Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-13/2021 - Beiðni kæranda um aðgang að málsskjölum.

ÚRSKURÐUR

Ár 2021, mánudaginn 20. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-13/2021 um beiðni um aðgang að gögnum nefndarinnar í máli M-2/2021:

Kæruefni

Með bréfi sem barst málskotsnefnd 25. nóvember 2021 óskaði kærandi í máli M-13/2021 (héreftir beiðandi) eftir því að fá „afrit af málsskjölum“ máls M-2/2021 sem Menntasjóður hafi vísað til í athugasemdum sínum í máli hans. Fram kemur í erindinu að tilgangur beiðninnar væri að geta áttað sig á málinu til að geta hugsanlega svarað athugasemdum sjóðsins. Sjóðurinn byggði afgreiðslu sína og málatilbúnað að verulegu leyti á þessum úrskurði sem virtist þar með hafa úrslitaþýðingu í málefnum er vörðuðu endurgreiðslur námslána sem tekin hafi verið fyrir gildistöku núgildandi laga um Menntasjóð nr. 60/2020.

Málskotsnefnd sendi svarpóst til beiðanda þann 1. desember 2021 þar sem meðfylgjandi voru nafnhreinsuð eintök af úrskurðum málskotsnefndar í máli M-2/2021 og máli M-10/2020. Upplýst var að úrskurðir nefndarinnar væru einnig birtir á heimasíðu Menntasjóðs. Var tekið fram í svarpóstinum að í báðum þessum málum hafi verið fjallað um beiðni um niðurfellingu námslána samkvæmt nýjum lögum um Menntasjóð. Þá sagði ennfremur að í erindinu hefði þess verið farið á leit að fá afrit af öllum málsskjölum máls nr. M-2/2021. Fjallað yrði nánar um beiðnina er lyti að þessum gögnum á næsta fundi nefndarinnar sem yrði væntanlega í desember. Þá var vakin athygli á því að í umræddum úrskurðum nefndarinnar væru málsatvik rakin og einnig rök aðila málsins sem fram kæmu í gögnum frá aðilum máls og vinnugögnum frá Menntasjóði.

Niðurstaða

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða mál hans. Í beiðni kæranda er óskað aðgangs að skjölum og gögnum í öðru stjórnsýslumáli en hans eigin, en um þá beiðni gilda ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012, einkum 5. gr. þar sem fram kemur að skylt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða tiltekið mál með þeim takmörkunum er greinir í 6.-10. gr. laganna.

Eins og rakið er í úrskurði í máli M-2/2021 lágu eftirfarandi málsgögn fyrir í málinu er úrskurður var kveðinn upp:

1)      Kæra kæranda, dags. 20. febrúar 2021, ásamt einu fylgiskjali.

2)      Bréf málskotsnefndar til kæranda um móttöku kæru, dagsett 23. febrúar 2021.

3)      Bréf málskotsnefndar til Menntasjóðs, dagsett 23. febrúar 2021, þar sem kæran er send til umsagnar.

4)      Bréf stjórnar Menntasjóðs með athugasemdum í málinu, dagsett 9. mars 2021, ásamt fylgigögnum.

5)      Bréf málskotsnefndar til stjórnar Menntasjóðs, dagsett 17. maí 2021, þar sem óskað er upplýsinga frá Menntasjóði um innheimtu námsláns kæranda, m.a. dóms í máli LÍN gegn kæranda, og starfshætti við innheimtu gagnvart greiðendum sem búsettir eru í öðrum löndum.

6)      Svarbréf Menntasjóðs, dagsett 8. júní 2021, ásamt gögnum um innheimtu námsláns kæranda.

7)      Tölvupóstur frá kæranda til málskotsnefndar, dagsettur 16. júní 2021, með athugasemdum kæranda um innheimtu námsláns.

Eins og fram kemur í úrskurði í máli M-2/2021 lýtur kæra í málinu að innheimtu námsláns kæranda og beiðni hans um niðurfellingu námlána sinna með vísan til 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og 23. gr. laga um Menntasjóð. Telur málskotsnefnd að afmarka verði beiðni beiðanda um aðgang að gögnum þannig að hún taki eingöngu til þeirra málsskjala er lúta að heimild í 23. gr. laga um Menntasjóð til að fella niður námslán og komi því ekki til álita að veita aðgang að þeim málsgögnum máls nr. M-2/2021 er lúta að innheimtu námsláns og umfjöllun um hvort kærandi í því máli eigi rétt á niðurfellingu einstakra afborgana á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Með vísan til þessa er synjað um aðgang að málsskjölum nr. 2, 3 og 5 hér að ofan þar sem þau fjalla ekki að neinu leyti um heimild til niðurfellingar námsláns á grundvelli 23. gr. laga um Menntasjóð.

Ákvæði upplýsingalaga taka til aðgangs almennings að gögnum er varða tiltekið mál sem stjórnvöld eða aðrir aðilar skv. I. kafla upplýsingalaga hafa sent. Hér að ofan hefur verið upplýst um hvaða gögn liggja fyrir í málinu, sbr. 2. tl. 2. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Með vísan til ákvæða upplýsingalaga, einkum II. kafla laganna, verður að telja að réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum máls nr. M-2/2021 sé að öðru leyti eftirfarandi:

a.      Málsskjal nr. 1 (Kæra og fylgigagn) og málsskjal nr. 7 (tölvupóstur frá kæranda til málskotsnefndar 16. júní 2021 með athugasemdum kæranda um innheimtu námsláns).

Um er að ræða gögn sem stafa frá einstaklingi og varða viðkvæm persónuleg málefni hans, einkum heilsufar og fjármál. Eins og ráða má af úrskurði í málinu vísaði kærandi einungis til 23. gr. en fjallaði ekki um hana efnislega á neinn hátt. Er því ekki um að ræða gögn sem falla undir þá afmörkun á beiðni um aðgang sem hér að framan er lýst. Þá er ekki um að ræða gögn sem heimilt er að veita aðgang að skv. 1. tl. 2. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem þau stafa ekki frá opinberum aðilum sem þar er vísað til. Beiðni um aðgang að kæru og fylgiskjali, sem og tölvupósti frá kæranda er því synjað.

b.      Málsskjöl nr. 4 (Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs, dagsettar 9. mars 2021, ásamt fylgigögnum) og nr. 6 (Svarbréf Menntasjóðs, dagsett 8. júní 2021, ásamt gögnum um innheimtu námsláns kæranda).

Samkvæmt 16. gr. upplýsingalaga skal þegar „farið er fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun [...] beiðni beint til þess þess [stjórnvalds] sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu.“ Um er að ræða gögn er stafa frá Menntasjóði og lúta að ákvörðun Menntasjóðs í máli kæranda nr. M-2/2021. Beiðni um aðgang að þessum gögnum skal því beint að Menntasjóði og er málskotsnefnd óheimilt að veita aðgang að þeim. Beiðni kæranda er lýtur að fyrrgreindum gögnum frá Menntasjóði í máli nr. M-2/2021 er því vísað frá. Er beiðanda bent á að honum beri að beina beiðni um aðgang að þessum gögnum til Menntasjóðs námsmanna.

Heimilt er að kæra úrskurð þennan til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um upplýsingamál. Skal kæra send skriflega innan 30 daga frá því tilkynnt er um þennan úrskurð, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni kæranda um aðgang að málsskjölum í máli nr. M-2/2021 er vísað frá, sbr. 11. gr. upplýsingalaga, að því er lýtur að gögnum sem stafa frá Menntasjóði. Að öðru leyti er beiðni kæranda hafnað.

 

Til baka