Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2019 - Ábyrgðir - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Ár 2020, miðvikudaginn 9. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-14/2019.

Kæruefni 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 4. desember 2019 kærðu kærandi A og kærandi B, ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 9. september 2019 um að hafna erindi kærenda um niðurfellingu á ábyrgð þeirra á vanskilaskuldabréfi sem gefið var út af lántaka hjá LÍN 27. febrúar 2010 vegna vanskila hans á skuldabréfi sem gefið var út vegna námsláns nr. S-960409 og vanskila á vanskilaskuldabréfi sem gefið var út árinu 2007 vegna sama námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 5. desember 2019 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 9. janúar 2020 og var afrit þess sent umboðsmanni kærenda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Athugasemdir frá umboðsmanni kærenda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 10. febrúar 2020. Voru þær framsendar stjórn LÍN samdægurs. Stjórn LÍN sendi viðbótarathugasemdir í málinu 18. febrúar 2020. Voru þær sendar umboðsmanni kærenda sem sendi frekari athugasemdir 18. mars 2020. Voru þær framsendar stjórn LÍN. Stjórn LÍN sendi þann 23. mars 2020 frekari gögn vegna málsins til málskotsnefndar, þ.e. innheimtubréf og ítrekanir sem sendar höfðu verið kærendum í aðdraganda þess að lántaki gaf út vanskilaskuldabréf það sem ágreiningur stendur um í þessu máli. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga í málinu 27. mars 2020 og sendi LÍN umbeðin gögn 30. mars 2020. Voru þau framsend umboðsmanni kærenda. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna frá LÍN þann 6. maí 2020 (afrit af áritaðri stefnu 2010) og voru umbeðin gögn send nefndinni 8. sama mánaðar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að á árunum 1987-1992 tók lántaki Þorvaldur ellefu svonefnd T-lán hjá LÍN með undirritun jafnmargra skuldabréfa. Í kerfi LÍN voru skuldabréfin innheimt saman undir lánsnúmerinu S-960409. Kærandinn A var ábyrgðarmaður á þeim lánum. Vanskil urðu á greiðslu afborgana af láninu og 16. apríl 2007 var gefið út skuldabréf merkt 0111-64-311735 vegna vanskilanna samtals að fjárhæð 950.000,- krónur. Kærendur A og B gengust báðir í sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu. Enn urðu vanskil af hálfu skuldara bæði á upphaflegu námsláni S-960409 og vanskilaskuldabréfi 0111-64-311735. LÍN gjaldfelldi vanskilaskuldabréfið og stefndi kærendum í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. nóvember 2009. Var stefnan árituð um aðfararhæfi þann 4. mars 2010. Samþykktar dómkröfur voru eftirstöðvar skuldabréfsins með samningsvöxtum, samtals 705.404,- krónur auk bankakostnaðar 1.920,- krónur og málskostnaður 100.000,- krónur.

Þann 27. febrúar 2010 var gefið út nýtt vanskilaskuldabréf með lánsnúmerinu 0111-64-105570 (áður merkt 0111-64-311805) samtals að fjárhæð 2.060.000,- krónur. Var lántaki skuldari bréfsins. Eins og fram kemur í „Upplýsingum til ábyrgðarmanns“ sem A undirritaði við það tilefni var nýja skuldabréfið gefið út vegna annars vegar vegna vanskilaskuldabréfs nr. 0111-64-311735 sem A og B höfðu báðir verið ábyrgðarmenn og hins vegar vegna vanskila lántaka á afborgunum námsláns S-960409 sem einungis A var ábyrgðarmaður að.

Nýja skuldabréfið er ódagsett en talið að það hafi verið gefið út þennan dag og eins og áður greinir gengust báðir kærenda í sjálfskuldaábyrgð á greiðslu þess. Vegna útgáfu skuldabréfsins var skuldastaða lántaka könnuð hjá Creditinfo og kæranda A var afhent blað merkt „Upplýsingar til ábyrgðarmanns“ sem hann undirritaði. Þar sagði að LÍN hafi upplýst viðkomandi um greiðslugetu lántaka samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram komi í meðfylgjandi skjali sem mun hafa verið útprentun Creditinfo á skuldastöðu lántaka. Ekki liggur fyrir í málinu neitt slíkt blað undirritað af ábyrgðarmanni B. LÍN kannaði ekki frekar fjárhag lántaka eða ábyrgðarmanna.

Þann 9. maí 2019 óskuðu kærendur eftir því með bréfi til stjórnar LÍN að ábyrgð þeirra á skuldabréfi 0111-64-105570 yrði felld niður. Vísuðu þeir til þess að ekki hefði verið farið eftir fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn við veitingu ábyrgðanna. Deildarstjóri innheimtudeildar LÍN synjaði erindi kærenda og benti þeim á að bera málið undir stjórn LÍN. Kærendur sendu erindi til stjórnar LÍN 12. júlí 2009 þar sem þeir ítrekuðu kröfur sínar. Stjórn LÍN hafnaði þeirri beiðni með hinni kærðu ákvörðun.

Sjónarmið kærenda

Kærendur byggja á því að afgreiðsla LÍN á skuldabréfi 0111-64-105570 og aðdraganda þess að þeir gengust í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar lántaka hafi ekki verið í samræmi við lög um ábyrgðarmenn. LÍN hafi ekki framkvæmt fullgilt greiðslumat á lántaka líkt og LÍN hafi borið að gera í samræmi við 4. gr. laga 32/2009. Hefði LÍN sinnt þeirri skyldu sinni að framkvæma greiðslumat á skuldaranum kynni að hafa hvílt sú skylda á LÍN að ráða ábyrgðarmönnum frá því að gangast í ábyrgð ef niðurstaða slíks mats hefði bent til þess að skuldari gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Þá hafi LÍN ekki kynnt ábyrgðarmönnum sérstaklega greiðslugetu skuldara þó svo að slík fullyrðing hefði komið fram í skuldaskjalinu. Kærendur kannist ekki við að hafa fengið í hendur upplýsingar um greiðslugetu skuldara og svo virðist sem slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir hjá LÍN. Telji kærendur slíka annmarka vera á öflun sjálfskuldarábyrgðanna að fella beri þær úr gildi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (samningalaga).

Kærendur vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 190/2017. Þó um hafi verið að ræða opið skuldabréf í því máli breyti það engu um skyldu LÍN til að framkvæma fullgilt greiðslumat á skuldara. Þá komi það skýrt fram í dóminum að þó svo að skuldari og ábyrgðarmaður tengdust fjölskylduböndum leysti það LÍN ekki undan þeirri skyldu sinni að framkvæma greiðslumat.

Kærendur árétta enn fremur:

 1. Að fyrri vanskil aðalskuldara og fyrri sjálfskuldaábyrgðir kærenda séu málinu óviðkomandi nema að því leyti að með útgáfu hins ódagsetta skuldabréfs taldist útgefandinn ekki lengur vera í vanskilum við LÍN. Um var að ræða nýja skuldbindingu aðalskuldara þar sem höfuðstóll bréfsins tók til allra vanskila aðalskuldara við LÍN.
 2. Veðskuldabréfið er ódagsett en óumdeilt sé að það hafi verið gefið út 27. febrúar 2010 og keypt inn í kerfi LÍN, þ.e. eftir gildistöku laga nr. 32/2009.
 3. Lög nr. 32/2009 gildi um ábyrgðina enda sé vísað til laganna í skuldabréfinu. Í skuldabréfinu komi einnig fram að ábyrgðarmenn hafi verið upplýstir um greiðslugetu aðalskuldara og að þeir hafi undirritað sérstaka yfirlýsingu þess efnis. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins að kærandi B hafi verið upplýstur á nokkurn hátt um fjárhagsstöðu lántaka eða að hann hafi undirritað slíkt skjal.
 4. Fyrir liggi að kærandi A hafi undirritað skjal sem merkt sé „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009.“
 5. LÍN geti ekki byggt ábyrgðarsamning á lögum nr. 32/2009 en á sama tíma haldið því fram að lögin gildi ekki um ábyrgðarveitinguna.
 6. Hafnað er sjónarmiðum LÍN sem fram hafi komið í tölvupósti 5. júní 2019 um að kærendur hafi báðir gengist í ábyrgð á skuldbindingum lántaka fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 og þannig hafi LÍN ekki borið að framkvæma greiðslumat.
 7. Í dómi Hæstarréttar í máli nr. 190/2017 komi fram að LÍN hafi verið skylt að framkvæma greiðslumat samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009.
 8. Í dómi Hæstaréttar komi fram eftirfarandi:

Verður og að gæta að því að atriði, sem valdið gætu að umsækjandi um námslán teldist ekki fullnægja skilyrðum áfrýjanda um lánshæfi, svo sem vanskil á afborgun af eldra láni frá áfrýjanda eða færsla á vanskilaskrá vegna vanefnda á skuldbindingu við annan lánardrottin, þyrftu ekki um leið að valda því að umsækjandinn teldist að gerðum útreikningi ófær í framtíðinni um að endurgreiða lán frá áfrýjanda og stæðist þar með ekki greiðslumat. Þótt aðstæður umsækjenda um lán frá áfrýjanda kunni í mörgum tilvikum að vera með þeim hætti vegna ungs aldurs þeirra og takmarkaðrar þátttöku á vinnumarkaði að örðugt sé að koma við mati af framangreindum toga á greiðslugetu þeirra í framtíð, sem á þó ekki við um það tilvik sem mál þetta varðar, getur áfrýjandi ekki á þeim grunni látið gagnvart skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 með öllu ógert að gera slíkt mat, þótt á takmörkuðum forsendum yrði byggt, og stuðst þess í stað eingöngu við lánshæfismat sitt.“

 1. LÍN hafi borið að framkvæma greiðslumat samkvæmt viðurkenndum viðmiðum líkt og skírskotað sé til í 2. málslið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 áður en ábyrgðarmenn gengust í ábyrgð fyrir lánveitingunni.
 2. Bent sé á að 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis – og greiðslumat geti ekki átt við gagnvart ábyrgðarmönnum heldur einungis aðalskuldara. Undanþágur frá gerð greiðslumats séu nánar útfærðar í reglugerðinni. Þær undanþágur eigi ekki við í þessu máli. Í 3. gr. komi fram að ávallt skuli framkvæma greiðslumat áður en lánssamningur sé gerður þar sem trygging sé veitt í ábyrgðarformi eða með veði í eign annars en aðalskuldara. Það sé meginreglan.
 3. Þá vísa kærendur til úrskurðar málskotsnefndar LÍN í máli L-3/2014 sem þeir telja að eigi við fullum fetum enda sé útgáfudagur umrædds skuldabréfs eftir gildistöku laga nr. 32/2009.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sem koma fram í kærunni og bréfum kærenda til stjórnar LÍN dags. 9. maí og 12. júlí 2019 krefjast kærendur þess að framangreindar sjálfskuldarábyrgðir verði felldar niður.

Í andmælabréfi kæranda segir eftirfarandi:

 1. Með skuldabréfinu 27. febrúar 2010 voru allar skuldir lántaka skv. skuldabréfi nr. 311735 og S-960409 greiddar upp. Voru þau greidd upp með skuldabréfi nr. 0111-64-105570 sem sé það skuldabréf sem um ræðir í málinu.
 2. Fullnaðargreiðsla sem LÍN vísi til í svörum sínum hafi átt sér stað þegar LÍN keypti hið nýja skuldabréf inn í lánakerfi sitt. Fullnaðargreiðslan hafi því verið í formi nýrrar kröfu sem nefnist „novation“ í kröfurétti og teljist jafngild efnd kröfu eins og hún sé efnd „in natura“.  Kærendur hafi gengist í ábyrgð fyrir hinu nýja skuldabréfi en Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 190/2017 að LÍN hafi ekki fullnægt skyldum sínum í samræmi við lög nr. 32/2009 og vikið samskonar sjálfskuldarábyrgð til hliðar. Hafi 
 3. Skuldabréfið frá 27. febrúar 2010 sé sjálfstætt viðskiptabréf og andvirði þess nýtt til uppgreiðslu á öðrum skuldabréfum sem þá töldust uppgreidd og hafi væntanlega verið árituð sem slík.
 4. Engin lagaheimild sé fyrir því að tengja skuldabréfin saman á þann hátt sem LÍN hafi gert, enda sé ekki um að ræða skilmálabreytingu eða greiðslufrest á hinum eldri skuldabréfum. Sé slík samtvinnun með öllu haldlaus og í beinni andstöðu við eðli viðskiptabréfa líkt og skuldabréfa
 5. Kjarni málsins sé einfaldlega sá að lántaki hafi gefið út nýtt skuldabréf eftir gildistöku laga nr. 32/2009 og gildi þau því um ábyrgðina.
 6. Með uppgreiðslu á eldri skuldabréfum hafi ábyrgðarskuldbindingum kærenda samkvæmt þeim lokið. Vísa kærendur í dóma Hæstaréttar í máli nr. 150/1995 en þar hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að byggja á eldri sjálfskuldarábyrgð sem ætti rót að rekja til sama efnis ef ný skuldbinding hafi tekið við. Í því máli hafi ábyrgðarskuldbindingin snúið að leigusamningi um lausamun en ætla megi að skilin séu enn skýrari þegar um væri að ræða uppgreiðslu á skuldabréfi.
 7. Þá mótmæli kærendur því að útgáfa skuldabréfs nr. 0111-64-105570 þann 27. febrúar 2010 hafi verið skilmálabreyting á eldri skuldum lántaka. Um hafi verið að ræða nýtt skuldabréf sem greiddi upp eldri skuldir lántaka og hafi kærendur gengist í ábyrgðina eftir gildistöku laga nr. 32/2009.
 8. Kærendur mótmæli einnig framsetningu LÍN eins og hún hafi komið fram í athugasemdum LÍN 9. janúar 2020 sem rangri og haldslausri. Hið nýja skuldabréf hafi annað lánsnúmer, sé verðtryggt með grunnvísitölu útgáfumánaðar þess og af því hafi verið greitt stimpilgjald. Sé það jafnframt með töluvert lengri líftíma sem hafi áhrif á stöðu sjálfskuldarábyrgðaraðila.
 9. Benda kærendur á að skuldabréfið beri því öll merki þess að um nýtt skuldaskjal sé að ræða en ekki viðauka eða skilmálabreytingu á eldri námslánaskuld. Skuldabréfið sé samið einhliða af hæstaréttarlögmanni á vegum LÍN sem hafi talið ástæðu til að tilgreina sérstaklega að lög nr. 32/2009 eigi við um skuldabréfið. LÍN geti ekki vikið sér undan þeirri staðreynd með sínum eigin skýringum og túlkunum á hvers kyns löggerningur hafi átt sér stað 27. febrúar 2010. Verulega rúm skýring LÍN á því hvað teljist skilmálabreyting eigi sér ekki stoð í reglum um viðskiptabréf. 
 10. Kærendur hafi gengist í ábyrgð fyrir hinu nýja skuldabréfi en Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 190/2017 að LÍN hafi ekki fullnægt skyldum sínum í samræmi við lög nr. 32/2009 og vikið samskonar sjálfskuldarábyrgð til hliðar. Hafi kærendur mátt treysta því að LÍN færi að lögum í starfsemi sinni. Kærandi A hafi undirritað skjal merkt „Upplýsingar til ábyrgðarmanna“ þar sem fram komi að hann hafi verið upplýstur um greiðslugetu lántaka sbr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Kæranda A reki þó ekki minni til að hafa verið upplýstur um greiðslugetu lántaka og það megi lesa úr andsvörum LÍN að slíkar upplýsingar hafi aldrei verið teknar saman. Af skjalinu megi þó ráða að LÍN hafi skilyrðislaust átt að framkvæma greiðslumat hjá aðalskuldara og eftir atvikum ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgðina ef aðstæður skuldara gæfu tilefni til. Kæranda B reki ekki minni til að samskonar skjal hafi verið lagt fyrir hann en útiloki það þó ekki. Hafi kærendur undirritað ábyrgðarskuldbindinguna í góðri trú um að LÍN færi að lögum í starfsemi sinni. Hafi þeir treyst því að aðalskuldari nyti lánstrausts hjá LÍN þrátt fyrir fyrri vanskil, að LÍN hefði raunverulega kannað greiðslugetu hans í samræmi við lög og til þess að framkvæma það mat hefði LÍN haft undir höndum skjalleg gögn um skuldastöðu og greiðslustöðu.
 11. Kærendur hafna fullyrðingum LÍN um að skilmálabreyting lánsins hafi verið til hagsbóta fyrir aðalskuldara og þannig einnig fyrir ábyrgðarmenn. Án fullnægjandi upplýsinga um fjárhag og greiðslugetu skuldara hafi ekkert verið hægt að fullyrða um hagsmuni kærenda. Niðurstaða greiðslumats gæti hafa verið viðráðanleg fyrir skuldara og öllum í hag að hann fengi nýtt lán til að gera upp eldra bréf sem annars hefði safnað meiri kostnaði en niðurstaðan gæti einnig hafa verið óviðráðanleg fyrir skuldara og ábyrgðarmönnum í hag að gera skuldina upp hið fyrsta. Án þess að gera greiðslumat á aðalskuldara hafi verið ómögulegt að komast að því hvor kosturinn hentaði ábyrgðarmönnum.

Í viðbótarathugasemdum 18. mars 2020 benda kærendur á að LÍN virðist hafa fallið frá þeirri afstöðu sinni að lög nr. 32/2009 eigi ekki við og líti kærendur því svo á að LÍN viðurkenni að lögin eigi við um lánveitinguna 27. febrúar 2010. Ítreka kærendur fyrri athugasemdir um að LÍN hafi ekki farið að lögum í málinu og benda á að aðstaða við samningsgerðina hafi verið með þeim hætti að kærendur hafi ekki með réttmætum hætti getað metið kosti sína um hvort skynsamlegt hafi verið að gangast í ábyrgð eða takmarka tjón sitt með því að gera upp fyrri vanskil. Að því leyti með vísan til 36. gr. samningalaga sé það ósanngjarnt af LÍN að bera fyrir sig ábyrgðina. Beri því að fella veittar ábyrgðir niður. Séu öll skilyrði til beitingar ógildingarreglunnar fyrir hendi í málinu.

Sjónarmið LÍN

LÍN bendir á að á árinu 2007 hafi kærendur í sameiningu tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á vanskilaskuldabréfi nr. 011-64-311735 vegna vanskila lántaka á námsláni nr. S-960409. Lántaki hafi síðan aftur lent í vanskilum bæði á vanskilaskuldabréfinu og námslánaskuldabréfi nr. S-960409. Á árinu 2010 hafi því fyrri skuldbindingum lántaka verið skilmálabreytt í nýtt skuldabréf nr. 0111-64-105570 (B539). Hafi upphaflegur höfuðstóll lánsins frá 2010 verið 1.974.165,- krónur. Lánið sé nú í vanskilum og hafi innheimta beinst að kærendum sem ábyrgðarmönnum.

Eitt af úrræðum sem LÍN bjóði þegar lán lendi í vanskilum sé að skilmálabreyta með útgáfu vanskilaskuldabréfs. Skilyrði sé að ábyrgðarmenn samþykki og skrifi undir skilmálabreytinguna sem ábyrgðarmenn. Kærendum hafi verið fullkunnugt um að fyrra vanskilaskuldabréf hafi verið í vanskilum og hafi innheimtu verið beint gagnvart þeim til greiðslu þeirra vanskila. Vanskilaskuldabréfið hafi ekki verið ný skuldbinding kærenda heldur hafi það verið gefið út vegna eldri ábyrgðarskuldbindinga þeirra sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laga um ábyrgðarmenn. Hafi sjóðnum því ekki borið skylda til að framkvæma greiðslumat samkvæmt 12. gr. laga nr. 32/2009.

LÍN vísar til þess að umboðsmaður kærenda hafi vísað til reglugerðar nr. 920/2013 sem ekki hafi tekið gildi þegar umþrætt skilmálabreyting hafi verið gerð í byrjun árs 2010. Þótt reglugerðin taki ekki til þeirra ábyrgðarskuldbindinga sem hér um ræði þyki nauðsynlegt vegna umfjöllunar kærenda að benda á að í 1. mgr. 4. gr. sé fjallað um undanþágur frá lánshæfismati þar sem fram komi að hvorki sé skylt að framkvæma lánshæfis- né greiðslumat við skilmálabreytingu lánasamnings ef breytingin er ábyrgðarmanni ekki í óhag. Ekki sé hægt að halda öðru fram en að það sé ábyrgðarmönnum í hag að skuldari semji um vanskil svo lán hans gjaldfalli ekki og falli í heild sinni á ábyrgðarmennina.

Þá tekur LÍN fram að þó svo að vísað sé í lög nr. 32/2009 í skuldabréfinu frá 2009 og annar kærenda hafi fengið í hendur upplýsingablað ábyrgðarmanna breyti það ekki þeirri staðreynd að lögin eigi ekki við um ábyrgðarskuldbindingar kærenda sem deilt sé um í málinu. Þegar litið sé til málsins í heild sinni sé það mat stjórnar LÍN að það sé hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að sjóðurinn beri fyrir sig sjálfskuldaábyrgðir kærenda, sbr. 36. gr. samningalaga.

Í viðbótarathugasemdum vísar LÍN til þess að lög nr. 32/2009 hafi ekki að geyma sjálfstæða ógildingarreglu heldur þurfi skilyrði 36. gr. samningalaga að vera uppfyllt. Um sé að ræða hefðbundinn ábyrgðarsamning sem kærendur hafi undirgengist áður og hafi þeir því þekkt efnislega þýðingu hans. Ekki felist í samningnum neinar óvenjulega íþyngjandi skuldbindingar umfram aðra ábyrgðarsamninga. Með því að gangast í hinar nýju ábyrgðarskuldbindingar losnuðu kærendur undan eldri ábyrgðarskuldbindingum, annar kærenda að öllu leyti en hinn að hluta. Áður en til þess hafi komið hafi kærendur margsinnis fengið innheimtubréf með tilkynningum um vanskil lántaka. Engu hefði breytt um ákvörðun þeirra þótt greiðslumat hefði verið framkvæmt því kærendum hafi verið kunnugt um greiðsluörðugleika lántaka.

LÍN hafnar því að hæstaréttardómur frá 26. apríl 1996, sem kærendur vísa til, eigi við í málinu. Það ábyrgðarloforð sem sækjandi í því máli reisti rétt sinn á hafi verið gefið til efnda á samningi A og hafi eðli málsins samkvæmt ekki verið talið gilda um nýjan samning B. Í því máli hafi kærendur verið í ábyrgð samkvæmt ábyrgðarloforði A fyrir samningi A. Hafi ábyrgðarloforð A fallið niður þegar samningur A hafi fallið niður. Á sama tíma hafi þeir gefið nýtt ábyrgðarloforð B til tryggingar á réttum efndum á samningi B.

Niðurstaða stjórnar sé i samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN. Er farið fram á að ákvörðun stjórnar LÍN verði staðfest.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Í 5. mgr. 6. gr. laganna segir að námsmenn sem fái lán úr sjóðnum skuli undirrita skuldabréf við lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist námsmaður ekki lánshæfur, geti hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi, þar með talda sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess, allt að tiltekinni fjárhæð. Fyrir gildistöku laga nr. 78/2009 um breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN, var í gildi það fyrirkomulag að námsmenn skyldu almennt leggja fram sjálfsskuldarábyrgð þriðja manns fyrir þeim námslánum sem þeir sæktu um. Þetta fyrirkomulag var afnumið og þess stað kveðið á um að þeir námsmenn, sem ekki teldust lánshæfir samkvæmt reglum LÍN, gætu lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn teldi viðunandi. Af athugasemdum við það frumvarp sem varð að breytingalögum nr. 78/2009 er ljóst að með breytingunum var markmiðið að hver námsmaður ætti almennt sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námsláns. Í þágu þeirra námsmanna, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði, væri þeim möguleika viðhaldið að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns eða þá að lögð væri fram bankatrygging eða veðtrygging. Til viðbótar getur komið til í starfsemi LÍN að námsmenn lendi í vanskilum og sjóðurinn bjóði þeim að gera þau upp með skuldabréfi á markaðskjörum. Við það tilefni er námsmanni gert að afla ábyrgðarmanna vegna skuldbindingarinnar.

Starfsemi LÍN er fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.

Lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tóku gildi 4. apríl 2009. Fólu lögin í sér þá breytingu gagnvart LÍN að frá þeim tíma var sjóðnum skylt að meta hæfi lántaka til að standa í skilum þegar óskað var sjálfskuldarábyrgðar þriðja manns á skuldbindingum lántaka. Óumdeilt er að fram til þess tíma bar LÍN ekki skylda til að láta framkvæma slíkt mat, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 196/2015.

Í lögum nr. 32/2009 kemur fram að markmið þeirra er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Í 4. gr. laganna kemur fram að lánveitandi skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skal greiðslumatið byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Í 5. gr. laganna segir að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skuli lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í 6. gr. laganna segir að ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og í honum skuli getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðast þær sem hluti samningsins.

Í lögunum er ekki kveðið nánar á um með hvaða hætti lánveitandi skuli standa að athugun sinni samkvæmt 4. gr. laganna á því hvort lántaki geti efnt skuldbindingar sínar eða með hvaða hætti hann skuli kanna hvort aðstæður ábyrgðarmanns gefi tilefni til þess að rétt sé að ráða honum frá því að undirgangast ábyrgð. Í athugasemdum við ákvæði 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/2009 kemur hins vegar fram að löggjafinn hafi ekki talið þörf á því að slá föstum þeim viðmiðum sem leggja bæri til grundvallar við greiðslumat, enda gæti framkvæmd í þeim efnum verið háð blæbrigðum meðal lánveitenda. Aðalatriðið væri að matið væri forsvaranlegt og byggðist á viðurkenndum viðmiðunum. Í því samhengi er nefnt að forsenda þess að lánveitandi geti rækt skyldur sínar gagnvart ábyrgðarmanni sé að hann hafi lagt mat sitt á greiðslugetu lántaka. Í athugasemdum við ákvæði 5. gr. í frumvarpinu segir að markmið ákvæðisins sé að ábyrgðarmaður geri sér grein fyrir þeirri fjárhagslegu áhættu sem hann undirgengst samfara undirritun ábyrgðarsamnings og að upptalningin sé ekki tæmandi um hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir við gerð ábyrgðarsamnings. Aðalatriðið við skýringu á því hvort lánveitandi hafi uppfyllt skyldu sína sé komin undir því hvort upplýst hafi verið um öll þau atriði sem áhrif geta haft á áhættumat ábyrgðarmanns. Vanræksla lánveitanda við samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður sé ekki bundinn við samning sinn, a.m.k. ekki ef vitneskja um atriði hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Í athugasemdum við ákvæði 5. gr. er sérstaklega áréttað að sönnunarbyrðin um að vanræksla hafi engin áhrif haft á ákvörðun ábyrgðarmanns hvíli á lánveitanda. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 190/2017 segir að viðteknar venjur hafi myndast í starfsemi fjármálafyrirtækja um hvert efni greiðslumats skuli vera. Ljóst sé að inntak þeirra venja birtist í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat. Yrði að líta svo á að þetta væru þau viðurkenndu viðmið sem skírskotað væri til með berum orðum 2. málsliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Beitti rétturinn þannig þessum viðmiðum við mat á ábyrgð sem undirrituð var á árinu 2010.

Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kærenda er vísað til þess að útgáfa skuldabréfsins hafi einungis falið í sér skilmálabreytingu á eldri skuldbindingum þar sem umræddir ábyrgðarmenn höfðu þegar gengist í ábyrgð á fyrra vanskilaskuldabréfi skuldara og að ábyrgðarmaður A hafi einnig verið ábyrgðarmaður að upprunalega skuldabréfinu S-960409. Þá hafi verið ljóst að nýja skuldabréfið sem gefið var út eftir að lög nr. 32/2009 tóku gildi hafi verið vegna ábyrgðarskuldbindinga sem kærendur höfðu þegar tekið á sig fyrir gildistöku laganna. Ekki hafi því verið stofnað til nýrra ábyrgðaskuldbindinga og því ekki lögbundið fyrir LÍN að framkvæma greiðslumat, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2009. Í viðbótarathugasemdum stjórnar LÍN segir þó að með því að gangast í hinar nýju ábyrgðir hafi kærendur losnað undan eldri ábyrgðarskuldskuldbindingum, annar að fullu en hinn að hluta.

LÍN og kærendur hafa vísað til undanþága frá lánshæfis- og greiðslumati samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat sem tók gildi 18. október 2013, þ.e. eftir að kærendur tók á sig hina umþrættu ábyrgð á greiðslu síðara vanskilaskuldabréfsins. Í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 segir að ráðherra sé með reglugerð heimilt að undanþiggja tiltekin form ábyrgða gildissviði laganna. Að mati nefndarinnar geta slíkar undanþágur ekki átt við gagnvart kærendum sem gengust undir ábyrgðarskuldbindingar sínar fyrir gildistöku reglugerðarinnar, að svo miklu leyti sem slíkt geti talist vera íþyngjandi fyrir þá. Málskotsnefnd telur að í reglugerðinni sé endurspegluð sú meginregla 6. gr. laga nr. 32/2009 að við íþyngjandi breytingar á ábyrgðarskuldbindingum, m.a. hærri lánsheimild eða framlengingu lánstíma, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, skuli framkvæma lánshæfis- og greiðslumat hjá skuldara. Þá er í reglugerðinni gerður greinarmunur á skilmálabreytingum og nýjum lánum sem veitt eru til endurfjármögnunar. Í síðar tilvikinu, sbr. 3. mgr. 4. gr.,er einungis veitt undanþága frá lánshæfis- og greiðslumati þegar „breytingin hefur í för með sér lækkun á heildargreiðslubyrði.“

Í máli þessu liggur fyrir að vanskilaskuldabréfið frá 2007 hafði verið gjaldfellt og kærendum stefnt til greiðslu sem ábyrgðarmönnum. Um var að ræða skuldabréfamál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og útivist hafði orðið af hálfu stefndu. Því mátti gera ráð fyrir að kærendur ásamt aðalskuldara yrðu dæmdir til greiðslu skuldarinnar með áritun þess efnis, enda varð sú raunin þann 4. mars 2020, þ.e. nokkrum dögum eftir undirritun um ábyrgð kærenda á nýja vanskilaskuldabréfinu, að stefna LÍN gegn kærendum var árituð um aðfararhæfi. Hið nýja vanskilaskuldabréf var gefið út að hluta til vegna fjármögnunar skuldara á greiðslu á dómkröfu LÍN á hendur honum og kærendum A og B vegna eldra vanskilaskuldabréfs. Fólu skilmálar hins nýja bréfs í sér að kærendur tóku ábyrgð á láni sem var til 10 ára sem kom í stað hins gjaldfellda skuldabréfs. Liggur því fyrir að um aukinn lánstíma var að ræða.

Hið nýja vanskilaskuldabréf fól einnig í sér að hluta til fjármögnum til uppgreiðslu vegna vanskila á afborgunum S-námsláns sem A var ábyrgðarmaður að og voru gjaldkræfar. Fól undirritun A um ábyrgð á nýja skuldabréfinu þannig einnig í sér framlenginu á greiðslutíma vegna gjaldfallinna afborgana S-lánsins. Með undirritun ábyrgðarinnar á nýja skuldabréfið gekkst kærandi B undir víðtækari skuldbindingar en áður þar sem hann hafði, ólíkt A, ekki verið í ábyrgð fyrir greiðslu skuldabréfs lántaka vegna S-lánsins.

Með vísan til ofanritaðs verður ekki talið að þær undanþágur frá lánshæfis- og greiðslumati sem LÍN hefur vísað til geti átt við í tilviki kærenda. Þá bendir málskotsnefnd á að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2270/2015 LÍN gegn T.T. (ábyrgðarmanni námsláns) var það ekki talið skipta máli fyrir skyldu LÍN til að framkvæma greiðslumat að ábyrgð á vanskilaskuldabréfi ætti rætur að rekja til eldri skulda.

Með vísan til framanritaðs verður að telja að LÍN hafi borið samkvæmt lögum nr. 32/2009 að framkvæma greiðslumat vegna útgáfu á vanskilaskuldabréfi nr. 0111-64-105570 í febrúar 2010 og kynna niðurstöðu þess fyrir kærendum. Sú könnun á skuldastöðu lántaka með athugun á vanskilaskrá sem LÍN framkvæmdi við það tilefni fullnægir ekki kröfum þeim sem gerðar eru í lögum nr. 32/2009, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 190/2017, en ekki var lagt mat á greiðslugetu lántaka í samræmi við viðurkennd viðmið eins og áskilið er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009.

Þar sem fullnægjandi greiðslumat var ekki framkvæmt gat ekki komið til þess að LÍN væri í aðstöðu til að leggja mat á getu lántaka til að efna skuldbindingar sínar og þá eftir atvikum ráða kærendum frá því að taka á sig ábyrgðina. Getur því ekki reynt á hvort LÍN hafi brotið gegn 2. eða 3. mgr. 4. gr. laga nr 32/2009.

Kemur þá til athugunar sú krafa kærenda að slíkir annmarkar hafi verið á öflun sjálfskuldarábyrgða þeirra á skuldabréfi 0111-64-105570 að fella beri þær úr gildi með vísan til 36. gr. samningalaga. Telja kærendur ósanngjarnt af LÍN að bera fyrir sig umræddar ábyrgðarskuldbindingar. 

Í lögum nr. 32/2009 er ekki kveðið á um afleiðingar þess er lánveitandi hefur vanrækt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 2/2009. Þarf því að finna þeirri afleiðingu stoð í almennum reglum samningaréttar, einkum III. kafla samningalaga. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 190/2017 sem kærendur hafa vísað til var felld niður ábyrgðarskuldbinding móður sem veitt var á árinu 2010 á væntanlegum námslánum dóttur hennar. Svipuð staða var í máli L-3/2014 þar sem öldruð kona hafði gengist í ábyrgð á námsláni námsmanns hjá LÍN. Ekki var framkvæmt greiðslumat og taldi málskotsnefnd það leiða til niðurfellingar ábyrgðar.

Atvik í máli kærenda eru í atriðum sem máli skipta frábrugðin atvikum í ofangreindum málum. Láni því sem lántaki tók 27. febrúar 2010 var að fullu varið til greiðslu tveimur skuldbindingum lántaka ásamt kostnaði vegna vanskila, þ.e. annars vegar (a) dómkröfu vegna vanskila á eldra vanskilaskuldabréfa lántaka sem báðir kærenda voru ábyrgðarmenn á og hins vegar (b) til greiðslu á gjaldföllnum afborgunum S-láns lántaka (sameinuð skuldabréf T-lána merkt S-960409 í kerfi LÍN) en það var einungis kærandi A sem var ábyrgðarmaður á þessum T-skuldbréfum.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til þess við mat á sanngirni hvort láni hafi verið ráðstafað í þágu ábyrgðarmanns eða veðsala, sbr. m.a. mál nr. 169/2012 og 376/2013. Var í þessum málum ekki fallist á ógildingu veðs að svo miklu leyti sem lánsfjárhæð hafði verið varið til greiðslu lána sem áður hvíldu á hinni veðsettu eign. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2270/2015 LÍN gegn T.T. voru atvik sambærileg máli kærenda að því er lýtur að hluta skuldarinnar en LÍN hafði í því máli áður fengið aðfararhæfan dóm á hendur skuldara og ábyrgðamanni vegna vanskila á afborgunum námsláns. Var dómkrafan gerð upp með skuldabréfi en við það tilefni vanrækti LÍN að gera greiðslumat. Er vanskilaskuldabréfið fór í vanskil og málinu var stefnt fyrir héraðsdóm byggði ábyrgðarmaðurinn á því að vanræksla LÍN leiddi til þess að víkja bæri ábyrgð hans til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga. Dómurinn hafnaði þessari mótbáru með vísan til þess að í ljósi atvika yrði ekki talið að vanræksla LÍN á að kanna fjárhagslega hagi lántaka og getu ábyrgðarmannsins til að takast ábyrgðarskuldbindinguna á herðar hefði skipt sköpum um þá ákvörðun ábyrgðarmannsins að gangast í ábyrgð.

Þykir með vísan til ofangreindra fordæma að það sé ekki ósanngjarnt af LÍN að bera fyrir sig ábyrgðina gagnvart kærendum að því er lýtur að þeim hluta skuldabréfs nr. 0111-64-105570 sem varið var til uppgreiðslu á dómkröfu og kostnaði LÍN vegna gjaldfellingar skuldabréfs nr. 0111-64-311735 sem báðir kærenda voru ábyrgðarmenn á. Þá er ekki fallist á að það sé ósanngjarnt af LÍN að bera fyrir sig ábyrgðina gagnvart kæranda A að því er lýtur að uppgreiðslu vanskila og kostnaðar vegna S-láns (T-skuldabréfa) sem hann var ábyrgðarmaður að.

Með áritun sinni á skuldabréf nr. 0111-64-105570 tók kærandi B á sig auknar skuldbindingar að því er lýtur að þeim hluta kröfu LÍN sem rekja má til kostnaðar og vanskila lántaka á S-skuldabréfinu sem hann var ekki ábyrgðarmaður að. Með vísan til 36. gr. samningalaga er fallist á kröfu kæranda B um ógildingu ábyrgðarinnar á þeim hluta skuldabréfs nr. 0111-64-105570 sem er rekja má til kröfu LÍN vegna vanskila afborgana S-lánsins. Er LÍN falið að reikna út hve stór hluti ábyrgðar B fellur niður samkvæmt framansögðu.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 9. september 2019 er staðfest að því er lýtur að ábyrgð kæranda A á skuldabréfi nr. 0111-64-105570 og þess hluta ábyrgðar kæranda B á því skuldabréfi sem má rekja til dómkröfu LÍN á hendur honum vegna vanskilaskuldabréfs nr. 0111-64-311735. Ábyrgð kæranda B sem felur í sér aukningu á skuldbindingum hans, þ.e. umfram andvirði þess sem rekja má til framangreindrar dómkröfu, er felld úr gildi.

Til baka