Á vormánuðum voru kynntar ívilnanir fyrir bæði nemendur og greiðendur til að koma til móts við bæði sérstakar og erfiðar aðstæður fjölda viðskiptavina sjóðsins á tímum kórónuveirufaraldursins. Þær ívilnanir eru enn til staðar og ber þar helst að nefna:
- Ef námsmanni hefur ekki tekist að sinna námi sínu vegna röskunar á hefðbundnu skólastarfi vegna kórónuveirunnar getur nemandi skilað inn staðfestingu skóla á ástundun sinni og óskað í kjölfarið eftir því að fá greitt í samræmi við lánsáætlun sína fyrir önnina.
- Ef skipulag skóla breytist og námskeið færast á milli anna og/eða skólaára getur nemandi óskað eftir því að tekið verði tillit til þess við mat á námsárangri.
- Ef námsmaður veikist af veirunni og getur ekki sótt skóla eða þreytt próf getur hann óskað eftir að tillit verði tekið til þess við útborgun námsláns.
- Námsmaður gat sótt um aukaferðalán á vormisseri vegna sérstakra aðstæðna vegna kórónuveirunnar.
- Umsóknarfrestur á vorönn 2020 var framlengdur frá 15. apríl til 1. maí og umsóknarfrestur haustannar 2020 framlengdur frá 1. september til 1. desember.
- Þeir sem sækja um námslán eftir námshlé eða hafa ekki verið á námslánum á síðasta skólaári fá fimmfalt frítekjumark.
- Hægt er að óska eftir því að tekjur námsmanna vegna vinnu þeirra við bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og bakvarðarsveit lögreglunnar verði dregnar frá við útreikning á framfærslu námsmanns skólaárið 2020-2021.
- Námsmenn sem fá greiddan út séreignasparnað á árinu 2020 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2020-2021.
- Við mat á umsóknum greiðenda um undanþágu frá afborgun vegna verulegra fjárhagsörðugleika er heimilt að horfa til tekjumissis á þann veg að nú verði heimilt að horfa til tekna greiðanda síðustu tveggja mánaða fyrir gjalddaga og annarra sérstakra aðstæðna sem skapast hafa hjá greiðendum vegna kórónaveirunnar.
- Eindaga námslána var frestað um 30 daga og þar með var öllum innheimtuaðgerðum einnig seinkað eins og t.d. sendingu í milli- og löginnheimtu.