LÍN hafi nú fellt niður mál sitt gegn aðalskuldara þar sem krafan sé fyrnd en haldi málinu áfram gegn kærendum. Það að krafan gegn aðalskuldara sé fallin niður virðist vera helsta ástæða þess að LÍN hafni því að kærendur fái að ganga inn í lánið samkvæmt upphaflegu skuldabréfi. Að mati kærenda eigi þessi afstaða ekki við nein rök að styðjast. Enginn kröfuhafi hafi heimild til þess að breyta skilmálum gagnvart ábyrgðarmönnum með íþyngjandi hætti ef krafan á aðalskuldara fellur niður. Ekki sé gerð nein undantekning í lögum um ábyrgðarmenn. Þá standist slíkt ekki meginreglur kröfuréttar að réttur ábyrgðarmanna verði verri við það að krafa falli niður gagnvart aðalskuldara. Sérstaklega ekki í tilviki kærenda þar sem mistök LÍN hafi leitt til þess að krafan hafi fallið niður. Kærendur hafa einnig vísað sérstaklega til þess að þeim hafi fyrst verið tilkynnt um skuldina á árinu 2014 en þá hafi LÍN verið búið að gjaldfella skuldabréfið í stað þess að bjóða þeim að taka við afborgunum námslánsins.

Kærendur taka fram í athugasemdum sínum að þeir telji sig hafa verið nauðbeygða til að fallast á dómsátt í málinu. Það breyti því þó ekki að málskotsnefnd beri enn að leysa úr kærumálinu og þeim ákvörðunum sem LÍN hafi tekið og kæruefnið lúti að. Geti LÍN ekki haft málskotsrétt til nefndarinnar af kærendum með þeirri háttsemi að höfða mál og keyra það áfram áður en niðurstaða nefndainnar fáist.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að eftir gjaldþrot skuldara hafi kærendum verið boðið að semja um greiðslu skuldarinnar. Ekki hafi náðst samningar og hafi kærendum verið stefnt. Málið hafi endað fyrir Hæstaréttar þar sem krafa LÍN hafi verið viðurkennd en þar sem tilteknir gjalddagar hefðu verið fyrndir hafi skort á skýrleika kröfufjárhæðar og málinu vísað frá héraðsdómi. Eftir endurútreikning hafi ný staða skuldarinnar verið kynnt fyrir kærendum og þeim boðið að greiða skuldina með skuldabréfi til 15 ára. Hafi kærendur hafnað því en jafnframt krafist þess að fá að taka við greiðslum af skuldabréfinu með sömu kjörum og lántaki en því hafi stjórn LÍN hafnað.

Krafa LÍN á hendur skuldara hafi orðið gjaldkræf án aðkomu sjóðsins við úrskurð héraðsdóms 21. mars 2014 um að bú lántaka yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Samtímis hafi fallið í gjalddaga krafa á hendur kærendum sem ábyrgðarmönnum.

Fram kemur af hálfu LÍN að auk ofangreindra röksemda þá hafi LÍN ekki lagaheimild til að verða við kröfu kærenda um að fá að greiða af skuldabréfinu með sömu kjörum og aðalskuldari átti kost á sem námsmaður. Þykir LÍN einnig rétt að taka fram að réttur ábyrgðarmanns til að koma láni í skil hljóti alltaf að vera bundinn þeirri forsendu að skuldbinding lántaka sé enn til staðar. Svo sé ekki í þessu máli. Kærendur hafi hafnað að semja við sjóðinn um greiðslur ábyrgðarskuldbindinga sinna með útgáfu skuldabréfs þrátt fyrir að enginn vafi leiki á um gildi ábyrgðarinnar og réttmæti kröfu sjóðsins gagnvart þeim. Þeim hafi verið stefnt til greiðslu með stefnu þingfestri 4. september 2018. Álitaefni það sem borið hafi verið undir málskotsnefnd sé því jafnframt til umfjöllunar hjá dómstólum.

Niðurstaða stjórnar í máli kærenda sé í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Bendir stjórn LÍN m.a. á úrskurð í máli L-6/2016. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar.

Í bréfi stjórnar LÍN þann 20. maí 2019 upplýsti stjórnin að kærendur og LÍN hefðu gert með sér réttarsátt um lyktir dómsmálsins. Í meðfylgjandi bréfi lögmanns LÍN til sjóðsins vegna sáttarinnar, dagsettu 23. maí 2019, segir að lántaka hafi ítrekað verið boðið að rjúfa fyrningu kröfunnar þannig að hann eða ábyrgðarmenn hans gætu komið láninu í skil áður en að fyrningu kröfunnar kom og greitt afborganir á námslánakjörum. Hafi hann jafnoft hafnað því. Það eitt og sér hafi þó ekki ráðið þeirri ákvörðun sjóðsins að synja honum um endurvakningu námslánaskuldbindingar sinnar, heldur hitt að líta yrði á slíka ákvörðun sem nýja lánveitingu, sem sjóðinn skorti lagaheimild fyrir. Í eftirfarandi réttarsátt hafi verið litið til sérstakra aðstæðna kærenda, upplýsinga um greiðslugetu lántaka og dómafordæma Hæstaréttar sem hafi skýrt lagalegan ágreining aðila, einkum mál nr. 511/2017 og nr. 305/2017, sem ýmist hafi verið sjóðnum eða lánþega í hag.

Niðurstaða

Eftir að mál þetta var kært til málskotsnefndar höfðaði LÍN dómsmál á hendur kærendum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krafðist sjóðurinn greiðslu á 6.074.005 krónum úr hendi kærandans A og 926.859 krónum úr hendi kærandans B með áföllnum dráttarvöxtum og málskostnaði. Fram kom í stefnu að krafan væri tilkomin vegna sjálfskuldarábyrgðar kærenda á námslánum lántaka samkvæmt skuldabréfi G-00000. Í greinargerð kærenda í dómsmálinu segir að ágreiningur aðila lúti ekki að tilvist ábyrgðarskuldbindingarinnar heldur að uppgjöri aðila á grundvelli hennar. Þau byggja á því að ekki hafi verið skilyrði til að krefjast dráttarvaxta af afborgunum sem fallið hafi í gjalddaga 30. júní 2012, 1. mars 2013, 1. september 2013 og 1. mars 2014 eða að gjaldfella eftirstöðvar höfuðstóls skuldabréfsins 21. mars 2014 og krefjast dráttarvaxta frá 2. maí 2014. Byggja stefndu m.a. á því að gjaldfelling námsláns sé stjórnvaldsákvörðun og að LÍN hafi ekki gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í aðdraganda þess að lánið hafi verið gjaldfellt. Hafi ákvörðun LÍN um gjaldfellingu hvorki verið lögmæt né bindandi gagnvart stefnendum. Þá hafi ekki verið gætt að ákvæðum laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.

Sátt tókst með LÍN og kærendum fyrir héraðsdómi þann 16. maí 2019. Var lántaki einnig aðili að sáttinni og tókst hann á hendur greiðsluskyldu á skuldabréfi sem hefur verið útgefið til 15 ára að fjárhæð 8.688.960 krónur. Kærendur tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðsluloforði skuldara í hlutföllunum 84,74% og 15,26% hvor um sig. Fram kom að LÍN hefði gefið eftir 50% af dráttarvöxtum.

Kærendur hafa lýst því yfir gagnvart málskotsnefnd að þau telja að þrátt fyrir sáttina beri málskotsnefnd að leysa úr kærumálinu og þeim ákvörðunum sem LÍN hafi tekið og kæruefnið lúti að. LÍN geti ekki haft málskotssrétt af kærendum með þeirri háttsemi að höfða mál og keyra það áfram áður en niðurstaða málskotsnefndar hafi fengist.

Um gerð réttarsátta er mælt fyrir um í XV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er réttarsátt bindandi samningur milli aðila. Það leiðir af ákvæðum eml. að þau bindandi áhrif sem dómsúrlausnir hafa taka ekki til réttarsátta, sbr. 1. mgr. 110. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. eml. Réttarsátt er bindandi fyrir aðila samkvæmt reglum samningaréttarins. Ráða verður af efni sáttar og túlkun hverju sinni að hve miklu leyti hún bindur aðila.

Kæruefni eins og því er lýst í kæru lýtur að því hvort LÍN hafi staðið réttilega að gjaldfellingu námslánsins gagnvart kærendum og lántaka, þ.e. hvort brotin hafi verið ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eða ákvæði stjórnsýslulaga, m.a. með þeim afleiðingum að LÍN hafi nú krafið kærendur um dráttarvexti sem þau telja sig ekki eiga að greiða. Jafnframt hvort LÍN hafi verið rétt að synja kærendum um að fá að koma láninu í skil og greiða af því afborganir í samræmi við upphaflega skilmála.

Með réttarsátt þeirri sem kærendur og LÍN gerðu með sér þann 16. maí sl. var komið á nýju samningssambandi með útgáfu og undirritun kærenda sem ábyrgðarmanna á nýtt skuldabréf með gjaldfellingarákvæðum sambærilegum þeim sem voru í upphaflegu skuldabréfi sem gefið var út vegna námslánsins. Með sáttinni féllst LÍN einnig á að fella niður hluta af þeim dráttarvöxtum sem kærendur töldu sig ekki eiga að greiða. Ekki eru í sáttinni gerðir neinir fyrirvarar vegna kæru kærenda til málskotsnefndar.

Að mati málskotsnefndar var með réttarsáttinni samið um afdrif kröfu LÍN á hendur kærendum og um nýja greiðsluskilmála. Er þeim lögskiptum lokið sem urðu tilefni til kærunnar til málskotsnefndar sökum þess að kærendur sjálf og lántaki hafa fallist á nýja skilmála og samið um skilmála þess uppgjörs sem áður var tilefni deilu milli þeirra og LÍN. Komin er ný staða í málinu. Málskotsnefnd bendir á að það álitamál hvort að kærendur geti þrátt fyrir réttarsáttina gert kröfu á að LÍN endurveki námslán lántaka hefur ekki verið borið undir stjórn LÍN og getur málskotsnefnd því ekki tekið afstöðu til þess, sbr. ákvæði 5. gr. a. laga um LÍN. Þá bendir málskotsnefnd á að í lögum um meðferð einkamála eru sérákvæði um ógildingu á réttarsáttum, sbr. 110. gr. laganna, sem telja verður að gildi um þá sátt sem kærendur hafa gert.

Með vísan til framanritaðs og fyrirliggjandi réttarsáttar liggur fyrir að það réttarástand sem kært er vegna er ekki lengur til staðar. Þegar svo háttar verður stjórnvald að leggja mat á hvort aðili hafi eigi að síður lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Hafa kærendur vísað til þess að LÍN geti ekki haft af þeim málskotsrétt til málskotsnefndar LÍN með því að höfða mál og keyra málið áfram áður en niðurstaða nefndarinnar fáist. Kærendur hafa í athugasemdum sínum fallist á að greiðsluskylda þeirra sé til staðar og hafa um það vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 305/2017. Af athugasemdum kærenda má ráða að þeir telji óútkljáð hvort sú afstaða LÍN að heimila þeim ekki að ganga inn í lánið á upphaflegum skilmálum standist lög.

Málskotsnefnd telur ekki útilokað að kærendur kunni enn að hafa hagsmuni af því að fá úrlausn um ofangreint atriði, m.a. með vísan til þess möguleika að fá réttarsáttina ógilta. Þá hefði aðilum verið í lófa lagið að víkja að því í réttarsáttinni að með henni væri lokið að fullu þeim ágreiningi sem enn liggur fyrir málskotsnefnd.

Eins og kærendur hafa sjálf viðurkennt var greiðsluskylda þeirra á grundvelli skuldabréfsins ótvíræð, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 305/2017. Að mati málskotsnefndar voru forsendur dómsins bindandi þrátt fyrir að málinu hafi verið vísað frá sökum þess að kröfufjárhæð var ekki ljós. Byggt er á því í dóminum að kærendum hafi verið tilkynnt um vanskil lántaka á árunum 2012-2016 og liggja frammi í málinu afrit af umræddum tilkynningum LÍN til kærenda um vanskil lántaka. Þá hafnaði Hæstiréttur með vísan til forsendna héraðsdóms að LÍN hafi gerst brotlegt við ákvæði 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í forsendum héraðsdóms segir að kærendum hafi sannanlega verið boðið 2. apríl 2014 að taka yfir skuldbindingar aðalskuldara með skuldabréfi til 10 ára.

Eins og áður er komið fram voru kærendur einnig upplýst um það síðar, þ.e. með tölvupósti lögmanns LÍN 15. mars 2016 til lögmanns kærenda og lántaka, að LÍN hefði þá almennu stefnu að heimila öllum að koma lánum sínum í skil og greiða áfram á upphaflegum kjörum. Kom fram að við gjaldþrot yrði breyting vegna óvissu um gildissvið fyrningarreglna. Ef fyrning væri rofin með fullnægjandi hætti væri hægt að leggja til grundvallar almenna stefnu LÍN gagnvart þeim sem gengið hefðu í gegnum gjaldþrotaskipti. Þessar upplýsingar voru ítrekaðar gagnvart lögmanni kærenda í byrjun apríl 2017. Kærendur og lántaki nýttu sér ekki þetta boð og eftir það féll krafa LÍN gagnvart lántaka niður sökum fyrningar. Þegar kærendur leituðu eftir því við LÍN að fá að nýta sér þennan möguleika var þeirri málaleitan hafnað þar sem krafa LÍN á hendur lántaka væri fallin niður sökum fyrningar. Byggði afstaða LÍN á því að líta yrði á slíka ráðstöfun sem nýja lánveitingu sem sjóðinn skorti lagaheimild fyrir.

Þegar bú lántaka hjá LÍN eru tekin til gjaldþrotaskipta leiðir af 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti að eftirstöðvar námslána þeirra falla í gjalddaga án atbeina LÍN. Þegar svo stendur á hefur LÍN boðið ábyrgðarmönnum að gera upp hið gjaldfallna lán með skuldabréfi á markaðskjörum. Hafa dómstólar, sbr. Hrd. 229/2015 sem og dóm héraðsdóms í máli kærenda, fallist á að slíkt boð feli í sér fullnægjandi uppfyllingu á lagaskyldu af hálfu LÍN sem lánveitanda samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Þá hefur LÍN einnig boðið lántaka að rjúfa fyrningu á hendur sér með því að viðurkenna skuldbindingu sína. Sá munur er á þessum leiðum að í síðara tilvikinu er viðhaldið hinu upphaflega námsláni á þeim félagslegu kjörum sem lögum samkvæmt er einungis heimilt að bjóða námsmönnum að uppfylltum tilteknum skilmálum.

Eins og áður er komið fram og kærendur voru upplýst um felur hið síðara úrræði í sér að lántaki rjúfi fyrningu á hendur sér en slíkt þarf að gerast áður en krafan fellur niður. Lántaki féllst ekki á að rjúfa fyrningu á hendur sér áður en krafa LÍN á hendur honum fyrntist. Kærendur hafa vísað til þess að þar sem krafa LÍN á hendur þeim hafi ekki verið fyrnd eigi þeim að standa til boða umrætt úrræði að viðhalda námsláninu á upphaflegum kjörum.

Að mati málskotsnefndar er sú afstaða LÍN að hafna því að veita nýtt lán á félagslegum skilmálum til kærenda í samræmi við lög enda sjóðnum óheimilt að veita slík lán nema til námsmanna og þá á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í lögum um LÍN. Þá er sú afstaða LÍN að binda umrætt vanefndaúrræði við það tímamark er krafa gagnvart lántaka fellur niður að mati nefndarinnar bæði málefnaleg og í samræmi við meðalhóf. Námslán eru á niðurgreiddum kjörum og eru félagsleg réttindi sem lögum samkvæmt standa einungis námsmönnum til boða. Þá eru afborgunarkjör þannig að atbeina upphaflegs lántaka er þörf vegna þeirra persónulegu upplýsinga um tekjur lántaka sem LÍN er nauðsynlegt að afla við útreikning á afborgunum. Sökum þessara sérstöku félagslegu skilmála verða slík lán ekki veitt öðrum en námsmönnum. Þá voru kærendur ítrekað upplýst um þetta úrræði meðan það stóð til boða og að það væri bundið við að lántaki myndi rjúfa fyrningu á hendur sér en kusu að nýta sér það ekki. Er kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar stjórnar LÍN um þennan þátt kæru þeirra því hafnað.

Með vísan til framaritaðs telur málskotsnefnd að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 305/2017 hafi verið fjallað með bindandi hætti um hvort LÍN hafi staðið réttilega að tilkynningum til kærenda á grundvelli laga um ábyrgðarmenn. Þá var einnig byggt á því í forsendum dómsins að gjaldfelling lánsins hafi verið í samræmi við lög. Er kærunni því vísað frá að því leyti. Ekki er fallist á að ákvörðun stjórnar LÍN um að synja kærendum um að fá að greiða af upphaflegu skuldabréfi í samræmi við skilmála þess sé ólögmæt. Er ákvörðun stjórnar LÍN um þennan þátt kærunnar því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ.

Ákvörðun stjórnar LÍN um að synja kærendum um að fá að greiða af námsláni lántaka samkvæmt upphaflegum skilmálum er staðfest. Öðrum liðum kærunnar er vísað frá.

Til baka