Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2020 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

 

Ár 2020 þriðjudaginn 30. júní 2020 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2020:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 5. febrúar 2020 kærir kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. janúar 2020 þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns á árinu 2019. Krefst kærandi þess að ákvörðun stjórnar LÍN verði breytt og undanþágubeiðni hennar verði samþykkt.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. febrúar 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 4. mars 2020 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda. Athugasemdir bárust með tölvubréfi kæranda 31. mars 2020, þar sem hún kvaðst ekki vita hvaða viðbótargögnum hún gæti skilað í málinu. Með tölvubréfi málskotsnefndar 6. júní 2020 var  kæranda gefinn kostur á að skila frekari gögnum um útgjöld og skuldsetningu vegna skilyrða fyrir undanþágu sem sett eru í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Það var ítrekað í tölvupósti 23. júní og kæranda gefinn frestur til 26. þess mánaðar. Engin svör eða gögn bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi 6. nóvember 2019 sótti kærandi um undanþágu til stjórnar LÍN frá tekjutengdri afborgun námsláns á gjalddaga 1. september 2019 af fjölskylduástæðum. Hún sé einstæð móðir í góðri vinnu en aðstæður hennar á árinu hafi verið erfiðar sökum veikinda dóttur. Kærandi hafi þurft að leggja út háar fjárhæðir í sálfræðikostnað fyrir dótturina, en einnig þurft að kaupa kostnaðarsöm lyf og greiða fyrir dýr námskeið til þess að bæta félagslega stöðu hennar. Í tölvubréfi starfsmanns LÍN til kæranda sama dag sagði að í beiðni kæranda væru ekki tilgreindar ástæður sem heimilað gætu undanþágu samkvæmt reglum sjóðsins vegna fjárhagsörðugleika og kæranda var jafnframt bent á að hún væri yfir tekjuviðmiðunum svo heimilt væri að veita henni undanþágu. Beiðni hennar yrði því synjað, en þar sem henni væri beint að stjórn LÍN yrði erindi hennar áframsent þangað. 

Þann 13. nóvember 2019 tilkynnti starfsmaður LÍN kæranda að unnið væri að því að leggja mál hennar fyrir stjórn. Bendi starfsmaðurinn á að þegar umsækjandi væri yfir tekjuviðmiðun sjóðsins ætti hann kost á að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum hætti. Í tilviki kæranda ætti hún t.d. möguleika á að sýna fram á að umönnun barns hennar hefði haft veruleg áhrif á atvinnuþáttöku og gæti hún komið á framfæri frekari upplýsingum og gögnum. Því svaraði kærandi að umönnunarmat væri í vinnslu hjá Tryggingastofnun og einnig gæti hún aflað skýrslu félagsráðgjafa ef það gæti hjálpað henni.

Með ákvörðun stjórnar LÍN 2. desember 2019 var beiðni kæranda um undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2019 synjað þar sem hún væri yfir tekjumörkum og hefði ekki sýnt fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum hætti.

Með tölvubréfi kæranda til LÍN 6. janúar 2020 óskaði hún eftir endurupptöku málsins þar sem komið væri umönnunarmat Tryggingarstofnunar fyrir dóttur hennar, sem væri nýtt gagn í málinu. Í svari starfsmanns LÍN 20. janúar 2020 segir að samkvæmt því gagni væri ljóst að kærandi uppfyllti annað af tveimur skilyrðum sem gerð væru fyrir því að veita undanþágu frá afborgun, en engin gögn lægu fyrir í málinu sem staðfestu verulega fjárhagsörðugleika hennar. Var óskað eftir því að kærandi legði fram staðgreiðsluyfirlit frá árinu 2019 og önnur gögn sem hún teldi skipta máli til að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika. Kærandi kvaðst myndi senda þau gögn en áréttaði að málið snéri aðallega að því að útgjöld hennar hafi aukist verulega vegna kostnaðar af veikindum dóttur hennar. 

Mál kæranda var tekið fyrir af stjórn LÍN að nýju þann 28. janúar 2020 og beiðni kæranda um undanþágu synjað þar sem ekki þótti sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði úthlutunarreglna eða laga sjóðsins fyrir undanþágu.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að málskotsnefnd endurskoði ákvörðun LÍN um að synja henni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns sem var á gjalddaga 1. september 2019. Nefnir hún að veikindi dóttur hennar hafi haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu hennar þar sem hún þurfi töluvert meiri umönnun en önnur börn. Því fylgi lyfja-, sálfræði- og námsskeiðkostnaður sem að erfitt sé að meta en komi helst fram í vinnutapi sem hún þurfi að vinna upp á frídögum eða á kvöldin. Nefnir kærandi að hún hafi á árinu 2019 greitt [...] krónur í sálfræðikostnað. Kærandi kveðst vissulega vera yfir tekjumörkum samkvæmt reglum LÍN, en að fáir gætu framfleytt sé á þeim tekjum sem þar er miðað við og örugglega ekki einstæð móðir með tvö börn, eins og hún. Telur kærandi tekjuviðmið óeðlileg lágt og þarfnist endurskoðunar. Ekki sé eingöngu hægt að horfa til tekna umsækjanda þar sem kostnaður sé misjafn eftir aðstæðum. 

Í viðbótarathugasemdum sínum til málskotsnefndar tilgreinir kærandi að hún hafi ekki tök á því að flytja í ódýrara húsnæði sökum þess að dóttir hennar þurfi öryggi og stöðugleika. Þá sé hún einstæð móðir sem ekki njóti aðstoðar frá barnsföður.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN komi fram þau skilyrði sem lántaki þurfi að uppfylla til að fá undanþágu frá endurgreiðslu námsláns, sbr. grein 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2019-2020. Kærandi hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar um að þær aðstæður sem gerðar eru kröfur um væru fyrir hendi og ekki sýnt fram á að hún væri í verulegum fjárhagsörðugleikum. Kærandi hafi ekki skilað neinum frekari upplýsingum um aðstæður sínar þegar hún sendi erindi til stjórnar LÍN og því verið synjað. Þegar kærandi leitaði endurupptöku á máli sínu hjá stjórn LÍN hafi hún sent afrit af umönnunarmati vegna dóttur sinnar. Hún hafi þá verið beðin um að senda frekari upplýsingar m.a. staðgreiðsluskrá 2019 og eftir atvikum önnur gögn sem gætu sýnt fram á að hún glímdi við veruleg fjárhagsvandræði. Hún hafi sent staðgreiðsluskrána en vísað að öðru leyti til fyrri röksemda um útgjaldaaukningu vegna kostnaðar af veikindum dótturinnar. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hefðu tekjur hennar hækkað frá 2018. Stjórn LÍN bendir á að þrátt fyrir að hægt hafi verið að líta til þess aðstæður kæranda vegna umönnunar dóttur hennar gætu verið til þess fallnar að uppfylla skilyrði um ástæður fjárhagserfiðleika þótti ekki sýnt fram á að kærandi væri í verulegum fjárhagsörðugleikum. Því hafi erindi hennar til stjórnar sjóðsins verið hafnað þar sem ekki var talið að kærandi uppfyllti skilyrði hvorki greinar 8.5.1 né 8.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN.

Telur stjórn LÍN að ákvörðun sín í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur sjóðsins og fyrri ákvarðanir sínar og úrskurði málskotsnefndar.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, til dæmis ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í 7. mgr. 8. gr. segir að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja sjóðsstjórn til þær upplýsingar sem stjórnin telur skipta máli. Samkvæmt þessu hefur stjórn LÍN víðtækar heimildir til þess að leggja fyrir umsækjendur um undanþágur að afhenda gögn um fjárhagsaðstæður sínar og er stjórn sjóðsins rétt að synja um undanþágu ef umsækjandi verður ekki við því.   

Í 13. gr. reglugerð um LÍN nr. 478/2011 einnig fjallað um heimild sjóðsstjórnar til að veita undanþágu frá afborgun námslána. Þar segir meðal annars að sjóðsstjórn skuli setja almennar reglur um framkvæmd þess heimildarákvæðis. Það hefur síðan verið gert í úthlutunarreglum LÍN fyrir einstök skólaár.

Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2019-2020 er að finna útlistun á heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef tekjur lánþega ársins á undan séu yfir 4.236.000 krónum og árstekjur hjóna eða sambúðarfólks séu yfir 8.472.000 krónum. Þá er tekið fram að ástæður þær sem valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.  

Kærandi óskar undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, sem var á gjalddaga 1. september 2019, en fjárhæð hennar reiknast sem hlutfall af tekjustofni hennar, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Með tekjuviðmiðinu er því tekið tillit til lágra tekna án tillits til þess hvort greiðandi eigi í fjárhagsörðugleikum. Eins og áður greinir þarf kærandi samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN að sýna fram á að aðstæður hennar valdi verulegum fjárhagserfiðleikum hjá henni. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi uppfyllir það skilyrði úthlutunarreglna að eiga rétt til undanþágu umönnunar barns. Það atriði eitt gefur sjóðsstjórn ekki heimild til undanþágu, heldur þarf einnig að vera til staðar skilyrði um að viðkomandi eigi vegna hinnar tilgreindu ástæðu í verulegum fjárhagserfiðleikum, sem hafi eins og áður sagði að jafnaði hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddagann. Með tölvubréfi málskotsnefndar til kæranda 6. júní 2020, sem ítrekað var 26. sama mánaðar, var óskað eftir við kæranda að hún legði fram í málinu frekari gögn um útgjöld sín, s.s. afrit af skattframtölum, upplýsingar um skuldastöðu og um greiðsluerfiðleikaúrræði eða sambærilegt úrræði hjá fjármálastofnun og annað er gæti sýnt fram á verulega fjárhagsörðugleika. Engin frekari gögn bárust frá kæranda.

Málskotsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum, t.d. L-8/2015 fallist á það með stjórn LÍN að viðurkenna verði sjóðnum heimild til þess að setja reglu um árslaunaviðmið til þess að einfalda úrlausn mála þar sem greiðendur námslána leita undanþága vegna endurgreiðslu og til þess að samræmis og jafnræðis sé gætt gagnvart þeim. Þá hefur stjórn LÍN áður upplýst að við ákvörðun árslaunaviðmiðsins hafi meðal annars verið litið til lægstu launataxta innan vébanda Bandalags háskólamanna og hefur málskotsnefnd talið það viðmið málefnalegt enda beri LÍN auk þess alltaf að líta til heildaraðstæðna greiðanda hverju sinni við skyldubundið mat sitt á því hvort aðstæður séu með þeim hætti að verulegir fjárhagsörðugleikar teljist vera fyrir hendi.

Eins og fyrr greinir námu tekjur kæranda [...] krónum árið 2018. Áðurnefnd 4.236.000 króna árslaunaregla er aðeins viðmið um að ef tekjur umsækjanda eru yfir tiltekinni fjárhæð þá verði almennt ekki litið svo á að hann eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta viðmið er ekki endanlegur mælikvarði og girðir ekki fyrir það að kærandi geti lagt fram frekari gögn sem sýni að hún eigi allt að einu við verulega fjárhagsörðugleika að stríða sökum veikinda barns. LÍN leitaðist við að skoða aðstæður kæranda sérstaklega með því að gefa henni kost á að leggja fram frekari gögn um erfiðleika sína. Hið sama gerði málskotsnefnd. Kærandi hefur tilgreind aukin útgjöld og vinnutap, sem hún hefur þurft að vinna upp, vegna veikinda dóttur sem ástæður erfiðleika hennar. Kærandi hefur hins vegar ekki tilgreint önnur atriði sem staðfesti fjárhagsörðugleika og raunar nefnir sérstaklega að hún standi alltaf í skilum með skuldbindingar sínar. Hún sé fyrst og fremst undrandi á þeim tekjuviðmiðunum sem settar eru fyrir einstæða foreldra með tvö börn. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi ekki lagt fram í málinu upplýsingar sem staðfesti að aðstæður hennar séu með þeim hætti að þær valdi henni verulegum fjárhagsörðugleikum, sem sé skilyrði undanþáguheimildar 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN, sbr. grein 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Var stjórn LÍN því rétt að hafna beiðni kæranda og er hin kærða ákvörðun í máli kæranda því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 í máli kæranda er staðfest.

Til baka