Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-3/2019 Undanþága frá afborgun

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, föstudaginn 20. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2019.

Kæruefni 

Með kæru til málskotsnefndar dagsettri 15. febrúar 2019 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir nefnd stjórn LÍN) frá 24. janúar 2019 um að synja beiðni hennar um niðurfellingu á afborgunum námsláns með gjalddögum í júní 2017 og mars 2018. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. febrúar 2019 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 19. mars 2019 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda með bréfi sem barst málskotsnefnd 17. apríl 2019.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að námsláni hjá LÍN og hófust afborganir af því á árinu 2017. Gjalddagar afborgana námslána eru almennt tveir á ári, föst afborgun 1. mars og tekjutengd afborgun 1. september. Fyrsta afborgun greiðenda sem ljúka námi að vori til er þó 30. júní tveimur árum eftir námslok. Fyrsti gjalddagi endurgreiðsluafborgunar kæranda var 30. júní 2017.

Kærandi sótti þann 24. júlí 2017 um greiðsludreifingu á gjalddaganum, en þá var að mati LÍN umsóknarfrestur til þess liðinn. Berist umsókn of seint tekur hún gildi frá og með næsta gjalddaga, þ.e. 1. september 2017. Samkvæmt LÍN misfórst að tilkynna kæranda um þessa afgreiðslu umsóknar hennar. Kærandi greiddi ekki afborgunina á gjalddaga 30. júní 2017, en greiddi afborgunina sem var á gjalddagann 1. september 2017. Þegar kom að gjalddaganum 1. mars 2018 kveðst kærandi fyrst hafa gerst sér grein fyrir að júníafborgunin frá því árið áður væri í vanskilum. Kærandi greiddi ekki afborgunina 1. mars 2018 og fór hún í innheimtu lögmanns í apríl sama ár. Með því voru tveir gjalddagar af námsláni kæranda í vanskilum. Námslánið var gjaldfellt 24. maí 2018 og dómsmál til innheimtu þess höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. júní 2018. Kærandi tók til varna í málinu og skilaði greinargerð í héraðsdómi 30. október 2018 og krafðist sýknu. Málinu lauk með því að kærandi og LÍN gerðu með sér dómsátt 8. mars 2019 þar sem kærandi greiddi LÍN 466.853 krónur, auk 293.460 króna í málskostnað. Með því hafði kærandi gert upp gjaldfallnar afborganir af námsláni sínu og fóru eftirstöðvar þess í hefðbundna innheimtu hjá LÍN. Kærandi hafði í millitíðinni þann 5. desember 2018 farið þess á leit við stjórn LÍN að fyrrgreindar afborganir af námsláni hennar með gjalddaga í júní 2017 og mars 2018 yrðu felldar niður og fallið frá innheimtu þeirra. Til vara að henni gæfist kostur á að greiða afborganirnar án innheimtuþóknunar, en fallist yrði á greiðsludreifingu þeirra. Til þrautavara krafðist kærandi þess að fá að greiða kröfuna í heild með greiðsludreifingu, en fallið yrði frá gjaldfellingu lánsins. Með ákvörðun stjórnar LÍN 24. janúar 2019 var öllum kröfum kæranda hafnað. Hún skaut þeirri ákvörðun til málskotsnefndar með kæru sem barst nefndinni 23. febrúar 2019. Héraðsdómsmálinu lauk eins og áður sagði með dómsátt 8. mars 2019.

Fyrir málskotsnefnd krefst kærandi þess að ákvörðunin stjórnar LÍN verði felld úr gildi og breytt á þann veg að fallist verði á kröfur hennar. Stjórn LÍN krefst þess að ákvörðunin verði staðfest.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á í kæru sinni að frá því að hún eignaðist barn í apríl 2017 og fram í febrúar 2018 hafi hún verið í fæðingarorlofi. Vegna erfiðra aðstæðna eftir fæðingu barnsins og umönnunar tveggja annara barna sinna og síðar vegna eigin veikinda hafi hún átt rétt á niðurfellingu gjalddaga. Hún hafi óskað eftir greiðsludreifingu á báða gjalddaga ársins 2017 en aðeins gjalddaginn 1. september gengið í gegn. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir að gjalddaginn 30. júní hafi ekki farið í greiðsludreifingu, enda hafi verið um að ræða fyrstu endurgreiðslu námslánsins og hún enga reynslu haft af fyrirkomulaginu og átt erfitt með að hafa yfirsýn yfir endurgreiðslur sínar. Kærandi vísar sérstaklega til þess að hún hafi móttekið staðfestingu á umsókn um greiðsludreifingu 24. júlí 2017 og því staðið í þeirri trú hún væri komin á. Hafi hún greitt aðra gjalddaga á tímabilinu og talið sig í skilum með afborganir enda hafi hún ekki fengið neinar tilkynningar um vanskil eldri gjalddaga. Þegar henni í mars 2018 hafi verið synjað um greiðsludreifingu vegna eldri vanskila hafi hún fyrst áttað sig á því hvernig í pottinn var búið. Hafi þá verið kominn innheimtukostnaður á kröfuna og fjárhagslegum aðstæðum kæranda þannig háttað, vegna veikinda og lágra tekna sökum fæðingarorlofs, að hún gat ekki greitt kröfuna. Hafi henni verið synjað um greiðslu kröfunnar nema hún samhliða gerði upp áfallinn innheimtukostnað og dráttarvexti. Hafi kærandi tekið til varna fyrir héraðsdómi og krafist sýknu af kröfu sjóðsins. Af framangreindum ástæðum sem hér hafa verið raktar krefst kærandi þess aðallega að LÍN falli frá innheimtu fyrrgreindra gjalddaga, en til vara að hún fái að greiða vanskilin án innheimtuþóknunar. Verði ekki fallist á þessar kröfur hennar óskar hún eftir því að henni verði gefinn kostur á greiðsludreifingu kröfunnar, en fallið verði frá gjaldfellingu námslánsins.  

Vegna ábendingar LÍN um að beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgunar hafi ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá gjalddaga afborgunar, eins og mælt sé fyrir um í úthlutunarreglum sjóðsins, tekur kærandi fram að hún hafi í samskiptum við lögmannsstofuna sem annaðist innheimtuna óskað eftir niðurfellingu eða samkomulagi um uppgjör áður en frestir voru á enda runnir. Þá byggir kærandi á því að við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekið tillit til læknisvottorða sem sýni fram á að aðstæður hennar hafi um langa hríð verið með þeim hætti að hún hafi átt erfitt með að fylgja eftir fjárhagslegum málefnum sínum m.a. með málskoti til stjórnar LÍN. Jafnframt gagnrýnir kærandi að í ákvörðun stjórnar LÍN sé ekki að finna neina umfjöllun um greiðsludreifinguna sem hún fékk staðfesta með bréfi 24. júlí 2017 og því hafi hún mátt vera í góðri trú um að afborgunin væri í viðhlítandi horfi og ekki í vanskilum.

Sjónarmið LÍN

Fram kemur hjá LÍN að kærandi hafi verið að hefja greiðslur af námsláni sínu í júní 2017. Hún hafi sótt um greiðsludreifingu á gjalddaganum en gert það of seint og því verið synjað. Það hafi hins vegar láðst að tilkynna henni um synjunina, en hún hafi heldur ekki fengið bréf um samþykki greiðsludreifingar. Gjalddaginn hafi því alltaf staðið ógreiddur í heimabanka kæranda. Þá hafi kærandi fengið innheimtuaðvörun þann 28. ágúst 2017 um að afborgunin 30. júní væri í vanskilum og yrði send í löginnheimtu væri hún ekki greidd innan 10 daga. Því sé það ólíklegt að kærandi hafi um haustið 2017 mátt vera í góðri trú um að gjalddaginn 30. júní 2017 hafi verið í skilum. Júníafborgunin hafi farið löginnheimtu 13. september 2017, innheimtubréf verið sent kæranda daginn eftir og innheimtuítrekanir þann 16. október 2017, 15. desember 2017 og 14. febrúar 2018. Hinn 22. febrúar 2018 hafi LÍN haft símasamband við kæranda vegna vanskilanna og hún þá borið því við að hafa ekki vitað að gjalddaginn 30. júní 2017 væri ógreiddur. LÍN hafi bent henni á að greiða þyrfti vanskilin annars færi gjalddaginn 1. mars 2018 einnig í löginnheimtu. Í byrjun mars hafi kærandi farið fram á að greiða aðeins höfuðstól afborgana en verið synjað. Gjalddaginn 1. mars 2018 hafi farið í löginnheimtu 4. apríl 2018, en áður hafi kærandi fengið aðvörun. Innheimtubréf og ítrekanir hafi síðan verið sendar henni í apríl og maí 2018 uns námslán hennar var gjaldfellt 24. maí 2018. Mál hafi síðan verið höfðað á hendur kæranda með stefnu birtri 21. júní 2018, sem lauk með dómsátt 8. mars 2019 þar sem kærandi kom námsláninu í skil með greiðslu vanskila, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. 

LÍN bendir á að ef greiðandi sækir of seint um greiðsludreifingu gildi umsóknin fyrir næsta gjalddaga þar á eftir. Gjalddaginn 1. september hafi því farið sjálfkrafa í greiðsludreifingu og kærandi fengið tilkynningu þess efnis. Ef afborgunin 30. júní hefði þá verið komin í löginnheimtu hefði greiðsludreifingu verið hafnað. Þegar kom að gjalddaga 1. mars 2018 hljóti kæranda að hafa verið fullkunnugt að afborgunin frá 30. júní 2017 hafi verið ógreidd. Áframhaldandi greiðsludreifingu hafi þá verið synjað þar sem júníafborgunin hafi þá verið komin í löginnheimtu. LÍN bendir á að kærandi hafi átt kost á því frá því að krafan fór í löginnheimtu í september 2017 að semja um vanskilin við lögmann sjóðsins, en ekki sinnt því þrátt fyrir ítrekanir þar um. Engir annmarkar hafi verið á innheimtu sjóðsins sem leiða ættu til niðurfellingar innheimtukostnaðar.

Vegna kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgana á gjalddögum 30. júní 2017 og 1. mars 2018 bendir LÍN á að samkvæmt grein 8.5.3 í úthlutunarreglum LÍN þurfi beiðni um slíkt að berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar, annars sé óheimilt að verða við henni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að aðstæður hennar hafi verið með þeim hætti að hún hafi verið ófær að sækja um innan frestsins. Læknisvottorð sem kærandi hafi sent LÍN í byrjun árs 2019 beri aðeins með sér að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu 9. október 2018 til 20. nóvember sama ár og engan veginn sé ljóst hvernig það tímabil tengist því að innheimtan hafi verið sett í löginnheimtu. Þá komi ekkert fram um að aðstæður hennar hafi verið með þeim hætti að hún hafi verið ófær um að sækja um undanþágu frá afborgun innan lögmælts umsóknarfrests. 

Telur LÍN að niðurstaða stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila snýr að innheimtu LÍN á tveimur afborgunum af námsláni kæranda sem voru með gjalddaga 30. júní 2017 og 1. mars 2018. Afborgun í millitíðinni, sem var með gjalddaga 1. september 2017, greiddi kærandi með greiðsludreifingu.

Kærandi telur sig hafa mátt standa í þeirri trú að afborgunin 30. júní væri í skilum þar sem LÍN hafi staðfest greiðsludreifingu með bréfi dagsettu 24. júlí 2017. Það hafi fyrst verið í mars 2018 sem kærandi hafi áttað sig á því hvernig málum var háttað, en þar til hafði hún talið sig í skilum með afborganir. LÍN heldur því fram að kærandi hafi sótt of seint um greiðsludreifingu afborgunarinnar 30. júní, en í samræmi við reglur sjóðsins hafi næsti gjaldagi sem þar kom á eftir farið sjálfkrafa í greiðsludreifingu. LÍN viðurkennir að láðst hafi að tilkynna kæranda um synjunina, en hún hafi heldur ekki fengið bréf um samþykki. Af ítrekuðum tilkynningum LÍN um vanskil hafi kærandi mátt vita að afborgunin 30. júní væri ógreidd.

Á heimsíðu LÍN (lin.is) eru upplýsingar fyrir lántaka um greiðslur námslána. Þar kemur m.a. fram að greiðendur námslána eigi þess kost að sækja um greiðsludreifingu á afborgunum, sem felur í sér að hverri afborgun námslána er skipt niður í sex jafnar greiðslur sem eru á gjalddaga einu sinni í mánuði. Afborganir námsláns eru almennt á gjalddaga á sex mánaða fresti, þ.e. 1. mars og 1. september ár hvert. Greiðendur sem eru að hefja endurgreiðslur, eins og í tilviki kæranda, eru yfirleitt með fyrsta gjalddaga 30. júní. Þeim gjalddaga sé aðeins hægt að dreifa á tvo mánuði með gjalddaga 30. júní og 30. júlí. Ekki sé hægt að sækja um greiðsludreifingu ef greiðandi er í vanskilum með eldri afborganir námsláns. Þá kemur fram að umsóknarfrestur um greiðsludreifingu sé þar til 25 dögum eftir gjalddaga afborgunar, en berist umsókn eftir þann tíma taki hún gildi frá og með næstu afborgun. Ekki þurfi að sækja sérstaklega um greiðsludreifingu fyrir hverja afborgun, en umsókn helst í gildi fyrir næstu afborganir þar til hún hefur verið felld niður af greiðanda eða LÍN. 

Eins og fyrr greinir sótti kærandi um greiðsludreifingu 24. júlí 2017, þ.e. 24 dögum eftir gjalddaga afborgunarinnar 30. júní 2017. Frestur til að sækja um greiðsludreifingu var því ekki liðinn samkvæmt þeim reglum sem LÍN hefur sett sér um fyrirkomulag þessa greiðsluúrræðis. Er því ekki fallist á þær útskýringar LÍN að umsókn kæranda hafi borist of seint.

Á hinn bóginn er ljóst að þetta úrræði gat ekki nýst kæranda nema takmarkað vegna þessa gjalddaga þar sem hún var að byrja endurgreiðslur, sem aðeins er hægt að dreifa á tvo mánuði, eins og áður greinir með gjalddaga 30. júní og 30. júlí. Átti kærandi því einungis rétt á greiðslufresti síðari afborgunarinnar um sex daga en sú fyrri var þegar gjaldfallin, auk þess sem samþykki umsóknar hefði áhrif á útreikning dráttarvaxta.

Kærandi fékk innheimtuaðvörun frá LÍN 28. ágúst 2017 um að afborgunin frá 30. júní væri í vanskilum og yrði send í löginnheimtu ef greiðsla bærist ekki innan 10 daga. Þegar engin viðbrögð bárust frá kæranda var krafan sett í löginnheimtu 13. september 2017. Fyrstu greiðslur af námsláninu innti kærandi ekki af hendi fyrr en kom að gjalddaganum 1. september 2017. Málskotsnefnd getur því ekki fallist á það með kæranda að hún hafi mátt standa í þeirri trú að gjalddaginn frá 30. júní hafi verið í skilum. Þar sem sú afborgun var komin í löginnheimtu þegar kom að gjalddaganum 1. mars 2018 átti kærandi ekki rétt á greiðsludreifingu vegna hans.      

Kærandi gerir þá kröfu fyrir málskotsnefnd að hún í ljósi aðstæðna fái undanþágu frá greiðslu afborgana með gjalddaga 30. júní 2017 og 1. mars 2018. Í kafla 8.5 í úthlutunarreglum LÍN 2017-2018 er fjallað um heimild sjóðsstjórnar til þess að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef tilteknar aðstæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í grein 8.5.3 segir síðan að umsókn um undanþágu skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og hafi hún ekki borist innan þeirra tímamarka sé óheimilt að veita hana, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Frestur til að sækja um undanþágu frá afborguninni 30. júní 2017 var því til 30. ágúst sama ár og frestur til að sækja um undanþágu frá gjalddaganum 1. mars 2018 rann út 30. apríl sama ár. Það var fyrst með bréfi lögmanns kæranda til LÍN 19. desember 2018 sem kærandi fór formlega fram á niðurfellingu á gjalddögum 30. júní 2017 og 1. mars 2018. Var þá í báðum tilvikum löngu liðinn sá 60 daga  frestur sem kærandi hafði. Kærandi ber því við að hafa innan frestsins verið í samskiptum við lögmannsstofuna sem annaðist innheimtuna og þá á þeim vettvangi óskað eftir niðurfellingu eða samkomulagi um uppgjör kröfunnar. Þá hafi í hinni kærðu ákvörðun stjórnar LÍN ekkert tillit verið tekið til læknisvottorða sem sýni að hún hafi um langa hríð átt erfitt með að fylgja eftir fjárhagslegum málefnum sínum eins og málskoti til stjórnar LÍN. Í grein 8.5.3 í úthlutunarreglum LÍN er mælt fyrir um að óski lánþegi eftir undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skuli hann sækja um það í gegnum persónulega vefsíðu sína hjá sjóðnum, svokallaða „þínar síður“, og senda með þær upplýsingar sem óskað er eftir og enn fremur skuli sækja um hvern gjalddaga fyrir sig. Að mati málsskotsnefndar geta samskipti kæranda við lögmannsstofu þá sem annaðist innheimtu krafnanna ekki komið í stað skyldu hennar til þess að sækja formlega um undanþágu til LÍN í samræmi við fyrirmæli í grein 8.5.3 í úthlutunarreglum sjóðsins. Ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN er fortakslaust um 60 daga umsóknarfrest og ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins. Framlögð læknisvottorð kæranda um óvinnufærni á tímabilinu 9. október 2018 til 20. nóvember 2018 gefa að mati málskotsnefndar á engan hátt til kynna að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um undanþágu frá afborgunum sem voru á gjalddögum 30. júní 2017 og 1. mars 2018.

Eins og að framan hefur verið rakið var námslán kæranda vegna vanskilanna gjaldfellt þann 24. maí 2018 og höfðaði LÍN dómsmál til innheimtu þess þann 21. júní 2018. Tók kærandi til varna í málinu og krafðist sýknu. Málinu lauk eins og áður segir með því að kærandi og LÍN gerðu með sér dómsátt 8. mars 2019 þar sem kærandi greiddi LÍN 466.853 krónur, auk 293.460 króna í málskostnað, eða samtals 760.313 krónur. Með því hafði kærandi gert upp gjaldfallnar afborganir af námsláni sínu og fóru eftirstöðvar þess í hefðbundna innheimtu hjá LÍN.

Málskotsnefnd lýtur svo á að heimild hennar til að endurskoða ákvörðun LÍN í máli kæranda beri að skoða í ljósi þess að kærandi og LÍN kusu að ráða til lykta ágreiningi sínum með þeim hætti sem greinir í dómsáttinni og er hún skuldbindandi um greiðsluskyldu kæranda og er aðfararhæf. Af dómsáttinni sem gerð var skömmu eftir að kærandi sendi kæru sína til málskotsnefndar verður ráðið að kærandi hafi samdægurs greitt LÍN í samræmi við efni hennar. LÍN og kæranda var í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars heimilt að ráðstafa sakarefninu, þ.e. að ljúka málinu sín á milli með dómsátt, sbr. 1. mgr. 106. gr. um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engan fyrirvara vegna kæru til málskotsnefndar er að finna í umræddri dómsátt.

Í kæru sinni til málskotsnefndar krefst kærandi eins og áður greinir niðurfellingar á tveimur afborgunum námsláns, að hluta eða öllu leyti, sem hún í máli sem LÍN höfðaði á hendur henni féllst á að greiða með dómsátt við LÍN. Ef fallist yrði á kröfu kæranda yrði sú niðurstaða efnislega ósamrýmanleg þeim skuldbindingum sem hún hefur fallist á að taka á sig með dómsátt við LÍN og með því ljúka málinu. Verður samkvæmt framansögðu lagt til grundvallar að dómsáttin í máli LÍN gegn kæranda hafi þau bindandi áhrif að kærandi geti ekki lengur byggt á þeim sjónarmiðum sem hún hefur teflt fram í kæru sinni til málskotsnefndar LÍN.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. janúar 2019 staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. janúar 2019 í máli kæranda er staðfest.

Til baka