Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-4/2020 - Umsóknarfrestur og útborgun - synjun um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

Ár 2020, þriðjudaginn 22. desember 2020, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-4/2020:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 13. ágúst 2020 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. júní 2020 þar sem hafnað var beiðni hennar um undanþágu frá umsóknarfresti vegna umsóknar um námslán á haustmisseri 2019. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. ágúst 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 3. september 2020 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 10. september 2020, en þar var kæranda jafnframt gefinn frestur til 15. október að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust 13. október 2020. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari gögnum frá Menntasjóði námsmanna (Menntasjóður) þann 14. desember 2020. Umbeðin gögn sem voru tölvupóstar LÍN til kæranda bárust 17. desember 2020.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám við háskóla í Þýskalandi námsárið 2019-2020. Hún sótti um námslán vegna 30 ECTS eininga hjá LÍN þann 30. október 2019 vegna framfærslu og skólagjalda á vorönn 2020. LÍN sendi kæranda fyrirspurn vegna umsóknarinnar þar sem sem óskað var nánari skýringa þar sem að kærandi hafði skráð lögheimili í Þýskalandi. Í svarpósti kæranda þann 9. nóvember 2019 segir að kærandi hafi flutt til Þýskalands á árinu 2017 til að fara í háskóla og upplifa aðra menningu. Hún hafi stundað þýskunám en samhliða unnið og einnig fengið framfærslu foreldra. Hún hafi síðan í ljósi ráðlegginga vegna skattalegra atriða ákveðið að færa lögheimili sitt til Þýskalands, jafnvel þó dvöl hennar hafi einungis verið tímabundin. Hún hafi lokið þýskunámi á árinu 2018 og hafið undirbúning að umsókn um nám þar í landi. Umsókn hennar um nám hafi verið hafnað sökum þess að henni hafi ekki tekist að senda viðeigandi gögn og því hafi hún ákveðið að framlengja dvöl sína og sótt um nám að nýju árið eftir. Kærandi sendi meðfylgjandi tölvupósti sínum til LÍN staðfestingu á skólavist og staðfestingu „á greiðslu á skólagjöldum vegna haustannar.“ Jafnframt tiltekur kærandi í póstinum að „[ú]t haustönn munu foreldrar mínir sjá fyrir mér.

Í mars 2020 að loknum prófum vegna haustannar 2019 sendi kærandi einkunnir sínar til LÍN ásamt staðfestingu á skráningu í áfanga er hún hafði sótt á haustönn. Í svarpósti LÍN var kæranda bent á að hún hefði ekki sótt um námslán vegna haustannar og einnig að LÍN hefði sent henni tölvupóst með áminningu um að hún hefði ekki sótt um námslán vegna haustannar. Í svari kæranda til LÍN kom fram að hún hefði ekki fengið áminningarpóstinn. Kærandi fór þess að leit við stjórn LÍN þann 14. maí 2020 að fá undanþágu vegna umsóknarfrestsins. Erindi kæranda var synjað með ákvörðun stjórnar LÍN 30. júní 2020 með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutnarreglum LÍN vegna námsársins 2019-2020 þar sem fram kemur að umsókn um námslán á haustönn 2019 þurfi að berast í síðasta lagi 15. nóvember 2019.

Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um námslán 30. október 2019. Kærandi kveðst hafa sótt um námslán fyrir tímabil sem hún hafi talið vera haustönn í þýska kerfinu. Annir í Þýskalandi virkuðu öðruvísi en námsannir á Íslandi. Í Þýskalandi lyki haustönn í mars og kvaðst kærandi því hafa talið öruggara að sækja um námslán vegna vorannar. Hefði hún talið að auðvelt yrði að breyta þessu. Hún hefði sótt um á réttum tíma vegna náms á vorönn og hefði ekki hugsað um þetta frekar fyrr en hafi komið að prófatíð er hún hafi sent niðurstöður prófa til LÍN. Þá hafi LÍN svarað henni um að hún væri ekki með umsókn vegna haustannar og að áminningarpóstur hefði verið sendur. Kvaðst kærandandi ekki hafa fengið þann póst.

Kærandi rekur samskipti sín við LÍN og að hún hafi verið skilin eftir í óvissu um framtíð námsins. Kærandi hafnar því að hafa átt möguleika á að leiðrétta umsókn sína. Umræddur áminningarpóstur hafi ekki borist henni. Kærandi hafnar því að hafa ekki sótt um námslán á réttum tíma. Það hafi hún gert þar sem hún hafi sótt um námslán 30. október 2019 en umsóknarfrestur hafi verið til 15. nóvember 2019. Hún hafi einfaldlega sótt um ranga önn. Niðurstöður námsárangurs vegna vetrarannar væru ekki birtar fyrr en í mars 2020 í Þýskalandi og því auðvelt að misskilja. Hvergi sé nægjanlega skýrt eftir hvaða skóladagatali sé farið vegna náms í öðrum löndum. Auk þess sé námstímabilum í Þýskalandi skipt í vetrarönn og sumarönn en ekki haustönn og vorönn.

Í andmælabréfi mótmælir kærandi þeim ummælum LÍN að hún hafi verið meðvituð um að hafa ekki sótt um á haustönn þar sem hún hafi vísað til þess í tölvupósti til LÍN að foreldrar hennar myndu sjá fyrir henni á haustönn. Bendir kærandi á að augljóst sé að eftir það hafi hún þurft á fjárhagslegri aðstoð að halda, þ.e. námslánum eftir þá önn. Kærandi kveðst fyrst hafa áttað sig á mistökum sínum í apríl 2020 eftir samskipti við LÍN vegna umsóknarinnar.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er því lýst að kærandi hafi sótt um námslán 30. október 2019 vegna náms á vorönn 2020. Sendur hafi verið áminningarpóstur 1. nóvember 2019 þar sem tilkynnt hafi verið að umsóknarfrestur vegna haustannar rynni út 15. nóvember 2019. Engin umsókn vegna haustannar 2019 hafi borist sjóðnum. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir hjá stjórn sjóðsins þann 30. júní 2020 og umsókn hennar um undanþágu verið hafnað þar sem ekki hafi verið talið að kærandi hefði sýnt fram á að hún hafi verið ófær um að sækja um námslán fyrir umræddan umsóknarfrest. Þá bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi tekið fram í tölvupósti til sjóðsins að foreldrar hennar myndu sjá fyrir henni út haustönn 2019. Telja verði það gefa vísbendingu um að kærandi hafi verið þess meðvituð að hún hafi ekki sótt um námslán á haustönn 2019. Það hafi svo ekki verið fyrr en í lok apríl 2020 að kærandi hafi  tekið fram að hún hafi ætlað sér að sækja um námslán fyrir haustönn 2019 en þá hafi umsóknarfrestur verið löngu liðinn.

Að mati stjórnar Menntasjóðs er ákvörðun í máli kæranda í samræmi við lög og reglur og í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs og málskotsnefndar. Fer stjórn Menntasjóðs fram á að ákvörðun stjórnar LÍN frá 30. júní 2020 verði staðfest.

Niðurstaða

Lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020 og með þeim voru lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna felld úr gildi. Var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (kt. 710169-0989) breytt í Menntasjóð námsmanna (kt. 710169-0989) og er lánakerfi LÍN rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið. Frá og með gildistöku laganna heyra því hagsmunir lánakerfis LÍN undir Menntasjóðinn og stjórn hans. Verður meðferð ágreiningsmála sem til var stofnað í gildistíð laga nr. 21/1992 fram haldið hjá málskotsnefnd Menntasjóðs sem starfar á grundvelli hinna nýju laga og úrskurðar um lögmæti ákvarðana stjórnar Menntasjóðs sem nú fer með hagsmuni þá er áður féllu undir stjórn LÍN. Um efnisleg réttindi kæranda ber að leysa úr á grundvelli laga um LÍN nr. 21/1992 sem giltu á þeim tíma sem kærandi sótti um námslán hjá LÍN. Um málsmeðferð gilda lög um LÍN eða eftir atvikum lög um Menntasjóð, en síðarnefndu lögin höfðu tekið gildi er kærandi sendi kæru sína til Málskotsnefndar Menntasjóðs.

Samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2019-2020 voru eftirfarandi umsóknarfrestir vegna umsókna um námslán skólaárið 2019-2020:

Haust 2019      Til og með 15. nóvember 2019

Vor 2020         Til og með 15. apríl 2020

Sumar 2020     Til og með 15. júlí 2020.

Í samræmi við fyrirmæli 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru úthlutunarreglur LÍN birtar í Stjórnartíðindum. Umsóknarfresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Kærandi kveðst ekki hafa fengið áminningarpóst frá LÍN sem var sendur 1. nóvember 2019 á netfang hennar sem skráð er hjá sjóðnum.

Kærandi sótti um námslán 30. október 2019, en sökum misskilnings sótti hún einungis um lán vegna vorannar 2020. Kærandi kveðst hafa sótt um fyrir frest en hún hafi sótt um ranga önn og telur að heimila eigi henni að leiðrétta umsóknina en telja verður slíkt fela í sér beiðni um undanþágu frá umsóknarfrestinum. LÍN hefur synjað kæranda um slíka leiðréttingu eða undanþágu frá umsóknarfresti vegna náms á haustönn 2019. Ágreiningur í máli þessu stendur um hvort LÍN hafi borið að veita kæranda undanþágu frá auglýstum umsóknarfresti.   

Það er álit málskotsnefndar að almennt verði að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Stjórnvöld hafa þó heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik hafi hamlað námsmanni að sækja um fyrir tilskilinn frest eða hvort handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um innan tilskilins frests.

Kærandi hefur vísað til þess að í háskólum í Þýskalandi skiptist annir í vetrarönn og sumarönn sem sé öðruvísi en sú framsetning sem er í úthlutunarreglum LÍN. Í reglum LÍN er eins og áður er lýst önnum skipt í haust, vor og sumar. Ekki er dregin í efa sú frásögn kæranda að hún hafi misskilið framsetningu á umsóknarfrestum LÍN. Að mati málsskotsnefndar verður þó ekki talið að framsetning LÍN á umsóknarfrestum í auglýsingu og í úthlutunarreglum sé þannig að umsækjendur í öðrum löndum megi vera í vafa um hvenær beri að sækja um þrátt fyrir að anna/misseraskipting í skólum þeirra kunni að vera öðruvísi. Í tveggja anna/missera námi eins og í háskólum hér á landi og í öðrum löndum er fyrri önnin almennt annað hvort kölluð haustönn eða vetrarönn og síðari önnin nefnd vorönn eða sumarönn. Úthlutunarreglur LÍN miða við skiptingu í haust og vor í misseraskólum, sbr. grein 2.4.1 í úthlutunarreglum og að hvor önn um sig veiti lánsrétt fyrir 30 ECTS einingum. Þá er námsönnum í fjórðungaskólum skipt í haust, vetur og vor, sbr. grein 2.4.1. Einnig er hægt að sækja sérstaklega um lán vegna sumarannar.

Í kerfi LÍN vegna námsársins 2019-2020 höfðu námsmenn í misseraskólum samkvæmt framangreindu val um að sækja um lán vegna hausts 2019 og vors 2020. Hafi kærandi ætlað sér að sækja um námslán vegna fyrri eða fyrstu annar skólaársins verður að telja að henni hafi mátt vera ljóst að henni bæri að sækja um það sem nefnt er haustönn í reglum LÍN. Verður beiðni kæranda um heimild til að leiðrétta umsókn ekki tekin til greina á þeim grundvelli að framsetning í reglum LÍN eða útskýring á umsóknarfrestum hjá LÍN hafi verið villandi.

Er kærandi var í samskiptum við LÍN haustið 2019 vegna búsetu í Þýskalandi mátti ekki annað ráða af frásögn hennar en að hún hefði framfærslu frá foreldrum á haustönn 2019 og hafi af þeim sökum ekki sótt um námslán vegna haustannar. Kærandi sendi einnig meðfylgjandi pósti sínum til LÍN það sem hún vísaði til í tölvupósti sínum sem staðfestingu á „greiðslu á skólagjöldum haustannar“ en um var að ræða staðfestingu frá skólanum vegna innritunargjalda. Benda því atvik málsins ekki til þess að starfsmanni LÍN hafi á þessum tíma mátt vera ljóst að kærandi hafi misskilið reglur LÍN þannig að hægt hefði verið að leiðbeina kæranda sérstaklega um að sækja um námslán á réttri önn.

Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess að atvik sem ekki fékkst ráðið við eða handvömm af hálfu starfsmanna LÍN hafi valdið því að kærandi sótti ekki um innan frests. Telja verður málefnalegar ástæður vera að baki synjunar LÍN á því að veita kæranda undanþágu frá umsóknarfresti en sjóðurinn hefur talið nauðsynlegt að hafa strangar reglur um slíkt þar sem að öðrum kosti sé erfiðleikum bundið að áætla fjárþörf sjóðsins hverju sinni. Umboðsmaður Alþingis hefur tekið undir þessi sjónarmið sbr. mál 557/1992. Þá er einnig vísað til þess að málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum.

Er því fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við reglur sem um sjóðinn gilda. Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Hinn kærða ákvörðun frá 30. júní 2020 í máli kæranda er staðfest.

Til baka