Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2018 - Endurgreiðsla námslána - synjun um endurútreikning á tekjutengdri afborgun

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, miðvikudaginn 18. september 2019, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-12/2018:

Kæruefni

Málskotsnefnd barst þann 11. desember 2018 kæra kæranda á þeirri ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. desember 2018 að synja beiðni hans um að við útreikning á tekjutengdri afborgun námslánsins dóttur hans (hér eftir nefnd greiðandi), sem hann er ábyrgðarmaður að, yrði miða við að greiðandi væri tekjulaus. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna samdægurs og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. janúar 2019. Með bréfi dagsettu 22. janúar 2019 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Svar barst frá kæranda þann 24. janúar 2019. Með bréfi dagsettu 25. febrúar 2019 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá LÍN í málinu. Bárust þær 8. mars 2019 og voru þær sendar kæranda til umsagnar þann 17. apríl 2019 en ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði viðbótarupplýsinga frá stjórn LÍN með bréf dagsettu 24. júní 2019 og bárust svör stjórnar LÍN þann 26. júlí 2019. Þau voru send kæranda til upplýsingar og andsvara og bárust athugasemdir frá honum með tölvubréfi 5. ágúst 2019.

Málavextir

Kærandi sendi upphaflega kæru til málskotsnefndar LÍN þann 4. október 2019 vegna sama máls. Var kærunni vísað frá með úrskurð málskotsnefndar í máli L-7/2018 með vísan til þess að stjórn LÍN hefði ekki tekið endanlega ákvörðun í máli kæranda heldur starfsmaður LÍN, sem hafði verið falið að afgreiða mál sambærileg máli kæranda með tilteknum hætti. Í kjölfar frávísunar bar kærandi málið á ný undir stjórn LÍN. Stjórn LÍN tók ákvörðun í máli kæranda 5. desember 2018, sem hér sætir endurskoðun.

Ágreiningur milli kæranda og LÍN snýst um útreikning tekjutengdra afborgana námsláns sem kærandi er ábyrgðarmaður að. Fyrir liggja í málinu upplýsingar um að greiðandi námslánsins, sem er dóttir kæranda, hefur ekki sent upplýsingar um tekjur sínar síðan 2014 þegar hún sendi upplýsingar um tekjur á árinu 2013. Hefur LÍN sent bréf og síðan tölvupósta árlega til greiðanda þar sem vakin er athygli á þeim reglum sem gilda um endurgreiðslur og bent á mikilvægi þess að skila upplýsingum um tekjur eða tekjuleysi svo ekki komi til þess að tekjur verði áætlaðar. Þrátt fyrir þessar tilkynningar hefur greiðandi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að senda tekjuupplýsingar til LÍN og hefur árleg tekjutengd afborgun því verið byggð á áætlun tekna hennar. Greiðandi hefur heldur ekki efnt greiðsluskyldu sína og hefur kærandi sem ábyrgðarmaður þurft að standa skil á afborgunum hennar, sem hafa verið reiknaðar af áætluðum tekjum skuldara. Að sögn kæranda er greiðandi fíkniefnaneytandi og sé bæði tekju- og eignalaus.

Kærandi sendi erindi til LÍN 21. febrúar 2018 og fór þess á leit að tekið yrði tillit til tekjuleysis og veikinda greiðanda. Þann 20. mars 2018 fékk kærandi svar frá starfsmanni LÍN þar sem því er lýst yfir að LÍN geti ekkert aðhafst í málinu þar sem engar opinberar upplýsingar lægju fyrir um að greiðandi væri í því ástandi sem kærandi hefur lýst. Í svari kæranda til LÍN 21. mars 2018 kemur fram að hann hafi árangurslaust reynt allt til að nálgast upplýsingar um tekjur greiðanda og aðstæður hennar.

Kærandi hefur einnig lýst því gagnvart LÍN að hann sætti sig ekki við að vera krafinn um gögn sem engin leið sé fyrir hann að nálgast. Í bréfi LÍN til kæranda 24. apríl 2018 segir að sjóðurinn sé að vinna í málinu og leita lausna vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem kærandi sem ábyrgðarmaður búi við. Þann 5. júlí 2018 fékk kærandi tölvubréf frá LÍN þar sem hann er upplýstur um nýjar reglur sem stjórn sjóðsins hafi samþykkt er feli í sér ný tekjuáætlunarviðmið vegna námsmanna í sambærilegum aðstæðum og greiðandi. Geti ábyrgðarmenn nú óskað eftir því að tekjuviðmið lánþega verði lækkuð sem nemi allt að helmingi tekjuáætlunar „fyrir aðrar prófgráður“ sem væri lægsta tekjuáætlunin. Skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar séu að sýnt verði fram á að lántaki komi ekki til með að skila upplýsingum um tekjur sínar erlendis og að ábyrgðarmaður sé að greiða af láninu. Sagði eftirfarandi í bréfi LÍN til kæranda:

Reglur sem heimila sjóðnum að taka tillit til sérstakra aðstæðna í hverju máli fyrir sig voru ekki samþykktar fyrr en á stjórnarfundi í júní sl. Ekki þótti ástæða að leggja erindi þitt fyrir stjórn sjóðsins fyrr en framangreindar reglur höfðu verið samþykktar enda lá ekki fyrir hvort þeim yrði breytt frá fyrri árum enda hefur stjórn sjóðsins fjallað um mál þitt út frá gildandi reglum og ekki lágu fyrir ný gögn í málinu. Því miður þá var tekjuáætlunin ekki samþykkt fyrr en raun ber vitni.

Kærandi svaraði LÍN sama dag og fór þess á leit að tekjuáætlunarviðmið fyrir tekjutengda gjalddagann árið 2018 og næstu ár yrði lækkað og tekið mið af því að greiðandi væri tekjulaus.

Þann 29. ágúst 2018 sendir LÍN kæranda bréf þar sem vísað er til beiðni kæranda um endurútreikning á grundvelli þess að greiðandi lánsins komi ekki til með að skila tekjuupplýsingum og að kærandi komi til með að greiða sjálfur afborganir lánsins. Segir eftirfarandi í bréfinu:

Með með ákvörðun stjórnar þann 14. júní 2018 var samþykkt tekjuáætlun fyrir tekjuárið 2017. Í áætluninni kemur fram heimild sjóðsins til að bregðast við slíkum aðstæðum sem væru fyrir hendi í máli kæranda. Þar kemur fram að í undantekningartilvikum geti ábyrgðarmaður óskað eftir því að tekjuviðmið greiðanda verði lækkuð sem nemur allt að helmingi tekjuáætlunar fyrir aðrar prófgráður en það er lægsta tekjuáætlunin. Skilyrði fyrir því að breyting á tekjuáætlun verði samþykkt er að ábyrgðarmaður sýni fram á að lántaki komi ekki til með að skila upplýsingum um tekjur sínar erlendis og að ábyrgðamaður sé að greiða af láninu í hans stað.

Þar sem þú ert talinn hafa sýnt fram á ofangreind skilyrði samþykkir sjóðurinn að tekjuviðmið fyrir árið 2017 verði krónur 6.250.000 vegna útreiknings á gjalddaga 01.09.2018. Gjalddagi 01.09.2018 verður því kr. 170.582.

Ekki var um að ræða endanlega ákvörðun stjórnar í máli kæranda eins og áður greinir og bar hann því málið upp við stjórn LÍN þann 20. nóvember 2018 og fór þess á leit að tekin yrði afstaða til þess erindis sem kærandi hafði áður sent LÍN um að tekið yrði tillit til veikinda og tekjuleysis greiðanda. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda eins og fyrr segir með ákvörðun þann 5. desember 2018.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni vísar kærandi til þess að ákvörðun stjórnar LÍN byggi á ákvæðum laga um nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er lúta að áætlun tekna þar sem upplýsingar um tekjur hafi ekki legið fyrir. Kærandi fer þess á leit að ákvæði laganna um undanþágur vegna veikinda gildi um meðferð málsins. Kærandi mótmælir því að hann þurfi að bera hallann af veikindum greiðanda. Hann geri sér grein fyrir því að notast þurfi við tekjuáætlun þegar engum gögnum sé skilað inn vegna veikinda og ábyrgðarmaður geti engan veginn nálgast þessi gögn. Í því tilviki eigi að hans mati að taka tillit til veikindanna. Kærandi ítrekar að hann geti ekki nálgast þau gögn sem beðið er um. Greiðandi sé veik, í fíkniefnaneyslu og tekjulaus. LÍN beri að leggja sjálfstætt mat á hagi og aðstæður lánþegans með það fyrir sjónum að áætla tekjustofn hennar sem næst raunverulegum tekjum. Það hafi LÍN ekki gert heldur lagt fyrir hann að afla gagna sem honum sé ómögulegt að koma höndum yfir.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN kemur fram að greiðandi hafi ekki greitt afborganir af námsláni sínu undanfarin ár og því hafi innheimta þess beinst að ábyrgðamönnum. Þá hafi greiðandi ekki skilað tekjuupplýsingum og hafi tekjur því verið áætlaðar haustið 2018 vegna tekjuársins 2017. Hafi kærandi óskað eftir því að tekjur greiðanda yrðu áætlaðar sem næst raunverulegum tekjum, en kærandi hafi upplýst um að greiðandi væri atvinnulaus. Ekkert liggi fyrir um mögulegar tekjur greiðanda. Á fundi stjórnar LÍN þann 14. júní 2018 hafi verið samþykkt að við ákveðnar aðstæður geti ábyrgðarmaður óskað eftir því að tekjuviðmið greiðanda yrðu lækkuð sem nemi allt að helmingi tekjuáætlunar fyrir aðrar prófgráður, en það sé lægsta tekjuáætlunin. Skilyrði fyrir slíkri meðferð sé að ábyrgðarmaður hafi sýnt fram á að illmögulegt sé að ná í greiðanda eða að hann komi ekki til með að skila upplýsingum um tekjur sínar erlendis og að ábyrgðarmaður sé að greiða af láninu í hans stað. Kærandi hafi farið þess á leit að tekið yrði tillit til aðstæðna hans og með hliðsjón af þeim hafi LÍN fallist á að lækka tekjuáætlun greiðanda um helming í 6.250.000 krónur.

LÍN vísar til þess að skilmálar skuldabréfisins séu skýrir hvað varði endurgreiðslur lánsins og skyldur ábyrgðarmanna. Líkt og fram komi í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda séu jafnframt skýrar reglur í úthlutunarreglum sjóðsins um endurgreiðslur, sbr. og 3. mgr. 10.gr. laga um LÍN. Bendir LÍN á að þegar hafi verið tekið tillit til aðstæðna í málinu með því að upphafleg tekjuáætlun hafi verið lækkuð umtalsvert.

Í viðbótarupplýsingum stjórnar LÍN kemur fram að markmið tekjuáætlana sjóðsins séu að þær séu ekki lægri en tekjur þeirra greiðenda sem búsettir séu erlendis og velja að gefa ekki upp tekjur sínar, eins og þeim sé þó skylt að gera samkvæmt lögum um LÍN og ákvæðum skuldabréfs. Um sé að ræða svipaðar viðmiðanir og Ríkisskattstjóri gerir um áætlun tekjustofna einstaklinga sem ekki skila skattframtölum. Tekjuáætlunum LÍN sé skipt í fjóra flokka eftir námsgráðum greiðenda; doktorsnám, meistaranám, grunnnám og aðrar prófgráður. Við tekjuviðmið sjóðsins sé höfð hliðsjón af kjarakönnun BHM eftir menntunarstigi, en einnig sé horft til hlutfallsþróunar þeirra sem láta áætla á sig tekjur, en hækkandi hlutfall þeirra sé líkleg vísbending um of lága tekjuáætlun. Tekjuviðmið sjóðsins byggi ekki á upplýsingum um tekjur greiðenda sjóðsins sem búi í útlöndum en þeir séu búsettir í meira en áttatíu löndum og óframkvæmanlegt sé fyrir sjóðinn að skoða meðallaun einstakra tekjuhópa í hverju landi fyrir sig.

Stjórn LÍN bendir á að samkvæmt 10. gr. laga um LÍN beri sjóðnum að áætla þeim greiðendum tekjustofn, sem búi erlendis og upplýsi ekki um tekjur sínar. Markmið slíkrar áætlunar hljóti í fyrsta lagi að vera að fá sem flesta greiðendur til að skila inn upplýsingum um tekjur, í öðru lagi að aðferðin sé byggð á málefnalegum rökum varðandi tekjur, í þriðja lagi að gæta jafnræðis og í fjórða lagi að aðferðin sé gagnsæ og liggi tímanlega fyrir með tilliti til gjalddaga afborgunar. Telur LÍN sig uppfylla alla þessa þætti.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga um LÍN segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 8.4 í úthlutunarreglum sjóðsins 2017-2018. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga um LÍN. Í 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.

Í 11. gr. laganna, sbr. og 4. mgr. greinar 8.4 í úthlutunarreglum LÍN, kemur síðan fram:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.

Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í ljós að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþgi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.  

Í 6. og 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN eru einnig ákvæði er lúta að heimildum stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá afborgunum sökum sérstakra aðstæðna. Þar segir:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjón til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. 

Í málinu liggur fyrir að greiðandi þess láns sem um er að ræða í málinu býr í Danmörku og hefur undanfarin ár ekki sinnt þeirri skyldu sinni að senda upplýsingar um tekjur sínar til LÍN. Ástæða þess að sögn kæranda eru veikindi greiðanda sökum fíkniefnaneyslu. Hún sé því sem næst tekjulaus og búin við bágar félagslegar aðstæður. Kærandi hefur ekki getað lagt fram gögn því til staðfestingar og kveðst ekki í neinni aðstöðu til að afla þeirra.

Það leiðir af ákvæðum 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að LÍN er skylt við beitingu þeirrar áætlunarheimildar sem sjóðnum er fengin í 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN að leggja sjálfstætt mat á hagi og aðstæður lánþega með það fyrir augum að tekjur hans verði áætlaðar sem næst raunverulegum tekjum hans. Möguleikar LÍN til að áætla tekjur greiðanda ráðast augljóslega af þeim upplýsingum sem sjóðnum eru látnar í té. Eins og fyrr er rakið hefur lánþegi frá árinu 2014 ekki sinnt áskorunum LÍN um að afhenda sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar. Við þær aðstæður þegar alls engum upplýsingum er fyrir að fara um tekjur lánþega verður að játa sjóðnum allnokkuð svigrúm á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN að áætla tekjur. Er það mat málskotsnefndar að sú aðferð sem LÍN notar við áætlun tekna greiðenda sem búa erlendis og hafa um áraraðir, eins og í tilviki lánþega, ekki sinnt skyldu sinni að upplýsa um tekjur, sé eins og á stendur forsvaranleg.

Kærandi fór þess á leit við LÍN í byrjun árs 2017 að við ákvörðun afborgunar lánsins yrði tekið tillit til tekjuleysis og veikinda greiðanda. Eins og áður greinir upplýsti LÍN í júní 2018 að stjórn sjóðsins hefði samþykkt heimild til þess í undantekningartilvikum að lækka tekjuviðmið greiðanda um allt að helmingi ef ábyrgðarmaður sýndi fram á að lántaki kæmi ekki til með að skila upplýsingum um tekjur sínar erlendis og að ábyrgðamaður væri að greiða af láninu í hans stað. Í samræmi við það samþykkti stjórn LÍN að lækka tekjuviðmið greiðanda um helmingi tekjuáætlunar vegna upplýsinga kæranda um þungbærar aðstæður greiðanda og með því færa tekjuáætlun í 6.250.000 krónur. Ekki var í ákvörðuninni vikið að upphaflegu erindi kæranda sem byggði á því að greiðandi væri tekjulaus eða því sem næst. Kærandi bar síðan málið undir stjórn LÍN þar sem hann óskaði þess að lagt yrði sjálfstætt mat á hagi og aðstæður greiðanda. Með hinni kærðu ákvörðun var synjað beiðni kæranda um frekari lækkun tekjuáætlunar með vísan til þess að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um tekjur greiðanda.  

Kærandi lýsir því að greiðandi sé tekju- og eignalaus, sem rekja megi til fíkniefnaneyslu hennar en honum sé ómögulegt að nálgast skattframtal hennar til sönnunar tekju- og eignaleysi hennar. Í 8. gr. laga um LÍN sem vísað er til hér að framan er að finna heimild til undanþágu frá afborgun ef greiðandi á við verulega greiðsluerfiðleika að stríða m.a. af þeim orsökum sem tilgreindar eru í beiðni kæranda. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN skal skuldari leggja fyrir stjórn sjóðsins þær upplýsingar sem hún telur skipta máli.

Að mati málskotsnefndar verður að fallast á að það mat LÍN að varhugavert sé að ganga út frá algeru tekjuleysi greiðanda sé í samræmi við þær þröngu skorður sem sjóðnum eru markaðar í 8. gr. laga um LÍN. Skortur á upplýsingum um tekjur greiðenda eða erfiðar félagslegar aðstæður getur ekki leitt til þess að sjóðurinn á þeim lagagrundvelli sem hann starfar eftir geti veitt að fullu undanþágu frá árlegri endurgreiðslu eða fellt endurgreiðslu niður. Er ákvörðun stjórnar LÍN um að synja beiðni kæranda um að miða tekjutengda afborgun námsláns greiðanda við að greiðandi væri tekjulaus því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. desember 2018 er staðfest.

Til baka