Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2019 - Endurgreiðsla námslána - umsókn um undanþágu frá afborgun

Ár 2020, miðvikudaginn 19. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-15/2019.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 11. desember 2019 kærði kærandi ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júní og 9. september 2019 þar sem synjað var beiðni hennar um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Með tölvupósti 14. janúar 2020 óskaði LÍN eftir útskýringum vegna gagna sem vísað var til í kærunni. Óskaði málskotsnefnd skýringa frá kæranda og í ljós kom að gögn vegna heilsufars kæranda höfðu ekki borist með kærunni. Kærandi sendi umrædd gögn til nefndarinnar og voru þau framsend LÍN 15. janúar 2020. Í framhaldinu óskaði stjórn LÍN eftir framlengdum fresti til að skila athugasemdum í málinu og bárust athugasemdir vegna málsins 30. janúar 2020.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er lántaki hjá LÍN og hefur hafið endurgreiðslu lána sinna. Hún óskaði undanþágu frá afborgunum námsláns hjá LÍN vorið 2018 og 2019. Voru umsóknir kæranda senda tímanlega innan frests en LÍN synjaði beiðni hennar á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn.

Sjónarmið kæranda.

Fram kemur í kærunni að kærandi hafi átt við alvarleg veikindi að stríða undanfarin ár og hafi óskað eftir undanþágu afborgana hjá LÍN vegna tveggja gjalddaga, þ.e. 1. apríl 2018 og 1. apríl 2019. Sendi kærandi til málskotsnefndar læknisvottorð, tvö frá frönskum lækni vegna gjalddagans á árinu 2018 og eitt frá íslenskum lækni vegna gjalddagans 2019. Kærandi tekur fram að hún hafi reynt að senda gögnin til LÍN bæði með pósti og tölvupósti en svo virðist sem þau hafi ekki borist sjóðnum. Kærandi hafði einnig sent álagningarseðla með upplýsingum um tekjur sínar árin 2017 og 2018.

Fram kemur af hálfu kæranda að að hún vonist til að umrædd gögn verði til þess að hægt verði að breyta niðurstöðu stjórnar LÍN. Hefði úrskurðurinn byggst á því að engin ný gögn hefðu borist. 

Vegna veikinda hefði kæranda ekki verið unnt að fylgja því betur eftir hvort tilskilin gögn hefðu borist. 

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að kærandi hafi sótt um undanþágu vegna veikinda innan umsóknarfrests. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi kærandi ekki sent gögn um veikindi sín og hafi beiðni hennar því verið synjað. Kærandi hafi síðan óskað eftir endurupptöku málsins en engin frekari gögn hafi borist um veikindi hennar. Með hliðsjón af því hafi beiðni kæranda um endurupptöku verið synjað þann 9. september 2019.

Þann 14. janúar 2020 hafi LÍN borist frá málskotsnefnd vottorð er staðfesti veikindi kæranda fjóra mánuði fyrir umrædda gjalddaga. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum hafi málið síðan verið tekið til endurskoðunar hjá sjóðnum. Leiddu framlögð gögn til þess að kærandi taldist uppfylla skilyrði um undanþágu í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárin 2018-2019 og 2019-2020, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með hliðsjón af því hafi kæranda verið veitt undanþága frá afborgun á gjalddaga 1. mars 2018 og 1. mars 2019.

Fer stjórn LÍN fram á með vísan til framanritaðs að máli nr. L-15/2019 verði vísað frá málskotsnefnd.

Niðurstaða

Mál þetta fjallar um rétt kæranda til undanþágu frá afborgun námsláns vegna veikinda. Hafði stjórn LÍN synjað beiðni kæranda um undanþágu þar sem ekki höfðu borist fullnægjandi gögn um heilsufar kæranda. Þau gögn hafi síðan verið lögð fram af kæranda með kærunni til málskotsnefndar LÍN ásamt þeirri skýringu að hún hefði áður reynt að senda gögnin til LÍN en svo virðist sem þau hafi ekki borist sjóðnum. Í umsögn LÍN segir að þau gögn sem kærandi sendi meðfylgjandi kærunni til málskotsnefndar leiði til þess að kærandi teljist uppfylla skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Með hliðsjón af því hafi mál kæranda verið tekið til endurskoðunar hjá sjóðnum og hafi kæranda verið veitt undanþága í samræmi við umsókn hennar.

Um málsmeðferð.

Ekki kemur fram hjá LÍN á hvaða lagaheimild var byggt við endurskoðun máls kæranda hjá LÍN þegar hin nýja ákvörðun var tekin í janúar sl., þ.e. hvort um hafi verið að ræða endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einungis er heimil að fram kominni beiðni þar að lútandi frá viðkomandi, eða hvort LÍN hafi afturkallað fyrri ákvörðun samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga og tekið nýja ákvörðun í málinu.

Eins og fram kom í úrskurði málskotsnefndar í máli L-2/2019 eru LÍN takmörk sett við endurskoðun ákvörðunar sem sætt hefur kæru til málskotsnefndar og er til meðferðar hjá nefndinni. Heimildum stjórnvalda til að endurskoða eigin ákvarðanir er lýst í 23., 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum í frumvarpi til stjórnsýslulaga kemur fram að endurupptaka hjá lægra settu stjórnvaldi samkvæmt 24. gr. laganna sé ekki heimil hafi mál þegar verið kært til æðra stjórnvalds. Segir þar orðrétt: „Mál verður ekki endurupptekið ef einhver aðila þess hefur kært málið til æðra stjórnvalds áður en beiðni um endurupptöku málsins hefur komið fram.

Er þessi afstaða rakin til sjónarmiða um valdheimildir og lögsögu í stjórnsýslunni (litis pendens) er feli í sér að sama mál megi ekki vera til meðferðar hjá tveimur stjórnvöldum á sama tíma. Leiði af þessari reglu að um leið og kæra hefur borist æðra stjórnvaldi sé hið lægra ekki lengur valdbært til að ákvarða í málinu eða taka ákvörðun sína til endurskoðunar. Jafnframt að úrskurðarskylda hins æðra stjórnvalds haldist þó svo að hið lægra sett hafi tekið nýja ákvörðun í málinu.

Í fyrri málum hjá málskotsnefnd LÍN, sbr. t.d. mál L-29/2013, þar sem sú aðstaða hefur komið upp að stjórn LÍN hefur ákveðið að breyta ákvörðun eftir að málið hefur verið kært til málskotsnefndar hefur nefndin frávísað kærunni eftir að LÍN hefur tilkynnt um að hin kærða ákvörðun hafi verið endurskoðuð. Málskotsnefnd telur það vera í betra samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins að í slíkum tilvikum sendi hið lægra setta stjórnvald, þ.e. stjórn LÍN, annað hvort nýjar athugasemdir í málinu þar sem því er lýst yfir að hinu æðra setta stjórnvaldi sé rétt að endurskoða ákvörðunina eða í samráði við hið æðra stjórnvald verði kæranda leiðbeint um að draga kæru sína til baka og geti þá hið lægra setta tekið málið til endurskoðunar. Síðari leiðin kann að vera hagfelldari fyrir kæranda ef fyrir liggur að hann fái skjótari úrlausn sinna mála hjá lægra settu stjórnvaldi og eins og í tilviki kæranda í þessu máli þar sem ný gögn hafa verið lögð fram sem breyta afstöðu lægra setts stjórnvalds til málsins. Þó kann að vera rétt að halda meðferð 

málsins áfram hjá æðra settu stjórnvaldi telji það að gera þurfi frekari athugasemdir við meðferð málsins.

Samkvæmt framansögðu telur málskotsnefnd að fyrir liggi úrskurðarskylda í málinu, enda tilkynnti kærandi ekki málskotsnefnd um að hún drægi kæru sína til baka áður en stjórn LÍN tók málið til meðferðar að nýju. Telur málskotsnefnd því rétt með vísan til réttaröryggissjónarmiða að úrskurða í máli kæranda.

Um efnishlið málsins.

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: 

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. 

Nánar er kveðið á um skilyrði undanþágunnar í 7. mgr. 8. gr. laganna en þar segir m.a. að skuldari sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr. skuli leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli.

Í ákvörðunum LÍN í máli kæranda segir að því hafi ítrekað verið beint til kæranda að leggja fram nánar tilgreind gögn vegna meðferðar málsins. Ekki liggur fyrir af hvaða orsökum umbeðin gögn sem kærandi kvaðst hafa reynt að senda LÍN bárust ekki til sjóðsins. Vegna þessa lágu ekki fyrir gögn sem stjórnin taldi skipta máli, þ.e. gögn um heilsufar kæranda, þegar tekin var ákvörðun í máli kæranda og var LÍN rétt að synja beiðni kæranda um undanþágu.

Eins og fram hefur komið í athugasemdum LÍN er ágreiningslaust að kærandi sótti um undanþágu frá afborgunum fyrir tilskilinn frest. Þá er einnig ljóst að kærandi hafði tekjur undir þeim viðmiðum sem lýst er í reglum sjóðsins. Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram um heilsufar breyta grundvelli málsins. Þau staðfesta að hún uppfyllir skilyrði um undanþágu frá afborgunum sem voru á gjalddaga 1. mars 2018 og 1. mars 2019. Enn fremur liggur fyrir að LÍN hefur nú samþykkt að veita kæranda undanþága frá afborgun á gjalddaga 1. mars 2018 og 1. mars 2019. Er því fallist á beiðni kæranda um að veita henni undanþágu frá afborgunum á umræddum gjalddögum.

ÚRSKURÐARORÐ

Fallist er á beiðni kæranda um undanþágu frá afborgunum námsláns með gjalddaga 1. mars 2018 og 1. mars 2019.

 

Til baka