Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-6/2019- Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurskoðun á útreikningi tekjutengdrar afborgunar.

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, miðvikudaginn 6. nóvember 2019, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2019:

Kæruefni

Málskotsnefnd barst þann 5. apríl 2019 kæra kæranda á þeirri ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. janúar 2019 að synja beiðni hans um að afborgun af námsláni A, hér eftir nefndur greiðandi, með gjalddaga 1. september 2018 verði endurútreiknuð í samræmi við framtal og úrskurð ríkisskattstjóra (hér eftir RSK) frá 9. október 2018 í máli greiðanda.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna samdægurs og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. maí 2019. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN og barst svar frá kæranda þann 22. maí 2019. Stjórn LÍN var sent svar kæranda og sendi LÍN stutta athugasemd í tölvubréfi, dagsettu 31. maí 2019, en taldi að öðru leyti ekki þörf á frekari athugasemdum.

Málskotsnefnd óskaði þann 2. október 2019 eftir frekari upplýsingum frá kæranda og bárust þær 4. október 2019. Upplýsingarnar voru sendar stjórn LÍN til umsagnar og jafnframt var óskað viðbótarupplýsinga og gagna frá sjóðnum. Bárust svör stjórnar LÍN þann 10. október 2019 og voru þau send kæranda daginn eftir til upplýsinga og andsvara. Bárust athugasemdir kæranda í tölvubréfi 22. október 2019.

Málavextir

Málavextir eru þeir að kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni greiðanda nr. G-07000. Greiðandi var úrskurðaður gjaldþrota þann 18. desember 2015 og lauk skiptum á þrotabúi hans þann 18. mars 2016. Við gjaldþrotaskiptin greiddist ekkert upp í kröfu LÍN í þrotabúið og var því innheimtu námslánsins beint að ábyrgðarmanni þ.e. kæranda. Í tölvubréfi LÍN, dagsettu 30. janúar 2017, til kæranda kemur fram að það sé mögulegt fyrir aðalskuldara, að slíta fyrningu með yfirlýsingu þar um og hefja í framhaldinu greiðslur námslána sinna með sömu kjörum og skilmálum og var fyrir gjaldþrot. Með bréfinu var meðfylgjandi eyðublað að yfirlýsingu aðalskuldara svo og fylgiskjal fyrir ábyrgðarmann. Var innheimtunni á hendur kæranda frestað um viku til þess að ganga frá málinu. Greiðandi skrifaði undir yfirlýsinguna þann 1. febrúar 2017 og kærandi, sem ábyrgðarmaður, skrifaði undir fylgiskjalið með yfirlýsingunni sama dag. Í fylgiskjalinum kemur fram að kærandi samþykki fyrir sitt leyti yfirlýsingu aðalskuldara um fyrningarslit og samþykki jafnframt að aðalskuldara verði heimilað að greiða af námslánum sínum eins og ráðgert sé í yfirlýsingu hans. Í kjölfarið fór námslán greiðanda aftur í hefðbundna innheimtu hjá LÍN.

Tekjutengd afborgun greiðanda á árinu 2018 var mynduð á grundvelli upplýsinga um tekjur hans sem bárust beint til LÍN frá RSK. Greiðandi hafði ekki skilað inn skattframtali fyrr en of seint og voru tekjur hans því áætlaðar af hálfu RSK. LÍN fékk upplýsingar um tekjur greiðanda frá RSK en ekki upplýsingar með hvaða hætti tekjurnar voru ákvarðaðar. Afborgunin var með gjalddaga 1. september 2018 og þann 17. október 2018 var kæranda, sem ábyrgðarmanni, og greiðanda lánsins sent ítrekunarbréf frá LÍN vegna vanskila.

Kærandi hafði samband við LÍN 6. nóvember 2018 og óskaði eftir því að notast yrði við niðurstöðu RSK í máli greiðanda frá 9. október 2018 til að mynda tekjutengda afborgun hans þann 1. september 2018 í stað áætlunar. Frestur til að sækja um endurútreikning afborgunar á námslánum eru 60 dagar frá gjalddaga og rann sá frestur út 1. nóvember 2018.

Kærandi sendi stjórn LÍN bréf þann 8. janúar 2019 og óskaði eftir endurútreikningi á umræddri afborgun. Í bréfinu kom m.a. fram að greiðandi, sem væri sonur hans, hefði ekki skilað inn skattskýrslu á réttum tíma og hafi tekjur hans því verið áætlaðar af hálfu RSK. Greiðandi hafi síðan kært þá áætlun og hafi niðurstaða RSK legið fyrir 9. október 2018 og voru tekjur hans mun lægri en áætlunin gerði ráð fyrir. Stjórn LÍN hafnaði erindi kæranda með ákvörðun sinni dagsettri 24. janúar 2019 með vísan til 60 daga frestsins samkvæmt grein 8.4. í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018-2019, sbr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að í ákvæðinu sem stjórn LÍN vísar til í ákvörðun sinni komi ekkert fram um það  ef það er ábyrgðarmaður sem kemur á framfæri ósk um leiðréttingu á tekjum greiðanda þegar ljóst sé að greiðandi hafi gleymt því eða trassað það. Kærandi bendir á að fjárhæð afborgunar geti verið íþyngjandi fyrir ábyrgðarmann ef hann þurfi að greiða hana. Í málinu liggi fyrir að fjárhæð afborgunar sé miklu hærri en hún ætti að vera miðað við rauntekjur greiðanda. Sé ljóst að ábyrgðarmaður hafi ekki sömu tækifæri til að fá upplýsingar um stöðu mála og viðkomandi greiðandi, bæði hvað varði skattamál, forsendur fyrir gjalddögum og upplýsingar um greiðslustöðu.

Kærandi bendir á að honum hafi verið sent ítrekunarbréf frá LÍN sem sé dagsett 17. október 2018 vegna vanskila greiðanda á afborgun með gjalddaga 1. september 2018. Ekki sé þó ljóst hvenær honum hafi raunverulega borist bréfið en samkvæmt því voru 257.143 krónur í vanskilum og hafi ábyrgðarmaður fengið 14 daga til að greiða skuldina eða til 5. nóvember 2018. Í bréfinu hafi ekki komið neitt fram um að fjárhæð afborgunar væri miðuð við áætlaðar tekjur greiðanda en ekki rauntekjur. Þá hafi ekki komið fram í bréfinu að kærandi hefði einungis 60 daga kærufrest frá gjalddaga ef eitthvað væri athugavert við forsendur afborgunarinnar. Í framhaldi af bréfinu hafi kærandi rætt við starfsmann LÍN, eða þann 6. nóvember, þar sem hann hafi fengið að vita að fjárhæð afborgunar væri samkvæmt áætluðum tekjum en greiðandi hafði ekki látið hann vita af því. Jafnframt fékk kærandi að vita að kærufrestur til að laga grunnforsendur afborgunar með réttum upplýsingum væri 60 dagar og væri því liðinn.

Þá bendir kærandi á að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að “Ekki verður séð að aðstæður þínar hafi verið með því móti að þú hafir verið með öllu ófær um að sækja um innan umsóknarfrestsins. Þar sem umsókn þín barst eftir þennan frest er erindi þínu synjað.” Kærandi telur að þessi rökstuðningur fyrir höfnun á kröfu ábyrgðarmanns sé með öllu haldlaus og ekki verði séð hvernig aðstæður ábyrgðarmanns eða að hann hafi ekki verið með öllu ófær um að sækja um innan umsóknarfrests breyti hér einhverju. Staðreyndin sé sú að kærandi vissi ekki eða hafi ekki fengið að vita að afborgun lánsins byggðist á áætluðum tekjum fyrr en eftir 1. nóvember 2018, þ.e. eftir 60 daga frestinn. Hann hafi haldið að þarna væri um að ræða vanskil greiðanda á afborgun þar sem grundvöllur fjárhæðar væri réttur.

Þá bendir kærandi á að þessi krafa hafi mikil áhrif á efnahag hans enda sé ekki öllum gefið að reiða fram um 257.143 krónur vegna skuldar annars aðila. Hann voni að fallist verði á sjónarmið hans enda eigi rétt að vera rétt varðandi tekjur greiðanda sem þegar lágu fyrir við ákvörðun stjórnar LÍN. Frestir geti ekki verið þeir sömu þegar um ábyrgðarmenn sé að ræða sem hafi ekki sömu upplýsingar og skuldarar, t.d. varðandi skattaleg mál, og fái ekki sömu upplýsingar frá LÍN á hvaða grunni forsendur tekjutengdar afborganir séu miðaðar. Hér sé um mikið hagsmunamál fyrir kæranda sem hafi lögvarða hagsmuni af því að þurfa ekki að greiða hina háu fjárhæð afborgunar og gildi það einnig fyrir greiðanda.

Kærandi vísar einnig til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til stuðnings kröfu sinni.

Í viðbótarathugasemdum bendir kærandi á að LÍN virðist sækja upplýsingar um tekjur greiðanda áður en tekjutengd afborgun sé mynduð ár hvert. Greiðandi hafi þá sannanlega verið búinn að skila inn leiðréttu framtali, eða þann 26. apríl 2018, þótt það hafi ekki verið afgreitt af RSK fyrr en 9. október 2018. Hann telur að þó ekki sé að finna heimild til handa ábyrgðarmanni að óska eftir endurútreikningi þá sé ekkert sem ætti að mæla gegn því að rétt sé rétt í þessum málum sérstaklega þegar um gjaldþrota einstakling sé að ræða eins og lántaka. Það væri verulega ósanngjarnt að hafna ósk ábyrgðarmanns um leiðréttingu á tekjum greiðanda þegar greiðandi trassi það. Sérstaklega í ljósi þess að ábyrgðarmaður hefur ekki sömu tækifæri til að fá upplýsingar um stöðu mála eins og greiðandi.

Kærandi gerir athugasemdir við að samkvæmt skuldabréfi því sem stjórn LÍN lagði fram með athugasemdum sínum sé ekki annað að sjá en að kærandi sé bæði lántakandi og ábyrgðarmaður á bréfinu. Telur kærandi að þessi framsetning á skuldabréfinu sé með öllu óskiljanleg og geti ekki staðist reglur kröfuréttar um skuldabréf. Virðist hafa orðið handvömm af hálfu sjóðsins við gerð lánapappíra og því bréfið ógilt frá upphafi og eftir atvikum fyrnt.

Málskotsnefnd óskaði eftir upplýsingum frá kæranda um gjaldþrot greiðanda. Kærandi upplýsti meðal annars að í framhaldi af skiptalokum hafi lánið verið gjaldfellt á hann og honum stefnt til greiðslu lánsins í heild sinni í janúar 2017. Hafi hann því neyðst til að skrifa undir yfirlýsingu í byrjun febrúar 2017 til að rjúfa fyrningu og til að greiða áfram af láninu á upphaflegum skilmálum. Lánið hafi verið í skilum síðan þá fyrir utan þá tekjutengdu afborgun sem ágreiningur þessa máls snúist um. LÍN hafi ekki vakið athygli ábyrgðarmanns á því að greiðandi hafi ekki skrifað undir skuldabréfið og því ekki bundinn við það, hvað þá ábyrgðarmaður. Kærandi telur því að hann hafi verið látinn skrifa undir fyrrnefnda yfirlýsingu á röngum forsendum sérstaklega í ljósi þess að greiðandi hafi verið orðinn gjaldþrota. Fyrrgreind yfirlýsing hafi því ekkert gildi hvað þá að hún hafi rofið fyrningu gagnvart ábyrgðarmanni þar sem skuldin hafi þegar verið fyrnd gagnvart honum án þess að hann vissi um það. Að auki hafi skuldabréfið verið gefið út í tíð eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 þar sem krafa á hendur ábyrgðarmanni fyrndist á 4 árum samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna. Þá hafi yfirlýsing hans ekkert gildi þar sem um fylgiskjal hafi verið að ræða.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN kemur fram að áður en tekjutengd afborgun sé mynduð ár hvert sæki sjóðurinn upplýsingar um tekjur lánþega sem búa á Íslandi á grundvelli 4. mgr. 14. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN til RSK. LÍN fái ekki upplýsingar um það hvort þær tekjuupplýsingar sem RSK sendi séu vegna tekna samkvæmt innsendu skattframtali viðkomandi eða áætlaðra tekna af hálfu RSK.

LÍN bendir á að í erindi kæranda til málskotsnefndar komi fram að hann hafi fengið að vita að fjárhæð gjalddagans væri byggð á áætluðum tekjum þegar hann hafi haft samband við LÍN þann 6. nóvember 2018. Þessu sé móttmælt af hálfu LÍN enda hafi sjóðurinn engar upplýsingar á hvaða grundvelli þær tekjur sem sjóðnum berast frá RSK séu byggðar.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN ákvarðast árleg endurgreiðsla í tvennu lagi. Síðari greiðsla ársins miðist við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári. Í 3. mgr. 10. gr. laganna komi fram að sé lántaka áætlaður skattstofn skuli miða við hann. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna komi fram að lántaki eigi rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skuli þá sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur. Almennt sé hvorki í lögum né almennum reglum er um sjóðinn gilda að finna heimild ábyrgðarmanna til þess að óska eftir endurútreikningi á gjalddaga. Jafnframt sé það oftast einungis á færi ábyrgðarmanna að afla umræddra upplýsinga. LÍN hafi almennt ekki vitneskju um forsögu þeirra tekjuupplýsinga sem sjóðnum berast frá RSK enda hafi sjóðurinn engar heimildir til þess að fá slíkar upplýsingar frá RSK. Jafnframt hafi LÍN takmarkaðar heimildir til þess að upplýsa ábyrgðarmann um það á hvaða grundvelli tekjutengd afborgun sé mynduð.

Innheimtuaðvörun vegna tekjutengda gjalddagans 1. september 2018 hafi verið send á lögheimili kæranda þann 17. október 2019. LÍN telur að gera megi ráð fyrir að kæranda hafi að minnsta kosti verið ljóst hver fjárhæð tekjutengdu afborgunarinnar hafi verið viku síðar.

Þá bendir LÍN á að það komi fram með skýrum hætti í skuldabréfi greiðanda að kærandi hafi verið umboðsmaður hans.

LÍN byggir á því að sjóðnum beri lögbundin skylda að fylgja þeim frestum sem um sjóðinn gilda sem og að gæta jafnræðis. Niðurstaða stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN. Fer LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótarupplýsingum frá LÍN kemur fram að bæði greiðandi og kærandi hafi ritað undir yfirlýsingu um viðurkenningu á slitum fyrningar samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og 14. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í kjölfarið hafi lán greiðanda farið í hefðbundna innheimtu. Fyrsti gjalddagi sem myndaðist eftir slit á fyrningu hafi verið 1. mars 2017. Kærandi hafi ekki tekið yfir skuldbindingar greiðanda en hann hafi skrifað undir yfirlýsinguna sem ábyrgðarmaður. 

Niðurstaða

Ágreiningur þessa máls snýst um hvort að kærandi, sem ábyrgðarmaður á námsláni, hafi heimild til að óska eftir endurútreikningi á tekjutengdri afborgun lánþega eftir að 60 daga fresturinn er liðinn.

Greiðandi skilaði ekki skattframtali til RSK fyrir tekjuárið 2017 fyrr en í apríl 2018 og voru því tekjur hans áætlaðar og tekjutengd afborgun hans af námslánum hans hjá LÍN haustið 2018 ákvörðuð á grundvelli framangreindrar áætlunar RSK. Afborgunin var með gjalddaga 1. september 2018 en greiðandi sinnti því ekki að greiða hana. Þann 17. október 2018 var greiðanda og kæranda, sem ábyrgðarmanni, sent ítrekunarbréf frá LÍN vegna vanskilanna. Greiðandi hafði ekki samband við LÍN en kærandi hafði samband við sjóðinn 6. nóvember 2018 og óskaði eftir að tekjutengda afborgunin yrði endurútreiknuð miðað við úrskurð RSK frá 9. október 2018 í máli greiðanda. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda þann 24. janúar 2018 með vísan til þess að beiðni um endurútreikning hafi borist eftir að umsóknarfrestur rann út.

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um LÍN tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.

Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lánþegi reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni.

Skuldabréfið sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir var gefið út árið 2007. Fram kemur í bréfinu að lánstími er ótilgreindur en greiða skal af láninu þar til skuldin er að fullu greidd. Við útgáfu skuldabréfsins voru í gildi lög nr. 21/1992 um LÍN. Skilmálar ábyrgðaryfirlýsingar á skuldabréfinu eru hefðbundnir.

Kærandi skrifar undir skuldabréfið bæði fyrir hönd greiðanda sem umboðsmaður hans svo og sem ábyrgðarmaður að láninu. Ekki er fallist á mótbárur kæranda um að skuldabréfið hafi ekki verið undirritað með fullnægjandi hætti og sé því ekki skuldbindandi hvorki fyrir greiðanda né hann sem ábyrgðarmann.

Greiðandi var úrskurðaður gjaldþrota í desember 2015 en við það féllu allar kröfur á hendur honum í gjalddaga, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Skiptum á þrotabúi greiðanda lauk í mars 2016 en ekkert fékkst greitt upp í kröfu LÍN og var innheimtu námslánsins því beint að ábyrgðarmanni þ.e. kæranda. Samkvæmt innheimtubréfi, dagsettu 29. apríl 2016, var krafan á hendur kæranda 11.337.141 krónur.

Í framhaldi gengu aðilar þannig frá málinu að greiðandi skrifaði undir yfirlýsingu LÍN um viðurkenningu á slitum fyrningar samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 og 14. gr. laga nr. 150/2007. Með yfirlýsingunni var fyrningu slitið á heildarnámslánaskuld greiðanda og hann lofaði að greiða eftirstöðvar námsláns samkvæmt skuldabréfi nr. G-07000 samkvæmt upphaflegum skilmálum bréfsins. Fram kemur á yfirlýsingunni að hluti skjalsins er yfirlýsing ábyrgðarmanns sem er á viðfestu fylgiskjali nr. 1. Á fylgiskjali nr. 1, sem undirritað er af kæranda, kemur fram að hann samþykki fyrir sitt leyti yfirlýsingu aðalskuldara, greiðanda, um fyrningarslit og samþykki jafnframt að aðalskuldara verði heimilað að greiða af námslánum sínum eins og ráðgert er í yfirlýsingu hans. Í kjölfarið fór námslán greiðanda, sem kærandi er í ábyrgð fyrir, aftur í hefðbundna innheimtu hjá LÍN samkvæmt upphaflegum skilmálum þess.

Með vísan til framangreinds er ljóst að greiðandi hefur tekið við skyldum sínum á ný samkvæmt skuldabréfinu og er hann greiðandi lánsins. Samþykki kæranda, sem ábyrgðarmanns á láninu, liggur sömuleiðis fyrir á tilhöguninni og jafnframt að ábyrgð hans á láni greiðanda heldur gildi sínu. Hér er um ívilnandi aðgerð að ræða af hálfu LÍN gagnvart greiðanda sem og kæranda og er vangaveltum kæranda um að hann hafi verið neyddur til að skrifa undir fylgiskjal 1 vísað á bug. Hinn kosturinn hefði verið að innheimtuferlinu gagnvart kæranda á heildarskuldinni hefði verið framhaldið.

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin er með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í 3. mgr. 8. gr. laganna segir að sé lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann.

Í 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. breytingalög nr. 140/2004, segir:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.

Í athugasemdum með breytingalögunum frá 2004 segir meðal annars að lagt sé til að við 11. gr. laganna bætist tvær nýjar málsgreinar, er verði 1. og 2. mgr. Fyrri málsgreinin kveði á um að lánþegi eigi rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum og að hann skuli þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Þá segir að með þessu “er skýrt kveðið á um frest lánþega til að sækja um endurútreikning eða undanþágu frá árlegri afborgun”.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018-2019 er í kafla VIII fjallað um endurgreiðslur námslána. Segir þar m.a. í grein 8.1:

Endurgreiðslur námslána taka mið af ákvæðum hvers skuldabréfs og þeim lögum sem í gildi voru þegar lánin voru tekin. Að öðru leyti gilda samþykktar úthlutunarreglur hverju sinni.

Fylgiskjöl vegna umsókna tengd endurgreiðslum skulu berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að greiðandi sé fallinn frá umsókn. Í þeim tilvikum sem greiðandi hefur fengið endurútreikning frá skattayfirvöldum er heimilt að taka tillit til þess endurútreiknings þótt gögn berist eftir framangreindan frest, að því gefnu að umsókn um endurútreikning berist fyrir umsóknarfrest hvers umsóknarárs, sbr. gr. 8.4.

Í 4. mgr. greinar 8.4 segir:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar en umsókn frestar ekki innheimtu á gjalddaga. Greiðsludreifing á gjalddaga lengir ekki framangreindan umsóknarfrest. Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um tekjurnar liggja fyrir skulu þær sendar sjóðnum og endurútreikningurinn endurskoðaður til samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn gilda þau um lánveitingar LÍN og samkvæmt 12. gr. laganna taka þau til ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra með þeim takmörkunum sem fram koma í ákvæðinu. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er mælt fyrir um tilkynningarskyldu gagnvart ábyrgðarmanni meðal annars um vanefndir lánþega. Um afleiðingar vanrækslu á tilkynningarskyldu er síðan fjallað í 2., 3. og 4. mgr. ákvæðisins.

Málskotsnefnd bendir á að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 skal lánþegi sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja svo fyrir sjóðinn "bestu fáanlegar upplýsingar" um tekjur. Í lögunum er ekki gefinn neinn frestur til að koma þessum upplýsingum að en í úthlutunarreglum LÍN, grein 8.4, er gefinn tveggja mánaða frestur eftir að umsóknarfrestur rennur út til að koma að fylgiskjölum og síðan lengri frestur hafi greiðandi fengið endurútreikning hjá skattyfirvöldum, enda sæki hann um fyrir lögbundinn frest sem er 60 dögum eftir gjalddaga.

Málskotsnefnd telur bæði lög nr. 21/1992 og úthlutunarreglur sjóðsins vera skýr að því leyti að það er á ábyrgð og frumkvæði lánþega að óska endurútreiknings tekjutengdrar afborgunar. Fyrrgreindur 60 daga frestur 11. gr. laga nr. 21/1992 er lögbundinn og eru ekki heimilaðar undanþágur frá honum. Hins vegar er, sbr. orðalag framangreindra ákvæða, gert ráð fyrir að lánþegar geti sótt um endurútreikning á tekjutengdri afborgun innan 60 daga frestsins þó svo að endanlegar tekjuupplýsingar liggi ekki fyrir.

Ágreiningslaust er að greiðandi sótti ekki um endurútreikning á tekjutengdri afborgun með gjalddaga 1. september 2018 innan lögbundins 60 daga frests sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992. Ekkert er komið fram um að honum hafi verið það ómögulegt.

Kemur þá næst til skoðunar hvort að ábyrgðarmaður á námsláni eigi rétt á að fá tekjutengda afborgun endurútreiknaða.

Kærandi vísar til þess að í ákvæðum þeim sem stjórn LÍN byggir höfnun sína á komi ekkert fram um það tilvik þegar það er ábyrgðarmaður sem kemur á framfæri ósk um leiðréttingu á tekjum lánþega. Telur kærandi ljóst að ábyrgðarmaður hafi ekki sömu tækifæri til að fá upplýsingar um stöðu mála og viðkomandi lánþegi, bæði hvað varði skattamál, forsendur fyrir gjalddögum og upplýsingar um greiðslustöðu. Hann bendir einnig á að ekki liggi ljóst fyrir hvenær honum hafi borist ítrekunarbréfið vegna vanskila greiðanda eða að þar hafi verið fullnægjandi upplýsingar um að tekjur greiðanda væru áætlaðar. Ennfremur hafi þar ekkert verið um 60 daga kærufrestinn.

Í málinu liggur fyrir að kærandi, sem ábyrgðarmaður á námsláni, samþykkti í kjölfar gjaldþrots greiðanda yfirlýsingu greiðanda um fyrningarslit og jafnframt að greiðanda væri heimilt að greiða áfram af láninu samkvæmt upphaflegum skilmálum þess. Jafnframt samþykkti kærandi áframhaldandi ábyrgð sína á láninu. Með þessu varð réttarstaða aðila með þeim hætti sem áður var, þ.e. lántaki sem greiðandi námslánsins og kærandi sem ábyrgðarmaður á láninu.

Vanskil urðu af hálfu greiðanda á tekjutengdri afborgun námslánsins haustið 2018. Við útreikning afborgunar var byggt á upplýsingum frá RSK um fjárhæð tekna en ekki tilgreint af hálfu RSK hvort um væri að ræða raunverulegar tekjur eða áætlun. Það er ljóst að samkvæmt lögum um LÍN var það á ábyrgð greiðanda að hlutast til um að koma réttum upplýsingum til LÍN og sækja um endurútreikning ef svo bar undir, sem hann gerði ekki.

Málskotsnefnd telur að LÍN hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart kæranda sem ábyrgðarmanns, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, með því að tilkynna honum um vanefnd greiðanda í bréfi dagsettu 17. október 2018. Þar koma fram upplýsingar um fjárhæð afborgunarinnar sem gaf kæranda fullt tilefni til að bregðast við og hafa samband við greiðanda sem einn hafði vitneskju um hvernig málum var háttað. Fullyrðing kæranda um að hann hafi ekki haft möguleika á að fá leiðréttingu sökum þess að greiðandi hafi ekki gert neitt til að fylgja málinu eftir á því ekki við rök að styðjast. Ekkert liggur fyrir um að beiðni um endurútreikning hafi tafist sökum þess að greiðandi hafi ekki viljað koma leiðréttingu á framfæri eða verið ófús til samvinnu um það mál. Að mati málskotsnefndar var á þessum tíma enn nægur tími til að óska eftir leiðréttingu innan 60 daga frestsins en gera má ráð fyrir að bréfið hafi borist kæranda eigi síðar en 5 dögum frá dagsetningu þess.

Réttur kæranda sem ábyrgðarmanns á ógjaldfelldu láni er, samkvæmt 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, m.a. réttur til upplýsinga um vanefnd, upplýsingar um stöðu láns og heimild til að greiða gjaldfallnar afborganir láns til að fyrirbyggja gjaldfellingu þess. Samkvæmt 7. gr. laga skal lánveitandi senda tilkynningu um vanskil til ábyrgðarmanna svo fljótt sem verða má. Miðað við framangreint orðalag verður að mati málskotsnefndar að telja að LÍN hafi ekki mátt draga það lengur en raun varð á að tilkynna kæranda um vanskil greiðanda.

Það er ekki er útilokað að ábyrgðarmanni sé heimilt að óska eftir endurútreikningi afborgunar. Forsendur þess að af slíkum afskiptum geti orðið eru að viðkomandi ábyrgðarmaður hafi aðgang að upplýsingum um tekjur greiðanda. Ekkert liggur fyrir um eins og áður greinir að greiðandi hafi ekki viljað koma upplýsingum um raunverulegar tekjur sínar á framfæri við LÍN. Hafi kærandi talið slíkt nauðsynlegt átti hann þess kost að fara þess á leit við greiðanda áður en lögbundinn frestur til slíks rann út.

Kærandi hefur jafnframt vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til stuðnings kröfu sinni. Að mati málskotsnefndar verður ekki annað séð en að stjórn LÍN hafi bæði gætt að meðalhófsreglu sem og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við meðferð þessa máls.

Með vísan til ofangreindra röksemda verður ekki fallist á beiðni kæranda um að hann hafi átt rétt á fresti umfram þá 60 daga sem lögbundnir eru til að óska eftir endurútreikningi vegna tekjutengdrar afborgunar 2018 á námsláni greiðanda.

Er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 24. janúar 2019 er staðfest.

Til baka