Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2020 - Námslok - synjun á beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2020, þriðjudaginn 30. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2020.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 27. apríl 2020 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 5. mars 2020 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. maí 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 16. júní 2020 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir sem bárust nefndinni 25. júní 2020. Voru athugasemdir kæranda framsendar stjórn LÍN sama dag.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám við Háskóla Íslands (HÍ) og var í lánshæfu námi til og með haustönn 2018. Hann brautskráðist í janúar 2019. Kærandi tók námslán á fyrri hluta námferils síns og sótti síðast um námslán á námsárinu 2014-2015. Hann sótti á hverju ári eftir það um frestun á lokun skuldabréfs í samræmi við reglur LÍN. Þann 18. október 2019 sendi LÍN tölvupóst til kæranda um fyrirhugaða lokun skuldabréfsins. Í tölvupóstinum sagði eftirfarandi:

Ágæti námsmaður,[...].

Á árinu 2020 verða liðin tvö ár frá því þú fékkst síðast afgreitt námslán hjá LÍN eða skilaðir síðast upplýsingum um lánshæfan námsárangur til sjóðsins. Sjóðnum ber því að loka skuldabréfi þínu og miðast dagsetning lokunar við lok skólaársins eða þann 29.06.2018 sbr. grein 7.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í framhaldi af því munu endurgreiðslur námslána þinna hefjast þann 30.06.2020.

Sérstök athygli er vakin á því að námsmenn sem halda áfram lánshæfu námi án þess að sækja um námslán geta átt rétt á að framangreindum lokadegi verði frestað, að því gefnu að viðkomandi hafi ekki gert lengra hlé frá námi en sem nemur einu ári.

Þú gætir því átt rétt á slíkri frestun ef þú varst í lánshæfu námi námsárið 2018-2019 svo og ef þú skilar lánshæfum námsárangri á haustönn 2019.

Hægt er að sækja um frest á lokun skuldabréfs á Mitt Lín í gegnum heimasíðu sjóðsins www.lin.is. Þú hefur frest til og með 15.11.2019 til að sækja um að lokun skuldabréfs verði frestað. Staðfesting á námsárangri þarf að senda til sjóðsins svo hægt sé að afgreiða umsóknina. Nánari upplýsingar um lokun skuldabréfa er að finna í 7. kafla í úthlutunarreglum LÍN.

Vinsamlegast athugið að skilafrestur gagna vegna umsóknar um frestun er til og með 15.01.2020 vegna náms sem stundað var námsárið 2018-2019 en 15.03.2020 vegna náms á haustönn 2019.

Virðingarfyllst,

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Kærandi hafði samband við HÍ 16. desember 2019 til að fá staðfestingu á námsárangri. Þegar hann hugðist útbúa umsókn sína á „mínum síðum“ hjá LÍN fann hann hvergi umsókn. Skoðaði hann tölvupóstinn frá LÍN og áttaði sig á því að hann hefði misskilið fyrirmælin sem LÍN sendi honum. Hefði hann lesið þau sem svo að hann hefði frest til og með 15. janúar 2020 til þess að skila gögnum vegna umsóknarinnar og að meðal gagnanna væri umsóknin sjálf. Við nánari athugun hafi hann séð að umsóknarfresturinn sjálfur hafi verið til 15. nóvember 2019. Þar sem kærandi átti þess ekki lengur kost að senda umsókn gegnum „mínar síður“ hjá LÍN tók hann fram í tölvupóstinum til LÍN að hann færi fram á frestun á lokun skuldabréfs. Tók hann það fram að hann væri búinn að hafa samband við HÍ og vænti þess að skólinn sendi námsárangur hans til LÍN. Þar sem nauðsynleg gögn ættu að hafa borist sjóðnum mánuði fyrir frest kvaðst kærandi vona að þessi seinkun á umsókn myndi ekki valda vandræðum við afgreiðslu hennar. Kærandi sendi ítrekun á erindi sínu til LÍN með tölvupósti 6. janúar 2020 og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í málinu hringdi kærandi einnig vegna málsins 13. janúar 2020.

LÍN synjaði beiðni kæranda með tölvupósti 13. janúar 2020 þar sem vísað var í grein 7.2 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kæmi að frestur til að skila gögnum væri til og með 15. nóvember 2020 í tilviki námsmanns sem lokið hefði lánshæfum árangri á námsárinu 2018 – 2019 eða hefði verið skráður í lánshæft nám á haustönn 2019. Hafi sjóðnum borist heildaryfirlit frá nemendaskrá HÍ um loknar einingar kæranda á haustönn 2018. Þar sem engin beiðni hefði borist um frestun á lokun skuldabréfs hefði skuldabréfinu verið lokað og ættu endurgreiðslur að hefjast á árinu 2020 samkvæmt gögnum sem LÍN hefði sent kæranda. Kæranda var leiðbeint um að hann ætti þess kost að bera ákvörðunina undir stjórn sjóðsins.

Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN þann 20. janúar 2020. Vísaði kærandi til þess að í tölvupóstinum frá LÍN kæmi fram að skilafrestur gagna væri til og með 15. janúar 2020 enda væri það sérstaklega tiltekið í sérstakri málsgrein neðst í tilkynningunni. Hefði hann ekki tekið eftir því að inni í miðri málsgrein þar fyrir ofan hafi staðið að umsóknarfresturinn sjálfur væri til og með 15. nóvember 2019. Kvað kærandi að í ljósi þessarar framsetningar væri ekki við hann að sakast að hafa litið á þann skilafrest sem athygli væri vakin á í lok tilkynningarinnar. Þá tók kærandi fram að gögn vegna tilkynningarinnar hefðu borist LÍN 17. desember 2019. Kærandi vísaði einnig til hliðsjónar í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kærufresti um hvenær afsakanlegt væri að kæra bærist að liðnum kærufresti. Byggði kærandi á því að beita ætti sambærilegum sjónarmiðum um úrlausn erindis hans.

Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun þann 5. mars 2020 sem tilkynnt var kæranda þann 9. sama mánaðar. Var í ákvörðuninni vísað til ákvæða úthlutunarreglna LÍN og þess að LÍN hefði sent kæranda tilkynningu með tölvupósti þann 18. október 2019. Kærandi hefði hins vegar ekki sent beiðni um lokun fyrr en 16. desember 2019. Vísaði stjórnin til þess í ákvörðuninni að ekki væri hægt að fallast á að orðalag tilkynningar LÍN hafi verið óskýrt. Þá féllist stjórnin ekki á að þau atriði sem kærandi hafi nefnt í erindi sínu veittu undanþágu frá skýrum ákvæðum um umsóknarfrest enda hefði kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi verið ófær um að sækja um fyrir umræddan frest.

Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kærunni að kærandi hafi verið í lánshæfu námi til og með haustannar 2018 og hafi brautskráðst í febrúar 2019. Efnislega uppfylli kærandi því skilyrði þess að fá undanþágu. Kærandi lýsir því að þegar hann hafi lesið yfir umræddan tölvupóst hafi hann lesið hann þannig að skilafrestur gagna væri til og með 15. janúar 2020 enda hafi það verið tiltekið í sérstakri málsgrein neðst í tilkynningunni. Kærandi hafi hins vegar ekki tekið eftir því að inn í miðri málsgrein þar fyrir ofan hafi staðið að umsóknarfresturinn sjálfur væri til og með 15. nóvember 2019.

Kærandi kveðst því hafa ritaði niður í dagbók sína að hann þyrfti að ganga frá umsókn um frestun á lokun skuldabréfs og hafa til gögn fyrir 15. janúar 2020. Er hann hafi haft samband við HÍ 16. desember 2019 til þess að láta senda staðfestingu á námsárangri og þegar hann hafi ætlað að útbúa umsókn sína hafi hann hvergi fundið aðgang fyrir umsókn inni á „mínum síðum“ hjá LÍN. Kærandi hafi því skoðað fyrrnefndan tölvupóst á ný og séð að hann hafði misskilið fyrirmælin um frest. Hefði hann lesið fyrirmælin sem svo að hann hefði frest til og með 15. janúar 2020 til þess að skila gögnum vegna umsóknarinnar og meðal gagnanna væri umsóknin sjálf.

Er kærandi hafi gert sér grein fyrir misskilningnum hefði hann strax haft samband við LÍN þann 16. desember 2019 og farið þess á leit að umsókn hans um frestun yrði tekin til greina. Hafi hann sent gögn vegna umsóknarinnar um mánuði fyrir frest og því ætti seinkun á gagnaskilum ekki að hafa komið að sök. Hafi stjórn LÍN synjað beiðni hans með vísan til þess að umsóknin hefði borist of seint og að ekki væri hægt að fallast á að þau atriði er kærandi hefði tiltekið í kæru sinni gæfu tilefni til undanþágu, auk þess sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hafi verið ófær um að sækja um fyrir tilgreindan frest.

Kærandi kveðst ekki fallast á niðurstöðu stjórnar LÍN. Fer hann þess á leit að hún verði felld úr gildi og lagt fyrir LÍN að taka umsókn hans um frestun á lokun skuldabréfs til efnislegrar meðferðar.

Kærandi telur að framsetning á frestum í tölvupósti LÍN 18. október 2019 hafi verið villandi, eða í öllu falli ekki nægilega skýr, og að það sé ekki við hann að sakast að hafa litið á þann skilafrest sem sérstaklega er vakin athygli á í lok tilkynningarinnar, þ.e. 15. janúar 2020, og talið að hann hefði frest til þess dags til þess að skila inn umsókn minni ásamt viðeigandi gögnum. Til hliðsjónar bendir kærandi á þær undantekningar sem gerðar séu í ákvæði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 frá þeirri reglu að vísa beri frá kæru sem berst að liðnum kærufresti. Fyrri undantekningin, í 1. tölulið ákvæðisins, eigi við ef það telst afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga segi að sem dæmi um afsakanleg tilvik megi nefna þau tilvik þar sem stjórnvald hefur veitt „rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.“ Seinni undantekningin, í 2. tölulið, eigi við þegar veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í athugasemdum í frumvarpi til laganna sé tekið fram að líta þurfi til þess hvort aðilar að máli séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en sé aðili einn yrði mál frekar tekið til meðferðar.

Kærandi byggir á því að beita eigi sambærilegum sjónarmiðum við úrlausn kæru hans. Þannig telur kærandi í fyrsta lagi afsakanlegt að erindi hans hafi borist eftir að umsóknarfrestur var liðinn, en eins og áður segir þá hafi kærandi lesið tilkynninguna frá LÍN og skilið hana sem svo að hann hefði frest til 15. janúar 2020 til þess að skila inn umsókn ásamt viðeigandi gögnum. Að mati kæranda er óréttlátt að hann verði látinn bera hallann af því að hafa misskilið orðin „skilafrestur gagna vegna umsóknar um frestun er til og með 15.01.2020“ á þann hátt að hann hefði frest til og með 15.01.2020 til þess að skila inn umsókn sinni og fylgigögnum, sérstaklega í ljósi framsetningar textans.

Í öðru lagi telur kærandi að veigamiklar ástæður mæli með því að umsóknin verði tekin til meðferðar. Almennt byrji lánþegar að greiða af lánum sínum hjá LÍN tveimur árum eftir námslok. Sú tilhögun sé til komin svo fólk hafi tíma til þess að fóta sig eftir nám og vera fjárhagslega tilbúið til þess að hefja afborganir. Þeim sem taki námslán aðeins hluta námstímans sé veitt samskonar hagræði með því að geta frestað lokun skuldabréfs í allt að tvö ár eftir að lánshæfu námi lýkur. Það liggi fyrir að kærandi hafi uppfylli skilyrði undanþágunnar, enda aðeins rúmt ár síðan kærandi hafi útskrifaðist. Hafi kærandi því sömu hagsmuni og aðrir lánþegar af því að byrja ekki að greiða af námslánum sínum fyrr en tveim árum eftir lok náms. Telur kærandi að þeir hagsmunir eigi hér að vega þungt. Þá séu augljóslega engir andstæðir hagsmunir, þ.e. það hafi enginn hagsmuni af því að umsókn hans verði ekki tekin til greina.

Í andmælum sínum gerir kærandi athugasemdir við að hvorki í ákvörðun stjórnar LÍN í máli hans né í athugasemdum stjórnar hafi verið tekin afstaða til þeirra röksemda kæranda að öll gögn hafi borist vel innan skilafrests gagna og að veigamiklar ástæður hafi mælt með því að taka umsókn hans til meðferðar.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um námslán á námsárinu 2014-2015. Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN komi fram að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreini hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum og úrskurði um vafatilfelli. Samkvæmt grein 7.1 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2019-2020 séu námslok skilgreind en þar komi fram að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hætti að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Eigi það jafnt við um námsmenn sem séu að ljúka námi og námsmenn sem séu að hverfa frá námi án þess að ljúka því. Í grein 7.2 komi fram þær reglur sem gildi um frestun á lokun skuldabréfs en þar segi að tilkynni námsmaður að hann hafi tekið sér námshlé sem sé ekki lengra en eitt ár sé heimilt að fresta frágangi á skuldabréfi ljúki námsmaður lánshæfum árangri á fyrstu önn eftir námshlé. Síðasti dagur til að sækja um frestunina sé samkvæmt úthlutunarreglunum til og með 15. nóvember 2019 hafi námsmaður lokið lánshæfum árangri á námsárinu 2018-2019 eða verið skráður í lánshæft nám á haustönn 2019.

Þar sem kærandi hafi sótt síðast um námslán á námsárinu 2014-2015 hefði hann samkvæmt fyrrgreindum reglum átt að byrja að greiða af lánum sínum árið 2017. Hann hafi hins vegar sótt um og fengið frestun á lokun skuldabréfs árin 2016-2017, 2017-2018 og 2018-2019. LÍN hafi tilkynnt kæranda um fyrirhugaða lokun með tölvupósti 19. október 2019. Hafi honum verið tilkynnt um að umsóknarfrestur til að sækja um frestun á lokun væri til og með 15. nóvember 2019. Hafi einnig komið fram í tölvupóstinum að gagnaskilafrestur vegna þeirra er stunduðu nám á námsárinu 2018-2019 væri til og með 15. janúar 2020 en vegna náms á haustön 2019 til og með 15. mars 2020. Kærandi hafi haldið því fram að tölvupóstur LÍN 19. október 2019 hafi verið villandi. Umræddur tölvupóstur sem hafi sannanlega borist kæranda hafi verið settur fram á sama hátt og þeir tölvupóstar sem sendir hafi verið kæranda undanfarin ár. Með vísan til alls framangreinds hafi erindi kæranda verið hafnað.

LÍN vísar til þess að niðurstöður stjórnar í máli kæranda séu í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum. Fer LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar LÍN.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hvort tölvupóstur sem LÍN sendi kæranda þann 19. október 2019 hafi verið villandi eða í öllu falli ekki nægjanlega skýr þannig að kærandi hafi mátt líta svo á að frestur til að sækja um frestun á lokun skuldabréfs hafi verið til 15. janúar 2020 en ekki til 15. nóvember 2019. Kærandi hefur einnig vísað til þess að við mat á því hvort hann eigi rétt á undanþágu frá umsóknarfrestinum beri að hafa til hliðsjónar ákvæði 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga sem gildir um kærufresti.

Um námslok, lokun skuldabréfa og málsmeðferð við lokun skuldabréfa er fjallað um í lögum um LÍN og úthlutunarreglum hvers námsárs. Í 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestist fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Í stöðluðum skilmálum skuldabréfa LÍN segir: „Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Stjórn sjóðsins ákveður hvað teljist námslok í þessu sambandi.“ Þá segir einnig að öðru leyti gildi „um skuldabréf þetta ákvæði laga nr. 21/1992 með áorðnum breytingum.“

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2019-2020 segir í grein 7.1 og 7.2 um lokun skuldabréfs:

7.1 Gengið frá skuldabréfi

Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Á það jafnt við um námsmenn sem ljúka námi og námsmenn sem hverfa frá námi án þess að ljúka því. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þegar frágangur hefst á lokun skuldabréfs skulu lántakanda og ef við á ábyrgðarmanni sendar upplýsingar um upphæð skuldabréfsins sem til stendur að loka. Ábyrgðarmaður er jafnframt upplýstur um þá fjárhæð sem hann telst ábyrgur fyrir.

Þegar skuldabréfi hefur verið lokað skulu lántakanda sendar sundurliðaðar upplýsingar um veitt lán sem tilheyra skuldabréfinu, dagsetningu lokunar og hvenær vextir fara að reiknast af skuldabréfinu. Veittur er 14 daga frestur til að gera athugasemdir. Að þeim tíma liðnum er heimilt að fylla skuldabréfið út. Upplýsingar sendar í tölvupósti á netfang sem námsmaður hefur látið sjóðnum í té teljast sendar á fullnægjandi hátt.

Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir lokun skuldabréfs. Ljúki námsmaður námi á haust- eða vormisseri, miðast námslokin við 29. júní og fyrsti afborgunardagur er 30. júni tveimur árum síðar. Ef námslok eru á sumarönn sem nær fram yfir 1. júlí, miðast námslokin við 31. ágúst og fyrsti afborgunardagur er 1. mars tveimur og hálfu ári síðar. Ef námsmaður er byrjaður að greiða af eldri námslánum og hefur nám að nýju er ekki veitt aftur hlé frá endurgreiðslum fyrri lána.

7.2 Frestun á lokun skuldabréfs

Tilkynni námsmaður að hann hafi tekið sér námshlé sem er ekki lengra en eitt ár, er heimilt að fresta frágangi á skuldabréfi ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á fyrstu önn eftir námshlé. Síðasti dagur til þess að sækja um frestunina er til og með 15. nóvember 2019 ef námsmaður lauk lánshæfum námsárangri á námsárinu 2018-2019 eða er skráður í lánshæft nám á haustönn 2019. sbr. gr. 2.2 um lánshæfar einingar. Skilyrði þess að námsmaður geti frestað frágangi skuldabréfs er að hann ljúki lánshæfum námsárangri á því tímabili sem frestun tekur til. Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs að hámarki í fjögur ár frá því að fyrsta aðstoð hjá sjóðnum var veitt, stundi námsmaður áfram lánshæft nám án þess að taka námslán. Umsókn um nýtt námslán á fyrstu önn eftir árshlé frá námi er ígildi umsóknar um frestun á lokun skuldabréfs.

Sæki námsmaður um frestun á lokun skuldabréfs vegna lánshæfs náms sem hann stundaði á námsárinu 2018-2019 er síðasti frestur til þess að skila umbeðnum gögnum til og með 15. janúar 2020. Sæki námsmaður aftur á móti um frestun á lokun skuldabréfs vegna lánshæfs náms á haustönn 2019, skulu umbeðin gögn vegna umsóknarinnar berast sjóðnum eigi síðar en 15. mars 2020.

Frestun á útborgun námsláns, t.d. vegna síðbúinna skila á upplýsingum hefur ekki í för með sér frestun á lokun skuldabréfs.

Ef námsmaður gerir hlé á námi sínu lengur en eitt námsár er ekki heimilt að fresta lokun skuldabréfs. Þegar námsmaður hefur aftur nám að loknu slíku námshléi skal líta á það sem nýtt nám (nýr námsferill) og verður námsmaður að gefa út nýtt skuldabréf í eigin nafni til tryggingar nýjum lánum, sbr. grein 5.2.4. Námsmaður greiðir jafnframt afborganir af eldra skuldabréfi, sjá þó grein 8.5 um undanþágur frá afborgun.

Stjórn sjóðsins ákveður lokun skuldabréfs í vafatilfellum.

 

Í framangreindum reglum kemur fram að „skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils“ og að sá tímapunktur teljist „námslok“ í skilningi laga og reglugerðar um LÍN. Þegar námsmaður þiggur lán er fyrsti gjalddagi þess því ekki ákveðinn að öðru leyti en að hann skuli vera tveimur árum eftir námslok, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN og skilmála skuldabréfa LÍN. Getur stjórn LÍN m.a. ákveðið hvað teljist námslok.

Með tölvupóstinum 19. október 2019 var kæranda tilkynnt um þá afstöðu LÍN að ef ekki væru lögð fram gögn um annað bæri að miða námslok hans við tiltekna dagsetningu, enda eins og áður greinir er dagsetning fyrsta gjalddaga námsláns ekki ákveðin þegar námsmaður þiggur lán. Var því um að ræða undirbúning að ákvörðun LÍN um námslok og gjalddaga námsláns kæranda. Hafði kærandi áður fengið samskonar frestanir. Málskotsnefnd telur mikilvægt að rétt sé staðið að þeim tilkynningum sem sendar eru námsmönnum í því skyni að fastsetja þessar dagsetningar bæði með tilliti til hagsmuna námsmanna, ábyrgðarmanna námslána og hagsmuna LÍN, m.a. með tilliti til innheimtu námslána og fyrningarreglna.

Kærandi hefur byggt á því að orðalag í tölvupósti LÍN hafi verið villandi eða í það minnsta ekki nægjanlega skýrt. Hafi honum skilist að hann hefði frest til 15. janúar til að sækja um. Á þetta verður ekki fallist. Í hinum umþrætta tölvupósti segir m.a.: „Þú hefur frest til og með 15.11.2019 til að sækja um að lokun skuldabréfs verði frestað. Staðfesting á námsárangri þarf að senda til sjóðsins svo hægt sé að afgreiða umsóknina.“

Hér er kemur fram að umsóknarfrestur sé til og með 15. nóvember. Hins vegar sé ekki hægt að afgreiða umsóknina fyrr en tiltekin gögn berist LÍN. Síðan er settur sérstakur frestur til að skila þeim gögnum sem var til 15. janúar í tilviki kæranda. Með þeim fresti er komið til móts við þá námsmenn sem lenda í erfiðleikum með að afla gagna, m. a. frá erlendum háskólum. Að mati málskotsnefndar er framangreint orðalag nægjanlega skýrt og ótvírætt.

Eins og áður greinir er mikilvægt að stjórnvöld standi rétt að tilkynningum til námsmanna sem skipta máli. Að sama skapi verður að gera þá kröfu til móttakenda slíkra umsókna sem varða mikilvæga hagsmuni þeirra að kynna sér gaumgæfilega innihald þeirra.

Ekki verður fallist á þá röksemd kæranda að líta beri til þeirra sjónarmiða er liggja að baki 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Um er að ræða lögbundið sérákvæði um málskotsfrest til æðra stjórnvalds sem almennt verður ekki talið gilda um umsóknarfresti í stjórnsýslunni. Um umsóknarfresti í stjórnsýslunni hafa gilt önnur viðmið, sbr. hér að neðan. Í starfsemi LÍN ber nauðsyn til að námsmönnum, greiðendum og öðrum sem við sjóðinn skipta séu settir frestir til að sækja um, skila gögnum og öðru sem LÍN er nauðsynlegt að hafa til að geta tekið ákvörðun um réttindi þeirra samkvæmt lögum og reglum um sjóðinn. Ljóst er af lögum og reglum um LÍN að sjóðnum ber nauðsyn til að taka ákvarðanir sem eru af fjárhagslegum toga um námslán, undanþágur og önnur réttindi. Málskotsnefnd hefur fallist á með LÍN að mikilvægt sé að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir, m.a. í ljósi þess að vegna fjárstjórnar sjóðsins geti verið nauðsyn á að vissa ríki um fjárþörf hans, sjá m.a. mál nr. L-8/2016. Því beri almennt að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Er þetta einnig í samræmi við sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 557/1992 en þar segir um kvörtun vegna umsóknarfrests námsláns að almennt verði að ganga út frá því sem „meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest.“ Hins vegar hafi stjórnvöld „oft heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint.“ 

Eins og áður greinir fellst málskotsnefnd ekki á það með kæranda að framsetning í tölvupósti LÍN hafi verið villandi eða ekki nægjanlega skýr. Skýrlega er gerður greinarmunur á umsókn annars vegar og fylgigögnum, þ.e. vottorði um námsárangur eða önnur gögn, hins vegar. Málefnaleg sjónarmið eru lúta m.a. að fjárreiðum sjóðsins, eru fyrir því að mismunandi frestir gilda annars vegar um umsókn og hins vegar um gagnaskil. Í fyrri úthlutunarreglum sjóðsins gilti sami frestur fyrir umsókn og gagnaskil. LÍN er nauðsynlegt sökum fjárhaglegra hagsmuna að fá glöggar upplýsingar upplýsingar fyrir tiltekinn frest um hve margir myndu hefja afborganir námslána. Slíkur frestur getur þó reynst námsmönnum erfiður ljár í þúfu, einkum þeirra er stundað höfðu nám erlendis, og mun framlengdur gagnaskilafrestur hafa verið til að koma til móts við námsmenn. Hvenær umsóknarfrestur er fer eftir mati sjóðsins sjálfs á því hvenær talið er nauðsynlegt að upplýsingar um fjölda þeirra sem munu óska undanþágu þarf að liggja í síðasta lagi fyrir. Verður ekki séð að með umræddum frestum hafi LÍN farið út fyrir heimildir sínar, fresturinn sé óhóflega skammur eða að ekki liggi málefnalegar ástæður að baki. Meðan svo er telur málskotsnefnd ekki vera á valdsviði sínu að gera athugasemdir við það hvenær umræddur umsóknarfrestur er eða að LÍN telji sér ekki fært vegna hagsmuna sjóðsins að veita undanþágur frá umsóknarfrestinum. 

Kærandi hefur ekki tilgreint aðrar ástæður sem valdið hafi því að hann sótti ekki um innan tilgreinds frest.

Kærandi hefur gert athugasemdir við að hvorki í ákvörðun stjórnar LÍN né í athugasemdum stjórnar hafi verið tekin afstaða til röksemda hans er lúta að því að máli skipti að hann skilaði gögnum vel fyrir tilskilinn frest til gagnaskila sem og röksemda um sjónarmið um veigamiklar ástæður er mæli með því að umsókn hans skuli tekin til greina. Í stjórnsýslurétti hefur ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur sett fram til rökstuddrar úrlausnar. Þó hefur verið talið að almennt verði að gera þær kröfur til stjórnvalda að þau taki að minnsta kosti afstöðu til meginmálsástæðna sem aðilar færa fram og hafa verulega þýðingu fyrir málið. Framangreindar ástæður voru meginmálsástæður kæranda og tefldi hann engum öðrum fram. Verður því að telja að rökstuðningi stjórnar LÍN hafi verið áfátt í því að eingöngu var tekið fram að stjórnin gæti ekki tekið tillit til þeirra atriða er kærandi hefði nefnt og taldi veita skýra undanþágu frá reglum sjóðsins. Verður því að telja að rökstuðningur stjórnar LÍN hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður einnig að gera athugasemd við að ekki var í ákvörðun stjórnar LÍN vísað til viðeigandi ákvæða laga um LÍN þó svo að slíkt hafi verið gert í athugasemdum stjórnar. Málskotsnefnd telur þó að þar sem stjórn LÍN hafi í ákvörðun sinni gert grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem réðu niðurstöðu og vísað til viðeigandi stjórnvaldsfyrirmæla með rökstuddum hætti verði að telja að annmarkinn sé ekki verulegur svo að varði ógildingu ákvörðunarinnar.

Málskotsnefnd telur rétt að geta þess að í ofangreindum ákvæðum úthlutunarreglna LÍN segir í grein 7.2 að heimilt sé „að fresta lokun skuldabréfs að hámarki í fjögur ár frá því að fyrsta aðstoð hjá sjóðnum var veitt, stundi námsmaður áfram lánshæft nám án þess að taka námslán.“ Ekki verður betur séð en að þessi regla kunni að gilda í tilviki kæranda. Þar sem stjórn LÍN hefur ekki byggt á þessu ákvæði og kærandi því ekki heldur tekið afstöðu til þess verður ekki tekin afstaða til beitingar þess í tilviki kæranda.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. mars í máli kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Hinn kærði úrskurður frá 5. mars 2020 í máli kæranda er staðfestur.

 

Til baka