Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2019 - Endurgreiðsla námslána - skilafrestur tekjuupplýsinga erlendis frá

ÚRSKURÐUR

 

Ár 2019, föstudaginn 11. október kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2019:

Kæruefni:

Með kæru dagsettri 13. júní 2019 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júní 2019 vegna beiðni hennar um að LÍN taki tillit til þess að kærandi geti ekki sent staðfestar upplýsingar um tekjur sínar frá skattinum í Noregi fyrr en í október 2019. Kærandi var jafnframt ósátt við að innheimtubréf hafi borist ábyrgðarmönnum á námsláni hennar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. júní 2019 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Kærandi sendi viðbótarröksemdir með tölvupósti þann 26. júní 2019 og voru þær framsendar LÍN. Athugasemdir LÍN bárust með bréfi 26. júlí 2019 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir með tveimur tölvupóstum þann 13. ágúst 2019 og voru þær framsendar stjórn LÍN 20. ágúst 2019.

Málsatvik og ágreiningsefni:

Kærandi er sjálfstætt starfandi og búsett í Noregi. Kærandi er greiðandi af námslánum hjá LÍN og eru tvö lán, R-lán og G-lán, í innheimtu og bæði í skilum. Þann 16. maí 2019 sendi LÍN fjölpóst til kæranda og annarra greiðenda námslána í Noregi þar sem fram kom eftirfarandi:

„Þann 1. september næstkomandi er gjalddagi tekjutengdrar afborgunar námslána. Tekjutengd afborgun tekur mið af tekjuskattstofni lánþega og því þarf sjóðurinn upplýsingar um tekjur lánþega LÍN á síðasta tekjuári. Þar sem þú varst með lögheimili í Noregi allt árið 2018 eða hluta þess, þarft þú að skila inn norsku skattframtali sem nefnist Skattemelding 2018 frá Skatteetaten.

Norsk skattayfirvöld birta almennt tekjuupplýsingar í apríl ár hvert og vill sjóðurinn minna þig á að senda afrit þess til sjóðsins eins fljótt og auðið er.

Skattframtali er hægt að skila á Mitt LÍN undir flipanum Gagnaskil. Einnig er hægt að skila framtalinu í tölvupósti á lin@lin.is en mælt er með því að skila heldur gögnum á Mitt LÍN til að tryggja gagnaöryggi persónuupplýsinga.

Skilir þú ekki upplýsingum um erlendar tekjur þínar fyrir 1. júlí 2019 verður tekjutengd afborgun námslána þinna byggð á áætluðum tekjum.“

Er kæranda barst tilkynning LÍN sendi hún tölvupóst til LÍN þar sem hún gerði athugasemdir við að LÍN sendi ábyrgðarmönnum námslána hennar tilkynningu um vanskil á hverju ári sökum þess að norski skatturinn skilaði síðar en hentaði LÍN. Kærandi bar við að þetta fæli í sér mismunun gagnvart lánþegum og væri brot á stjórnsýslulögum. Óskaði hún þess að þessar athugasemdir yrðu bornar undir stjórn LÍN sem formleg kvörtun.

Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda kemur fram að kærandi hafi farið þess á leit við stjórn LÍN að tekið yrði tillit til þess að kærandi geti ekki skilað staðfestum upplýsingum um tekjur frá skattinum í Noregi fyrr en í október. 

Í niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda var vísað til greinar 8.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 10 og 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þar kæmi fram að lánþegum sem ekki væru skattskyldir á Íslandi bæri að senda staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skyldi árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Ef lánþegi sendi ekki slíkar upplýsingar eða upplýsingar sem hann sendi teldust ósennilegar skyldi stjórn LÍN áætla honum tekjustofn til útreiknings á árlegri viðbótargreiðslu.

Þar sem kærandi ætti þess ekki kost að senda staðfestar upplýsingar um tekjur sínar áður en tekjutengda afborgunin væri mynduð gæti hún líkt og aðrir lánþegar sent sjóðnum bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur sínar. Mætti þar nefna launaseðla, kvittanir fyrir verktakagreiðslum, staðfestingu frá endurskoðanda og önnur sambærileg gögn. Væri tekjutengd afborgun reiknuð í samræmi við þessar upplýsingar og síðan endurskoðuð þegar staðfest skattframtal lægi fyrir. Var tekið fram að umsókn um endurútreikning frestaði ekki innheimtu en jafnframt bent á að hægt væri að óska greiðsludreifingar á gjalddögum í sex mánuði.

Var kærandi hvött til þess að skila bestu upplýsingum um staðfestar tekjur fyrir 1. júlí 2019, sbr. grein 8.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Ef þær upplýsingar lægju ekki fyrir yrðu tekjur kæranda áætlaðar í samræmi við samþykkt tekjuviðmið sjóðsins.

Þegar niðurstaða stjórnar LÍN var birt kæranda svaraði hún með tölvupósti þann 6. júní 2019 þar sem hún kvaðst hafa verið að kvarta yfir því að umsókn um endurútreikning frestaði ekki innheimtu. Kvaðst kærandi ekki sjá á úrskurðinum að stjórn LÍN hafi skilið yfir hverju hún hafi verið að kvarta sem væri að LÍN innheimti afborgun gjalddagans áður en kærandi gæti lagt fram endanlegar upplýsingar um tekjur sínar.

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni setur kærandi fram þá kröfu að fá úr því skorið hvort það standist stjórnsýslulög nr. 37/1993 að lánþegum sé mismunað við innheimtu hjá LÍN. Kærandi mótmælir því að þurfa að sæta mismunun sökum þess að skattareglur norska ríkisins henti LÍN ekki.

Kærandi fer þess á leit í fyrsta lagi að fá að sleppa við innheimtuaðgerðir sem séu til komnar sökum óviðráðanlegra atvika sem kærandi hafi enga stjórn á, þ.e. vegna skattareglna norska ríkisins. Kærandi kveðst ekki getað gert að því að norska ríkið sendi ekki út skattauppgjör fyrr en frestur til að skila slíkum upplýsingum til LÍN er runninn út.

Í öðru lagi mótmælir kærandi því að reglur LÍN eigi að leiða til þess að hún þurfi að greiða sérfræðingi þóknun fyrir taka að saman tekjuupplýsingar. Kærandi segir engu máli skipta þó að LÍN taki við bráðabirgðaupplýsingum, málið snúist ekki um það. Hafi hún ár eftir ár verið krafin um það af LÍN að bókari sem hún borgi fyrir staðfesti tekjuupplýsingar sem hún leggi fyrir sjóðinn. Það að LÍN krefjist þess að kærandi borgi fyrir upplýsingar sökum þess að ekki sé veittur frestur þar til kærandi geti lagt fram raunverulegar upplýsingar sé mismunun. Lýsir kærandi því að LÍN hafi upplýst hana um að eina leiðin til að fá sömu meðferð og aðrir greiðendur og koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir sé að leggja fram staðfestingu frá bókara á fjárhæðum í bráðabirgðauppgjöri hennar. Umkvörtunarefni kæranda sé einnig að LÍN hefji innheimtu afborgunar áður en kæranda sé kleift að leggja fram endanlegar upplýsingar og þrátt fyrir að afborgun sé síðan reiknuð á ný eftir eftir að endanlegar tekjuupplýsingar liggi fyrir.

Í þriðja lagi kveður kærandi LÍN halda því fram að þetta eigi við um svo fáa greiðendur að þeir verði að þola slíka meðferð. Fer kærandi þess á leit að reglum verði breytt þannig að LÍN bíði með innheimtuaðgerðir meðan beðið er endanlegra upplýsinga frá norska ríkinu um tekjur kæranda. 

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum vegna kærunnar rekur stjórn LÍN samskipti sín við kæranda. Hafi LÍN sent henni tölvupóst þar sem hún hafi verið látin vita að hún þyrfti að skila inn norsku skattframtali sökum þess að hún hafi verið með lögheimili í Noreg allt árið 2018 til þess að LÍN gæti reiknað henni tekjutengda afborgun námsláns. Hafi kærandi greint frá því að hún væri sjálfstætt starfandi og ætti þess ekki kost að senda staðfestar upplýsingar fyrr en í október 2019, þ.e. eftir að tekjutengda afborgunin er mynduð.

LÍN vísar til þess að í 8.4. grein úthlutunarreglna LÍN, sbr. og 10. og 11. gr. laga um LÍN, komi fram að sé lánþegi ekki skattskyldur af öllum tekjum sínum og eignum skuli gefa honum kost á að senda staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skuli árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða verði að telja upplýsingar hans ósennilegar skuli stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings á árlegri viðbótargreiðslu. Málskotsnefnd LÍN hafi ítrekað úrskurðað um að sjóðnum sé rétt að áætla tekjur greiðenda þegar upplýsingar um tekjur þeirra liggja ekki fyrir. Þá hafi málskotsnefnd einnig staðfest að 60 daga frestur til að sækja um endurútreikning sé fortakslaus og geti greiðendur ekki krafist þess að ákvörðun um áætlun verði endurskoðuð hafi skattskýrslu ekki verið skilað innan þessa frests.

LÍN bendir á að ívilnun til greiðenda sem ekki geta lagt fram endanlegar tekjuupplýsingar innan 60 daga frestsins feli í sér að þeim sé gefinn kostur á að leggja fram bestu fáanlegar upplýsingar sem sjóðurinn geti miðað við við að áætla þeim greiðslu, s.s. launaseðla, kvittanir fyrir verktakagreiðslum, staðfestingu frá endurskoðanda og önnur sambærileg gögn, jafnvel þó að endanlegar upplýsingar liggi ekki fyrir fyrr en síðar.

LÍN mótmælir því að sjóðurinn hafi krafist þess af kæranda að hún greiði bókara fyrir staðfestar tekjuupplýsingar eða að sjóðurinn hafi vísað til þess að svo fáir féllu undir þessa framkvæmd að kærandi yrði að sætta sig við hana. Í ákvörðun stjórnar LÍN hafi verið taldir upp nokkrir möguleikar sem gætu nýst greiðendum til að veita upplýsingar þannig að viðbótargreiðslan sé eins nálægt réttum upplýsingum og mögulegt er. Slík mál séu ekki óalgeng og framkvæmd þessi ávallt verið nýtt fyrir aðila í sambærilegri stöðu og kærandi.

LÍN bendir einnig á að fram komi í 8.4. grein úthlutunarreglnanna að umsókn um endurútreikning fresti ekki innheimtu. Það að kærandi tilgreini að hún eigi þess ekki kost að senda inn staðfestar upplýsingar breyti ekki þeirri reglu. Að lokum ítrekar LÍN að ekki sé um mismunun að ræða í máli kæranda. Með því að gefa lánþegum kost á endurútreikningi og bjóða þeim að senda inn bestu fáanlegar upplýsingar sem þeir hafi um tekjur sínar séu áætlaðar tekjur ekki endanlegar í þeim skilningi að ekki sé möguleiki á að fá þeim breytt. Kærandi eigi þess kost að senda inn gögn sem sýni fram á tekjur á tekjuárinu 2018 og þó ljóst sé að einhver mismunur geti verið á úrlausn mála sé ekki um mismunun að ræða ef úrlausn máls byggist á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum eins og við eigi í máli þessu. Ekki sé hægt að fara með hvert og eitt mál einstaklingsbundið og þurfi að setja ákveðnar skorður við framkvæmd mála sem þessarra. Framkvæmd sjóðsins sé í samræmi við meðalhóf og byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Í ákvörðun stjórnar LÍN er vísað til þess að kærandi eigi þess kost að senda sjóðnum bestu fáanlegar upplýsingar. Nefnir LÍN í því sambandi launaseðla, kvittanir fyrir verktakagreiðslum, staðfestingu frá endurskoðanda og önnur sambærileg gögn. Sé tekjutengd afborgun reiknuð út í samræmi við slíkar upplýsingar og síðan sé útreikningur endurskoðaður þegar staðfest skattframtal liggi fyrir. Umsókn um endurútreikning fresti ekki endurgreiðslu. Þá sé hægt að óska eftir greiðsludreifingu gjalddaga í sex mánuði. Er kærandi hvött til þess að leggja fram bestu fáanlegar upplýsingar fyrir tilskilinn frest þann 1. júlí þannig að tekjutengd afborgun endurspegli sem best tekjur hennar. Ef þær upplýsingar liggi ekki fyrir á þeim tíma muni tekjutengda afborgunin verða reiknuð í samræmi við samþykkt tekjuviðmið sjóðsins.

Niðurstaða:

Ágreiningur kæranda og LÍN í þessu máli snýst um hvort LÍN beri við framkvæmd innheimtu á tekjutengdri afborgun námsláns kæranda að taka tillit til þess að kærandi geti ekki skilað staðfestum upplýsingum um tekjur sínar fyrr en í október ár hvert. Hvort LÍN skuli fresta innheimtu námsláns til að koma til móts við kæranda þar til hún getur lagt fram endanlegar upplýsingar um tekjur sínar. Kærandi sem er sjálfstætt starfandi í Noregi hefur vísað til þess að álagning skattyfirvalda í Noregi liggi ekki fyrir fyrr en í október ár hvert og að LÍN krefjist þess að hún leggi fram staðfestingu frá bókara sem hún þurfi að greiða fyrir. Kærandi byggir á því að LÍN veiti henni ekki frest til að leggja fram endanlegar upplýsingar og fer þess á leit að LÍN fresti innheimtu afborgunar þar til sannarlegar og endanlegar upplýsingar um tekjur hennar liggja fyrir. Telur kærandi að um mismunun sé að ræða. Í niðurstöðu stjórnar LÍN er hins vegar byggt á því að kærandi eigi þess kost að senda nægjanlega glöggar upplýsingar um tekjur sínar og tekið fram að umsókn um endurútreikning fresti ekki innheimtu námsláns kæranda.

Um endurgreiðslu námslána er fjallað í 8. gr. laga um LÍN. Þar segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi. Annars vegar föst greiðsla sem er innheimt fyrri hluta árs, óháð tekjum, og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs. Í stöðluðum skilmálum skuldabréfa R- og G-lána kæranda kemur fram að gjalddagi viðbótargreiðslunnar sé 1. september og að lántaki skuli greiða tiltekið hlutfall af tekjustofni sínum í tekjutengda afborgun, þ.e. viðbótargreiðsluna. Frá viðbótargreiðslunni skuli draga föstu greiðsluna sem greidd er fyrri hluta árs. Ekki er fyrir hendi í lögum um LÍN, öðrum reglum eða skilmálum skuldabréfanna nein almenn heimild fyrir LÍN til að fresta innheimtu viðbótargreiðslunnar þegar svo stendur á eins og í tilviki kæranda að álagningu skattyfirvalda er ekki lokið fyrr en eftir umræddan gjalddaga. Þannig leiðir af stöðluðum skilmálum skuldabréfa námsláns kæranda og lögum um LÍN að henni ber að greiða viðbótargreiðsluna þann 1. september ár hvert.

Greiðendum sem ekki eru skattskyldir á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum er skylt samkvæmt 10. gr. laga um LÍN að senda LÍN staðfestar upplýsingar um tekjur sínar sem viðbótargreiðslan er miðuð við. Geri þeir það ekki skal stjórn sjóðsins, sbr. 2. mgr. 10. gr., áætla tekjustofninn. Hafi LÍN áætlað tekjustofn greiðanda á lánþegi rétt á endurútreikningi. Frestur til að sækja um endurútreikning er 60 dagar talið frá gjalddaga og skal viðkomandi leggja fram bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur sínar, sbr. 11. gr. laga um LÍN. Í fyrri úrskurðum málskotsnefndar hefur verið talið að þegar greiðendur vilja gera athugasemdir við áætluð tekjuviðmið en hafi ekki tök á að senda tekjuupplýsingar fyrir tilskilinn 60 daga frest þá nægi að þeir sendi erindi til LÍN innan frestsins þar sem þeir upplýsi um að þeir muni senda gögn. Leiði af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að í því tilviki beri LÍN að gefa greiðendum hæfilegan frest til að leggja fram fullnægjandi gögn um tekjur, sbr. einnig 4. mgr. 8.4. greinar úthlutunarreglna LÍN 2019-2020.

Kærandi byggir á því að sú framkvæmd LÍN að innheimta afborgun námsláns hennar þann 1. september þegar ekki liggi fyrir endanlegar upplýsingar um tekjur hennar feli í sér mismunun. Hún sé sjálfstætt starfandi í Noregi og þar í landi liggi slíkar upplýsingar ekki endanlega fyrir fyrr en í október. LÍN krefjist þess að hún leggi fram staðfestar upplýsingar frá bókara sem hún þurfi að greiða fyrir. Fram kemur í ákvörðun LÍN í máli kæranda að hún eigi þess kost að leggja fram bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur sínar og er þar nefnt í dæmaskyni launaseðlar, kvittanir fyrir verktakagreiðslur, staðfesting endurskoðanda og önnur sambærileg gögn.

Eins og áður er fram komið skal miða viðbótargreiðslu við tiltekið hlutfall af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári. Með tekjustofni er, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um LÍN, átt við útsvarsstofn. Eins og nánar kemur fram í úrskurði í máli L-6/2015 er með „tekjustofni“ í lögum um LÍN er átt við „tekjuskattsstofn“ samkvæmt lögum um nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í tilviki G-lána, sbr. lög nr. 140/2004 um breyting á lögum um LÍN, tekur tekjustofn einnig til fjármagnstekna, þ.e. tekna samkvæmt C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt.

Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er kærandi hvött til þess að leggja fram bestu fáanlegar upplýsingar fyrir 1. júlí til að tryggja að tekjutengd afborgun endurspegli sem best raunverulegar tekjur hennar, ella muni LÍN þurfa að áætla tekjur kæranda. Í þessu sambandi er rétt að huga að því hve aðgengilegar slíkar upplýsingar eru kæranda.

Um ákvörðun á tekjustofni sjálfstætt starfandi í Noregi er fjallað í úrskurði málskotsnefndar í máli L-6/2015. Þar kemur fram að við gerð skattframtals sé viðkomandi m.a. heimilt að draga frá tekjum sínum nánar greindan kostnað sem fallið hefur til við öflun tekna. Samkvæmt þessu er ekki endilega víst að launaseðlar eða yfirlit um verktakagreiðslur geti gefið nægjanlega nákvæmlega til kynna hver tekjustofn kæranda hefur verið, en þó má ætla að yfirlit um verktakagreiðslur gefi vísbendingu um hámarksfjárhæð tekjustofns viðkomandi, að viðbættum eftir atvikum upplýsingum um fjármagnstekjur.

Samkvæmt upplýsingum norskra skattyfirvalda á https://www.skatteetaten.no/bedrift-og-organisasjon/skatt/skattemelding-naringsdrivende/ er framtalsfrestur sjálfstætt starfandi einstaklinga til 31. maí ár hvert. Framtalið er rafrænt. Þar kemur einnig fram að hafi endurskoðandi eða bókari gert framtal þurfi viðkomandi eigi að síður að fara inn á eigið svæði hjá skattyfirvöldum til að staðfesta framtalið. Má ætla að ef kærandi eða fagaðili á hennar vegum standa skil á framtali innan lögbundins frests geti þegar í júní legið fyrir nægjanlega áreiðanlegar upplýsingar hjá norskum skattyfirvöldum um helstu fjárhæðir á tekju- og gjaldahlið í rekstri kæranda þannig að að áætla megi tekjustofn með nægjanlega áreiðanlegum hætti. Verður þannig að telja að kærandi eigi þess kost að leggja fram nægjanlega áreiðanlegar upplýsingar um tekjustofn sinn með því að leggja fram útprentun eða afrit af framtali sínu af heimasíðu skattyfirvalda, sbr. https://www.skatteetaten.no/person/skatt/skattemelding/hjelp-til-skattemelding/skriv-ut-skattemeldingen-pa-papir/. Ekki liggur fyrir hvort hægt sé að afla sérstakrar staðfestingar skattyfirvalda á útprentuðu framtali. Að mati málskotsnefndar ætti útprentað framtal, jafnvel án sérstakrar staðfestingar yfirvalda, að vera ekki síður áreiðanlegt gagn og kvittarnir fyrir verktakagreiðslur, auk þess sem í tilviki kæranda er einungis um að ræða upplýsingar sem notaðar eru við útreikning afborgunar til bráðabirgða. Að mati málskotsnefndar verður samkvæmt framansögðu ekki betur séð en að ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi geti lagt fram fyrir 1. júlí ár hvert nægjanlega áreiðanlegar upplýsingar um tekjur sínar sem leggja má til grundvallar við útreikning á tekjutengdri afborgun hennar fyrst um sinn þar til endanleg gögn eru aðgengileg. Þá er ekki fallist á með kæranda að gögn málsins beri með sér að LÍN hafi krafist þess að hún greiði bókara fyrir upplýsingar um tekjur. LÍN hefur tilgreint slík gögn í dæmaskyni.

Kærandi telur að LÍN beri að fresta gjalddaga eða innheimtu afborgunar námsláns sem greiða ber samkvæmt ákvæðum skuldabréfs námsláns þann 1. september ár hvert þar sem kærandi eigi þess ekki kost að leggja fram endanlegar upplýsingar um tekjur sínar fyrr en í október. Á þennan skilning kæranda er ekki fallist. Það leiðir af ákvæðum 11. gr. laga um LÍN að ef endanlegar upplýsingar um tekjur eru ekki aðgengilegar greiðendum er LÍN heimilt að miða gjaldstofn við bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur sem greiðendur leggja fram. Þegar staðfestar upplýsingar um raunverulegar tekjur berast sjóðnum er afborgun leiðrétt. Hafi verið ofgreitt er endurgreitt með vöxtum.

Eins og rakið er hér að framan verður ekki betur séð en að nægjanlega áreiðanlegar upplýsingar séu aðgengilegar kæranda hjá norskum skattyfirvöldum eftir að hún hefur skilað framtali, en framtalsfrestur er eins og fyrr sagði 31. maí ár hvert. Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er henni bent á að hægt sé að óska greiðsludreifingar á gjalddögum í sex mánuði. Slík greiðsludreifing hefur það í för með sér að ónákvæmni í áætlun tekjustofns ætti ekki að leiða til hærri greiðslna hjá greiðendum sem senda endanlegar tekjuupplýsingar í október. Fjárhæð gjalddaga er í þessu tilviki leiðrétt þegar viðkomandi hefur einungis greitt innan við helming hinnar tekjutengdu afborgunar.

Að því er lýtur að þeirri umkvörtun kæranda að þessi tilhögun leiði til þess að LÍN hefji innheimtuaðgerðir með tilheyrandi óþægindum fyrir kæranda og ábyrgðarmenn er rétt að geta þess að til slíks kemur eingöngu, sbr. stöðluð ákvæði skuldabréfs námslána og ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, þegar vanskil verða af hálfu greiðenda á greiðslu afborgana. Slíkt er alfarið á ábyrgð kæranda.

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að við framkvæmd innheimtu á tekjutengdri afborgun námslána mismuni LÍN kæranda og öðrum í sömu stöðu. Þessir aðilar eru ekki í sömu stöðu og aðrir greiðendur og sú meðferð að bjóða viðkomandi að leggja fram bestu fáanleg gögn sem viðbótargreiðslan er miðuð við fyrst um sinn er í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og tryggir sanngjarna meðferð greiðenda eftir því sem kostur er miðað við aðstæður.

Í tilkynningu þeirri sem LÍN sendir árlega til kæranda og annarra greiðenda í Noregi er vísað til þess að norsk skattayfirvöld birti tekjuupplýsingar í apríl ár hvert. Eins og áður er fram komið eru það einungis tekjuupplýsingar launþega í Noregi sem eru aðgengilegar í apríl. Öðru máli gegnir um kæranda og aðra greiðendur námslána sem eru sjálfstætt starfandi. Endanlegar tekjuupplýsingar þeirra eru ekki aðgengilegar fyrr en síðar á árinu. Viðbúið er að þessir aðilar lendi í áætlun af hálfu LÍN sendi þeir ekki tekjuupplýsingar fyrir 1. júlí. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið leiðbeiningar frá LÍN, m.a. í ákvörðun stjórnar, liggja ekki fyrir almennar leiðbeiningar á heimasíðu LÍN eða í stöðluðu bréfi sem sent er greiðendum sem miða að því að leiðbeina þeim sem eru í þeirri aðstöðu að hafa ekki aðgengilegar endanlegar tekjuupplýsingar. Hefur kærandi lýst því að þurfa ár eftir ár að útskýra stöðu sína gagnvart LÍN. Er því beint til LÍN að bæta úr þannig að leiðbeiningar til greiðenda taki bæði mið af stöðu launþega og sjálfstætt starfandi og annarra sem ekki eru í aðstöðu til að senda endanlegar tekjuupplýsingar innan þess frests sem LÍN tilgreinir, sbr. 3. mgr. 8.4. greinar úthlutunarreglna LÍN. Eins og áður er fram komið hefur LÍN upplýst um að mál eins og hjá kæranda séu ekki óalgeng.

Með vísan til framanritaðs er kröfum kæranda hafnað og hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 3. júní 2019 staðfest. Því er beint til LÍN að bæta úr upplýsingagjöf til greiðenda og taka einnig mið af þeirri stöðu sem sjálfstætt starfandi og eftir atvikum aðrir greiðendur eru í sem ekki hafa aðgengilegar endanlegar upplýsingar um tekjur sínar fyrr en eftir gjalddaga tekjutengdrar afborgunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 3. júní 2019 í máli kæranda er staðfest.

Til baka