Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2020 - Endurgreiðsla námslána - synjun um niðurfellingu láns

Ár 2020, miðvikudaginn 24. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-4/2020:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 13. mars 2020 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. janúar 2020 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á námsláni nr. G-208208 vegna náms í flugvirkjun í Grikklandi þar sem próf kæranda hjá [...] skólanum í Grikklandi séu ekki lengur viðurkennd.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 16. apríl 2020 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna frá LÍN með tölvupósti 18. júní 2020 og bárust umbeðin gögn þann 23. júní 2020.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði flugvirkjanám í [...] skólanum í Grikklandi á árunum 2012 og 2013 og fékk námslán fyrir að jafngildi 110 ECTS einingum. Þann 26. febrúar 2014 afturkölluðu grísk flugmálayfirvöld (The Hellenic Civil Aviation Authority, hér eftir HCAA) starfsleyfi skólans. Þá var jafnframt hafin rannsókn á starfsemi skólans. Kærandi og fleiri nemendur skráðu sig í kjölfarið í áframhaldandi nám í öðrum skóla, [...], í Grikklandi. Þar lauk kærandi námi og fékk vegna þess námslán vegna 50 ECTS eininga hjá LÍN. Mál skólans var einnig skoðað hjá framkvæmdastjórn ESB og evrópsku flugöryggisstofnuninni (e. European Avaition Safety Agency, hér eftir EASA). Samkvæmt upplýsingum LÍN hefur EASA gefið út að próf frá umræddum skóla sem tekin voru á árunum 2010-2014 séu ekki lengur viðurkennd nema þekking þeirra sem þar lærðu á þessum tíma sé yfirfarin og staðfest af þar til bærum yfirvöldum.

Kærandi sendi tölvupóst til stjórnar LÍN þann 4. nóvember og aftur 11. nóvember 2019 þar sem fram kom að hann hafi farið í nám í flugvirkjun hjá umræddum skóla á árinu 2012. Námið hafi gengið vel þar til hann hafi átt hálft ár eftir en þá hafi skólanum verið lokað sökum svindls sem hafi komið upp í öðru útibúi skólans. Kærandi hafi lokið námi sínu í öðrum skóla. Hann hafi ekki fengið vinnu í sínu fagi eftir nám. Hann hafi nýverið rekist á umfjöllun um mál skólans á vef breskra flugmálayfirvalda og þá áttað sig á að próf hans frá skólanum væru gagnslaus. Hefðu tvö ár og 10 milljón króna námslánaskuld verið til einskis. Sæi kærandi ekki fram á annað en að þurfa að fara aftur í nám til að geta öðlast starfsréttindi. Þá upplýsti kærandi að hann ætti í erfiðleikum með að greiða af námsláni sínu. LÍN svaraði kæranda með tölvupósti þann 14. nóvember 2019 þar sem kærandi var beðinn um að gera betur grein fyrir erindi sínu og kröfum. Í svarpósti kæranda útskýrir hann ekki erindi sitt frekar en segist vera í fjárhagsvandræðum eftir námið og að hann fái ekki vinnu sem flugvirki.

Í svarpósti LÍN 19. nóvember 2019 var kærandi upplýstur um að sjóðurinn hefði ekki möguleika á að hafa áhrif á niðurstöðu EASA um gildi náms kæranda. Var kæranda bent á þann kost að sækja um undanþágu frá afborgun, en að umsóknarfrestur vegna afborgunar 1. september 2019 væri liðinn. Þá var kæranda leiðbeint um að semja um vanskil sín hjá lögmönnum LÍN sem fyrst. Kærandi sendi að nýju póst til LÍN þann 20. nóvember þar sem hann innti eftir niðurstöðu stjórnar LÍN í sínu máli. Í svarpósti LÍN 16. desember 2020 var kæranda leiðbeint aftur um að hann yrði að gera betur grein fyrir erindi sínu svo hægt væri að bera málið undir stjórn LÍN. Í svarpósti kæranda sama dag óskar kærandi eftir því að fá námslánið niðurfellt og „lán fyrir nýjum skóla“.

Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um niðurfellingu námslána þann 28. janúar 2020. Ekki var tekin afstaða til beiðni kæranda um lán fyrir nýjum skóla eins og það er orðað í tölvupósti kæranda.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni til málskotsnefndar lýsir kærandi því að skólanum hafi verið lokað og hafi hann lokið náminu í öðrum skóla. Eftir útskrift hafi honum ekki tekist að fá vinnu sem flugvirki. Hann hafi haldið til Íslands eftir námið og sótt um vinnu án árangurs. Þá hafi hann flutt til Danmerkur og haldið áfram atvinnuleit án árangurs. Hafi hann fengið aðstoð við framfærslu og einnig unnið í byggingarvinnu. Hann hafi síðan áttað sig á því að prófskírteini hans væri gagnslaust er hann las umfjöllun um mál skólans m.a. á vef breskra flugmálayfirvalda skywise.caa.co.uk og og á heimasíðu EASA. Hefði tveggja ára nám hans og 10 milljón króna námslánaskuld verið til einskis. Kvaðst kærandi ekki sjá fram á annað en að þurfa að endurtaka námið. Þá hafi hann ekki náð að standa í skilum með afborganir af námsláninu.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN er því lýst að kærandi hafi óskað þess að fá niðurfellingu námslána sökum þess að námið sem hann stundaði og fékk lán fyrir nýttist honum ekki til að fá atvinnu. Kærandi hafi stundað nám í umræddum skóla og fengið til þess námslán hjá LÍN. Skólanum hafi verið lokað af EASA á miðri önn. Hafi íslensku námsmennirnir sem voru lánþegar hjá sjóðnum fengið að halda skólagjaldaláninu þar sem sýnt þótti að þeir myndu ekki fá endurgreitt frá skólanum. Þá hafi stjórn LÍN einnig ákveðið að nemendurnir fengju framfærslulán fyrir önnin sem hafin var þrátt fyrir að skólanum hafi verið lokað. Kærandi hafi síðan skráð sig í annan skóla og lokið náminu þar.

Í athugasemdum LÍN segir að EASA hafi gefið út að próf frá skólanum sem tekin hafi verið á árunum 2010 til 2014 séu ekki lengur viðurkennd nema þekking þeirra sem þar lærðu á þessum tíma sé yfirfarin og staðfest af þar til bærum yfirvöldum. Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort kærandi hafi leitað eftir því að fá nám sitt endurmetið.

Þá segir í athugasemdunum að stjórn LÍN hafi ekki heimild til að fella niður námslán í einstökum tilvikum og því hafi beiðni kæranda um niðurfellingu á láni hans nr. G-xxx verið hafnað. Niðurstaða stjórnar sé í samræmi við lög og reglur um LÍN og einnig í samræmi við ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar LÍN í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN fram á að ákvörðun stjórnar LÍN verði staðfest.

Niðurstaða

Kærandi hefur kært ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 þar sem synjað var beiðni hans um niðurfellingu námsláns nr. G-xxxx sökum þess að sú prófgráða sem hann hafi aflað sér hafi ekki nýst honum.

Kærandi stundaði nám flugvirkjun í umræddum skóla þegar grísk flugmálayfirvöld (HCAA) afturkölluðu réttindi skólans, svonefnd „Part-147 Maintenance Training Organisation Approval (EL.147.0007)“, sbr. upplýsingar frá evrópsku flugöryggisstofnuninni EASA í „Safety Information Bulletin SIB No.:2014-32R1“ frá 11. janúar 2016. Í kjölfarið hafi einnig réttindi (Certificate of Registration/CoR) til handa nemendum skólans sem skólinn hafði gefið út verið felld niður í þeim tilvikum þar sem svik væru staðfest. Til að gæta ítrustu varúðar hafi framkvæmdastjórn ESB einnig tekið þá ákvörðun að það bæri að yfirfara öll réttindi sem byggð væru á einstökum prófum frá skólanum með það fyrir augum að sannreyna færni viðkomandi rétthafa, sbr. ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB nr. 2016/2357 frá 19. desember 2016 sem birt er í stjórnartíðindum ESB OJ L 348/72 þann 21. desember 2016. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar í málinu hvort kærandi hafi kannað stöðu sína hjá viðeigandi yfirvöldum flugmála eða freistað þess að sækja um endurmat á námseiningum frá skólanum.

Kærandi hefur óskað þess að fá niðurfellingu námslánaskuldar sinnar hjá LÍN en samkvæmt upplýsingum LÍN skuldar kærandi rúmlega [...] króna í námslán vegna þessa náms.

Svonefnd lögmætisregla gildir í íslenskri stjórnsýslu. Samkvæmt henni verður að telja að stjórnvöldum eins og LÍN sé óheimilt að gefa eftir skuldir einstaklinga nema að hafa til þess skýra heimild í lögum. Í lögum um LÍN nr. 21/1992 segir að endurgreiðslur námlána hefjist tveimur árum eftir námslok og eru tvær afborganir árlega, annars vegar föst afborgun og hins vegar viðbótargreiðsla sem er tekjutengd, sbr. 1.-5. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Stjórn LÍN er heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslum samkvæmt 6. og 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN sem er svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Samkvæmt framansögðu er skuldara hjá LÍN heimilt að sækja um niðurfellingu eða lækkun á einstökum afborgunum námslána þegar hann lendir í fjárhagslegum erfiðleikum og skal það gert vegna hverrar afborgunar um sig. Ekki er heimilt að fella niður námslán í heild sinni þrátt að viðkomandi hafi lent í því, eins og í tilviki kæranda, að viðurkenning á námsgráðu eða hluta hennar hafi verið felld niður. Þá er ekki að finna í lögum frekari heimildir fyrir LÍN til niðurfellingar námalánaskulda. Skorti því lagaheimild fyrir LÍN til að fella niður námslánaskulda kæranda og var því sjóðnum rétt að synja beiðni kæranda.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN óskar kærandi einnig eftir því að fá „lán fyrir nýjum skóla“ og verður að líta svo á að með þessu hafi kærandi einnig óskað eftir því að fá námslán vegna viðbótarnáms til að fá námsgráðuna viðurkennda. Ekki var tekin afstaða til þessa hjá stjórn LÍN enda lá ekki fyrir að kærandi hefði lagt fram formlega umsókn um námslán hjá LÍN sem ágreiningur væri um. Rétt er að benda kæranda á að þeir sem uppfylla skilyrði til slíks er heimilt að sækja um námslán. Ný lög um menntasjóð námsmanna taka gildi 1. júlí nk. Er kæranda bent á að kynna sér reglur hins nýja sjóðs.

Eins og að framan greinir er engin heimild í lögum til að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu námslána hans í heild sinni. Er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun frá 28. janúar 2020 í máli kæranda er staðfest.

Til baka