Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-10/2019 - Ábyrgðir - beiðni um niðurfellingu málskostnaðar - málinu vísað frá

Úrskurður um frávísun máls.

Mál L-10/2019.

Ár 2019, miðvikudaginn 18. september er tekið fyrir mál nr. L-10/2019.

Kærandi sendi kæru til málskotsnefndar LÍN þann 2. september 2019 vegna málskostnaðar sem hann innti af hendi í máli sem hófst með kæru kæranda til málskotsnefndar og eftirfarandi málssókn LÍN á hendur honum fyrir héraðsdómi til ógildingar á ákvörðun málskotsnefndar LÍN í máli nr. L-15/2016.

Kærandi var upplýstur af hálfu málskotsnefndar að valdsvið nefndarinnar væri bundið við að úrskurða um gildi úrskurða eða ákvarðana stjórnar LÍN, sbr. 2. mgr. 5. gr. a laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992. Í andsvari kæranda sagði að málsnúmerið væri enn til staðar enda væri stjórn LÍN búin að margfjalla um málið á fyrri stigum.

Málsatvik

Kærandi var ábyrgðarmaður að námsláni hjá LÍN. Lántaki varð gjaldþrota og innti kærandi af hendi 919.240 krónur til LÍN vegna ábyrgðarskuldbindingarinnar. Kærandi bar lögmæti ábyrgðarinnar undir stjórn LÍN sem synjaði málaleitan hans. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar LÍN sem felldi ákvörðun stjórnar LÍN úr gildi. LÍN stefndi kæranda fyrir héraðsdóm vegna málsins og féllst héraðsdómur á að ógilda bæri úrskurð málskotsnefndar í máli kæranda. Að virtum atvikum málsins var málskostnaður felldur niður.

Kærandi áfrýjaði málinu til Landsréttar. Meðan á málið var til meðferðar fyrir Landsrétti lést lántaki. Kærandi lýsti kröfu í dánarbú hans vegna ábyrgðarskuldbindingarinnar og var krafa hans samþykkt á skiptafundi 28. júlí 2019. Landsréttur taldi að með þessu hefði kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um málið og vísaði því frá án kröfu. Landsréttur felldi auk þess niður málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Kærandi kærði frávísunina til Hæstaréttar sem staðfesti hinn kærða dóm með vísan til forsendna hans. Var kæranda gert að greiða 350.000 krónur í kærumálskostnað, sbr. dóm Hæstaréttar í máli hans.

Í kæru fer kærandi þess á leit við málskotsnefnd að nefndin taki afstöðu til þessarar niðurstöðu Hæstaréttar. Þá óskar kærandi þess að nefndin athugi hvort hægt sé að koma til móts við hann með greiðslu þess kostnaðar sem málið hefur valdið honum. Fram kemur af hálfu kæranda að auk þessa málskostnaðar sem Hæstiréttur dæmdi hann til að greiða sitji hann uppi með ýmsan beinan og óbeinan kostnað sem hann hafi haft vegna málsins sem sé vel á aðra milljón króna. Hafi málskotsnefnd gert mistök í úrskurði sínum sé það kærandi sem gjaldi fyrir það. Telur kærandi sig hafa haft umtalsverðan skaða vegna þeirrar málsmeðferðar sem hafi verið í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar og leiti hann því á ný til nefndarinnar.

Niðurstaða

Um málskotsnefnd er fjallað í 5. gr. a laga um LÍN þar sem segir í 2. mgr. um valdsvið nefndarinnar að nefndin skeri „úr um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.“ Geti nefndin „staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins.“

Með því að sjálfstæðri stjórnsýslunefnd er falið úrskurðarvald um gildi ákvarðana lægra setts stjórnvalds er vikið frá þeirri meginreglu stjórnskipunar að ráðherra fari með slíkt vald. Slíkar undantekningar ber því að skýra þröngt. Með vísan til þessa verður að telja valdsvið nefndarinnar sé bundið við þau verkefni sem lýst er í ofangreindu ákvæði 5. gr. a laga um LÍN. Getur því nefndin ekki tekið til úrskurðar álitamál sem ekki hafa áður verið borin undir stjórn LÍN.

Kærandi hefur vísað til þess að málsnúmerið sé enn til staðar og að stjórn LÍN hafi margfjallað um mál hans á fyrri stigum. Vegna þessa er tekið fram að stjórn LÍN hefur áður fjallað um ágreining vegna ábyrgðarskuldbindingar kæranda á námsláni lántaka sem fjallað hefur verið um í héraðsdómi og Landsrétti. Í umræddum dómsmálum var einnig skorið úr um málskostnað á hverju dómstigi um sig á þann veg að málskostnaður félli niður en í því felst að hvor aðili um sig beri sinn kostnað. Að auki greiddi kærandi kærumálskostnað í Hæstarétti samkvæmt dómsorði.

Erindi kæranda fjallar um málskostnað sem fellur til eftir úrskurð málskotsnefndar og er um að ræða álitamál sem stjórn LÍN hefur ekki áður fjallað um, enda eins og áður greinir er á hverju stjórnsýslu- eða dómstigi um sig að skorið úr um kostnað. Málskostnaðarákvarðanir umræddra dóma eru bindandi samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sökum verkaskiptingar milli stjórnvalda og dómsvalds er málskotsnefnd ekki bær til að fjalla um né taka afstöðu til niðurstöðu Hæstaréttar í máli kæranda.

Auk ofanritaðs er nefndinni ekki heimilt að skera úr um álitamál sem undir hana kunna að vera borin nema að hafa til þess skýra lagaheimild. Þar sem slíka heimild skortir er málskotsnefnd ekki heldur bær til þess að taka afstöðu til beinnar kröfu kæranda um endurgreiðslu málskostnaðar, beins eða óbeins, sem hann kann að hafa borið í dómsmáli sem til hefur verið stofnað vegna úrskurðar nefndarinnar eða bótakröfu byggða á því að kærandi hafi þurft að bera kostnað sökum þess að nefndin kunni að hafa gert mistök er hún fjallaði um mál hans. Er vald nefndarinnar samkvæmt framansögðu bundið við að úrskurða í ágreiningsmálum í þeim tilvikum sem lýst er í 5. gr. a laga um LÍN.

Samkvæmt 2. mgr. 5. a. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er valdsvið málskotsnefndar takmarkað við að skera úr um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Er kærunni vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð

Kæru kæranda er vísað frá.

Til baka