Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-2/2020 - Lánshæfi - Beiðni um endurupptöku

Ár 2020, þriðjudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-2/2020:

Kæruefni:

Með kæru dagsettri 2. ágúst 2020 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir stjórn LÍN) frá 4. maí 2020, þar sem hafnað var beiðni hennar um endurupptöku á fyrri ákvörðun stjórnarinnar frá 28. janúar 2020 þar sem stjórn LÍN hafði synjað umsókn kæranda um námslán vegna skiptináms sökum þess að náminu hafi ekki lokið með viðurkenndri prófgráðu. Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 12. ágúst 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs komu fram í bréfi dagsettu 1. september 2020 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 10. september s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur frestur til 15. október 2020 til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir kæranda þann 14. október 2020 og voru framsendar stjórn Menntasjóðs 16. sama mánaðar.

Málsatvik og ágreiningsefni:

Kærandi stundaði MBA nám á Spáni á árunum 2018 til 2019. Fram kemur í yfirliti frá skólanum sem dagsett er 13. desember 2018, að námið sé metið til 89,5 ECTS eininga og að það samanstandi af þremur önnum sem skiptast eftirfarandi:

  1. önn frá 17. september til 19. desember 2018 - 23,5 ECTS
  2. önn frá 7. janúar til 24. apríl 2019 – 28 ECTS
  3. önn frá 26. apríl til 31. júlí 2019 – 14 ECTS

Þá kemur fram á yfirlitinu að lokaverkefni skuli unnið meðfram öðru námi á tímabilinu nóvember 2018 til júlí 2019.

Kærandi kveðst hafa stundað skiptinám í París haustið 2019 sem hluta af námi sínu og kemur fram í vottorði franska skólans að kærandi hafi lokið 30 ECTS einingum. Í brautskráningarskírteini spænska skólans, dagsettu 20. ágúst 2019, kemur fram að kærandi hafi lokið MBA námi á tímabilinu 17. september 2018 til 30. nóvember 2019 og eru tilgreindar einkunnir vegna námsgreina en ekki getið um skiptinám. Í brautskráningarskírteini spænska skólans, dagsettu 24. febrúar 2020, kemur fram að kærandi hafi stundað nám sitt á tímabilinu 17. september 2018 til 30. nóvember 2019. Loknar einingar eru ekki skráðar en einkunnir gefnar fyrir allar námsgreinar nema námsferðalag sem er skráð sem „pass“ og skiptinám sem er skráð sem „complete“.

Kærandi sótti um 30 ECTS eininga framfærslulán vegna haustannar 2019 þegar hún stundaði skiptinámið í París. LÍN synjaði umsókn kæranda þann 28. janúar 2020. Sagði í ákvörðun stjórnar LÍN að ekki væri heimild til að veita aukalán til að stunda skiptinám þegar ekki er veitt önnur námsgráða að námi loknu. Kærandi óskaði eftir endurupptöku ákvörðunar stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 með bréfi dagsettu 21. mars 2020.  Meðfylgjandi erindi sínu lagði kærandi fram tvö skírteini frá skólanum sem hún taldi staðfesta að skiptinámið sem hún stundaði í París hafi verið metið inn í MBA prófgráðuna. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um endurupptöku þann 4. maí 2020 með vísan til þess að ekki hefðu borist nýjar upplýsingar eða gögn sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er sýndu fram á að niðurstaða stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 hefði byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni lýsir kærandi því að hún hafi stundað 90 ECTS eininga MBA nám í EASA í Barselóna á tímabilinu september 2018 til haustsins 2019. Í júlí 2019 hefði hún lokið 90 ECTS einingum og í desember 2019 hefði hún lokið 30 ECTS einingum til viðbótar í skiptinámi í París. Kærandi kveður námið í París vera hluta af MBA náminu. Í náminu hjá EADA gæti námsmaður valið síðar á námsferlinum hvort hann kysi að taka 90 ECTS eininga MBA nám eða 120 ECTS eininga MBA nám. Vísaði kærandi til þess að sama fyrirkomulag væri á MBA námi á Íslandi, nemendur gætu valið um 90 eða 120 ECTS eininga nám. Námsmaður sem kysi að taka 120 ECTS eininga MBA sækti sérstaklega um slíkt og um leið og slík umsókn væri samþykkt væri námsmaðurinn skuldbundinn að fara þá námsleið. Ef hann félli í þessum hluta námsins kæmi slíkt fram á prófskírteininu. Kærandi hefði sótt um þessa leið og hefði falist í því að spænski skólinn greiddi fyrir hana skólagjöldin í náminu í París.

Kærandi byggir á því að um lánshæft nám sé að ræða. Námið í París hafi hvorki verið sérnám né einingar í lýðháskóla heldur einfaldlega hluti af MBA gráðu kæranda sem telji 120 ECTS einingar i stað 90 eins og prófskírteinið beri með sér. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd leiðrétti þann misskilning sem ákvörðun stjórnar LÍN byggi á um námsgráðu hennar enda sé það hlutverk sjóðsins að tryggja öllum jafnan rétt til náms óháð fjárhagsstöðu.

Í fyrra erindi kæranda til LÍN vísaði kærandi til þess að umsókn hennar um framfærslulán félli ekki innan hefðbundins ramma um úthlutanir sjóðsins og hafi af þeim sökum verið hafnað sökum þess að kærandi hafi lokið við gráðuna áður en hún hafi farið í skiptinám. Taldi kærandi slíkt á misskilningi byggt. Í beiðni kæranda um endurupptöku vísaði hún til þess að LÍN hefði synjað beiðni hennar á þeirri forsendu að nám hennar í París hafi verið viðbót við nám hennar á Spáni. Taldi kærandi það á misskilningi byggt og sendi til upplýsinga tvö skírteini frá skólanum, annars vegar prófskírteini sem hún kveður vera útgefið 10. júlí 2019 (mun vera 20. ágúst 2019) og hins vegar endanlegt prófskírteini útgefið 24. febrúar 2020 þar sem mætti sjá að náminu í París hafi verið bætt við og metið inn í prófgráðuna frá spænska skólanum. Taldi kærandi að beiðni hennar hafi verið hafnað á röngum forsendum.

Kærandi sendi andmælabréf til málskotsnefndar ásamt tveimur skjölum, prófskírteini frá spænska skólanum, dagsett 24. febrúar 2020 og staðfestingu frá Skema skólanum í París um loknar einingar, 30 ECTS. Í andmælabréfinu segir að í prófskírteini frá spænska skólans komi fram að kærandi hafi stundað alþjóðlegt MBA nám frá 17. september 2018 til 30. nóvember 2019 og að skiptinámið hafi verið metið inn í MBA prófgráðuna. Þá komi fram í staðfestingu frá skólanum í París að hún hafi lokið 30 ECTS einingum í skiptináminu.

Sjónarmið Menntasjóðs

Í athugasemdum Menntasjóðs er vísað til þess að fyrri ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda hafi byggt á því að hún hefði þegar lokið MBA náminu í Barselóna er hún fór í skiptinám til Parísar. Skiptinámið hafi ekki verið hluti af námi er gæti leitt til námsgráðu að því loknu. Kærandi hafi óskað endurupptöku á þeirri ákvörðun og hafi beiðni hennar verið synjað þar sem ekki hafi verið talið að ný gögn væru til staðar er sýnt gætu fram á að ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik málsins eða aðstæður hafi að öðru leyti breyst.

Stjórn Menntasjóðs bendir á að kærandi hafi fengið samþykkta umsókn fyrir 90 ECTS eininga nám og að 30 ECTS eininga skiptinámið sé algerlega óháð MBA náminu sem hún hefði þegar lokið við er hún hóf skiptinámið. Í yfirliti frá EASA í fylgiskjali 4 séu tilgreindir þeir áfangar sem kærandi þurfi að ljúka vegna MBA námsins við skólann. Samkvæmt því yfirliti sé námið 90 ECTS einingar. Í fylgiskjali 5 megi sjá útskriftarskírteini sem hafi verið gefið út áður en kærandi hóf skiptinámið sem staðfesti að kærandi hafi lokið öllum áföngum MBA námsins og hlotið námsgráðu. Telur stjórnin að öll gögn málsins sýni fram á að kærandi hafi lokið MBA námi sínu við skólann í júlí 2019 og það skiptinám sem kærandi sótti á haustönn í París geti því ekki talist hluti af lánshæfu MBA námi hennar við EADA skólann á Spáni.

Stjórn Menntasjóðs bendir einnig á að samkvæmt uppfærðu útskriftarskírteini í fylgiskjali 6 sem kærandi hafi sent sjóðnum eftir að hafa lokið skiptináminu hafi námið ekki verið metið til eininga heldur aðeins skráð í skírteinið að kærandi hafi lokið náminu. Samkvæmt 2.2 grein úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2019-2020 þurfi námsmaður að vera skráður í og ljúka að lágmarki 22 ECTS einingum til að eiga rétt á námsláni. Telji stjórnin þetta fyrirkomulag benda til að ekki sé um að ræða nám sem geti talist lánshæft hjá sjóðnum. Ítrekar stjórn Menntasjóðs það sem áður sé komið fram í ákvörðunum í máli kæranda að enga heimild sé að finna í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir því að veita nemendum aukalán til framfærslu til að stunda skiptinám þegar slíkt nám er ekki hluti af námi er leiði til prófgráðu.

Stjórn Menntasjóðs vísar til þess að ákvörðun stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og sambærilegar ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs og málskotsnefndar. Fer stjórnin þess á leit að ákvörðun í máli kæranda verði staðfest.

Niðurstaða:

Lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020 og með þeim voru lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna felld úr gildi. Var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (kt. 710169-0989) breytt í Menntasjóð námsmanna (kt. 710169-0989) og er lánakerfi LÍN rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið. Frá og með gildistöku laganna heyra því hagsmunir lánakerfis LÍN undir Menntasjóðinn og stjórn hans. Verður meðferð ágreiningsmála sem til var stofnað í gildistíð laga nr. 21/1992 fram haldið hjá málskotsnefnd Menntasjóðs sem starfar á grundvelli hinna nýju laga og úrskurðar um lögmæti ákvarðana stjórnar Menntasjóðs sem nú fer með hagsmuni þá er áður féllu undir stjórn LÍN. Um efnisleg réttindi kæranda ber að leysa úr á grundvelli laga um LÍN nr. 21/1992 sem giltu á þeim tíma sem kærandi sótti um námslán hjá LÍN. Um málsmeðferð gilda lög um LÍN eða eftir atvikum lög um Menntasjóð, en síðarnefndu lögin höfðu tekið gildi er kærandi sendi kæru sína til Málskotsnefndar Menntasjóðs.

Samkvæmt 1. gr. laga þágildandi laga um LÍN var hlutverk hans að tryggja þeim er féllu undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Nánar segir um skilyrði fyrir veitingu námslána í 6. gr. laganna er þar segir í 1. málsgrein að námslán skuli “aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.” í 3. mgr. 6. gr. segir síðan að námsmaður skuli „að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og þeim skóla sem nám er stundað.

Nánar er kveðið á um lánsrétt í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2019-2020. Þar segir í grein 2.3.2 að námsmaður eigi rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í meistaranámi. Í 2. mgr. greinar 2.1 2. segir síðan að veitt sé að hámarki lán fyrir 30 ECTS-einingum á hverju misseri  eða 20 ECTS-einingum á hverjum fjórðungi. Í 3. mgr. greinar 2.1 segir síðan eftirfarandi:

Hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af fjölda eininga námsins samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Einungis er tekið tillit til námskeiða sem nýtast til lokaprófs en metnar einingar úr fyrra námi teljast ekki til námsframvindu.

Eins og fram kemur í kærunni stundaði kærandi MBA nám í Barselóna og greinir LÍN og kæranda á um hvort nám hennar er metið til 90 ECTS eininga eða 120 ECTS eininga. Taldi LÍN að prófskírteini frá skólanum sem kærandi lagði fram fæli ekki í sér sönnun þess að hún hefði stundað 120 ECTS eininga MBA nám.

Íslenskir háskólar og fjölmargir háskólar í Evrópu nota ECTS einingakerfið (European Credit Transfer System) til að meta nám á milli háskóla og afköst námsmanna.

ECTS einingakerfinu er m.a. ætlað að auðvelda námsmönnum að stunda skiptinám. Í ECTS Users‘ Guide á https://ec.europa.eu/education/sites/education/files/document-library-docs/ects-users-guide_en.pdf er fjallað um skiptinám í kafla 4. Þar er segir (bls. 34) að ECTS einingakerfið sé uppbyggt í því skyni að auðvelda skiptinám í stuttan tíma. Um nánari útfærslu er vísað til VI. hluta í „European Recognition Manual for Higher Education Institutions - Practical guidelines for credential evaluators and amissions officers to provide fair and flexible recognition of foreign degrees and studies abroad“ um yfirfærslu eininga við skiptinám (e. Credit mobility in the context of student exchange), sjá: https://ec.europa.eu/education/sites/education/files/document-library-docs/ects-users-guide_en.pdf). Í  þessum leiðbeiningum (bls. 141) segir beinlínis að það þurfi að viðurkenna einingar sem aflað sé hjá öðrum menntastofnunum. Að öðrum kosti muni námsmenn ekki njóta til fullnustu þeirra hagsmuna sem skiptinámi sé ætlað að veita. Erasmus skiptinámið er tilgreint sem ein tegund skiptináms, en það sé alls ekki það eina. Þeir skólar sem eru aðilar að Erasmus skiptnáminu og hafa fengið svonefnt „Erasmus Charter for Higher Education 2014-2020“ fylgja ákveðnum reglum um fyrirkomulag slíks náms og undirgangast að tryggja fulla viðurkenningu á einingum í slíku skiptinámi. Gert er ráð fyrir að sá skóli sem veitir námsgráðuna viðurkenni þannig einingar sem teknar eru í skiptinámi í öðrum skólum. Til grundvallar viðurkenningu eininga í skiptinámi þurfa hins vegar að liggja tiltekin gögn:

  • Erasmus Charter, ef um er að ræða Erasmus skiptinám.
  • Námsskrá (course catalogue) þar sem nemendur fá upplýsingar um mögulegt skiptinám.
  • Umsókn um skiptinám.
  • Námssamningur (the learning/training agreement) sem er staðlaður samningur milli námsmanns, aðalnámsstofnunar (the home institution) og skiptinámsstofnunar (the host institution) um skiptinámið þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur aðila.
  • Vottorð um námsárangur frá skiptinámsstofnun sem sent er námsmanni og aðalnámsstofnun og er aðalnámsstofnun skylt í samræmi við námssamning að viðurkenna þau námskeið (modules) sem námsmaður hefur staðist.
  • Skírteinisviðauki við brautskráningarskírteini (the Diploma Supplement – DS) þar sem aðalnámsstofnun sem veitir prófgráðu skal gera grein fyrir tímabili skiptináms ásamt þeim einingum og einkunnum sem nemandi hefur fengið.

Sá skóli sem kærandi stundaði skiptinám við í París er aðili að Erasmus fyrirkomulaginu og er á lista framkvæmdastjórnar ESB, sjá: https://eacea.ec.europa.eu/erasmus-plus/actions/erasmus-charter_en, yfir skóla sem hafa fengið „Erasmus Charter for Higher Education 2014-2020.“ Eins og áður er rakið er Erasmus skiptinám ein tegund skiptináms en ekki það eina. Ekki verður séð að spænski háskólinn sé aðili að Erasmus en hann hefur hins vegar sk. AMBA vottun. Með slíkri vottun undirgangast menntastofnanir ákveðnar gæðakröfur sem m.a. fela í sér skuldbindingar vegna skiptináms. Þannig segir í „MBA Accreditation Criteria“ frá AMBA, sjá https://associationofmbas.com/wp-content/uploads/2019/09/MBA-criteria-for-accreditation.pdf , í lið 1.4:

  • Where an MBA programme is to be awarded jointly by more than one Institution, one (accredited) Institution is to be designated the lead provider and will be responsible for delivery by the partner Institution(s). This also applies to programmes which allow students to undertake exchanges or modules delivered by other Institutions.

Í útskriftarskírteini spænska skólans eru ekki tilgreindar einingar vegna einstakra námskeiða. Ekki er gefin einkunn fyrir skiptinámið eins og fyrir aðrar námsgreinar og einungis skráð að því námskeiði hafi verið lokið, þ.e. skráð sem „complete“. Í sérstöku vottorði frá skólanum í París kemur fram að skiptinám kæranda sé metið til 30 ECTS eininga.

Fram kemur í erindi kæranda sem og í gögnum spænska skólans að skólagjöld vegna námsins í París eru innifalin í skólagjöldum þeim sem kærandi greiddi til spænska skólans. Á heimasíðu skólans, sjá: https://www.eada.edu/en/programmes/mba/international-mba, er umrætt skiptinám kynnt sem „Exchange Module – Optional“ og á heimasíðu skólans, sjá: https://www.eada.edu/sites/default/files/pdf/programas/mba/international-mba.pdf, segir eftirfarandi á bls. 31:

When you study at EADA, you become a part of global network of top business schools. Through our one-term exchange programme, which is free of charge to EADA graduates, we offer the opportunity to extend your studies in one of more than 30 prestigious partner schools in Europe, the Americas, Asia and Africa.

Þrátt fyrir framangreinda framsetningu um að skiptinám sé í boði fyrir námsmenn í MBA náminu, sbr. og bls. 20 í ofangreindu kynningarefni, kemur hvergi fram af hálfu skólans að einingar í slíku skiptinámi séu í reynd metnar til eininga sem hluti af MBA prófgráðu sem skólinn býður uppá.

Eins og ráða má af þeim leiðbeiningum um ECTS og skiptinám sem lýst er hér að ofan þurfa menntastofnanir að fylgja ákveðnum reglum ef tryggja á að einingar sem námsmenn afla sér í skiptinámi verði metnar til lokaprófs í viðkomandi námsgráðu. Skiptir hér m.a. máli innihald þess samnings sem liggur til grundvallar skiptinámi og hvort þar komi fram sú skuldbinding af hálfu viðkomandi menntastofnunar að meta einingar í skiptinámi til lokaprófs. Einnig er ljóst að liggi fyrir samningur um að menntastofnun sem námsmaður útskrifast frá (home institution) muni meta slíkt skiptinám ber þeirri menntastofnun að gefa út vottorð um þær einkunnir og einingar sem námsmaður aflaði í skiptinámi.

Kærandi hefur vísað til þess að íslenskir háskólar bjóði uppá samsvarandi skiptinám sem veiti lánsrétt. Um þetta fyrirkomulag segir eftirfarandi á heimasíðu Menntasjóðs um skiptinám sem námsmenn á Íslandi stunda í öðrum háskólum, sjá: https://menntasjodur.is/namsmenn/almennt-um-veitingu-namslana/skiptinam/

Skiptinám

Skiptinemar skulu gefa upp á lánsumsókn sinni það nám og þann skóla sem þeir eru skráðir í á Íslandi og munu væntanlega útskrifast frá. Ekki á að sækja um vegna námsins erlendis enda eru allar einingar metnar inn í nám viðkomandi á Íslandi.

Sömu námskröfur eru gerðar til skiptinema og til nema í námi á Íslandi. Fullt nám á skólaári telst vera 60 ECTS-einingar, en ljúka þarf a.m.k. 22 ECTS-einingum á önn til að eiga rétt á námsláni.

Ekki skal senda námsárangur erlendis frá beint til Menntasjóðsins, heldur til skólans á Íslandi sem metur árangurinn inn í námið hér og staðfestir síðan við sjóðinn.

Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að íslenskir skólar sem bjóða námsmönnum að taka skiptinám í öðrum skólum beri ábyrgð á því að meta einingar inn í námið hér á landi og staðfesta við sjóðinn til þess að námsmaður geti átt kost á námsláni.

Í yfirliti frá skólanum sem kærandi lagði fram hjá LÍN við upphaf námsins er MBA námið sagt vera 90 ECS einingar og að það stæði yfir frá 17. september 2018 til 31. júlí 2019. Þegar kærandi óskaði endurupptöku lagði hún fram útskriftarvottorð þar sem fram kom að MBA námið hafi verið stundað á tímabilinu 17. september 2018 til 30. nóvember 2019. Var skiptinámið einnig tilgreint meðal þeirra áfanga sem skráðir voru á útskriftarvottorðið. Engar upplýsingar liggja þó fyrir um að skiptinámið hafi verið metið til eininga hjá spænska skólanum eða að MBA nám kæranda hafi verið 120 ECTS einingar. Í ljósi þess að í reglum um skiptinám í Evrópu er gert ráð fyrir að aðalmenntastofnun meti skiptinám til eininga í samræmi við þann samning er liggi til grundvallar milli námsmanns og viðkomandi menntastofnana verður ekki útilokað með öllu að kærandi hafi möguleika á að afla frekari gagna er kunni að styðja mál hennar. Í ljósi þessa hefði stjórn LÍN borið að leiðbeina kæranda um þessar reglur og um nauðsyn þess að leggja fram frekari gögn, s.s. námssamning/umsókn kæranda um skiptinámið þar sem fram komi nánari skilmálar um námið og eftir atvikum um nauðsyn þess að kærandi aflaði frekari gagna frá skólanum. Var meðferð LÍN á máli kæranda því ekki í samræmi við ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og 10. gr. um rannsóknarskyldu.

Í erindum sínum til LÍN 13. desember 2019 og 21. mars 2020 vísaði kærandi til þess með skýrum hætti að samkvæmt fyrirkomulagi MBA námsins væri skiptinámið í París hluti af MBA gráðunni. Þrátt fyrir það tók stjórn LÍN ekki afstöðu til þessara röksemda heldur vísað ítrekað til þess að skiptinámið sjálft „Exhange Program“ væri ekki viðurkennd prófgráða. Var rökstuðningur stjórnar LÍN í máli kæranda því ófullnægjandi um meginágreiningsefni málsins sem var hvort námið teldist hluti af MBA prófgráðunni. Var meðferð LÍN á máli kæranda því ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga er liðinn vegna fyrri ákvörðunar stjórnar LÍN í máli kæranda en ekki vegna þeirrar síðari þar sem endurupptökubeiðni kæranda var synjað.

Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið leitt í ljós hver einingafjöldi náms kæranda er eftir að hún bætti við sig skiptináminu. Ekki er útilokað að frekari gögn varpi ljósi á hver réttur kæranda er. Verður því ekki hjá því komist að fella úr gildi síðari ákvörðun stjórnar LÍN frá 4. maí 2020 um að synja kæranda um endurupptöku máls hennar og leggja fyrir Menntasjóð að skoða mál kæranda að nýju fari hún þess á leit og leggi fram frekari gögn frá skólanum er sanni að nám hennar hafi verið metið til ECTS eininga hjá EADA og að námið hafi verið 120 ECTS einingar eins og kærandi hefur haldið fram. Með þessu er þó ekki tekin afstaða til þess hver endanleg niðurstaða í máli kæranda kunni að vera.

ÚRSKURÐARORÐ

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 4. maí 2020 um að synja kæranda um endurupptöku er felld úr gildi.

 

Til baka