Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2019 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurskoðun á útreikningi tekjutengdrar afborgunar

Ár 2020, miðvikudaginn 26. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-12/2019.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 18. október 2019 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 8. október 2019 þar sem beiðni kæranda um endurskoðun á útreikningi tekjutengdrar afborgunar 2019 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. október 2019 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 18. nóvember 2019 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Málskotsnefnd óskaði viðbótarupplýsinga frá stjórn LÍN þann 30. desember 2019 og bárust þær 10. janúar 2020. Voru þær sendar kæranda og henni gefinn kostur á að senda athugasemdir. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fer þess á leit að tekjutengd afborgun námsláns hennar verði endurútreiknuð. Kærandi er greiðandi af G-skuldabréfi vegna námsláns. Við útreikning á tekjutengdri afborgun 2019, svonefndri viðbótargreiðslu, var miðað við tekjur kæranda auk 50% af samanlögðum fjármagnstekjum kæranda og sambýlismanns hennar. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN þar sem fram kom að sambýlismaður hennar hefði haft háar fjármagnstekjur á árinu 2018 sem væru henni óviðkomandi. Leiddi þetta til þess að hún þyrfti að greiða rúmlega 25% af tekjuskattsstofni sínum í afborgun námslánsins. Dró kærandi í efa að þetta stæðist lög og fór þess á leit að afborgunin yrði endurútreiknuð. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með vísan til 8. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna ( hér eftir lög um LÍN).

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni lýsir kærandi því að sambýlismaður hennar hafi á árinu 2018 selt fyrirtæki og því verið með háar fjármagnstekjur. Andvirðið hafi farið inn á hans reikning og væri hans eign. Þau væru ekki gift og því ætti hún ekki neitt af þessum fjámunum og kæmi ekki til með að fá neitt af þeim kæmi til skilnaðar eða andláts hans. Væru þau í hjónabandi gæti hún skilið þessar reglur því þá væru fjármagnstekjurnar sameign þeirra. Kærandi telur reglur LÍN ekki standast og ekki geti verið að þær standist lög.

Í andmælabréfi kæranda kveður hún reglurnar vera tímaskekkju. Fyrirkomulagið hjá LÍN sé ekki í takt við nein önnur lög sem snúi að sambúðarfólki. Hjá fólki í sambúð sé enginn erfðaréttur eða skuldbindingar. Kærandi kveðst ekki vera að óska eftir undanþágu frá afborgun heldur aðeins að endurgreiðsla verði miðuð við tekjur hennar. Hún eigi í erfiðleikum með að greiða þetta og hafi ekki aðgang að tekjum sambúðaraðila síns.

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum LÍN segir að í skilmálum skuldabréfs kæranda komi skýrt fram að falli lánþegi undir skilyrði 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt skuli við ákvörðun tekjugrundvallar tekna samkvæm C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 miða við 50 hundraðshluta samanlagðra tekna lánþega og sambúðaraðila. Ekki skipti máli hvort tekjurnar séu séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. Sömu reglu sé að finna í 10. gr. laga um LÍN.  Stjórn sjóðsins hafi ekki heimild til að víkja frá skýrum ákvæðum laga um forsendur útreiknings afborgana námslána ár hvert. Hafi beiðni kæranda því verið synjað.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 8. gr. laga um LÍN kemur fram að árleg endurgreiðsla námslána LÍN ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum, hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og ákvarðast ákveðinn hundraðshluti af tekjustofni ársins á undan. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laganna er hundraðshluti sem reiknast af tekjustofni 3,75%. Í 10 gr. laganna eins og henni var breytt með lögum nr. 140/2004 segir síðan:

Þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi er með tekjustofni í lögum þessum átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Falli lánþegi undir skilyrði 62. gr. sömu laga skal við ákvörðun tekjugrundvallar tekna skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 miða við 50 hundraðshluta samanlagðra tekna lánþega og sambúðaraðila. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign.

Samhljóða ákvæði er í skilmálum skuldabréfs þess sem kærandi undirritaði 16. janúar 2006. Framangreindir endurgreiðsluskilmálar voru teknir upp í lög um LÍN með lögum nr. 140/2004 eins og áður greinir. Samhliða þessari breikkun tekjustofnsins var endurgreiðsluhlutfall lækkað úr 4,75% í 3,75%. Markmiðið með breytingunni var að m.a. að auðvelda greiðendum endurgreiðslu námslána í kjölfar þess að námi lýkur. Sagði í athugasemdum við lagafrumvarpið að breikkun tekjustofnsins væri stórt hagsmunamál lánþega. Áhrifin væru að almennt lækkaði árleg greiðslubyrði og mætti ætla að sú ráðstöfun kæmi sér sérstaklega vel fyrir greiðendur fyrstu árin að loknu námi. Fjármagnstekjur væru síðan mjög háðar aldri framteljenda og hækkuðu með aldri þeirra. Þá þótti rétt að við endurgreiðslu yrði einnig miðað við fjármagnstekjur en slíkar tekjur dreifðust almennt ójafnt á framteljendur, þ.e. tiltölulega fáir væru hverju sinni með stóran hluta heildarteknanna.

Í lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt segir um heimild einstaklinga í óvígðri sambúð til samsköttunar í 1. málslið, 3. mgr. 62. gr.:

Einstaklingar í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. 

Af framangreindu leiðir að lántakar hjá LÍN sem eru í óvígðri sambúð og hafa tekið lán hjá LÍN eftir að lögum um LÍN var breytt með lögum nr. 140/2004 þurfa ekki að sæta því að fjármagnstekjur sambýlisaðila verði teknar með til útreiknings tekjutengdrar afborgunar nema þeir hafi sjálfir óskað eftir því við skattyfirvöld að fá að telja fram og vera skattlagðir sem hjón. Samkvæmt upplýsingum LÍN er sú staða fyrir hendi í tilviki kæranda.

Fram kemur í bréfi LÍN til málskotsnefndar, dags. 10. janúar 2020, að LÍN óski ár hvert eftir tekjuupplýsingum frá RSK. Eingöngu sé óskað eftir staðfestum upplýsingum vegna greiðanda óháð því hvort hann sé í sambúð eða ekki. Ef greiðandi er ekki í sambúð eða í sambúð en ekki samskattaður með sambúðaraðila fái sjóðurinn engar aðrar upplýsingar en tekjur greiðanda sjálfs. Sé greiðandi hins vegar samskattaður og sambúðaraðili hefur haft fjármagnstekjur teljist tekjur sambúðaraðila einnig vera tekjur greiðanda. Fjármagnstekjur sambúðaraðila sem og fjármagnstekjur greiðanda séu því hluti af tekjustofni greiðanda við útreikning á tekjutengdri afborgun.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi og sambýlismaður hennar hafa farið þess á leit við skattyfirvöld að vera skattlögð sem hjón samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003 í framtali 2019 vegna tekna ársins 2018. Í 8. gr., sbr. 10. gr. laga um LÍN, sbr. og skilmála skuldabréfs sem kærandi undirritaði, segir að ákveða skuli tekjutengda afborgun sem hlutfall af tekjustofni ársins á undan. Sé viðkomandi samskattaður með sambýlisaðila teljist til tekjustofnsins 50% samanlagðra tekna lánþega og sambúðaraðila samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. fjármagnstekjur. LÍN hefur ekki heimildir til að veita undanþágu frá framangreindu viðmiði sem er skýrt og ótvírætt og gildir um sambúðarfólk en þó einungis í þeim tilvikum sem það hefur sjálft óskað samsköttunar.

Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar stjórnar LÍN er því staðfest.  

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 8. október 2019 er staðfest.

Til baka