Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-3/2021 - Höfnun beiðni um niðurfellingu námsláns

ÚRSKURÐUR

Ár 2021, föstudaginn 13. ágúst, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-2/2021.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 20. febrúar 2021 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna frá 27. janúar 2021 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu námsláns. Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi, dagsettu 23. febrúar 2021, og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs voru settar fram í bréfi, dagsettu 9. mars 2021, og var afrit þess ásamt fylgigögnum sent kæranda sem jafnframt fékk frest til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi ekki andmæli. Með bréfi dagsettu 17. maí 2021 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá Menntasjóði um innheimtu námsláns kæranda, m.a. dóms í máli LÍN gegn kæranda, og starfshætti við innheimtu gagnvart greiðendum sem búsettir eru í öðrum löndum. Svarbréf Menntasjóðs barst 8. júní 2021 og var það framsent kæranda sem sendi athugasemdir sínar þann 16. júní 2021.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi, sem skuldar námslán hjá LÍN hefur átt við alvarleg og langvarandi veikindi að stríða með tilheyrandi tekjuleysi. Þann 7. desember 2020 fór kærandi þess á leit við stjórn Menntasjóðs að í ljósi aðstæðna yrði námslánið afskrifað og innheimtuaðgerðir felldar niður. Stjórn Menntasjóðs synjaði beiðni kæranda sökum þess að ekki væri lagaheimild til niðurfellingar lánsins. Var kæranda bent á að hafa samband við innheimtufyrirtæki sbr. 16. gr. úthlutunarreglna sjóðsins þar sem fram kæmi að lánþega bæri að semja um skuld sína beint við lögmenn án milligöngu sjóðsins þegar afborganir væru komnar í milliinnheimtu.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið í námi veturinn 2013-2014 og tekið námslán hjá LÍN. Kærandi hafi síðan hætt námi og haldið af landi brott. Hafi kærandi átt við langvarandi þunglyndi að stríða, fengið viðeigandi greiningu og meðferð. Eigi að síður hafi veikindi kæranda versnað og kærandi fengið vistun á bráðageðdeild. Í millitíðinni hafi lánið lent í vanskilum og endað fyrir dómi. Eftir að hafa reynt að ná tökum á heilsunni á ný hafi kærandi reynt að semja um afborganir við innheimtuaðila Menntasjóðs í búseturíki án árangurs.  Innheimtufyrirtækið hafi ekki sýnt aðstæðum kæranda neinn skilning og hafi haldið áfram kröfum sínum. Lýsir kærandi því að samkvæmt þarlendum reglum sé fjárnám ekki aðeins gert í skráðum eignum á borð við húsnæði eða bifreiðum heldur einnig í innbúi. Kærandi hafi aftur lagst inn á geðdeild vegna veikinda sinna  og verið þar fram í janúar 2021. Kærandi hafi verið tekjulaus síðan í september 2019 en  fengið sjúkradagpeninga frá því í febrúar 2021. Kærandi kveðst alltaf hafa ætlað að endurgreiða námslánið en sökum alvarlegra veikinda ekki haft möguleika á því. Sjóðurinn hafi ekki óskað eftir upplýsingum um hagi kæranda en hefði það verið gert hefði kærandi að sjálfsögðu leitast við að afla þeirra.

Í kærunni fer kærandi þess á leit að lánið verði fellt niður að hluta eða öllu leyti. Því til stuðnings vísar kærandi bæði til 23. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna og 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þá vísar kærandi einnig til svars Mennta- og menningarmálaráðherra til fyrirspurnar um innheimtuaðgerðir á vegum LÍN og viðbrögð sjóðsins við vanskilum lántakenda á 139. löggjafarþingi árið 2010-2011, þskj. 232 – 104. mál.

Í svari kæranda vegna gagna frá Menntasjóði sem málskotsnefndin aflaði við meðferð málsins kemur fram að kærandi hafi verið í samskiptum við innheimtufyrirtækið TCM og við sjóðinn vegna vanskila og vegna beiðni um undanþágu frá afborgunum í aðdraganda þess að námslánið var gjaldfellt. Kærandi hafi óskað undanþágu vegna atvinnuleysis en forsendur undanþágu hafi ekki átt við í umræddu tilviki. Kærandi hafi síðan ekki getað staðið við greiðslur sökum lágra tekna.

Sjónarmið Menntasjóðs

Í athugasemdum Menntasjóðs er ítrekað fyrra svar sjóðsins um að sjóðurinn hafi ekki heimild til að fella niður lán í einstaka tilvikum og að lánþega beri að semja um skuld sína við lögmenn án milligöngu sjóðsins þegar afborganir eru í lögfræðiinnheimtu.

Vísar Menntasjóður til þess að niðurstaða stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir Menntasjóðs námsmanna og málskotsnefndar. Fer Menntasjóður fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar.

Í svarbréfi vegna beiðni málskotsnefndar um frekari upplýsingar vegna innheimtu námslána gagnvart kæranda og gagnvart greiðendum sem búsettir eru í öðrum löndum kemur fram að í öllum tilvikum sé reynt að koma til móts við greiðanda sem hafi greiðsluvilja og greiðslugetu og sé í samskiptum við innheimtuaðila, jafnvel þó lán hafi verið gjaldfellt. Þá geti greiðendur einnig sótt um undanþágu vegna veikinda eða vanheilsu, sbr. 23. gr. laga um Menntasjóð og 8. gr. laga um LÍN. Hafi kæranda sótt um slíka undanþágu á árinu 2016 og hafi sjóðurinn í kjölfarið óskað eftir því að kærandi legði fram tilteknar upplýsingar um aðstæður sínar svo hægt væri að taka afstöðu til umsóknar kæranda. Hafi kærandi ekki skilað inn umbeðnum gögnum og sjóðurinn því synjað umsókninni. Kærandi hafi síðan aftur sótt um undanþágu árið 2017 en ekki skilað inn gögnum og var umsókninni því synjað sökum gagnaleysis.

Í svarbréfi Menntasjóðs kemur einnig fram að sjóðurinn hafi þá almennu stefnu að heimila greiðendum í vanskilum að koma lánum sínum í skil. Í máli kæranda hafi námlánið í heild verið gjaldfellt og því ekki lengur hægt að koma láninu í skil enda ekkert sem standi eftir. Í slíkum tilvikum geti greiðandi engu að síður samið við sjóðinn en löginnheimtuaðili hafi heimild til að bjóða greiðanda almennt skuldabréf til allt að 10 ára til að dreifa greiðslum gjaldfallinna vanskila. Í gögnum um innheimtuferil námslána sem Menntasjóður sendi málskotsnefnd kemur þó, þrátt fyrir framangreind ummæli, einnig fram að þegar námslán hafi verið gjaldfellt sé möguleiki á að afturkalla gjaldfellingu gegn því að greiðandi greiði allar afborganir sem komnar hafi verið í vanskil er lánið hafi verið gjaldfellt og þær afborganir sem hefðu átt að myndast ef lánið hefði ekki verið gjaldfellt. Í umræddum gögnum kemur einnig fram að hafi lán verið gjaldfellt og lántaki ekki brugðist við aðvörunum löginnheimtuaðila um að koma láninu í skil sé skuldara og eftir atvikum ábyrgðarmanni stefnt fyrir héraðsdóm. Þá segir ennfremur að erlend innheimta geti verið kostnaðarsöm, m.a. vegna þess að það geti þurft að hafa upp á skuldara, opinber gjöld vegna fjárnáms getir verið mjög há sem og þóknun til erlendra lögmanna sem sé oft hagsmunatengd.

Niðurstaða

Þann 1. júlí 2020 tóku gildi og komu til framkvæmda ný lög um námslán, lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, sem leystu af hólmi lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með gildistöku laga nr. 60/2020 féllu lög nr. 21/1992 úr gildi. Með hinum nýju lögum var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna breytt í Menntasjóð námsmannaog eldra lánakerfi LÍN áfram rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið.

Kærandi stundaði nám í gildistíð laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og tók námslán hjá sjóðnum. Um er að ræða G-lán sem er verðtryggt og ber 0,4% vexti. Eins og áður er lýst urðu vanskil af hálfu kæranda og stefndi LÍN kröfunni fyrir héraðsdóm. Kærandi gerði samkomulag við innheimtuaðila um greiðslu kröfunnar en tókst ekki að standa í skilum sökum veikinda og tekjuleysis. Kærandi hefur farið þess á leit að námslánið verði afskrifað að hluta eða öllu leyti og til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi vísað til 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og 23. gr. laga um Menntasjóð auk reglna sjóðsins um innheimtu námslána.

a.      Niðurfelling eða afskrift námsláns að hluta eða öllu leyti.

Svonefnd lögmætisregla gildir í íslenskri stjórnsýslu. Samkvæmt henni er talið að stjórnvöldum eins og Menntasjóði (áður LÍN) sé óheimilt að gefa eftir skuldir einstaklinga nema að hafa til þess skýra heimild í lögum. Námslán kæranda er tekið í gildistíð laga nr. 21/1992 um LÍN. Enga heimild er að finna í þeim lögum til niðurfellingar eða afskriftar námslána í heild sinni. Gildir einu þó aðstæður skuldara séu með þeim hætti sem lýst er í kæru kæranda og hafa dómstólar staðfest þennan skilning, m.a. héraðsdómur Reykjavíkur í máli E-555/2016 þar sem tekið er fram að veikindi og slæmur fjárhagur stefndu geti ekki leyst skuldara undan námslánaskuldbindingu sinni.

Í nýjum lögum um Menntasjóð nr. 60/2020 er heimild í 5. mgr. 20. gr. til að fella niður námslán sem ekki hafa verið að fullu greidd er lánþegi hefur náð 66 ára aldri. Í úrskurði málskotsnefndar í máli M-10/2020 þann 14. maí 2021 var það niðurstaða nefndarinnar að þessi undanþáguheimild ætti einungis við í tilviki námslána sem veitt eru samkvæmt 20. gr. laga um Menntasjóð, þ.e. sem eru með endurgreiðsluskilmálum sem kveða á um að afborganir miðist við lánsfjárhæð og sem heimilt er að gjaldfella er lánþegi nær 65 ára aldri. Þegar af þeirri ástæðu á umrædd heimild ekki við um kæranda sem er bæði ungur að árum og skuldar námslán sem tekið var í gildistíð fyrri laga nr. 21/1992

b.      Heimildir til undanþágu vegna einstakra afborgana.

Þau ákvæði 8. mgr. 6. gr. laga LÍN og 23. gr. laga um Menntasjóð sem kærandi hefur vísað til eru hliðstæð ákvæði sem heimila stjórn sjóðsins að fella niður eða lækka árlega endurgreiðslu, þ.e. einstakar afborganir, en ekki höfuðstól námsláns í heild sinni. Samkvæmt 23. gr. er stjórn sjóðsins heimilt að fresta endurgreiðslum samkvæmt 20. gr. eða tekjutengdri afborgun samkvæmt 6. mgr. 21. gr. í allt að eitt ár í senn þegar tilteknar ástæður mæla með því, m.a. þegar atvinnuleysi og veikinda valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Samkvæmt orðanna hljóðan á þessi undanþáguheimild einungis við um námslán sem veitt hafa verið á grundvelli 20. og 21. gr. hinna nýju laga um Menntasjóð og gildir hún því ekki í tilviki kæranda. Hins vegar er hliðstæð heimild í 8. mgr. 6. gr. laga um LÍN, sem kærandi hefur einnig vísað til, sem á við um námslán kæranda sem tekin voru í gildistíð laga um LÍN. Ákvæðið veitir stjórn sjóðsins heimild til að fella niður eða lækka einstakar afborganir námslána, m.a. þegar lánþegi lendir í fjárhagslegum erfiðleikum. Er heimildin svohljóðandi:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Um er að ræða heimild til að fella niður eða lækka árlega endurgreiðslu, þ.e. einstakar afborganir, en ekki höfuðstól námsláns í heild sinni. Af gögnum málsins má ráða að LÍN hafi leiðbeint kæranda um að ekki væri heimilt að veita undanþágu sökum lágra tekna eingöngu heldur þyrftu einhverjar af þeim ástæðum sem tilgreindar væru í 8. gr. laga um LÍN að eiga við í tilviki kæranda. Kærandi hafi síðan sótt um undanþágu vegna atvinnuleysis en aðspurður hafi kærandi ekki talið að aðrar undanþáguástæður ættu við í sínu tilviki. Þá kemur fram að LÍN hafi talið að gögn þau sem kærandi lagði fram vegna atvinnuleysis hafi ekki verið fullnægjandi vegna þess hve skamman tíma staðfest atvinnuleysi kæranda hafði varað. Einnig kemur fram í gögnum málsins að kæranda hafi verið gefinn kostur á að skipta greiðslum en það samkomulag hafi síðan ekki gengið eftir sökum þeirra greiðsluerfiðleika sem kærandi hafi verið í á þeim tíma. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að meðferð máls kæranda hjá LÍN og innheimtufyrirtæki hafi verið andstætt þeim lögum og reglum sem að framan hefur verið vísað til.

Fyrir liggur að innheimta á skuld kæranda við LÍN  byggir á aðfararhæfum dómi. Framangreind heimild 8. gr. laga um LÍN um undanþágu vegna veikinda, atvinnuleysis og sambærilegra ástæðna sem kærandi hefur vísað til á ekki lengur við í tilviki kæranda sökum þess að námslán kæranda var gjaldfellt og í framhaldinu var kæranda stefnt fyrir dóm þar sem stefna í máli kæranda var árituð. Krafa sjóðsins á hendur kæranda er nú aðfararhæf dómkrafa sem kæranda ber að greiða ásamt kostnaði í einu lagi nema kærandi semji við innheimtufyrirtæki um að greiða með öðru móti. Enginn samningur liggur fyrir um slíka greiðslutilhögun.

Þrátt fyrir að innheimtufyrirtækjum hér á landi eða í öðrum löndum hafi verið falið að innheimta kröfur á hendur skuldara námsláns, m.a. með því að gera samkomulag um greiðslu, á skuldari þess ávallt kost að leita til Menntasjóðins og óska upplýsinga um gildandi reglur og réttindi sín, m.a. hvort innheimta og aðferðir við innheimtu á hendur þeim sé í samræmi við reglur sjóðsins. Um framkvæmd fjárnáms fer samkvæmt lögum og reglum í því ríki þar sem innheimta fer fram. Í tilefni af þeim ummælum kæranda að reglur í Belgíu heimili að aðför sé gerð ekki aðeins í skráðum eignum heldur einnig innbúi, telur málskotsnefnd rétt að geta þess að svo er einnig samkvæmt lögum nr. 90/1989 um aðför, að undanskildum lausafjármunum sem nauðsynlegir eru gerðarþola til að halda látlaust heimili. Í máli þessu er ekkert fram komið annað en að innheimta TCM á hendur kæranda sé í samræmi við lög og reglur um námslán og þau skriflegu viðmið sem sjóðurinn hefur um innheimtu námslána og kærandi hefur fengið afrit af.

Eins og rakið er að framan undir lið a. er Menntasjóði óheimilt að fella niður eða afskrifa námslán einstakra lánþega hjá LÍN. Til að slíkt væri heimilt þyrfti sérstaka lagaheimild. Námslán kæranda var gjaldfellt og stefna árituð um aðfararhæfi liggur fyrir í máli LÍN gegn kæranda þar sem kæranda er gert að greiða gjaldfallna skuld ásamt kostnaði. Eins og að framan greinir stendur kæranda ekki lengur til boða að óska eftir undanþágu frá afborgunum með vísan til 8. gr. laga um LÍN. Eini möguleiki kæranda á að stöðva innheimtuaðgerðir gegn sér er að semja við innheimtufyrirtækið.

Með vísan til framanritaðs er fallist á það með stjórn Menntasjóðs að ekki sé heimild til að afskrifa námslán kæranda að hluta eða öllu leyti. Er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 27. janúar 2021 í máli kæranda.

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hin kærða ákvörðun frá 27. janúar 2021 í máli kæranda er staðfest.

 

____________________

Bjarnveig Eiríksdóttir

 

____________________                                           ____________________

Helgi Birgisson                                                  Sonja María Hreiðarsdóttir

 

Til baka