Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2020 - Ábyrgðir - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

ÚRSKURÐUR

Ár 2020, mánudaginn 21. september, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2020.

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 16. febrúar 2020, sem barst málskotsnefnd LÍN 18. febrúar 2020 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. nóvember 2019 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að ábyrgð hennar á námsláni lántaka nr. R-015289 yrði felld niður.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 18. febrúar 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 25. mars 2020 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda þann 15. apríl 2020. Kærandi sendi frekari upplýsingar vegna málsins með tölvupóstum þann 28. apríl 2020 og síðan athugasemdir þann 30. sama mánaðar. Voru gögn þessi framsend LÍN. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga frá LÍN þann 11. júní 2020 og var kæranda sent afrit bréfsins. Svar LÍN barst nefndinni 16. júní og var framsent kæranda 22. sama mánaðar og henni gefinn kostur á að senda viðbótarathugasemdir. Kærandi sendi athugasemdir sínar með þremur tölvupóstum þann 25. júní. Voru athugasemdirnar framsendar stjórn LÍN þennan sama dag. Þann 30. júní tilkynnti málskotsnefnd kæranda að meðferð málsins yrði ekki lokið fyrir sumarleyfi og einnig að staða málsins kynni að breytast við gildistöku nýrra laga nr. 60/2020 um menntasjóð námsmanna. Þann 19. ágúst 2020 óskaði málskotsnefnd eftir upplýsingum frá stjórn Menntasjóðs námsmanna um stöðu ábyrgðar kæranda. Svar Menntasjóðs barst 21. ágúst 2020.

Málsatvik og ágreiningsefni

Lántaki stundaði lánshæft nám í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og tók námslán hjá LÍN, lán merkt S-940235. Eftir gildistöku laga nr. 21/1992 tók lántaki á ný námslán merkt R-03379. Lántaki hóf afborganir af þessum lánum en innheimtan frestaðist síðan þegar lántaki fór aftur í nám og vegna veikinda hennar. Lántaki var í þessu síðara námi á árunum 1996 til 1998 og fékk frekari námslán hjá LÍN.

Fyrsta útborgun námsláns vegna síðara náms var þann 22. maí 1996 og undirritaði lántaki þann sama dag skuldabréf merkt með númeri námslánsins R-015289. Þann sama dag tókst kærandi á hendur sjálfskuldaábyrgð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól lánsins allt að 500.000 krónum, með áritun þess efnis á skuldabréfið, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða. Kom fram í ábyrgðaryfirlýsingunni að höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðarinnar breyttist í samræmi við vísitölu neysluverðs frá útgáfudegi ábyrgðarinnar. Ekki mun hafa verið rituð nein fjárhæð á skuldabréfið fyrr en við námslok og í skilmálum skuldabréfsins segir eftirfarandi:

Ég undirritaður lántakandi viðurkenni hér með að skulda LÍN fjárhæð þá sem tilgreind er hér að ofan og endurgreiða hana skv. eftirfarandi skilmálum.

Reiknuð fjárhæð láns eftir hvert misseri greiðist inn á bankareikning minn, skv. skriflegri ósk þ.a.l. Lántakandi veitir LÍN heimild til að færa inn á skuldabréf þetta við námslok upphæð skuldarinnar miðaða við þágildandi lánskjaravísitölu. LÍN sendir lántakanda sundurliðaða upphæð heildarskuldarinnar, sem færð er inn á bréfið.

Þar sem útborgun til lántaka var hærri en 500.000 krónur fór LÍN fram á viðbótarábyrgð allt að fjárhæð 250.000 krónum, sem veitt var skömmu síðar eða þann 7. júní 1996. Ári síðar þann 11. júní 1997 fékk lántaki frekara lán greitt út hjá LÍN og aflaði við það tilefni viðbótarábyrgðar allt að 250.000 krónum. Kom fram á yfirlýsingunni að um væri að ræða viðbótarábyrgð til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð vegna óska lántakanda um frekara lán og að heildarupphæð láns stæði í 712.832 krónum. Síðasta útgreiðsla námsláns kæranda var síðan 15. júní 1998 og aflaði lántaki einnig viðbótarábyrgðar við það tilefni að fjárhæð allt að 200.000 krónum. Kom fram á yfirlýsingunni að um væri að ræða viðbótarábyrgð til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð vegna óska lántakanda um frekara lán. Allar framangreindar lánveitingar kæranda voru á sama lánsnúmeri R-015289 og er síðasta útgreiðsla fór fram hafði lántaki þegið námslán samtals að fjárhæð 1.099.688 krónur en það var sú fjárhæð sem færð var á skuldabréfið við námslok. 

Ábyrgðir á námsláni lántaka nr. R-015289 voru samtals um 1.200.000 krónur sem skiptist á eftirfarandi ábyrgðarmenn:

 • 22. maí 1996 – kærandi tókst á hendur ábyrgð allt að 500.000 krónur.
 • 7. júní 1996 – ábyrgðarmaður A tókst á hendur viðbótarábyrgð allt að kr. 250.000
 • 11. júní 1997 – ábyrgðarmaður B tókst á hendur viðbótarábyrgð allt að kr. 250.000
 • 15. júní 1998 - ábyrgðarmaður C tókst á hendur viðbótarábyrgð allt að kr. 200.000

  Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er um að ræða verðtryggt lán með breytilegum vöxtum sem skulu aldrei vera hærri en 3%. Þá segir í skilmálum skuldabréfsins að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok og að stjórn LÍN skilgreini hvað teljist námslok í þessu sambandi. Endurgreiðslur fara fram með árlegri greiðslu, sem ákvarðast í tvennu lagi annars vegar með fastri greiðslu 48.000 krónur sem uppfærð skal miðað við lánskjaravísitölu og hins vegar viðbótargreiðslu sem er tekjutengd. Þá kemur fram í skilmálunum að lánstími sé ótilgreindur en að greiða skuli af láninu þar til skuldin sé að fullu greidd. Um vanefndir segir m.a. að endurgreiðslur séu aðfarahæfar án undangengins dóms eða sáttar, sbr. lög nr. 21/1992 og 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför. Þá segir að standi lánþegi ekki í skilum með greiðslu afborgana sé lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar. Enn fremur er tekið fram að sjálfskuldarábyrgðin gildi jafnt „þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu einu sinni eða oftar uns skuldin er að fullu greidd.“ Í skilmálum skuldabréfsins segir einnig að um það gildi ákvæði II. kafla laga um LÍN nr. 21/1992.

  Lántaki hafði þegar tekið tvö lán hjá LÍN er hún tók námslán nr. R-015289 og voru námslán lántaka því eftirfarandi:

 • lán nr. S-940235 (samkvæmt lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki)
 • lán nr. R-003379 (samkvæmt lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna)
 • lán nr. R-015289 (samkvæmt lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna)

Samkvæmt upplýsingum frá LÍN hóf lántaki afborganir af námslánum sínum á árinu 1994. Greiddi lántaki eina afborgun láns S-940235 á árinu 1994 og eina afborgun láns R-03379 á 

árinu 1995. Eftir það og fram til ársins 1999 fékk lántaki undanþágu frá endurgreiðslu námslána sökum náms og veikinda. Frá 2000 greiddi lántaki af námsláni R-003379 og þar til það var uppgreitt á árinu 2007. Samkvæmt upplýsingum LÍN hóf lántaki í september 2007 endurgreiðslur námsláns R-015289 sem kærandi er ábyrgðarmaður að og standa endurgreiðslur enn yfir. Lántaki fékk undanþágu frá afborgunum á árinu 2008 vegna veikinda. Samkvæmt gögnum sem málskotsnefnd hefur aflað frá LÍN greiddu ábyrgðarmennirnir A og C að mestu eða öllu leyti afborganir námslánsins í stað lántaka frá haustinu 2013 til haustsins 2019. Hafa aðrir ábyrgðarmenn ekki greitt afborganir. Vanskil urðu á námsláni R-015289 á árinu 2019 og var lánið gjaldfellt en gjaldfelling dregin til baka þegar vanskilin voru gerð upp í sama mánuði. Samkvæmt upplýsingum LÍN er lánið í skilum. S-lánið sem lántaki tók í gildistíð laga nr. 72/1982 bíður enn innheimtu þrátt fyrir að vera elsta lánið.

Kærandi  kannaði stöðu ábyrgðar kæranda þegar vanskil urðu af láninu á árinu 2019. Fékk kærandi þá þær upplýsingar að í samræmi við reglur LÍN hefði innheimta þess R-skuldabréfs sem kærandi væri ábyrgðarmaður að vikið fyrir innheimtu skuldabréfs nr. R-003379 á árunum 2000-2007. Þá upplýsti LÍN að eftirstöðvar lánsins væru 1.417.725 krónur og að ábyrgð kæranda stæði í 1.366.655 krónum. Kærandi fékk einnig upplýsingar um að ábyrgðir annarra ábyrgðarmanna sem tekist hefðu á hendur ábyrgð á greiðslu sama skuldabréfs hefðu lækkað hlutfallslega meira en ábyrgð hennar. Í kjölfarið sendi kærandi tvö erindi til LÍN, dagsett 13. september og 4. október 2019, þar sem hún fór þess á leit að ábyrgð hennar yrði felld niður með vísan til ákvæða laga um fyrningu kröfuréttinda. Vísaði hún til þess að greiðslur hefðu ekki hafist fyrr en 9 árum eftir námslok en hefðu átt að hefjast tveimur árum eftir námslok. Kærandi sendi síðan erindi til stjórnar LÍN 21. október 2019 þar sem hún hafnaði því að vera ábyrgðarmaður að námsláni nr. R-015289 þar sem skuld hennar væri fyrnd. Kærandi ritaði einnig opið bréf til stjórnar LÍN þann sama dag þar sem hún vísaði til þess að ábyrgð hennar hefði lækkað hlutfallslega minna en annarra ábyrgðarmanna að sama námsláni. Með ákvörðun stjórnar LÍN 28. nóvember 2019 var beiðni kæranda um niðurfellingu ábyrgðarinnar synjað.

Við gildistöku laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna (hér eftir Menntasjóður) þann 1. júlí 2020 féllu úr gildi ábyrgðir á námslánum sem voru í skilum. Samkvæmt upplýsingum Menntasjóðs stendur enn yfir vinna vegna ábyrgða og liggur ekki enn fyrir niðurstaða um ábyrgð kæranda.

Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir synjun stjórnar LÍN á kröfu um að ábyrgð hennar á námsláni nr. R-015289 verði felld niður sökum fyrningar. Í kæru sinni til málskotsnefndar lýsir kærandi því að hún hafi tekist á hendur ábyrgð að hámarki 500.000 krónur eða ábyrgð á um helmingi af upphæð lánsins. Kærandi vísar til skilmála skuldabréfsins þar sem standi orðrétt: „Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Stjórn sjóðsins ákveður hvað teljist námslok í þessu sambandi.“ Kærandi kveður óumdeilt að námslok skuldara hafi verið 14. maí 1998 og að endurgreiðsla lánsins hafi átt að hefjast árið 2000 samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Árið 2000 hafi lánið staðið í 1.215.061 krónum og ábyrgð kæranda í 552.457 krónum. Sjö ár hafi hins vegar liðið frá því að innheimta skuldabréfs sem kærandi var ábyrgðarmaður að hafi hafist. Allan tímann hafi ábyrgðin borið fulla vexti og verðbætur og sé það eitt og sér ámælisvert. Árið 2007 hafi verið greiddar 5.231 krónur í afborgun af láninu og ekkert hafi verið greitt á árinu 2008. Regluleg innheimta hafi því ekki hafist fyrr en á árinu 2009 og hafi lánið þá hækkað í 2.081.029 krónur og ábyrgð kæranda hafi þá staðið í 946.191 krónum.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN krafðist kærandi þess að staðfest yrði að krafa LÍN á hendur henni væri niður fallin sökum fyrningar en samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrndust ábyrgðarskuldbindingar á fjórum árum eftir gjaldfellingu skuldar. Vísaði kærandi til þess að LÍN hefði ekki sjálfdæmi um það hvenær innheimta námslánaskuldar hæfist, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 492/2017 og samkvæmt skilmálum skuldabréfsins hefði innheimtan átt að hefjast í september 2000. Þá yrði ekki séð að lög nr. 21/1992 hefðu heimilað slíka frestun.

Kærandi segir það rangt að engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu ábyrgðarmanna og að hún hafi gert athugasemdir strax og ljóst hafi verið að LÍN hafi ekki fylgt skilmálum skuldabréfsins. Hafi hún ítrekað mótmælt kröfu LÍN á hendur ábyrgðarmönnum á viðkomandi skuldabréfi. 

Kærandi mótmælir því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 372/2017 eigi við í máli hennar. Þar hafi atvik verið þau að skuldari hafði tekið tvö lán hjá LÍN og sami ábyrgðarmaður hafi verið á þeim báðum. Þrátt fyrir að LÍN kunni að hafa verið rétt að ráðstafa greiðslum frá skuldara að eigin geðþótta í samráði við eða án samráðs við skuldara geti það sama ekki átt við gagnvart ábyrgðarmönnum sem aldrei hafi verið upplýstir af hálfu LÍN um að fleiri en eitt skuldabréf hafi verið í gangi. Ábyrgðarmönnum að skuldabréfi nr. R-015289 hafi aldrei verið tilkynnt um að önnur skuldabréf hefðu forgang við endurgreiðslu þannig að skuldabréfið sem þeir voru ábyrgðarmenn biði innheimtu í níu ár eftir námslok, þvert á skilmála skuldabréfsins. Ábyrgðarmenn hafi ekki verið upplýstir um framgang mála og hafi þeir reiknað með að verið væri að greiða af láninu, sem væri í skilum allan tímann eða frá árinu 2000. Það gæfi auga leið að ábyrgðarmenn hefðu aldrei samþykkt að fresta greiðslu lánsins í 7 ár með fullum vöxtum og verðtryggingu og gífurlegri hækkun á ábyrgð ef þeir hefðu haft vitneskju um málið. Telur kærandi að fella eigi niður ábyrgðina eða a.m.k. að það hefði átt að frysta hana frá árinu 2000.

Með tölvupósti kæranda frá 28. apríl 2020 fylgdu upplýsingar frá LÍN um að ábyrgðarmönnum hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um inn á hvaða lán afborgun lántaka yrði ráðstafað. Væri afborgunum ráðstafað inn á eldra lán eins og vinnureglur gerðu ráð fyrir. Einnig kom þar fram að lánið væri í skilum og föst afborgun væri í greiðsludreifingu. Þá kom fram að ábyrgð kæranda hafi lækkað frá fyrra ári þar sem greitt hafi verið af láninu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda sem sendar voru 30. apríl 2020 fer kærandi þess á leit að nefndin rannsaki og kanni sannleiksgildi þeirra gagna og upplýsinga sem LÍN afhendi nefndinni til að koma í veg fyrir að ákvarðanir verði teknar á grundvelli misvísandi, villandi og rangra upplýsingum frá sjóðnum. Vísar kærandi til þess að LÍN hafi ítrekað sent frá sér villandi gögn og rangar upplýsingar í málinu. Bendir kærandi á í þessu sambandi að í athugasemdum LÍN í málinu og samskiptum hennar við sjóðinn hafi komið fram að lánið hafi verið gjaldfellt í október 2019 og sé í vanskilum. Sömu upplýsingar hafi kærandi fengið þegar hún hafi spurst fyrir um lánið í apríl 2020. Eftir ítrekuð mótmæli kæranda hafi LÍN beðist velvirðingar á þessum ruglingi. Í fylgiskjali 1 um yfirlit greiðslna hafi verið sett S-lán með gjalddaga 14.10.2019 að upphæð 1.900.231 krónur sem hafi virst vera í lögfræðiinnheimtu. Hafi þetta verið til þess fallið að villa um fyrir nefndinni. Sendi kærandi meðfylgjandi tölvupósta frá LÍN 17. apríl 2020 þar sem kom fram að lánið væri í skilum og föst afborgun væri í greiðsludreifingu. Kærandi upplýsir jafnframt að lánið hafi verið gjaldfellt í nóvember 2019 og sett í löginnheimtu þar sem ágreiningur hafi verið um ábyrgð á láninu og ábyrgðarmenn hafi neitað að greiða afborgunina þar sem þeir hafi ekki talið sig bera ábyrgð á því. Vanskilin hafi þó verið gerð upp í sama mánuði þar sem ljóst hafi verið að LÍN myndi ekki taka tillit til sjónarmiða ábyrgðarmanna. Tók kærandi fram að það hafi ekki verið fyrr en lánið hafi verið komið í löginnheimtu að kæranda hafi tekist að fá öll gögn og upplýsingar í málinu. Þessi gögn og upplýsingar hafi verið grundvallarforsenda fyrir því að kærandi hafi getað gert sér grein fyrir stöðu sinni sem ábyrgðarmaður.

Kærandi gerir athugasemdir við yfirlit afborgana frá LÍN. Ekki komi þar fram númer R-lána. Sé þetta til þess fallið að villa um fyrir kæranda og gera henni erfitt um vik að sjá hvenær endurgreiðslur hafi hafist á skuldabréfi nr. R-0015289. Endurgreiðsla hafi hafist í september 2007 en ekki tveimur árum eftir námslok, þ.e. árið 2000.

Hafi kærandi ítrekað gert athugasemdir vegna þessa hjá LÍN og hafi ítrekað neitað ábyrgð á láninu hjá LÍN. Ábyrgðarmenn hafi ekki haft neina vitneskju um að ekki væri verið að greiða af láninu hjá LÍN. Hafi ábyrgðarmenn talið lánið í innheimtu og í skilum. Hafi LÍN staðfest þetta við kæranda, sbr. tölvupóst frá LÍN 28. apríl 2020 sem kærandi sendi nefndinni.

Kærandi sendi nefndinni eftirfarandi yfirlit yfir stöðu lánsins og ábyrgðarinnar:

1996  Við undirritun skuldabréfs       1.099.688 krónur                    500.000 krónur

2000  Greiðsla átti að hefjast             1.215.061 krónur                    552.457 krónur

2007  Greitt kr. 5.231,-                      1.793.720 krónur                    754.308 krónur

2009  Eiginleg greiðsla hefst             2.194.548 krónur                    946.191 krónur

2019  Greitt í 12 ár                             1.417.725 krónur                    1.136.665 krónur

Telur kærandi að árið 2000 hefði að lágmarki átt að frysta ábyrgðina. 

Kærandi telur að með því að greiða eitt lán niður en láta annað lán bíða í tæpan áratug sé jafnræðisregla brotin gagnvart ábyrgðarmönnum lánanna. Af hálfu ábyrgðarmanna sé hér um að ræða sjálfstætt afmarkað skuldabréf, með skilmálum, sem sé ótengt öðrum lánum lántaka. Hafi ábyrgðarmenn ekki haft neina vitneskju um fyrirkomulag annarra lána lántaka hjá sjóðnum og þar með engar forsendur til að tjá sig um þau eða fyrirkomulag þeirra.

Kærandi telur að hafna eigi tilraunum LÍN til að flækja málið með tilvísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 372/2017. Þar hafi málavextir verið allt aðrir og hafi varðað lántaka og allt aðrar forsendur lægju því til grundvallar. Fyrir kæranda sé málið skýrt og einfalt. Kærandi hafi skrifað upp á skuldabréf sem ábyrgðarmaður. Ef það sem standi í skilmálum skuldabréfsins hafi ekki allt gildi og sumt sé ógilt hljóti skuldabréfið í heild sinni að vera ógilt og kærandi því ekki bundin ábyrgð sinni. Sama eigi við um aðra ábyrgðarmenn. Að mati kæranda geti það ekki verið löglegt að það sé háð geðþótta LÍN hvaða hluti skuldabréfsins hafi gildi og hver ekki. Sé það talið löglegt hljóti kærandi að hafa sama rétt til að ákveða hvaða skilmálar gildi og hverjir ekki. Vísar kærandi um það til jafnræðisreglunnar.

Í tölvupósti kæranda frá 25. júní 2020 segir kærandi að LÍN hafi sett viðbótarlán lántaka inn á skuldabréf það sem hún hafi undirritað en ábyrgð hennar hafi verið takmörkuð við höfuðstól að fjárhæð 500.000 krónur. Í viðbótarathugasemdum kæranda frá 25. júní 2020 ítrekar kærandi að ábyrgð hennar hafi verið takmörkuð við höfuðstól að fjárhæð 500.000 krónur eins og skuldabréfið beri með sér. Hafi ábyrgð hennar því einungis tekið til um 50% af höfuðstól lánsins. Samt gerði LÍN hana ítrekað ábyrga fyrir öllu láninu. LÍN hefði upplýst kæranda um að þegar afborgun væri greidd ætti ábyrgð að lækka samsvarandi. Þetta hafi ekki átt við í hennar tilviki. Ábyrgð hennar hefði lækkað minna en höfuðstóll lánsins og væri nú orðin jafnhá eða hærri en eftirstöðvar lánsins. Þá óskaði kærandi einnig eftir áliti málskotsnefndar á því hvort löglegt væri að setja höfuðstól á skuldabréf sem væri helmingi hærri en ábyrgðin á skuldabréfinu þegar ábyrgðarmaðurinn hefur takmarkað ábyrgð sína við allt að 500.000 krónur og einnig hvort löglegt væri að gera ábyrgðarmanninn ábyrgan fyrir öllu skuldabréfinu að fjárhæð 1.099.886 krónur sem væri helmingi hærri fjárhæð en ábyrgðin sem hefði verið samþykkt. Vísaði kærandi til þess að fjárhæð skuldabréfsins hefði verið sett inn eftir að hún undirritaði það og hafi hún alla tíð neitað að vera ábyrg fyrir öllu láninu. Meðfylgjandi sendi kærandi tölvupósta LÍN til hennar þar sem fram kom að fjárhæð ábyrgðar hennar væri jafnhá láninu. Hafði LÍN upplýst kæranda að staða skuldabréfsins þann 4. júní 2019 hafi verið 1.422.877 krónur og staða ábyrgðarinnar verið 1.341.973 krónur. Þann 29. apríl 2020 hafi staða lánsins verið 1.225.389 krónur og staða ábyrgðar kæranda hafi verið jafnhá.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er því lýst að lántaki hafi byrjað endurgreiðslur námslána sinna á árinu 1994 en þá hafi hún greitt eina afborgun S-lánsins og síðan hafi hún greitt eina afborgun láns nr. R-00379 á árinu 1995. Kærandi hafi síðan fengið undanþágur til ársins 2000 er hún hafi hafið afborganir láns R-03379 sem hafi staðið til ársins 2007 er lánið hafi verið uppgreitt. Stjórn LÍN bendir á að það sé meginregla kröfuréttar að þegar kröfuhafi eigi margar kröfur á hendur sama skuldara eigi skuldarinn val um inn á hvaða skuld hann ráðstafi hverju sinni. Ef engin fyrirmæli fylgi greiðslu beri almennt að miða við að kröfuhafi hafi frjálst val inn á hvaða skuld hann ráðstafi greiðslu hverju sinni. Þetta sé í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 372/2017. Í tilviki lántaka hafi greiðslum verið ráðstafað inn á eldra lánið sem þegar hafi verið í innheimtu, líkt og venja sé. Engar athugasemdir hafi borist sjóðnum vegna ráðstöfunar á afborgunum, hvorki frá aðalskuldara né ábyrgðarmönnum lána hennar fyrr en eftir að lán nr. R-03379 hafi verið uppgreitt. Í fyrrgreindum dómi hafi einnig komið fram að samkvæmt framangreindri meginreglu væri LÍN ekki skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanna í þessum efnum. Þar sem lántaki hafi greitt inn á námslán sitt í samræmi við 8. gr. laga um LÍN hafi hvorugt skuldabréfanna verið í vanskilum. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Í viðbótarupplýsingum frá LÍN frá 16. júní 2020 er útskýrt að við greiðslu lántaka á afborgunum námsláns lækki ábyrgðir á lánum í réttu hlutfalli við fjárhæð ábyrgðar. Í þeim tilvikum sem ábyrgðarmaður greiði inn á lán eða greiði afborgun í stað lántaka geti ábyrgðarmaður óskað þess að greiðslan komi til lækkunar á hans ábyrgð. Geti það leitt til þess að hlutfallsleg ábyrgðarstaða ábyrgðarmanna breytist innbyrðis en þó aldrei umfram þá fjárhæð sem viðkomandi ábyrgðarmaður hafi skrifað undir í upphafi með tilliti til vaxta og verðbóta og afborgana lántaka.

Niðurstaða

Um formskilyrði þess að málskotsnefnd Menntasjóðs úrskurði í kærumáli þessu.

Kærandi sendi kæru til málskotsnefndar LÍN sem starfaði á grundvelli 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um LÍN. Lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020 og með þeim voru voru lög nr. 21/1992 felld úr gildi. Var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (kt. 710169-0989) breytt í Menntasjóð námsmanna og tók hinn nýi Menntasjóður (kt. 710169-0989) yfir rekstur á lánakerfi LÍN sem er nú rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið. Frá og með gildistöku laganna heyra því hagsmunir lánakerfis LÍN undir Menntasjóðinn og stjórn hans. Verður meðferð kærumála sem til var stofnað í gildistíð laga nr. 21/1992 fram haldið hjá málskotsnefnd Menntasjóðs sem starfar á grundvelli hinna nýju laga og úrskurðar um lögmæti ákvarðana stjórnar Menntasjóðs sem nú fer með hagsmuni þá er áður féllu undir stjórn LÍN. Enn fremur gilda efnisákvæði laga um LÍN nr. 21/1992 um hagsmuni kæranda vegna lánsins sem tekið var í gildistíð þeirra laga, sbr. skilmála skuldabréfs láns nr. R-015289.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN fór kærandi þess á leit að felld yrði niður ábyrgð hennar á námsláni lántaka. Með gildistöku laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna þann 1. júlí 2020, sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. II, féllu niður ábyrgðir ábyrgðarmanna námslána sem voru í skilum við gildistöku laganna. Ekki liggur enn fyrir af hálfu Menntasjóðs hvort ábyrgð kæranda hafi fallið niður við gildistöku laganna. Í svari sjóðsins við fyrirspurn málskotsnefndar vegna þessa segir að ábyrgð kæranda hafi ekki verið felld niður en ástæða væri til að ætla að svo yrði gert.

Samkvæmt orðanna hljóðan leiðir af ákvæðum laga nr. 60/2020 að ábyrgðir lána í skilum falla niður frá og með gildistöku laganna. Menntasjóður hefur samkvæmt framansögðu enn ekki staðfest við málskotsnefnd að svo hátti til með ábyrgð kæranda. Fari svo að í ljós komi að skuld sú sem Menntasjóðurinn telur kæranda bera ábyrgð á hafi verið í skilum þann 1. júlí sl. og ábyrgð kæranda því niður fallin væri nærtækt að líta svo á að lögvarðir hagsmunir kæranda hafi liðið undir lok undir rekstri málsins hjá málskotsnefndinni. Þótt sú grundvallarregla sé ekki lögfest í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er það talið vera eitt meginskilyrða fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Í því felist m.a. að úrlausn stjórnsýslumáls verði að hafa þýðingu fyrir stöðu aðila að lögum. Telja verður að þegar tekin er afstaða til þess hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi verði almennt að gæta töluverðrar varfærni. Þannig þyrfti t.a.m. almennt að liggja fyrir með nokkuð skýrum hætti að úrlausn ágreinings hefði ekkert raunhæft gildi fyrir viðkomandi aðila svo að unnt yrði með réttu að fullyrða að hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausninni.

Eins og fram kemur í atvikalýsingu hefur lántaki þess láns sem kærandi er ábyrgðarmaður að ítrekað lent í vanskilum og hafa ábyrgðarmenn, aðrir en kærandi, gripið inní og komið láninu í skil. Hefur því um árabil vofað yfir kæranda gjaldfelling og jafnvel lögsókn vegna þessarar kröfu. Hefur kærandi einnig haft af þessu máli fyrirhöfn og stofnað til kostnaðar. Með vísan til þess að ekki liggur fyrir af hendi Menntasjóðs skýr yfirlýsing um niðurfellingu ábyrgðar kæranda verður að telja að ekki sé útilokað að kærandi geti haft lögvarða hagsmuni af niðurstöðu í málinu.

Efnishlið málsins.

LÍN var opinber stjórnsýslustofnun sem starfaði á grundvelli laga nr. 21/1992 og hafði það hlutverk að tryggja þeim sem undir lögin féllu tækifæri til náms án tillit til efnahags. Veitti sjóðurinn lán til námsmanna samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn giltu. Eftir gildistöku laga nr. 60/2020 er lánakerfi LÍN rekið af Menntasjóði námsmanna. Um starfsemi LÍN giltu á þeim tíma er kærandi gekkst í ábyrgð, lög nr. 21/1992 um LÍN, og ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda var byggð á ákvæðum laganna. Ber því að skera úr um kæruefni er lúta að gildi ábyrgðarinnar og samskiptum kæranda og LÍN á gundvelli þeirra laga, reglugerðar og viðeigandi úthlutunarreglna er í gildi voru á þessum tíma og eftir atvikum á þeim lögum reglum sem giltu hverju sinni. LÍN bar í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem giltu sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.

Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni.

Frestun innheimtu og reglur um fyrningu.

Kærandi vísaði í kæru sinni og erindum til LÍN til þess að samkvæmt skilmálum skuldabréfs þess sem hún undirritaði hafi innheimta námsláns nr. R-015289 átt að hefjast tveimur árum eftir námslok, þ.e. á árinu 2000. Sjö ár hafi hins vegar liðið frá námslokum og þar til innheimta lánsins hófst. Kærandi hefur einnig vísað til þess að ábyrgðarmönnum hafi aldrei verið tilkynnt um að önnur skuldabréf hefðu forgang. Samkvæmt þágildandi fyrningarlögum nr. 14/1905 hafi ábyrgðarskuldbindingar fyrnst á fjórum árum frá gjaldfellingu skuldar og sé því ábyrgðarskuldbinding kæranda fyrnd. Kærandi hefur einnig krafist þess að ábyrgðin verði felld niður eða a.m.k. að frysta hafi átt ábyrgðina frá árinu 2000.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 372/2017 var skorið úr ágreiningi vegna innheimtu tveggja R-lána. Tveir ábyrgðarmenn voru á fyrra láninu og var annar þeirra jafnframt ábyrgðarmaður að hinu síðara. Í málinu var tekist á um hvort LÍN hafi verið heimilt að ráðstafa greiðslum lántaka fyrst inn á eldra R-lán. Dómurinn vísaði til 7., 8. og 9. gr. laga, sbr. og 18. gr. laganna um LÍN um að við endurgreiðslur námslána væri miðað við að endurgreiðslur skyldu ganga til greiðslu heildarskuldar innan sama lánaflokks, þ.e. í þessu tilviki skyldu endurgreiðslur ganga til greiðslu R-lána skuldarans. Taldi dómurinn að með vísan til þessa yrði að telja að bæði skuldabréf skuldarans í málinu, þ.e. R-007655 og R-024321, hefðu orðið gjaldkræf tveimur árum eftir námslok, sbr. og Hrd 242/2010.

Í fyrrgreindum dómi í máli nr. 372/2017 kemur í fyrsta lagi fram að þegar um er að ræða tvö R-lán þá verði þau bæði gjaldkræf tveimur árum eftir námslok. Í öðru lagi leiði af meginreglum kröfuréttar að ef skuldari lætur engin fyrirmæli fylgja inn á hvaða lán skuli greitt ráði LÍN hvernig innborgun sé ráðstafað og þ.a.l. sé LÍN heimilt að bíða með innheimtu yngra R-lánsins þar til endurgreiðslu hins eldra sé lokið. Í þriðja lagi að þar sem þetta fyrirkomulag sé í samræmi við meginreglur kröfuréttar sé LÍN ekki skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanna í þessum efnum.

Kærandi heldur því fram að þrátt fyrir ofangreindan dóm sé ljóst með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 492/2017 að LÍN hafi ekki mátt bíða með innheimtu R-láns þess sem hún er ábyrgðarmaður að. Á þetta verður ekki fallist. Eins og vísað er til í máli nr. 372/2017 er það í samræmi við meginreglur kröfuréttar að kröfuhafi hafi frjálst val inn á hvaða kröfu hann ráðstafi greiðslum hverju sinni og í því sambandi skipti hagsmunir ábyrgðarmanns ekki máli. Telja verður að meginreglan eigi við hvort sem um er að ræða sama ábyrgðarmann eða ekki. Þá er í Hrd. 492/2017 fjallað um mál af öðrum toga en tilvik kæranda en í málinu var talið að ábyrgðarmaður á eldra S-láni sem tekið var í tíð laga nr. 72/1982 yrði að sæta því að lög væru sett, þ.e. lög nr. 21/1992, eftir að hann tókst á hendur ábyrgðina þar sem kveðið var á um að greiða skyldi niður yngra R-lán, þ.e. í öðrum lánaflokki, á undan S-láni því sem hann hafði tekist á hendur ábyrgð á. Þá réðst niðurstaða þess máls af því að um var að ræða verulegan drátt af hálfu LÍN á að hefja innheimtu S-skuldabréfsins í kjölfar árangurslausrar innheimtu R-lánsins. Voru atvik í því máli því ekki sambærileg við þau álitamál sem uppi eru í máli þessu þar sem skuldabréfi námsláns R-03379 sem kærandi tókst á hendur ábyrgð á var haldið í skilum. Þá er rétt að geta þess að kærandi í þessu máli nýtur hagræðis af því fyrirkomulagi sem fjallað er um í ofangreindu máli, þ.e. afborgunum hefur verið frestað af eldra S-láni sem lántakinn tók í gildistíð laga nr. 72/1982 þar til lántaki hefur endurgreitt bæði skuldabréf R-lána sinna.

Á þeim tíma er kærandi tókst á hendur ábyrgð sína á námsláni R-015289 var í gildi reglugerð nr. 210/1993 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gilti hún því um ábyrgðarskuldbindingu kæranda. Í 23. gr. reglugerðarinnar er fjallað um innbyrðis röð R-lána þegar lántakar taka fleiri en eitt námslán á eftirfarandi hátt:

Nú byrjar lánþegi lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námi telst lokið skv. 20. gr. um námslok. Er þá heimilt að veita honum undanþágu frá endurgreiðslum af fyrri skuld meðan síðara námið stendur yfir, sbr. 27. gr. Námsmanni reiknast síðan önnur heildarskuld vegna síðara námsins og fer um greiðslurnar af henni eins og um sjálfstætt lán væri að ræða nema hvað heildargreiðslur á hverju ári skulu aldrei vera meiri en kveðið er á um í 21. og 22. gr. og víkur greiðsla af síðari skuld þá fyrir greiðslu af fyrri skuld þar til hún er að fullu greidd. Vextir reiknast af fyrri skuld á meðan á síðara námi stendur en þeir greiðast á sama hátt og höfuðstóll fyrra lánsins.

Samkvæmt framansögðu voru á þeim tíma er kærandi gekkst í ábyrgðarskuldbindingu sína skýr fyrirmæli í reglugerð nr. 210/1993 um að færi lántaki aftur í nám skyldi bíða með innheimtu eldra R-láns hans á meðan á námi stæði og að eftir námið skyldi síðan haldið áfram innheimtu þessa eldra R-lán þar til það væri uppgreitt. Eftir það skyldi innheimta yngra R-lánið. Reglugerð nr. 210/1993 var felld úr gildi með reglugerð nr. 602/1997 hinn 27. október 1997. Voru í hinni nýju reglugerð engin fyrirmæli um hvernig fara skyldi með endurgreiðslur þegar námsmaður byrjaði nám aftur eftir lok fyrra náms en framkvæmd LÍN var áfram hin sama. 

Samkvæmt framansögðu leiðir bæði af dómi Hæstaréttar í máli nr. 372/2017 og þeim meginreglum kröfuréttar sem þar er vísað til, sem og af reglugerð nr. 210/1993 og venjubundinni framkvæmd LÍN, að þrátt fyrir að bæði námslán R-03379 og R-015279 hafi verið gjaldkræf tveimur árum eftir námslok, hafi LÍN verið rétt að setja eldra R-lánið í forgang við innheimtu gagnvart skuldara. Greitt var af því láni í samræmi við skilmála þess og samkvæmt þeim fyrirmælum sem fram koma í 8. gr. laga um LÍN um tvær afborganir á ári, fasta afborgun og tekjutengda afborgun, auk heimildar til undanþágu í tilteknum tilvikum. Var því ekki um að ræða nein vanskil af hálfu skuldara sem hefðu getað gefið LÍN heimild til að gjaldfella námslán R-015289. Þessi skilningur er staðfestur í dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 372/2017. Þá er til þess að líta að þrátt fyrir að einhverra mánaða greiðsludráttur hafi verið í einstaka tilviki við innheimtu R-lánsins, sbr. gögn í máli þessu, og að eftirstöðvar lánsins kunni að hafa verið gjaldfelldar eða sjálfkrafa fallið í gjalddaga, var láninu ávallt komið í skil og fyrningarfrestur því rofinn, sbr. m.a. Hrd. 119/2016 um rof fyrningar á R-skuldabréfi. Er því ekki annað komið fram í málinu en að ábyrgðarskuldbinding kæranda sé ófyrnd.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi verið heimilt að bíða með innheimtu á skuldabréfi R-015289 þar til lántaki hafði lokið endurgreiðslu á námsláni nr. R-00379. Skiptir engu máli í þessu sambandi þó ekki séu sömu ábyrgðarmenn á skuldabréfunum. Framangreint fyrirkomulag á innheimtu námslánsins getur því ekki leitt til þess að ábyrgðarskuldbinding kæranda teljist vera fyrnd. Er því kröfum kæranda um niðurfellingu ábyrgðarskuldbindingarinnar sökum fyrningar hafnað.

Umfang ábyrgðarskuldbindingar kæranda.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN byggði kærandi eingöngu á því að ábyrgð hennar væri fyrnd. Samhliða erindi sínu sendi kærandi einnig opið bréf til stjórnar LÍN og Alþingismanna þar sem hún gerði athugasemdir við framkvæmd LÍN og að samanlögð ábyrgð ábyrgðarmanna væri 174% af höfuðstól. Hefði ábyrgð hennar hækkað úr um það bil 50% í tæplega 100% af höfuðstól skuldabréfsins. Hefur kærandi útfært nánar þessar athugasemdir við meðferð málsins hjá málskotsnefnd og aflað gagna um stöðu ábyrgðar sinnar og annarra ábyrgðarmanna. Telur kærandi að hún hafi verið gerð ábyrg fyrir öllu skuldabréfinu en þegar hún hafi undirritað ábyrgðina fyrir 23 árum hafi ábyrgðin verið 500.000 krónur og numið um 50% af höfuðstól lánsins. Samkvæmt gögnum málsins, m.a. upplýsingum frá LÍN um stöðu lánsins og stöðu ábyrgðar kæranda haustið 2019, hafi staða lánsins verið 1.417.725 krónur eftir að afborganir höfðu verið greiddar í mörg ár á meðan ábyrgð kæranda hafði verið uppreiknuð miðað við vísitölu í 1.366.688 krónur eða tæplega 100% af upphæð lánsins.

Þá gerir kærandi athugasemdir við að ábyrgðir annarra ábyrgðarmanna hafi lækkað meira en hennar og sé m.a. ábyrgð þess er í upphafi bar ábyrgð á 25% af höfuðstól nú um 33%. Í skýringum sem málskotsnefnd aflaði frá LÍN vegna þessa segir að tveir ábyrgðarmenn hafi  greitt inn á ábyrgðir sínar sem hafi lækkað samsvarandi.

Eftir stendur álitamál um lögmæti þeirrar afstöðu LÍN að uppreiknuð ábyrgð hvers og eins ábyrgðarmanns byrji ekki að lækka meðan viðkomandi ábyrgð er lægri en höfuðstóll skuldabréfsins. Að mati kæranda eiga ábyrgðirnar að lækka þegar höfuðstóll skuldabréfsins fer niður fyrir samanlagðar uppreiknaðar ábyrgðir allra ábyrgðarmanna.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls „heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.“ Í erindi sínu til stjórnar LÍN byggði kærandi á því að ábyrgðin væri fyrnd. Stjórn LÍN tók afstöðu til þessarar málsástæðu kæranda. Í kæru sinni til málskotsnefndar óskaði kærandi síðan eftir því að ákvörðun stjórnar LÍN yrði felld úr gildi. Kæruheimild kæranda samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nær samkvæmt framansögðu einungis til þeirra málsástæðna sem stjórn LÍN bar að taka afstöðu til, sem var hvort ábyrgð kæranda væri fyrnd. Undir rekstri málsins hjá málskotsnefnd gerði kærandi eins og áður segir athugasemdir varðandi útreikning á ábyrgð sinni.

Eins og að ofan greinir var ekki fjallað um þetta álitamál af stjórn LÍN í hinni kærðu ákvörðun. Með vísan til þessa, sbr. og grein 5.a. laga um LÍN, þar sem fram kemur að valdsvið málskotsnefndar er takmarkað við að skera úr um hvort úrskurðir/ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða, er það niðurstaða málskotsnefndar að ekki verði tekin afstaða til þessa álitamáls í þessum úrskurði. 

Málskotsnefnd telur þó rétt að taka fram að í ljósi þess að kærandi sendi opið bréf m.a. til stjórnar LÍN er laut að útreikningi ábyrgðar hennar hefði stjórninni verið rétt samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga að leiðbeina kæranda um að bera málið undir stjórnina eftir þeim leiðum sem gert er ráð fyrir í lögum og reglum um LÍN, þ.e. að óska eftir formlegri afstöðu stjórnarinnar í málinu á sama hátt og kærandi hafði gert varðandi fyrningu. Ekki síst var þetta nauðsynlegt þar sem útreikningur ábyrgða getur falið í sér flókin lögfræðileg álitamál, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 517/2017 þar sem hafnað var afstöðu LÍN um hvernig reikna bæri ábyrgðir á einu og sama skuldabréfinu sem tók til námslána sem greidd voru út á nokkrum árum og með mörgum ábyrgðarmönnum eins og er í tilviki kæranda. Er þó með þessari athugasemd engin afstaða tekin til útreiknings ábyrgðar kæranda.

Upplýsingagjöf LÍN.

Kærandi hefur lýst samskiptum sínum við LÍN og rangri og ófullnægjandi upplýsingagjöf, m.a. um vanskil lánsins. Fyrir liggur að um var að ræða mistök starfsmanns sjóðsins í tvígang sem voru síðan leiðrétt. Að mati málskotsnefndar er tilefni fyrir Menntasjóð að vanda betur til upplýsingagjafar til ábyrgðarmanna. Eins og fyrir liggur í þessu máli getur verið að flókin lögfræðileg álitamál og spurningar vakni hjá ábyrgðarmönnum bæði fyrir og eftir að ábyrgð er veitt. Er fullt tilefni fyrir sjóðinn að hafa á reiðum höndum upplýsingaefni þar sem umfang og eðli ábyrgðarskuldbindinga bæði hjá hinum nýja Menntasjóði og vegna eldri skuldbindinga hjá LÍN er skýrt út.

Kærandi hefur vísað til þess að LÍN hafi borið að tilkynna henni um að innheimta skuldabréfs námsláns þess er hún var ábyrgðarmaður að hefði vikið fyrir innheimtu skuldabréfs námsláns nr. R-03379. Um skyldu LÍN (nú Menntasjóðs) til að upplýsa um stöðu ábyrgða gilda ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hvílir sú skylda á lánveitendum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna að senda ábyrgðarmanni árlega upplýsingar um stöðu láns og ábyrgðar. Fyrir gildistöku laganna tíma hvíldi einungis sú skylda á LÍN að veita upplýsingar um stöðu ábyrgðar og láns þegar ábyrgðarmaður fór þess sérstaklega á leit.

Með vísan til framanritaðs er staðfest hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 28. nóvember 2019 þar sem synjað er niðurfellingu á ábyrgð kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 28. nóvember 2019 þar sem synað er niðurfellingu ábyrgðar kæranda er staðfest.

Til baka