Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-3/2020 - Undanþága frá afborgun

ÚRSKURÐUR

Ár 2020, þriðjudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-3/2020:

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 9. mars 2020, kærði kærandi tvær ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) annars vegar frá 28. janúar 2020 vegna beiðni um undanþágu frá afborgun námsláns og hins vegar frá 5. mars 2020 vegna synjunar LÍN á að veita kæranda námslán vegna haustannar 2019. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 11. mars 2020 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Stjórn LÍN sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 3. apríl 2020 og var afrit þess sent kæranda og honum veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði 90 ECTS eininga meistaranám við Háskóla á Ítalíu. Um er að ræða eins árs nám [...] sem hófst í janúar 2019 og lauk í desember sama ár en þá útskrifaðist kærandi. Samkvæmt prófvottorði kæranda og öðrum upplýsingum frá skólanum felst námið í þremur megin fögum, þ.e.

 1. Hágæða vörur 17 UFC
 2. Samskipti og sjálfbærni 14 UFC
 3. Markaðsfræði 14 UFC

Kennsluaðferðir felast í fyrirlestrum, námskeiðum (31 UFC), vinnustofum, fundum með fagaðilum, smökkun og námsferðum (6 UFC). Framangreindum áföngum virðist lokið í lok júlí en frá 1.-31. ágúst eru sumarleyfi. Í lokaáfanga sem er 1. september til 1. desember fara nemendur í námsvist og/eða vinna verkefni eða ritgerð (8 UFC).

Kærandi sótti hvorki um lán fyrir vorönn né sumarönn 2019 en sótti um lán vegna haustannar. Kærandi sótti einnig um að fá undanþágu frá tekjutengdri afborgun sem var á gjalddaga 1. september 2019 sökum þess að hann hafi verið launalaus í næstum ár í lánshæfu námi á Ítalíu og með þrjú börn á framfæri. Kvað kærandi undanþáguna nauðsynlega þar sem að öðrum kosti myndi hann lenda í verulegum fjárhagserfiðleikum.

Þann 28. janúar 2020 synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um undanþágu frá tekjutengdri afborgun þar sem ekki þætti sýnt fram á að uppfyllt væri skilyrði greina 8.5.1 og 8.5.2 í úthutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2019-2020, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Væru tekjur kæranda og maka yfir tekjuviðmiði LÍN auk þess sem kærandi hefði ekki sýnt fram á verulega fjárhagserfiðleika.

Þann 5. mars 2020 synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um námslán á haustönn sökum þess að einungis væru skráðar 8 ECTS einingar á haustönn og uppfyllti kærandi því ekki kröfur úthlutunarreglna LÍN um skil á 22 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfall á önn í fjórðungaskólum í einum námsferli. Ætti námsmaður þess kost að fá undanþágu frá þessari reglu og fá lánað í réttu hlutfalli við þann einingafjölda sem hann á eftir en þá megi einingaskil á misserinu ekki vera undir 12 ECTS einingum eða ígildi þeirra.

Sjónarmið kæranda

Kærandi lýsir því í kærunni að hann hafi hvorki fengið námslán fyrir framfærslu né skólagjöldum eða niðurfellingu á afborgun eldra náms þrátt fyrir að hafa lokið 90 ECTS eininga meistaranámi á Ítalíu og farið í einu og öllu eftir þeim leiðbeiningum sem hann hafi fengið á skrifstofu LÍN í aðdraganda þess að hann flutti til Ítalíu með fjölskylduna og hóf þar nám. Sé þetta fjárhagslegur skellur uppá allt að [...] milljónir króna.

Kærandi kveðst hafa verið í eins árs meistaranámi á Ítalíu og hafa útskrifast með hæstu einkunn. Námið hafi verið skráð lánshæft hjá LÍN. Þegar kærandi hafi fengið jákvætt svar við umsókn sinni hjá skólanum sumarið 2018 hafi hann í kjölfarið leitað upplýsinga á skrifstofu LÍN um möguleika sína. Hafi hann hafið nám sitt m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga og flutt utan með fjölskylduna (sem þó hafi ekki komið fyrr en í maí 2019). Hafi kæranda verið tjáð að hann fengi ekki framfærslulán á vorönn 2019 en hann ætti að fá lán fyrir haustönn og um leið að sækja um lán fyrir skólagjöldum og niðurfellingu á afborgun eldra láns í september 2019. Kærandi segir að ekkert hafi verið rætt um sumarönn, sem þó hefði verið eðlilegt.

Kærandi kveðst hafa sótt um allt eins og honum hafi verið ráðlagt en fengið neitun hjá LÍN á öllum liðum. Þá hafi hann sent tvö erindi til stjórnar LÍN en aftur fengið neitun. Þriðja erindið bíði enn afgreiðslu. Í fyrra erindinu hafi kærandi óskað eftir undanþágu vegna afborgunar af eldra láni á meðan hann væri í öðru háskólanámi. Hafi hann fengið synjun sem hafi grundvallast á því að kærandi væri ekki í nægum fjárhagsörðugleikum. Kveður kærandi að það kunni að hafa verið rétt þá, þótt ekkert hafi verið talað um það þegar hann hafi heimsótt skrifstofu LÍN til upplýsingaöflunar árið 2018. Núna hins vegar í mars 2020, væri afborgunin komin í lögfræðiinnheimtu og greiðsluerfiðleikar kæranda orðnir verulegir, vegna LÍN.

Fram kemur í erindi kæranda til stjórnar LÍN frá 25. nóvember 2019 að hann sé í skilum við LÍN og telji sig ekki vera í miklum greiðsluerfiðleikum ef frá er talin þessi afborgun af námsláninu sem sé rúm hálf milljón króna. Kærandi sé hins vegar launalaus og hafi verið það í næstum ár, í lánshæfu námi á Ítalíu með þrjú börn á framfæri.

Kærandi kveðst hafa óskað eftir því í seinna erindi sínu til stjórnar LÍN að:

a) Litið yrði á þetta 90 eininga nám sem eina heild (þrisvar sinnum 30 eininga annir) og lán veitt í samræmi við það að teknu tilliti til tekna og annarra þátta.

b) Að veitt yrði 16.500 € lán fyrir skólagjöldum sem sannarlega voru greidd í einu lagi í janúar 2019.

c) Til vara að veita framfærslulán fyrir haustönn og fyrir skólagjöldum.

Kærandi kveðst ekki hafa fengið skilmerkileg svör við beiðni sinni lið fyrir lið en samt almenna neitun á erindið í heild. Reiknist kæranda til að uppihaldslán, skólagjaldalán og undanþága frá afborgun séu samtals um [...] milljónir króna. Þetta sé augljóslega mikill fjárhagslegur skellur. Hugsanlega hafi kærandi ekki farið rétt að við umsóknir en hann hafi þó hagað sér í samræmi við þær upplýsingar sem hann hafi fengið á skrifstofu LÍN. Að mati kæranda sé málið þó hins vegar það að grundvallarhlutverk LÍN sé að styðja við bakið á íslenskum námsmönnum. Afgreiðsla LÍN á málum kæranda sé svo sannarlega ekki í þeim anda. Kærandi hafi sannarlega lokið 90 eininga meistaranámi á innan við ári með hæstu einkunn og hafi farið eftir þeim leiðbeiningum sem honum hafi verið veittar þegar hann hafi leitað upplýsinga á skrifstofu LÍN. Því óski kærandi hér með eftir því að málskotsnefndin snúi við ákvörðunum stjórnar og úrskurði að kærandi skuli fá:

a) Undanþágu vegna afborgunar í september 2019.

b) Framfærslulán vegna sumar- og vorannar 2019.

c) Lán vegna 16.500 evra skólagjalda.

Kærandi sendir meðfylgjandi skjöl þar sem fram kemur að hann hafi lokið náminu og innt af hendi greiðslu skólagjalda.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi sótt um námslán haustið 2019 er verið synjað þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um námsárangur á þeirri önn. Kærandi hafi kært synjunina til stjórnar sem hafi komist að sömu niðurstöðu. Um sé að ræða 90 ECTS eininga meistaranám á Ítalíu. Kærandi hafi ekki sótt um lán á vorönn eða sumarönn. Samkvæmt vottorði skólans hafi námsárangur kæranda einungis verið 8 ECTS einingar og einnig liggi fyrir staðfesting skólans um að kærandi hafi þegar lokið 82 ECTS einingum í ágúst 2019.

LÍN vísar til þess að kærandi kveðist hafa leitað til skrifstofu LÍN áður en hann hafi byrjað nám sitt og þá hafi honum verið bent á að vegna tekna gæti hann ekki fengið lán á vorönn en að það ætti hins vegar að ganga á haustönn. Hjá sjóðnum liggi hins vegar ekki fyrir neitt minnisblað um hvaða upplýsingar kæranda hafi verið veittar en rétt sé að taka fram að vegna tekna hefði kæranda ekki reiknast lán á vorönn en tekjur hefðu ekki átt að hindra lán á haustönn að því tilskildu að kærandi stundaði lánshæft nám. Grunnforsenda fyrir veitingu láns sé að nemandi skili fullnægjandi námsárangri í lánshæfu námi. Komi sú krafa skýrt fram í úthlutunarreglum sjóðsins sem og í umsókn um námslán. Ekkert liggi fyrir um hvort slík umræða hafi farið fram í heimsókn kæranda til LÍN en haldi kærandi því fram sé slíkt andstætt grunnkröfum um veitingu námslána. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN hafi komið fram að annaskipting námsins væri ekki hefðbundin og félli ekki að kerfum sjóðsins. Kærandi hafi einnig upplýst að dagsetningar þær er fram komi í vottorðum skólans séu lok fyrirlestra en ekki endilega lok námskeiða. Hafi kæranda verið boðið að leggja fram frekari gögn um þetta en slíkar upplýsingar hafi ekki borist sjóðnum.

LÍN upplýsir að nákvæm uppsetnings námsins hafi ekki legið fyrir hjá sjóðnum og svo virðist sem misjafnt sé hvernig umrætt nám sé sett upp eftir því á hvaða tíma árs námsmenn hefji námið. Í meðförum málsins hjá stjórn LÍN hafi verið kallað eftir upplýsingum frá skólanum sjálfum um uppsetningu námsins og hafi skólinn sent eftirfarandi lýsingu:

 1. High Quality Products Learning module (23. janúar – 31. mars)
 2. Marketing Learning Module (1. apríl – 31. maí)
 3. Communication and sustainability Learning Module (1. júní – 31. júlí)
 4. Summer holidays (1. ágúst – 31. ágúst)
 5. Final internship (1. september – 1. desember)
 6. Thesis Defense (2. og 3. desember)
 7. Graduation (6. desember)

Í gögnum þeim sem kærandi hafi skilað komi fram að námskeið í lið 5) og 6) séu hvort um sig 4 UCF einingar em samsvari 4 ECTS einingum. Hafi kærandi því lokið 8 ECTS einingum frá lok júlí til byrjunar desember 2019.

Í kærunni hafi kærandi óskað eftir því að fá framfærslulán vegna vor- og sumarannar 2019. Vegna þessa ítreki LÍN að kærandi hafi hvorki sótt um að fá framfærslulán eða skólagjaldalán vegna vor-eða sumarannar 2019. Þrátt fyrir að slík umsókn hefði legið fyrir hefði kæranda hvorki reiknast framfærslu- eða skólagjaldalán vegna tekna hans á árinu 2018.

Líkt og fram komi í ákvörðun stjórnar LÍN þurfi námsmaður að lágmarki að ljúka 22 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskóla í einum námsferli til að teljast lánshæfur. Námsmaður geti fengið undanþágu frá þeirri meginreglu og fengið lánað í hlutfalli við þann einingafjölda sem hann eigi eftir en þá megi einingaskil á misserinu ekki vera undir 12 ECTS einingum eða ígildi þeirra, sbr. grein 2.2 í úthlutnarreglum LÍN fyrir skólaárin 2018-2019 og 2019-2020. Er kærandi hafi hafið nám sitt í september 2019 hefði hann þegar lokið 82 ígildi ECTS eininga og skýrt liggi fyrir að hann hafi einungis lokið ígildi 8 ECTS eininga til viðbótar. Með hliðsjón af reglum sjóðsins sé nám kæranda á haustönn því ekki lánshæft og beiðni hans um lán vegna skólagjalda og framfærslu því synjað.

Að því er lýtur að beiðni kæranda um undanþágu frá afborgun sem var á gjalddaga 1. september 2019 þá hafi henni verið synjað sökum þess að kærandi hafi verið yfir tekjuviðmiði og hafi ekki sýnt fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum hætti, s.s. með því að nýta sér greiðsluerfiðleikaúrræði. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi ekki verið að nýta sér slík eða sambærileg úrræði. LÍN hafi boðið kæranda að staðfesta verulega fjárhagsörðugleika með því að senda upplýsingar um tekjur á árinu 2019 fram að gjalddaganum. Hafi tekjur kæranda fyrstu 8 mánuði ársins verið [...] og tekjur maka á sama tíma verið um [...]. Hafi tekjur kæranda og maka hans því verið tæpar [...]fyrstu átta mánuði ársins 2019 fram að tekjutengdu afborguninni. Hafi tekjur kæranda og maka hans á árinu 2019 því verið yfir almennum tekjuviðmiðum LÍN.

LÍN hafi einnig litið til greinar 8.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins þar sem fram komi að stjórn LÍN sé heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti, ef skyndileg eða veruleg breyting hafi orðið á högum lánþega þannig að útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefi ekki rétta mynd af fjárhag lántaka á endurgreiðsluárinu Heimildin miðist við að skyndileg og alvarleg veikindi, slys eða aðrar sambærilegar aðstæður valdi verulegri skerðingu á ráðstöfunarfé og möguleika á að afla tekna. Með hliðsjón af þeim upplýsingum og gögnum sem hafi legið fyrir hafi það verið mat stjórnar að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði greina 8.5.1 og 8.5.2 í úthlutunarreglum LÍN árið 2019-2020, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN vegna afborgunar 1. september 2019 hafi verið uppfyllt. Hafi erindi kæranda því verið synjað.

Að mati stjórnar LÍN séu ákvarðanir í málum kæranda í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og einnig í samræmi við ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvarðanir í málum kæranda.

Niðurstaða

I.       Ákvörðun stjórnar LÍN 5. mars 2020 um að synja umsókn kæranda um námslán.

Samkvæmt 1. gr. laga um LÍN er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis og samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna lánar sjóðurinn einnig til sérnáms. Í grein 1.3.4 í úthlutunareglum sjóðsins fyrir 2018-2019 kemur fram að á heimasíðu sjóðsins liggi fyrir leiðbeinandi upplýsingar um skóla og námsbrautir sem lánað hafi verið til. Ef sótt sé um skóla eða námsbraut sem sjóðurinn hafi ekki lánað til þurfi stjórn sjóðsins að meta lánshæfi námsins. Námsmaður þurfi þá að útvega ítarlegar upplýsingar um skólann og námsbrautina. Samkvæmt upplýsingum kæranda var nám það sem hann stundaði skráð lánshæft hjá LÍN á þeim tíma er kærandi aflaði sér upplýsinga vegna fyrirhugaðs náms. Ekki verður annað ráðið af athugasemdum LÍN í málinu en að svo hafi verið. Námið er ekki lengur á lista yfir lánshæft nám á heimasíðu LÍN.

Samkvæmt 3. gr. laga um LÍN skal miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur og skal stjórn sjóðsins setja nánari ákvæði um úthlutun námslána. Einnig segir í 3. mgr. 6. gr. að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.

Nánar er kveðið á um skilyrði námsláns í II. kafla úthlutunarreglnanna. Þar segir í grein 2.1:

Almennt telst námsmaður í fullu námi ljúki hann 60 ECTS–einingum eða ígildi þeirra á skólaári í einum námsferli. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.

Veitt er að hámarki lán fyrir 30 ECTS-einingum á hverju misseri eða 20 ECTS-einingum á hverjum fjórðungi. Á sumarönn er veitt lán fyrir að hámarki 20 ECTS-einingum. Aldrei er veitt meira lán en fyrir 80 ECTS-einingum á hverju námsári. Framfærslulán fyrir 80 ECTS-einingum miðast við framfærslu námsmanns í 12 mánuði á ári.


Hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af fjölda eininga námsins samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Einungis er tekið tillit til námskeiða sem nýtast til lokaprófs en metnar einingar úr fyrra námi teljast ekki til námsframvindu.

Samkvæmt ECTS einingakerfinu (European Credit Transfer and Accumulation System) sem LÍN miðar við er hvert skólaár metið til 60 ECTS eininga. Skólaári er almennt skipt í tvö tímabil (e. semester), annir eða misseri sem hvert um sig er metið til 30 ECTS eininga, sbr. grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Ef skólaári er skipt upp í þrjú tímabil (e. tremester/term) haust/vetur/vor er hvert tímabil/ársfjórðungur metið til 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1. Hámarkslán hjá LÍN sbr. 2. mgr. greinar 2.1 í úthlutunarreglum LÍN tekur mið af framangreindu og miðast við 30 ECTS einingar á hverju misseri eða 20 einingar á hverjum fjórðungi.

Málskotsnefnd bendir á að skilyrði úthlutunarreglna LÍN um skipulag anna og námsárangur á önn tekur mið af hefðbundnu skipulagi náms í evrópskum háskólum. Eins og áður greinir lánar sjóðurinn vegna náms við alþjóðlega viðurkennda háskóla erlendis og einnig til sérnáms erlendis, sbr. grein 1.3 í úthlutunarreglunum. Er þar um að ræða menntastofnanir þar sem nám kann að vera byggt upp á annan hátt en hérlendis, m.a. þar sem námsferlar eða skólaárið byrja á öðrum árstíma en almennt tíðkast hér á landi. Samkvæmt grein 1.2 fjallar stjórn sjóðsins sérstaklega um og metur lánshæfi náms í erlendum háskólum á grundvelli upplýsinga um eðli og uppbyggingu námsins. Þessi meginregla að líta skuli til innhalds náms við mat á lánsrétti kemur fram í 3. mgr. 6. gr. laga um LÍN þar sem segir að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.

Kærandi sótti um námslán vegna framfærslu og skólagjalda á haustönn 2019 en LÍN synjaði umsókn hans. Kærandi bar málið undir stjórn sem synjaði beiðni hans. Takmarkast úrskurður í máli þessu því við þá umsókn kæranda enda, eins og LÍN hefur upplýst, lagði kærandi ekki fram neina umsókn um námslán vegna vor- og sumarannar.

Ekki liggur annað fyrir en að nám það sem kærandi stundaði hafi verið lánshæft er hann hóf námið og það hafi því verið samþykkt af stjórn LÍN. Ennig þykir rétt að líta til innihalds námsins, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um LÍN.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja er um að ræða eins árs meistaranám sem metið er til 90 eininga. Eins og áður er fram komið er skipulag námsins ekki hefðbundið að því leyti að á fyrstu sjö mánuðunum er nemendum gert að ljúka töluvert fleiri einingum en í hefðbundnu námi, eða samtals 82 UCF sem samkvæmt LÍN eru ígildi ECTS.

Um er að ræða eftirfarandi skiptingu samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu:

 1. Hágæða vörur janúar-mars - 17 UCF
 2. Samskipti og sjálfbærni apríl-maí- 14 UCF
 3. Markaðsfræði júní-júlí - 14 UCF

Þá eru einnig veittar 31 UCF vegna námskeiða og 6 UCF vegna námsferða sem munu vera samtals 3 vikur. Á síðari hluta námsársins fá nemendur einungis 8 UCF einingar vegna lokaverkefna sem eru námsvist/rannsóknarverkefni og lokaritgerð sem nemandi þarf að verja.

Í athugasemdum LÍN er vikið að því að svo virðist sem misjafnt sé hvernig umrætt nám sé sett upp eftir því hvenær árs námsmenn hefja námið. Í upplýsingum frá skólanum kemur fram að nám kæranda hafi byrjað í janúar og að því hafi lokið í byrjun desember. Gögn á heimasíðu skólans gefa til kynna að á undanförnum árum hafi verið misjafnt hvenær námið hafi byrjað en að yfirleitt hafi það verið um vetur. Gögn málsins benda jafnframt ekki til þess að kærandi hafi byrjað námið á öðrum tíma en skipulag þess segir til um og miðað við vottorð um einkunnir hefur kærandi lokið námskeiðum í sömu röð og þau eru sett fram í upplýsingum frá skólanum sem LÍN aflaði í málinu. Þá benda upplýsingar skólans ekki til þess að kærandi hafi tekið fleiri einingar á fyrri hluta námsins en skipulagið gerir ráð fyrir og af þeim sökum hafi námsálag á haustönn verið minna en skipulag námsins gerir ráð fyrir og því ekki fullt nám.

Kærandi hefur vísað til þess að námið sé óhefðbundið í skipulagi en einnig að bæði hann og skólinn líti svo á að álagið vegna námseininganna sé jafnt yfir árið. Þetta atriði var þó ekki kannað nánar við meðferð málsins hjá stjórn LÍN. Þessi fullyrðing kæranda á sér stoð í gögnum á heimasíðu skólans en þar er því lýst að á fyrstu sjö mánuðunum séu 500 kennslustundir, 40 klukkustundir í smökkun og þrjár einnar viku námsferðir. Síðari hluti námsins sé allt að fjórum mánuðum sem feli í sér 400 klukkustundir í námsvist eða rannsóknarverkefni. Samkvæmt þessu er ekkert komið fram annað en að nám kæranda sé skipulagt þannig að námsálag sé nokkuð jafnt yfir námsárið og að kærandi hafi fylgt því skipulagi.

Það er óumdeilt í málinu að kærandi skilaði á réttum tíma tilskildum og fullnægjandi námsárangri í 90 eininga meistaranámi sem ekki liggur fyrir annað en að hafi verið metið lánshæft hjá LÍN. Þegar kom að því að meta umsókn kæranda um lán bar LÍN því að líta til skipulags og innihalds námsins og taka tillit til þess að engin málefnaleg sjónarmið standa til þess að synja um námslán á þeim grundvelli einum að námið eins og það er skipulagt af skólanum er með þeim hætti að töluvert ójafnvægi er í dreifingu námseininga milli anna þó svo að ekki sé annað komið fram en að námsálagið sé jafnt yfir allt árið. Málskotsnefnd hefur áður talið að það standist ekki lög um LÍN að synja um námslán vegna náms sem að öðru leyti uppfyllir kröfur sjóðsins á þeim forsendum einum að skipting eininga á annir falli ekki að þeim skiptingum eininga á annir sem miðað er við í úthlutunarreglum LÍN, sbr. úrskurð í máli nr. L-18/2015. Með vísan til framanritaðs verður að telja sanngjarnt og í samræmi við 6. gr. laga um LÍN, og að uppfylltum reglum sjóðsins að öðru leyti, m.a. um hámarkslán, að fallast á umsókn kæranda um námslán. Fellst málskotsnefnd á að málefnalegt geti talist að miða lánsrétt við að loknum einingum sé skipt hlutfallslega niður á heildarnámstíma. Samkvæmt framansögðu er ákvörðun LÍN frá 5. mars 2020 um að synja kæranda um námslán vegna haustannar 2019 felld úr gildi. Er LÍN falið að taka mál kæranda til meðferðar að nýju og meta umsókn hans um framfærslu og skólagjöld vegna haustannar 2019 í ljósi framangreindra viðmiða og að öðru leyti í ljósi reglna sjóðsins, m.a. með tilliti til takmarkana vegna tekna.

II.       Ákvörðun stjórnar LÍN 28. janúar 2020 um að synja kæranda um undanþágu afborgunar 1. september 2019.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, til dæmis ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í 7. mgr. 8. gr. segir að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja sjóðsstjórn til þær upplýsingar sem stjórnin telur skipta máli. Samkvæmt þessu hefur stjórn LÍN víðtækar heimildir til þess að leggja fyrir umsækjendur um undanþágur að afhenda gögn um fjárhagsaðstæður sínar og er stjórn sjóðsins rétt að synja um undanþágu ef umsækjandi verður ekki við því.   

Í 13. gr. reglugerð um LÍN nr. 478/2011 er einnig fjallað um heimild sjóðsstjórnar til að veita undanþágu frá afborgun námslána. Þar segir meðal annars að sjóðsstjórn skuli setja almennar reglur um framkvæmd þess heimildarákvæðis. Það hefur síðan verið gert í úthlutunarreglum LÍN fyrir einstök skólaár.

Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2019-2020 er að finna útlistun á heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 4.236.000 krónum og árstekjur hjóna eða sambúðarfólks séu yfir 8.472.000 krónum. Þá er tekið fram að ástæður þær sem valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.  

Kærandi óskar undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, sem var á gjalddaga 1. september 2019, en fjárhæð hennar reiknast sem hlutfall af tekjustofni hans, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Sökum þess að kærandi hefur haft ágætar tekjur er fjárhæð afborgunar nokkuð há eða um halfa milljón króna samkvæmt upplýsingum kæranda. Eins og áður greinir þarf kærandi samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN að sýna fram á að aðstæður hans valdi verulegum fjárhagserfiðleikum hjá honum. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi uppfyllir það skilyrði úthlutunarreglna að eiga rétt til undanþágu vegna lánshæfs náms. Það atriði eitt út af fyrir sig gefur sjóðsstjórn ekki heimild til að veita undanþágu, heldur þarf einnig að vera til staðar skilyrði um að viðkomandi eigi sökum tekjuleysis vegna námsins í verulegum fjárhagserfiðleikum, sem að jafnaði hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddagann.

Að mati stjórnar LÍN hefur kærandi þrátt fyrir tekjuleysi ekki sýnt fram á að hann sé í verulegum fjárhagsörðugleikum og vísar til þess að árstekjur hans og maka hans árið á undan afborgun hafi numið tæpum 27 milljónum króna, sem sé yfir fyrrgreindri viðmiðunarfjárhæð í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2019-2020. Þá hafi kæranda og maka hans verið boðið að leggja einnig framtekjuupplýsingar vegna fyrstu átta mánuði ársins 2019, þ.e. árið sem kærandi var í námi og hafi þær [...]. Þá njóti kærandi ekki greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara og hafi ekki tilgreint önnur atriði sem staðfesti fjárhagsörðugleika.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN kveðst kærandi vera í skilum hjá LÍN og sé hann sem betur fer „ekki í miklum greiðsluerfiðleikum“ ef frá sé talin þessi afborgun sem sé upp á rúma hálfa milljón. Kærandi hefur útskýrt í kærunni sem hann sendi málskotsnefnd í byrjun mars 2020 að hann hafi verið atvinnulaus frá því að hann útskrifaðist í desember 2019 og sé við það að komast í verulega greiðsluerfiðleika.

Eins og áður er komið fram voru tekjur kæranda og maka hans tæpar [...]. Áðurnefnd 8.472.000 króna árslaunareglna er aðeins viðmið um að ef tekjur umsækjanda eru yfir tiltekinni fjárhæð þá verði almennt ekki litið svo á að hann eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta viðmið er ekki endanlegur mælikvarði og girðir ekki fyrir það að kærandi geti lagt fram frekari gögn sem sýni að hann eigi allt að einu við verulega fjárhagsörðugleika að stríða sökum tekjuleysis.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn um greiðsluerfiðleikaúrræði og ekki upplýst um neina slíka verulega fjárhagserfiðleika. Kærandi hefur upplýst um að einu erfiðleikar hans séu sökum þess að hann eigi erfitt með að greiða þessa einu afborgun og í byrjun mars 2020 er hann lagði fram kæru sína kvaðst hann vera við það að komast í verulega greiðsluerfiðleika. Að mati málskotsnefndar er af þessum sökum ekki þörf á að kalla eftir frekari gögnum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og lýsingu kæranda sjálfs á aðstæðum sínum verður að telja að þó svo að umrædd afborgun hafi valdið kæranda einhverjum erfiðleikum verði ekki talið að í aðdraganda og strax eftir gjalddaga afborgunarinnar í september 2019 hafi kærandi verið kominn í það sem telja verði verulega fjárhagserfiðleika. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að ekki verði fallist á að þeir erfiðleikar sem kærandi hafi verið í er hann sótti um undanþágu vegna afborgunar haustið 2019 geti talist verulegir fjárhagserfiðleikar, í skilningi undanþáguheimildar 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN, sbr. grein 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Málskotsnefnd telur rétt að taka fram að ekki skiptir máli í sambandi við mat á undanþágu vegna gjalddagans 1. september 2019 hver fjárhagsstaða kæranda var í byrjun mars 2020 er hann sendi kæru sína til málskotsnefndar. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að stjórn LÍN hafi verið rétt að hafna beiðni kæranda og er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 í máli hans því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. mars 2020 um að synja kæranda um námlán vegna haustannar 2019 er felld úr gildi. Staðfest er ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. janúar 2020 um að synja kæranda um undanþágu vegna afborgunar 1. september 2019.

 

 

 


Til baka