Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2020 - Ábyrgðir - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

ÚRSKURÐUR

Ár 2020, miðvikudaginn 14. október, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-5/2020.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 16. mars 2020 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. janúar 2020 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu ábyrgðar erfingja A á námslánum lántaka og ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. mars 2020 þar sem hafnað var endurupptöku fyrri ákvörðunar hennar í málinu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 18. maí 2020 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar þann 25. júní 2020. Kærandi upplýsti málskotsnefnd þann 24. maí 2020 að hann hafi fengið tilkynningu um málssókn LÍN vegna ábyrgðarinnar. Málskotsnefnd fékk afrit stefnunnar frá LÍN þann 30. sama mánaðar en þar kemur fram að mál gegn skuldara lánsins og ábyrgðarmönnum verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. október 2020. Þann sama dag tilkynnti málskotsnefnd kæranda að dráttur yrði á meðferð málsins fram yfir sumarleyfi.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er einn af 25 erfingjum A sem lést 4. september 2004. Tóku kærandi og aðrir erfingjar arf eftir A með einkaskiptum sem lokið var þann 22. desember sama ár. Í gögnum málsins er bréf frá LÍN dagsett 17. febrúar 2015 til kæranda vegna ábyrgðarinnar þar sem segir að A hafi verið ábyrgðarmaður að námsláni lántaka nr. R-000 frá 16. júlí 2002. Með einkaskiptunum hafi kærandi ásamt öðrum erfingjum tekist á hendur skuldbindingar dánarbús A, þ.m.t. sjálfskuldarábyrgð hennar á fyrrgreindu námsláni. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið þetta bréf. Þann 17. febrúar 2017 sendi LÍN kæranda yfirlit vegna ábyrgðarinnar, sbr. lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, og  einnig þann 2. febrúar 2018, 2. febrúar 2019 og 4. febrúar 2020. Í tilkynningum LÍN frá 2019 og 2020 segir að lánið sem kærandi beri ábyrgð á sé í skilum en að annað lán lántaka hjá LÍN sé í vanskilum. Þann 22. febrúar 2017 sendi kærandi tölvupóst til LÍN þar sem hann mótmælti ábyrgðinni. Vísaði kærandi til þess að aldrei hafi komið fram að A sem hafi látist á árinu 2004 hafi verið ábyrgðarmaður að námsláni. Þá kæmi fram í upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu að erfingjar yrðu ekki sjálfkrafa ábyrgir fyrir skuldum hins látna. Einnig hefði LÍN ekki tilkynnt erfingjum um ábyrgðina og því gæti hún ekki orðið að veruleika. Kvaðst kærandi ekki áður hafa fengið tilkynningu um að hann væri í ábyrgð á umræddu námsláni. Í svari LÍN til kæranda þann 1. mars 2017 sagði að þrátt fyrir að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu yrði slíkt ekki tilefni til niðurfellingar ábyrgðar nema sannað væri að tjón hefði hlotist af. Lánið væri í skilum og ekki hefðu fallið til dráttarvextir eða kostnaður vegna lánsins. Væri því ekki hægt að líta svo á að um verulega vanrækslu hafi verið að ræða. Einnig var kæranda sent afrit af bréfi LÍN frá 2015 vegna ábyrgðarinnar. Í tölvubréfi LÍN til kæranda 6. mars 2017 var ítrekað að ábyrgð væri ekki felld niður nema annar ábyrgðarmaður kæmi í staðinn. Var kæranda einnig bent á að bera mál sitt undir stjórn til formlegrar ákvörðunar sem hann gæti síðan eftir atvikum skotið til málskotsnefndar. Frekari bréfaskipti kæranda og LÍN urðu svo á árunum 2018 og 2019.

Þann 23. nóvember 2019 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN þar sem hann fór þess á leit að ábyrgðin yrði felld niður. Vísaði kærandi til þess að það hafi ekki verið fyrr en með tilkynningu þann 29. febrúar 2017 sem LÍN hafi látið erfingja A vita um yfirfærslu ábyrgðarinnar, þ.e. 14 árum eftir andlát ábyrgðarmannsins. Vísaði kærandi til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn um skyldu lánastofnana til að tilkynna ábyrgðarmönnum um stöðu ábyrgðar um hver áramót. Kærandi hefði í kjölfar bréfsins tilkynnt LÍN fyrir hönd allra ábyrgðarmannanna að þeir höfnuðu ábyrgðinni. Teldi kærandi að ábyrgðin væri niður fallin sökum vanrækslu LÍN.

Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda þann 28. janúar 2020 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 31. sama mánaðar. Var niðurstaðan byggð á tilvísun til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., þar sem fram komi að eitt af skilyrðum þess að leyfi til einkaskipta sé gefið út sé að erfingjar taki á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldum dánarbúsins, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Um leið og leyfi til einkaskipta hafi verið gefið út verði þriðjamannsloforð erfingja gagnvart kröfuhöfum dánarbúsins virkt og upp frá því geti kröfuhafar sótt kröfur sínar á hendur erfingjum, sbr. 89. gr. laganna. Þá vísaði stjórn LÍN til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 2/2009 um að ábyrgðarmenn skuli vera skaðlausir af vanrækslu lánveitanda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. og ef vanræksla er veruleg skuli ábyrgð niður falla. Lögin hafi tekið gildi á árinu 2009. Hafi LÍN fengið upplýsingar um erfingja dánarbús ábyrgðarmannsins árið 2014 og hafi sent ábyrgðarmönnum tilkynningu eins fljótt og auðið var. Ábyrgðarkrafa LÍN væri eignarréttindi sem nyti verndar sem slík samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hefði ekki verið fallist á að vanræksla á tilkynningaskyldu ylli niðurfellingu ábyrgðar nema sýnt væri að sjóðurin hafi valdið meiri skaða en bættur væri með úrræðum samkvæmt 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 229/2009. Ekki hafi verið sýnt fram á slíka vanrækslu í máli kæranda. Þá hefði stjórn LÍN engar heimildir til að fella niður ábyrgðir. Slík kæmi einungis til ef nýr ábyrgðarmaður eða trygging sem stjórnin mæti fullnægjandi kæmi í staðinn.

Þann 17. febrúar 2020, sendi kærandi beiðni um endurupptöku til stjórnar LÍN. Rakti kærandi í nokkrum liðum hvers vegna fella bæri ábyrgðina niður. Vísaði kærandi til aldurs ábyrgðarmanns. Allir aðilar hefðu mátt gera sér grein fyrir að aldur, líf og atgerfi ábyrgðarmanns myndi ekki endast út ábyrgðartímann. Þá vísaði kærandi til þess að samkvæmt 6. mgr. 7. mgr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skyldi stjórn LÍN meta hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skyldu fullnægja. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum um LÍN hafi komið fram að ráð væri fyrir gert að sjóðurinn gerði sömu kröfur til ábyrgðarmanna og aðrar lánastofnanir. Vegna þessa hefði LÍN borið að fara eftir samkomulagi um ábyrgðarskuldbindingar sem tilteknar lánastofnanir undirrituðu á árinu 2001. Kærandi hafnaði því að hafa fengið tilkynningu á árinu 2015 um ábyrgðina. Hann hefði ekki fengið neina tilkynningu fyrr en á árinu 2017. Það að LÍN hafi fyrst borist upplýsingar um ábyrgðina á árinu 2014 sannaði rækilega vanrækslu LÍN því fyrsta tilkynning vegna laga nr. 32/2009 hefði borist í lok febrúar 2017. Þá hafi innheimta lánisins ekki enn verið hafin þar sem lántaki hafi verið að greiða af öðru láni. Þá bendir kærandi á að lánið sem hann sé ábyrgðarmaður að sé R-lán og samkvæmt 18. gr. laga um LÍN skuli greiðslur af eldri námslánaskuldum frestast þar til R-lán séu að fullu greidd. Að lokum bendir kærandi á að upplýsingar um ábyrgðina hafi komið erfingjum A í opna skjöldu. Miðað við sýnishorn af rithönd A verði ekki betur séð en að einhver hafi ritað nafn hennar í heimildarleysi á skuldabréfið.

Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um endurupptöku þann 5. mars 2020 með vísan til þess að þau atriði sem kærandi teldi upp í endurupptökubeiðni sinni hafi öll legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Með vísan til þessa og 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri beiðni kæranda synjað. Jafnframt benti stjórn LÍN kæranda á að snúa sér til lögreglunnar ef hann teldi vafa leika á undirskrift ábyrgðarmanns. Þá vísaði stjórn LÍN kæranda á að snúa sér til Gjaldskila en samkvæmt grein 8.7 í úthlutunarreglum LÍN bæri lánþega að semja beint við lögmenn án milligöngu LÍN þegar afborgun væri í löginnheimtu. Þá kæmi jafnframt fram í úthlutunarreglunum að þegar höfuðstóll láns sem veitt hafi verið samkvæmt lögum nr. 21/1992 væri gjaldfelldur hefði sjóðurinn einnig heimild til að gjaldfella önnur lán í sama lánaflokki.

Sjónarmið kæranda sett fram í kæru.

Í kærunni tilgreinir kærandi að af þeim sjö röksemdum sem hann hafi sett fram í endurupptökubeiðni til stjórnar LÍN séu tvær þar sem hann telji að fyrir liggi að LÍN vinni gegn lögum og vinnureglum lánastofnana.

Í fyrsta lagi vísar kærandi til athugasemda í frumvarpi sem varð að lögum nr. 21/1992 um LÍN þar sem segir að gert sé ráð fyrir að sjóðurinn geri sömu kröfur til ábyrgðarmanna og aðrar lánastofnanir. Kærandi tilgreinir að engin lánastofnun hafi tekið gilda ábyrgðir þeirra sem hafi verið 75 ára eða eldri. A hafi verið 86 ára er hún ritaði undir ábyrgðina og hafi það því verið andstætt vinnureglum lánastofnana. Í öðru lagi hafi starfsmenn LÍN orðið uppvísir að því að vinna ekki samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn er tóku gildi árið 2009. Fyrsta tilkynning hafi borist kæranda og öðrum ábyrgðarmönnum lánsins í febrúar 2017, átta árum eftir að lögin hafi verið sett. Margra ára handvömm LÍN að tilkynna ekki ábyrgðarmönnum stöðu sína telur kærandi til „verulegra vanskila“ sem leiði til niðurfellingar ábyrgðar eins og segi í lögunum. Þess utan telur kærandi vera með ólíkindum að stjórn LÍN hafi neitað að endurupptaka málið þegar kærandi hafi sett fram sex ný rök til viðbótar fyrri röksemdum. Kærandi útfærir nánar athugasemdir sínar í andmælabréfi sínu og bætir jafnframt við að hann geri ekki kröfu til þess að málskotsnefndin rannsaki meinta fölsun undirskriftar, slíkt verði gert á öðrum vettvangi.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að A hafi gengist í ábyrgð á námsláni nr. R-036793. A hafi fallið frá á árinu 2004 og við einkaskipti hafi ábyrgðin fallið á kæranda og aðra erfingja, sbr. ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Eitt skilyrða fyrir veitingu leyfa til einkaskipta sé að erfingjar taki á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum sem hvíli á búinu.

LÍN hafi fyrst borist upplýsingar um hverjir væru erfingjar að dánarbúinu á árinu 2014 og hafi sent tilkynningu um ábyrgðina til erfingjanna í byrjun árs 2015. Frá 2017 hafi kærandi árlega fengið yfirlit um stöðu ábyrgðarinnar. Ítrekar LÍN að ábyrgðarkrafan teljist til eignarréttinda sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Geti ábyrgðin ekki fallið niður nema sýnt sé að LÍN hafi valdið kæranda og öðrum erfingjum meiri skaða en bættur verði með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 229/2015. Ekki hafi verið sýnt fram á verulega vanrækslu í skilningi laganna. LÍN hafi ekki heimildir til að fella niður ábyrgðir nema nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging komi í staðinn.

Varðandi endurupptökubeiðni kæranda ítrekar LÍN að um hafi verið að ræða upplýsingar um atriði er legið hafi fyrir þegar ákvörðun í málinu var tekin. Taldi LÍN að atvik hefðu ekki breytst verulega frá fyrri ákvörðun í málinu og hafi því beiðni um endurupptöku verið hafnað. Þá hafi kæranda verið leiðbeint um að leita til lögreglu vegna meintrar fölsunar undirskriftar. Niðurstaða stjórnar LÍN sé í samræmi við fyrri ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer LÍN fram á að niðurstaða stjórnar verði staðfest.

Niðurstaða

Kærandi sendi kæru til málskotsnefndar LÍN sem starfaði á grundvelli 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um LÍN. Lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020 og með þeim voru voru lög nr. 21/1992 felld úr gildi. Var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (kt. 710169-0989) breytt í Menntasjóð námsmanna (kt. 710169-0989) og er lánakerfi LÍN rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið. Frá og með gildistöku laganna heyra því hagsmunir lánakerfis LÍN undir Menntasjóðinn og stjórn hans. Verður meðferð kærumála sem til var stofnað í gildistíð laga nr. 21/1992 fram haldið hjá málskotsnefnd Menntasjóðs sem starfar á grundvelli hinna nýju laga og úrskurðar um lögmæti ákvarðana stjórnar Menntasjóðs sem nú fer með hagsmuni þá er áður féllu undir stjórn LÍN. Þrátt fyrir að ný lög um Menntasjóð hafi tekið gildi eiga efnisákvæði laga um LÍN nr. 21/1992 við um hagsmuni kæranda vegna lánsins sem tekið var í gildistíð þeirra laga, sbr. skilmála skuldabréfs láns nr. R-000.

Samkvæmt gögnum málsins gekkst A, þá 85 ára gömul, í ábyrgð á námsláni lántaka 16. júlí 2002. A lést tveimur árum síðar. Kærandi og aðrir erfingjar hennar skiptu búinu einkaskiptum.

Kærandi hefur teflt fram nokkrum rökum um ógildi ábyrgðarinnar sem skipta má í tvo flokka. Í fyrsta lagi að ekki hafi verið gætt að lögum og reglum þegar stofnað hafi verið til ábyrgðarinnar og því sé hún ógild frá öndverðu. Í öðru lagi hefur kærandi rökstutt að síðari atvik eigi að leiða til þess að ábyrgðin teljist niður fallin. Þá hefur kærandi undir rekstri málsins hjá málskotsnefnd upplýst um gjaldfellingu lánsins og lýst því yfir að gjaldfelling þess gagnvart sér og öðrum ábyrgðarmönnum standist ekki.

    a. Stofnun ábyrgðarskuldbindingarinnar.

Um starfsemi LÍN giltu á þeim tíma er kærandi gekkst í ábyrgð lög nr. 21/1992 um LÍN og byggir ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda á ákvæðum þeirra laga. Ber því að skera úr um kæruefni er lúta að gildi ábyrgðarinnar og samskiptum kæranda og LÍN á grundvelli þeirra laga, reglugerðar og viðeigandi úthlutunarreglna er í gildi voru á þessum tíma og eftir atvikum á þeim réttarreglum sem giltu hverju sinni. LÍN bar í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem giltu sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.

Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni.

 Í 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN kom fram að stjórn LÍN skyldi ákveða hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skyldu fullnægja. Í athugasemdum við frumvarp það sem síðar varð að lögum nr. 21/1992 segir um þetta að gert sé ráð fyrir því „að sjóðurinn geri sömu kröfur til ábyrgðarmanna og aðrar lánastofnanir.“ Að mati kæranda felst í tilvitnuðu ákvæði og athugasemdum við það að Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 sem samtök banka- og verðbréfafyrirtækja, f.h. aðildarfélaga sinna, og Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, voru aðilar að hafi átt að gilda um ábyrgðir hjá LÍN.

Dómstólar hafa ítrekað hafnað því að LÍN og aðrir lánveitendur sem ekki undirrituðu þetta samkomulag hafi verið bundnir af skilmálum þess og eru þær niðurstöður bindandi fyrir málskotsnefndina. Sjá m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 196/2015 í máli A og B gegn LÍN þar sem sagði: 

Óumdeilt er að mat fór ekki fram á greiðslugetu lántakans, hvorki á árinu 2001 né 2005. Með vísan til forsendna héraðsdóms gilti samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 ekki um stefnda.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið LÍN hafi borið að meta greiðslugetu skuldara eða hæfi A til að gangast undir ábyrgðarskuldbindinguna á grundvelli umrædds samkomulags.

Í úthlutunarreglum LÍN vegna námsársins 2002-2003 sem í gildi voru er A tókst á hendur ábyrgð sína og birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda koma fram eftirfarandi kröfur til ábyrgðarmanna í grein 5.3.2:

Ábyrgðarmaður staðfestir með undirskrift sinni á skuldabréf eða ábyrgðaryfirlýsingu að hann hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins.

Einungis fjárráða einstaklingar geta verið ábyrgðarmenn hjá sjóðnum en ekki lögpersónur eða fyrirtæki. Ábyrgðarmenn verða að vera orðnir 18 ára en enginn hámarksaldur gildir um ábyrgðarmenn.

Einn ábyrgðarmaður skal að lágmarki takast á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántakanda.

Ábyrgðarmenn skulu að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Óheimilt er að samþykkja þá menn sem ábyrgðarmenn fyrir námsláni, sem eru á skrá vegna gjaldþrots eða annarra verulegra fjárhagsörðugleika eða þeir teljist af öðum ástæðum bersýnilega ótryggir ábyrgðarmenn að mati sjóðsins.

Breytist staða ábyrgðarmanns þannig að hann telst ekki lengur uppfylla ofangreind skilyrði þá skal lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fær frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá ábyrgist hinn nýi ábyrgðarmaður allt það lán sem lántakandi hefur fengið ásamt því sem hann kann að fá til viðbótar. Hin nýja ábyrgð getur þó ýmist verið til viðbótar fyrri ábyrgð eða samhliða henni. Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp.

Fram kemur í ofangreindu ákvæði úthlutunarreglna LÍN að enginn hámarksaldur gilti um ábyrgðarmenn á þeim tíma er A tókst á hendur ábyrgð á skuldabréfi námsláns nr. R-036793. Ekki hafa verið lögð fram nein læknisfræðileg gögn er staðfesta að A hafi sökum ellihrumleika verið ófær um að takast á hendur ábyrgðarskuldbindinguna. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á þá röksemd kæranda að LÍN hafi ekki mátt fallast á A sem ábyrgðarmann að láninu sökum aldurs hennar.

Samkvæmt ofangreindum úthlutunarreglum bar LÍN að kanna hvort ábyrgðarmaður hafi verið gjaldþrota eða í fjárhagsvandræðum. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að fjárhagsstaða A hafi verið þannig að LÍN hafi verið óheimilt að fallast á hana sem ábyrgðarmann. Verður ekki annað séð en að hún hafi verið gjaldfær enda tóku kærandi og aðrir erfingjar arf eftir hana tveimur árum síðar.  

Samkvæmt framansögðu er ekkert komið fram í máli þessu um að þeir ágallar hafi verið á ábyrgðarskuldbindingu A að hún geti talist ógild frá öndverðu eða að ósanngjarnt geti talist af LÍN að bera skuldbindinguna fyrir sig vegna þess hvernig staðið hafi verið að veitingu ábyrgðarskuldbindingarinnar.

    b. Síðar til komin atvik sem geti leitt til þess að fella beri ábyrgð niður.

Kærandi kveður að LÍN hafi ekki sent honum tilkynningu um ábyrgðarskuldbindinguna fyrr en á árinu 2017. Þá hefur kærandi vísað til þess að sökum þess að LÍN hafi ekki tilkynnt honum um „yfirfærslu“ ábyrgðarinnar eigi það að leiða til niðurfellingar ábyrgðarinnar.

A tókst á hendur ábyrgðarskuldbindinguna þann 16. júlí 2002 með undirritun skuldbindingar þess efnis á skuldabréf lántaka hjá LÍN. A lést eins og áður segir 4. september 2004. Það kemur fram í 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. að við andlát tekur dánarbú hins látna við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut og öllum fjárhagslegum skuldbindingum, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Við andlát A tók því dánarbú hennar við ábyrgð hennar á láni lántaka hjá LÍN. Erfingjar A fengu leyfi til einkaskipta hjá sýslumanni þann 4. nóvember 2004. Samkvæmt 28. gr. laga um skipti á dánarbúum er m.a. sett það skilyrði fyrir slíku leyfi að „erfingjar hafi tekið að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku.“ Hefur verið talið að það hvíli á erfingjum sjálfum að afla upplýsinga um skuldbindingar dánarbús við einkaskipti. Samkvæmt framangreindu urðu kærandi og aðrir erfingja ábyrgðarmenn að námsláni lántaka um leið og þeir fengu leyfi til einkaskipta og báru þeir einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið, sbr. 97. gr. fyrrgreindra laga.

Einnig er til þess að líta að í úthlutunarreglum LÍN vegna 2002-2003 sem í gildi voru er A tókst á hendur ábyrgðina segir í grein 5.3.3 að látist ábyrgðarmaður geti „lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir ofangreind skilyrði en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins.“ Hefur Hæstiréttur byggt á því að ábyrgðarkrafa vegna námsláns teljist til eignarréttinda LÍN. Séu slík eignarréttindi varin af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. Hrd. 229/2015 þar sem erfingjar voru dæmdir til greiðslu ábyrgðarkröfu LÍN. Ljóst er að lögum samkvæmt eignaðist LÍN ábyrgðarkröfu á erfingja A um leið og leyfi til einkaskipta var veitt á árinu 2004 og að ekki þurfti sérstaka tilkynningu frá LÍN til erfingja um „yfirfærslu“ til þess að erfingjar teldust hafa tekist á hendur ábyrgðina.

Lög nr. 32/2009 tóku gildi þann 1. október 2009. Samkvæmt 7. gr. laganna skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni tilkynningu m.a. um vanefndir eða gjaldþrot lántaka sem og senda árlega upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit um ábyrgðir. Það hvílir á LÍN að sanna að umræddar tilkynningar hafi verið sendar. Kærandi kveðst ekki hafa fengið tilkynningu frá LÍN um stöðu ábyrgðarskuldbindingarinnar fyrr en með bréfi dagsettu 17. febrúar 2017. Því hefur LÍN mótmælt og lagt fram afrit af bréfi LÍN til kæranda dagsettu 17. febrúar 2015 og skjáskot úr kerfi LÍN þar sem skráð er útsending bréfa og tölvupósta vegna dánarbús A þann 16. febrúar 2015. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 372/2015 voru útprentuð afrit tilkynninga úr tölvukerfi fjármálastofnunar sem báru það með sér að hafa verið sendar á heimili ábyrgðarmannsins talin fela í sér fullnægjandi sönnun þess að tilkynningar samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn hefðu verið sendar til hans.

Að mati málskotsnefndar er ljóst að töluverður dráttur varð á því að LÍN sendi tilkynningu til kæranda, hvort heldur miðað er við febrúar 2015 eða 2017. Hvort slíkt teljist til verulegrar vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna ræðst af atvikum hverju sinni. Er hér til þess að líta að þó svo að töluverður dráttur hafi orðið á því að LÍN sendi tilkynninguna liggur ekki fyrir í málinu að vanrækslan lúti að tilkynningum um vanefndir lántaka, gjaldþrotaskipti eða önnur þau tilvik sem eru til þess fallin að valda ábyrgðarmanni tjóni eða verulegu óhagræði. Hefur Hæstiréttur í áður tilvísuðu máli nr. 229/2015, með vísan til þess að ábyrgðarkrafa LÍN telst til eignarréttinda sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskráinnar, ekki fallist á að vanræksla á tilkynningaskyldu geti leitt til niðurfellingar ábyrgðarinnar nema ábyrgðarmaður sýni fram á að LÍN hafi við beitingu réttinda sinna gagnvart ábyrgðarmönnum valdið þeim meiri skaða en verður bættur með þeim úrræðum sem boðið er upp á í 3. og 4. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Sambærileg niðurstaða var í Hrd. 372/2015 vegna fjögurra ára dráttar á að senda ábyrgðarmanni tilkynningu um vanskil. Kærandi hefur ekki sýnt fram á neitt slíkt tjón vegna vanrækslu LÍN og verður því ekki fallist á í ljósi fyrrgreindra dóma Hæstaréttar að ábyrgð hans verði felld niður sökum þess að LÍN hafi sýnt af sér verulega vanrækslu.

Að því er lýtur að rökum kæranda varðandi tómlæti er til þess að líta að eins og áður er rakið þurfti ekki tilkynningu frá kröfuhafa lánsins til erfingja til þess að erfingjar teldust hafa tekist á hendur ábyrgðina. Það leiðir beinlínis af ákvæðum laga um skipti á dánarbúum að kærandi tókst á hendur ábyrgðarskuldbindinguna með því að fá leyfi til einkaskipta á dánarbúi A. Sú tilkynningaskylda sem lögð var á lánveitendur með lögum um ábyrgðarmenn miðar að því að miðlað verði upplýsingum með reglubundnum hætti til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Eiga því sjónarmið um tómlæti ekki við í þessu sambandi.

Kærandi hefur vísað til 18. gr. laga um LÍN þar sem kveðið er á um forgang R-lána í innheimtu fram yfir lán sem veitt hafi verið samkvæmt lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki eða eldri lögum. Í stefnu LÍN á hendur kæranda kemur fram að auk skuldabréfs vegna námsláns nr. R-000 sem kærandi er ábyrgðarmaður að hafi lántaki tekið annað lán nr. R-xxx. Er því um að ræða tvö R-lán, þ.e. í sama lánaflokki, sem bæði voru tekin í gildistíð laga nr. 21/1992 um LÍN. Fyrrgreind 18. gr. á við þegar skuldari skuldar lán í mismunandi lánaflokkum, s.s. R-lán og S-lán, en hið síðarnefnda er sá lánaflokkur sem var í gildistíð laga nr. 72/1982, þ.e. á árunum 1982-1992. Á 18. gr. því ekki við í tilviki kæranda, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 372/2017 þar sem skorið var úr ágreiningi vegna innheimtu tveggja R-lána og hvort LÍN hafi verið heimilt krefja lántaka um afborganir af öðru R-láninu en láta hitt R-lánið bíða innheimtu. Í dóminum kemur í fyrsta lagi fram að þegar um er að ræða tvö R-lán þá verði þau bæði gjaldkræf tveimur árum eftir námslok. Í öðru lagi leiði af meginreglum kröfuréttar að ef skuldari lætur engin fyrirmæli fylgja inn á hvaða lán skuli greitt ráði LÍN hvernig innborgun sé ráðstafað og þ.a.l. sé LÍN heimilt að bíða með innheimtu annars R-lánsins þar til endurgreiðslu hins sé lokið. Í þriðja lagi að þar sem þetta fyrirkomulag sé í samræmi við meginreglur kröfuréttar sé LÍN ekki skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanna í þessum efnum. Einnig kom fram í dóminum að ábyrgðir á skuldabréfi R-lána hjá LÍN fyrndust á 10 árum samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Samkvæmt lögum um LÍN hafði stjórn sjóðsins ekki heimildir til niðurfellingar ábyrgða nema fullnægjandi tryggingar væru settar í staðinn. Við andlát ábyrgðarmanns getur komið til að aflað verði nýrra trygginga eða ábyrgðarmanns. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN getur ábyrgð ábyrgðarmanns fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Samkvæmt þessu verður það einungis að fenginni umsókn þar að lútandi að skipt verður um ábyrgðarmann í kjölfar andláts ábyrgðarmanns.

Með vísan til ofanritaðs er ekki fallist á með kæranda að síðar tilkomin atvik sem kærandi hefur tilgreint eigi að leiða til þess að ábyrgð hans á námsláni lántaka verði felld niður.

    c. Gjaldfelling skuldabréfs láns nr. R-000.

Kærandi hefur upplýst í tölvupósti til málskotsnefndar þann 30. júní 2020 að meðan á meðferð málsins stóð hjá málskotsnefnd hafi honum og öðrum ábyrgðarmönnum ásamt skuldara verið stefnt fyrir héraðsdóm.  Í stefnu kemur fram að LÍN hafi gjaldfellt skuldabréf láns nr. R-000 sökum þess að annað skuldabréf lántaka vegna námsláns nr. R-xxx hafi verið í verulegum vanskilum. Að mati kæranda er ekki heimild til gjaldfellingar lánsins þar sem engin slík heimild til gjaldfellingar lánsins sé í lögum eða skilmálum skuldabréfsins. Málskotsnefnd getur ekki tekið afstöðu til þess hvort gjaldfellingin sé í samræmi við skilmála bréfsins eða lög og reglur þar sem um er að ræða ágreining sem kom til eftir að kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar og því var ekki fjallað um þetta álitamál í ákvörðunum stjórnar LÍN sem sættu kæru til nefndarinnar.

Samantekt.

Það er niðurstaða málskotsnefndar með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í liðum a. og b. hér að ofan og þeirra dómafordæma sem þar er vísað til og eru bindandi fyrir málskotsnefnd við úrlausn þessa máls að staðfesta beri ákvarðanir stjórnar LÍN um að synja kröfu kæranda um niðurfellingu ábyrgðar hans á skuldabréfi vegna námsláns nr. R-000.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvarðanir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 28. janúar og 5. mars 2020 eru staðfestar.

Til baka