Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

Sjóðurinn kemur til móts við greiðendur og námsmenn vegna kórónaveirunnar (COVID-19)

19. mars 2020

Þær aðstæður sem nú eru uppi kalla á sveigjanleika af hálfu allra og því hefur stjórn sjóðsins í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið eftirfarandi ívilnanir fyrir greiðendur og námsmenn til að létta á áhyggjum þeirra af fjármálum vegna hugsanlegra aðstæðna sem komið geta upp á meðan á kórónuveirunni stendur eða í kjölfar hennar.

Greiðendur

Stjórn sjóðsins hefur samþykkt heimild fyrir sjóðinn að rýmka tímabundið heimildir hans við mat á umsóknum um undanþágu frá afborgun vegna verulegra fjárhagsörðugleika greiðenda vegna tekjumissis á þann veg að nú verði heimilt að horfa til tekna greiðanda síðustu tveggja mánaða fyrir gjalddaga og annarra sérstakra aðstæðna sem skapast hafa hjá greiðendum vegna kórónaveirunnar. Ef undanþága frá afborgun er samþykkt er umræddur gjalddagi felldur niður og færist aftur á höfuðstól lánsins.

Núgildandi tekjuviðmið eru kr. 4.470.000 fyrir greiðanda og kr. 8.940.000 fyrir greiðanda og maka á ársgrundvelli. Auk framangreinds hækka tekjuviðmið um kr. 430.000 fyrir hvert barn sem greiðandi er með á sínu framfæri.

Jafnframt hefur stjórn sjóðsins ákveðið að seinka innheimtuaðgerðum vegna tímabundinna vanskila á greiðslu námslána þannig að greiðendur fá nú tækifæri til að greiða gjalddagann næsta mánuð á eftir án dráttarvaxta og á því tímabili er greiðendum heimilt að óska eftir undanþágu frá afborgun ef ástæða er til. Þetta gildir um alla gjalddaga ársins 2020 þ.e. eftirstöðvar föstu afborgunarinnar 1. mars, föstu afborgunina hjá þeim sem eru að hefja greiðslur 30. júní, föstu afborgunina 1. júlí auk tekjutengdu afborgananna 1. september og 1. nóvember. Bent er hér á að hægt er að sækja um 6 mánaða greiðsludreifingu fyrir gjalddagana í mars, september og nóvember en hefðbundnir gjalddagar námslána eru tvisvar á ári.

Sækja þarf um undanþágu frá afborgun í gegnum Mitt Lán inn á heimasíðu sjóðsins og verða öll tilvik skoðuð og reynt að koma til móts við greiðendur.

Námsmenn

Stjórnin hefur nú þegar samþykkt heimild fyrir sjóðinn að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en vottorðum fyrir loknar einingar. Þetta er gert til þess að bregðast við aðstæðum nemenda sem mögulega geta ekki sinnt námi sínu vegna röskunar á hefðbundnu skólastarfi vegna kórónaveirunnar. Óski námsmaður þess verður tekið mið af umsóttum einingafjölda námsmanns í samræmi við lánsáætlun hans fyrir önnina. Það sama á við ef námsmaður veikist af veirunni og getur þess vegna ekki sótt skóla í lengri tíma þannig að það hafi áhrif á námsframvindu hans. Jafnframt verður hægt að sækja um auka ferðalán vegna sérstakra aðstæðna sem komið geta upp hjá námsmanni vegna kórónaveirunnar.

Jafnframt hefur stjórn sjóðsins samþykkt að lengja umsóknarfrest námslána sem er 15. apríl fyrir vorönn til 1. maí.

Þá ber þess að geta að afgreiðsla sjóðsins er lokuð á meðan á neyðarstigi Almannavarna stendur vegna kórónaveirunnar. Gögn sem þurfa að komast til sjóðsins má senda í pósti eða setja í póstkassa í anddyri.

Starfsmenn hvetja alla viðskiptavini sjóðsins að nýta sér rafræn samskipti við sjóðinn.

Til baka