Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-9/2019 - Beiðni um niðurfellingu á ábyrgð.

ÚRSKURÐUR

Ár 2019, föstudaginn 20. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-9/2019.

Kæruefni

Hinn 12. ágúst 2019 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir nefnt LÍN) frá 3. júní 2019 þar sem synjað var beiðni hennar um niðurfellingu ábyrgðar hennar á námsláni skuldara hjá LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Kærandi sendi viðbótarupplýsingar í málinu 27. ágúst 2019 og voru þær framsendar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 5. september 2019 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda, dagsettar 7. september 2019, bárust málskotsnefnd þann 7. október 2019 og voru framsendar LÍN sama dag. Viðbótargögn bárust frá LÍN þann 14. október 2019 og voru þau framsend kæranda. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust 28. október 2019.

Málsatvik og ágreiningsefni

Á árinu 1992 gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð á þremur skuldabréfum sem gefin voru út vegna námsláns skuldara. Um er að ræða eftirtalin skuldabréf:

-        nr. T-0001 útgefið 23. janúar 1992 með höfuðstól að fjárhæð 667.219 krónur,

-        nr. T-0002 útgefið 10. apríl 1992 með höfuðstól að fjárhæð 152.616 krónur og

-        nr. T-0003 útgefið 24. ágúst 1992 með höfuðstól að fjárhæð 5.106 krónur.

Samkvæmt skilmálum bréfanna er ábyrgð kæranda bundin við höfuðstól skuldabréfanna ásamt verðtryggingu og öllum kostnaði ef vanskil verða.

Fram kemur í gögnum málsins að skuldari var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 28. október 2018. Árlegt yfirlit um ábyrgð var sent kæranda sem ábyrgðarmanni þann 2. febrúar 2019 þar sem fram kom staða ábyrgðar og láns í lok árs og að lánið væri í skilum. Með bréfi, dagsettu 26. febrúar 2019, sendi LÍN kæranda tilkynningu um að að skuldari hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 25. október 2018 og að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri lánið gjaldfallið í heild sinni. Innheimta í kjölfarið myndi beinast að kæranda sem ábyrgðarmanni. Kom fram í bréfinu að staða ábyrgðarinnar væri 1.949.990 krónur. Var kæranda bent á að hafa samband við LÍN til að semja um kröfuna eða óska eftir frekari upplýsingum varðandi kröfuna. Kom fram að búast mætti við að krafan yrði send í innheimtu ef kærandi hefði ekki samband við LÍN innan 14 daga.

Kærandi sendi bréf til stjórnar LÍN vegna kröfunnar í þeim tilgangi að fá hana fellda niður. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun þann 3 júní 2019 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 5. júní 2019. Segir meðal annars í ákvörðun LÍN að við útgáfu þeirra skuldabréfa sem kærandi hafi skrifað undir sem ábyrgðarmaður hafi verið í gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í lögunum og skilmálum skuldabréfsins r hafi komið fram að stjórn LÍN hafi verið heimilt að veita undanþágur frá árlegri endurgreiðslu vegna tiltekinna aðstæðna er vörðuðu lántaka. Þá hafi kærandi frá árinu 2012 fengið senda tilkynningu um hver áramót um stöðu lánsins og ábyrgðarinnar þar sem einnig hafi komið fram upplýsingar um veittar undanþágur. Lánið hafi verið í skilum og hafi kærandi ekki þurft að bregðast við á þeim tíma. Kröfur LÍN á hendur lántaka hafi fyrst fallið í gjalddaga við gjaldþrot hans 25. október 2018.

Eftir að kærandi sendi kæru til málskotsnefndar LÍN þann 6. ágúst 2019 bárust henni upplýsingar um andlát skuldara og upplýsti hún málskotsnefnd um það með tölvupósti 27. ágúst 2019.

Sjónarmið kæranda   

Kæran beinist að ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda þann 3. júní 2019. Í kærunni kemur fram að á árinu 1992 hafi kærandi gengist í ábyrgð á námslánum þáverandi sambýlismanns síns. Síðan þá hafi hún engar tilkynningar fengið um stöðu lánanna fyrr en hún hafi fengið tilkynningu frá LÍN 2. febúar 2019 þar sem tilgreind hafi verið staða ábyrgðar og að lánið væri í skilum. Hafi það því komið kæranda á óvart að fá tilkynningu frá LÍN um gjaldþrot skuldara og gjaldfellingu lánsins og að innheimtu þess yrði framvegis beint að henni. Þá hafi henni jafnframt verið tilkynnt að ef ekkert yrði afhafst í tilefni af tilkynningunni yrði krafan send í löginnheimtu með tilheyrandi kostnaði.

Kærandi kveður að við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að sjóðurinn telji sig hafa sent kæranda árlega frá árinu 2012 svokölluð yfirlit til ábyrgðarmanna. Þá hafi sjóðurinn upplýst þegar eftir því hafi verið leitað að lántaki hafi ekki greitt neitt af skuldabréfinu síðan árið 2007. Kærandi tekur fram að engin leið sé fyrir ábyrgðarmann að átta sig á því af þessum yfirlitum að ekkert hafi verið greitt af láninu árum saman enda gefi orðalagið „Undanþága frá fastri afborgun og tekjutengdri afborgun láns S-0005“ hvorki upplýsingar um stöðu lánsins né um að ekkert hafi verið greitt af láninu á annan áratug, eins og nú hafi komið í ljós.    

Kærandi byggir á því að LÍN hafi sýnt af sér fullkomið tómlæti um að halda kröfu sinni við gagnvart henni og í raun blekkt hana sem ábyrgðarmann með orðalagi sem virðist af hálfu LÍN vera haft vísvitandi villandi til þess að telja ábyrgðarmanni trú um að staða lánsins sé með öðrum hætti en raun beri vitni. Þessi háttur stjórnar og starfsmanna LÍN á tilkynningum til ábyrgðarmanna sé ámælisverður. Með vísan til þessa fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd felli úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN í máli hennar og fallist á niðurfellingu á frekari greiðsluskyldu kæranda vegna láns nr. S-0005. Þá fer kærandi þess á leit við málskotsnefnd að hún beini þeim tilmælum til stjórnar LÍN að koma á framfæri réttum upplýsingum til ábyrgðarmanna námslána til framtíðar svo þeim verði gert kleift að fylgjast með stöðu þeirra ábyrgða sem þeir hafi gengist undir.

Þann 27. ágúst 2019 sendi kærandi tölvupóst til málskotsnefndar þar sem hann upplýsti um að skuldari námslánsins væri látinn. Fram kom að kærandi taldi að þessar upplýsingar kynnu að hafa áhrif á framgang málsins hjá málskotsnefnd.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að margvíslegar rangfærslur hafi verið í athugasemdum stjórnar LÍN í málinu. Í fyrsta lagi kvað kærandi að ekki yrði séð af gögnum málsins að kærandi hafi fengið undanþágur frá árinu 2008. Engin skýring væri gefin af hverju skuldari hefði ekki greitt af láninu á árunum 2000 til 2003. Þá vísaði kærandi til þess að engin gögn lægju fyrir um hvort skuldari hafi sótt árlega um undanþágu, hvort umsóknin hafi verið endurnýjuð árlega og hvernig staðið hafi verið að framlengingu undanþágunnar. Þá hafi kæranda aldrei verið gerð grein fyrir þessari málsmeðferð. Hafi hún verið í góðri trú um að lánin væru í skilum og eðlilega hafi verið staðið að afborgunum þeirra. Hefði kærandi að sjálfsögðu brugðist við ef henni hefðu verið þessar upplýsingar kunnar.

Kærandi hafnar því að hafa fengið þær tilkynningar sem LÍN hafi talið upp í athugasemdum sínum og ítrekar að fyrsta vísbending um að allt hafi ekki verið með felldu hafi verið þegar hún hafi fengið tilkynningu um gjaldþrot skuldara, að lánið sé gjaldfallið og verði innheimt á hendur henni. Kærandi vísar ennfremur til þess að LÍN beri sönnunarbyrðina fyrir því að slíkar tilkynningar hafi verið sendar. Um það séu engar heimildir utan innahússkjals, væntanlega úr tölvukerfi LÍN, sem sjóðurinn hafi lagt fram löngu eftir að ágreiningur um ábyrgðina hafi hafist.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að með ábyrgð sinni á námslánum nr. T-0001, T-0002 og T-0003 sé kærandi ábyrgðarmaður að 58,08% af láni nr. S-0005. Hafi lántaki greitt árlega af lánum sínum frá árinu 1996 en frá árinu 2008 hafi hann fengið undanþágu frá afborgunum. Þá kemur fram í viðbótarathugasemdum LÍN að á árunum 2000-2003 hafi lántaki einnig fengið undanþágu frá afborgunum. Samkvæmt gögnum sjóðins hafi kærandi frá og með áramótum 2011/2012 fengið árlega yfirlit yfir ábyrgðina sent á lögheimili sitt. Á þetta sama heimilsfang hafi kæranda verið send innheimtuviðvörun og ítrekun vegna ábyrgðarinnar í byrjun árs 2019. Í þeim yfirlitum sem kærandi hafi fengið send hafi hún verið upplýst um þær frestanir á afborgunum sem lántaki hafi fengið sem gætu haft áhrif á greiðslutíma lánsins. Í yfirlit því sem kæranda hafi verið sent 2. febrúar 2019 hafi fyrir mistök komið fram að lánið væri í skilum. Það hafi síðan verið leiðrétt með tilkynningu um gjaldþrot lántaka tveimur vikum síðar og hafi að því ekki áhrif á skuldbindingu kæranda sem ábyrgðarmanns.

Stjórn LÍN vísar til skyldu lánveitanda, samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, að senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur er eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu lána sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit um ábyrgðir. Kærandi hafi fengið sendar slíkar tilkynningar og í þeim hafi komið fram upplýsingar um undanþágur frá afborgun sem lánþegi hafi fengið á þessum árum. Heimild LÍN til að veita undanþágu hafi legið fyrir þegar kærandi skrifaði undir skuldbindingu sína sem ábyrgðarmaður hjá sjóðnum, sbr. skilmála skuldabréfsins sem kærandi ritaði undir sem og 7. og 8. gr. laga nr. 72/1982. Kæranda hafi einnig verið send tilkynning um gjaldþrot skuldara fjórum mánuðum eftir gjaldþrot hans. Hafnar stjórn LÍN því að sá tími teljist óhæfilega langur. Stjórn LÍN hafnar einnig fullyrðingum kæranda um tómlæti eða blekkingar sjóðsins. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og úrlausnir stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Niðurstaða

Kærandi hefur farið þess á leit að ábyrgð hennar á námslánum skuldara verði felld niður á grundvelli vanrækslu á tilkynningaskyldu, skv. 2. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Byggir kærandi á því að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Hafi henni ekki borist þær tilkynningar sem LÍN hafi vísað til við ákvörðun í máli hennar. Þá hafi henni einnig verið ranglega tilkynnt 2. febrúar 2019 að lán skuldara væru í skilum. Skuldari hafi ekkert greitt af láninu síðan 2007 þrátt fyrir yfirlýsingar LÍN um að lánið hafi verið í skilum. Þá hafi upplýsingar LÍN um undanþágur veittar til skuldara verið villandi. Hafi LÍN látið hjá líða að innheimta skuldina í 11 ár án þess að tilkynna það kæranda sem ábyrgðarmanni sem þá hefði getað brugðist við með viðeigandi hætti.

Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni.

Skuldabréf þau sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir eru svonefnd T-lán og voru gefin út 23. janúar, 10. apríl og 24. ágúst 1992. Í innheimtukerfi LÍN hafa T-lán skuldara, þ.e. námslán hans sem tekin voru á árunum 1982 til 1992, verið sameinuð í svonefnt S-lán og samkvæmt upplýsingum LÍN er kærandi í ábyrgð fyrir 58,08% af S-láninu. Um lánin gilda skilmálar skuldabréfanna og 2. kafli laga nr. 72/1982 sem vísað er til í skilmálunum og giltu á þeim tíma sem lánin voru veitt. Skilmálarnir kveða á um að lánin skuli verðtryggð. Lánin eru vaxtalaus og samkvæmt skilmálunum skal endurgreiðslum ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Til trygginga skilvísri greiðslu á lánunum, höfuðstól að viðbættri verðtryggingu sem og þeim kostnaði sem vanskil skuldara kunna að valda, lýsti kærandi því yfir að hún ábyrgðist lánin sem sjálfskuldarábyrgðarmaður.

Tilkynningar samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

Deilt er um í málinu hvort LÍN hafi sent kæranda tilkynningu samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn sem tóku gildi 4. apríl 2009. Ábyrgðir kæranda voru veittar á árinu 1992 og taka lög um ábyrgðarmenn, sbr. 12. gr., til þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.

Í málinu liggja fyrir afrit tilkynninga skv. 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn sem LÍN kveðst hafa sent kæranda árlega frá og með áramótum 2011/2012. Þá liggur einnig fyrir útprentun úr kerfi LÍN yfir öll bréf sem LÍN hefur sent kæranda frá 1. janúar 2000 til 14. október 2019. Eru þar listuð bréf sem nefnast „Yfirlit til ábyrgðarmanna“ sem prentuð hafa verið út úr kerfi LÍN 30. janúar 2012, 6. febrúar 2013, 13. febrúar 2014, 23. febrúar 2015, 22. mars 2016, 15. febrúar 2017, 25. janúar 2018 og 31. janúar 2019. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið þessar tilkynningar utan þá sem dagsett hafi verið 2. febrúar 2019.

Málskotsnefnd bendir á að stjórnvöld eru almennt talin bera áhættuna af því ef mistök verða við sendingu bréfa eða önnur tæknileg mistök sem valda því að bréf berst ekki málsaðila, nema málsaðili hafi sýnt af sér sök. Er í þessu sambandi talið að sönnunarbyrði hvíli jafnan á stjórnvöldum um að bréf, sem þau fullyrða að hafi verið sent, hafi borist málsaðila. Þó er talið að sönnunarbyrði stjórnvalds sé almennt aflétt með því að stjórnvald geri grein fyrir þeim verklagsreglum er viðhafðar hafi verið við tilkynningu á viðkomandi ákvörðun. Bendir málskotsnefnd á að þrátt fyrir að LÍN beri að sanna að bréfin hafi verið send er ekki áskilið í lögum um ábyrgðarmenn að tilkynning skuli send með sannanlegum hætti. Ennfremur kemur fram í 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um sönnunargildi opinberra skjala  að „[þ]ar til annað sannast skal efni opinbers skjals talið rétt ef það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda.“ Framangreind gögn frá LÍN bera vitni um það verklag að skráð er hverju sinni í kerfi LÍN hvenær nánar tilgreind bréf eru prentuð út.  Er því um að ræða samtíma gögn um útsend bréf til kæranda. Ekkert bendir til að bréfin hafi verið send á rangt heimilisfang enda er heimilisfang kæranda réttilega tilgreint á þeim afritum sem liggja fyrir. Þá bendir málskotsnefnd á að í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015 sem staðfestur var af Hæstarétti í máli nr. 372/2015 með tilliti til forsendna voru útprentuð afrit tilkynninga úr tölvukerfi fjármálastofnunar sem báru það með sér að hafa verið sendar á heimili ábyrgðarmannsins talin fela í sér fullnægjandi sönnun þess að tilkynningar samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn hefðu verið sendar til hans.

Einnig er til þess að líta að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna mögulegrar vanrækslu. Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á þær mótbárur kæranda að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu skv. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn á því tímabili sem umrædd bréf taka til.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að LÍN vanrækti að senda tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. til kæranda á árunum 2010 og 2011, þ.e. í kjölfar gildistöku laga um ábyrgðarmenn. Í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. dóm nr. 229/2015, kemur fram að ekki sé tilefni til niðurfellingar ábyrgðar sökum vanrækslu á tilkynningaskyldu nema ábyrgðarmaður sýni fram á að lánveitandi hafi með slíkri vanrækslu valdið honum öðrum og meiri skaða en bættur verði með úrræðum þeim sem getið er í 3. og 4. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í fyrrgreindum lagaákvæðum kemur fram að vanræksla getur áhrif á heimild lánveitanda til að krefjast dráttarvaxta og annars kostnaðs sem og á heimild hans til að gjaldfella lánið í heild sinni nema gefa ábyrgðarmanni fyrst kost á að greiða gjaldfallnar afborganir. Gjaldfelling skv. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti er án atbeina lánveitanda og fellur því ekki hér undir. Kæranda sem mátti vera kunnugt um tilvist ábyrgðarskuldbindingarinnar hefur ekki leitt líkum fyrir að hafa orðið fyrir slíku tjóni vegna vanrækslu LÍN á tilkynningaskyldu á tímabilinu 2010 og 2011 að því marki að ekki verði bætt með þeim úrræðum sem vísað er til hér að framan.

Að því er lýtur að bréfi því sem sent var kæranda 2. febrúar 2019 þá er til þess að líta að LÍN sendi kæranda leiðréttar upplýsingar um fjárhagsstöðu skuldara skömmu síðar eða 26. febrúar 2019. Þá hefur kærandi ekki leitt neinum líkum að því að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara mistaka LÍN.

Fyrir liggur að LÍN sendi kæranda ekki tilkynningu um gjaldþrot lántaka fyrr en fjórum mánuðum eftir úrskurð héraðsdóms þess efnis. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn hefur það áhrif á rétt LÍN til að krefja kæranda um dráttarvexti vegna þess tímabils.

Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á þau rök kæranda að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu skv. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn gagnvart henni þannig að varði niðurfellingu ábyrgðar.

Undanþágur frá afborgunum.

Kærandi hefur einnig vísað til þess að henni hafi ekki verið kunnugt um að LÍN hafi veitt skuldara undanþágu frá endurgreiðslu námslána. Hafi skuldari ekki greitt neitt af láninu í 11 ár en þrátt fyrir það hafi LÍN sent tilkynningar um að lánið væri í skilum. Kærandi telur ekki að þær upplýsingar sem fram koma í tilkynningum LÍN hafi verið nægjanlega skýrar.

Lánin, sem veitt voru samkvæmt lögum um námslán og námsstyrki nr. 72/1982, eru verðtryggð og vaxtalaus. Skuldari tók námslánin á á árinu 1992 í gildistíð fyrrnefndra laga og kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á þremur námslánum skuldara sem tilgreind eru hér að framan.Í texta skuldabréfanna, sem eiga sér einnig stoð í þágildandi og núgildandi lögum um LÍN, kemur fram að tveir árlegir gjalddagar séu á lánunum, annar sé 1. mars ár hvert sem feli í sér fasta afborgun og hinn sé tekjutengd afborgun 1. september. Kemur þar einnig fram að endurgreiðslum ljúki „ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast og eru eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr. um vanskil og vantalningu tekna.“ Jafnframt segir að endurgreiðslur skuli standa yfir í 5 ár hið skemmsta, þó þannig að það skerði ekki fasta greiðslu.

Þá segir ennfremur að stjórn LÍN sé heimilt að „veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára.“ 

Í skuldabréfunum segir að um skuldabréfið skuli að öðru leyti gilda ákvæði 2. kafla laga nr. 72/1982. Í þeim lögum sagði eftirfarandi um undanþágur frá afborgunum í 5. mgr. 8. gr. laganna:

Stjórn Lánasjóðs er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 2. og 3. mgr. ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórninni er ennfremur heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu skv. 2. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Ákvæði núgildandi laga nr. 21/1992 eru orðuð með sambærilegum hætti og samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laganna er, auk undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga, heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.“

Framangreint fyrirkomulag endurgreiðslu námslána byggir að verulegu leyti á félagslegum sjónarmiðum.

Samkvæmt ofangreindum skilmálum skuldabréf skuldara og lögum um LÍN mátti kæranda vera ljóst þegar hún gekkst í ábyrgð á greiðslum á umræddum lánum að fyrirkomulag endurgreiðslu tæki mið af félagslegum aðstæðum greiðanda ólíkt því sem gildir á almennum lánamarkaði. Slíkt fyrirkomulag er enda einnig hagkvæmt fyrir ábyrgðarmann því minni líkur eru af þessum sökum að reyna muni á ábyrgð hans þó svo að félagslegar aðstæður skuldara verði bágar og honum reynist torvelt að standa við fjárskuldbindingar sínar. Er veiting undanþágu frá afborgun í samræmi við lög um LÍN og skilmála umræddra lána og veitir LÍN slíka undanþágu á grundvelli staðfestanlegra upplýsinga hverju sinni um fjárhagslega stöðu greiðanda og félagslegar aðstæður hans. Hefur í framkvæmd verið miðað við að veiting undanþágu sé ívilnandi ráðstöfun sem beinist ekki eingöngu að því að tryggja hagsmuni lántaka heldur einnig ábyrgðarmanna. Getur málskotsnefnd ekki fallist á að veiting undanþága með framangreindum hætti teljist hafa verið kæranda í óhag. Fram kemur í lögum um LÍN hvernig standa skal að umsókn um undanþágu er þar segir í 8. mgr. 8. gr að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjaldddaga hverrar afborgunar og skuli skuldari leggja fram þær upplýsingar fyrir stjórn LÍN sem stjórnin telur skipta máli. 

Af framangreindu leiðir einnig að LÍN bar ekki skylda til að tilkynna kæranda um veitingu undanþáganna. Engin slík tilkynningaskylda er tiltekin í skilmálum lánsins eða lögum um LÍN.  Málskotsnefnd bendir einnig á að í 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 eru talin upp þau tilvik þar sem lánveitandi skal senda sérstaka tilkynningu til ábyrgðarmanns. Skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni tilkynningu ef vanskil verða, þegar veð eða tryggingar eru ekki lengur tiltækar, um andlát eða gjaldþrot og um stöðu láns hver áramót. Ekki er í lögunum vísað til undanþága sem lánveitandi veitir greiðanda, enda tíðkast slíkar ívilnanir ekki á almennum lánamarkaði. LÍN hefur þó í samræmi við góða stjórnsýsluhætti einnig upplýst ábyrgðarmenn um veittar undanþágur.

Þá er ekki fallist á með kæranda að tilgreining á þessum undanþágum í bréfum LÍN sé ófullnægjandi. Frá áramótum 2011/2012 hefur LÍN sent kæranda yfirlit yfir stöðu ábyrgðar hennar án þess að kærandi hafi fyrr en á árinu 2019 eftir gjaldþrot lántaka talið ástæðu til að bera brigður á umfang og gildi ábyrgðar sinnar.

Málskotsnefnd bendir jafnframt á að þrátt fyrir að talið væri að tilkynning um ábyrgð hafi ekki verið send kæranda fyrr en með bréfi LÍN til hans 12. nóvember 2013 verður ekki séð eins og atvikum er háttað í þessu máli að vanræksla LÍN hafi valdið því að umfang ábyrgðar kæranda hafi aukist vegna þessa eða að vanræksla á tilkynningaskyldu hvort sem er um tvenn eða þrenn áramót hafi á annan hátt valdið kæranda tjóni. Verður því vanræksla á tilkynningaskyldu ein og sér í máli kæranda ekki talin gefa tilefni til að fella beri niður þá ábyrgð hennar sem um ræðir í máli þessu.

Samkvæmt lögum nr. 72/1982 var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Málskotsnefndin telur skilmála sjálfskuldarábyrgðanna sem kærandi tókst á hendur á sínum tíma vera hefðbundna og skýra. Ekki liggur neitt fyrir um að efni samningsins, staða samningsaðila eða atvik við samningsgerðina hafi verið óvenjuleg með neinum hætti, ósanngjörn eða andstæð góðum viðskiptavenjum þegar undir samninginn var skrifað. Þá hefur ekkert komið fram í málinu annað en að kærandi hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað fælist í sjálfskuldarábyrgð hennar á námsláni skuldara þegar hún undirgekkst ábyrgðina. Í lögum og reglum LÍN er ekki að finna heimild til þess að fella niður sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna, án þess að annar ábyrgðarmaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn.

Með vísan til framangreinds telur málskotsnefnd hina kærðu ákvörðun hvorki vera í andstöðu við lög nr. 21/1992 um LÍN, né ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 3. júní 2019 er staðfest.

Til baka