Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-6/2021 - Höfnun beiðni kæranda um að fá námslán án þess að honum verði gert að leggja fram ábyrgð tveggja ábyrgðarmanna vegna endurgreiðslu lánsins.

                                                 ÚRSKURÐUR

Ár 2021, fimmtudaginn 16. september, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu M-6/2021:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 1. júní 2021 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna (hér eftir Menntasjóðs) frá 3. mars 2021 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 8. sama mánaðar þar sem hafnað var beiðni kæranda um að fá námslán án þess að honum verði gert að leggja fram ábyrgð tveggja ábyrgðarmanna vegna endurgreiðslu lánsins.

Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. júní 2021 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs voru settar fram í bréfi dagsettu 21. júní 2021 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust þann 6. ágúst 2021 og voru þær framsendar stjórn Menntasjóðs þann 10. ágúst. Stjórn Menntasjóðs sendi viðbótarathugasemdir þann 17. ágúst 2021 og voru þær sendar kæranda 18. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er umsækjandi um námslán hjá Menntasjóði. Menntasjóður krafðist þess að kærandi leggði fram sjálfskuldarábyrgð frá tveimur ábyrgðarmönnum þar sem hann teldist vera ótryggur lánþegi í skilningi 11. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, sbr. grein 10.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs fyrir námsárið 2020-2021, þar sem sjóðurinn hafi þurft að afskrifa námslán gagnvart honum. Kærandi telur þetta skilyrði úthlutunarreglna um afskriftir gagnvart lánþegum ekki standast lögmætisreglu stjórnskipunarréttar.

Kærandi sendi erindi til stjórnar Menntasjóðs þann 7. janúar 2021 þar sem hann fór þess á leit að umsókn hans um námslán yrði tekin til nýrrar skoðunar og metið yrði út frá málefnalegum og lögmætum forsendum hvort hann myndi standa undir skuldbindingu sinni vegna námslánsins, sbr. nánari lagarök sem kærandi færði fyrir máli sínu. Með ákvörðun stjórnar Menntasjóðs 3. mars 2021 segir að kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá þeim reglum sjóðsins að óheimilt sé að veita námsmanni námslán sem sjóðurinn hafi þurft að afskrifa lán hjá, án þess að þriðji maður gangist í ábyrgð eða önnur samskonar trygging sé lögð til ábyrgðar á skilvirkum greiðslum. Með ákvörðun stjórnar Menntasjóðs var erindi kæranda synjað með vísan til þess að sjóðurinn hafi þurft að afskrifa námslán gagnvart honum og að hann uppfyllti því ekki þær kröfur er kæmu fram í skýrum reglum 10. kafla úthlutunarreglna Menntasjóðs, sbr. 11. gr. laga um Menntasjóð. Í ákvörðuninni segir ennfremur að stjórn sjóðsins vinni eftir þeim reglum sem um sjóðinn gildi. Samkvæmt 30. gr. laga um Menntasjóðs námsmanna sé það hlutverk stjórnar að skera úr vafamálum er varði einstaka lánþega. Það sé hins vegar ekki eitt af hlutverkum stjórnar sjóðsins að taka afstöðu til þess hvort ákvæði laga um Menntasjóð námsmanna eða reglugerð með stoð í þeim lögum séu andstæð meginreglum stjórnsýsluréttar.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni til málskotsnefndar tekur kærandi fram að í ákvörðun stjórnar hafi málatilbúnaði hans verið breytt og því haldið fram að kærandi hafi óskað eftir einhvers konar undanþágu en hið rétta sé að kærandi fari fram á að ákveðið skilyrði lánveitingar verði virt að vettugi þar sem það sé ólögmætt. Kærandi telur að þessi breyting fari ekki saman við kæruna sem hann hafi sent og óskar eftir því að ákvörðun stjórnar sjóðins sé skoðuð í samhengi við kæruna sjálfa.

Í kæru sinni fer kærandi fram á það við málskotsnefnd að nefndin virði að vettugi skilyrði í grein 10.1 í í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna, sbr. auglýsingu nr. 360/2021, sem felur í sér að námsmenn sem áður hafi fengið afskrifað námslán teljist „ótryggir lánþegar“ og þurfi fyrir vikið að útvega tvo ábyrgðarmenn til þess að fá námslán og námsstyrk. Kærandi telur umrætt skilyrði skorta lagastoð og bendir á í því sambandi að 11. gr. laga um Menntasjóð veiti ráðherra ekki ótakmarkaða heimild til að skilgreina upp á sitt eindæmi hverjir teljist „tryggir lánþegar“. Þeir sem gangi í gegnum gjaldþrot án þess að hafa skuldað sjóðnum séu sem dæmi „tryggir lánþegar“ í augum sjóðsins, þ.e. að því gefnu að þeir uppfylli önnur skilyrði. Hér sé því stjórn sjóðsins að leggja fram tillögu að úthlutunarreglu til ráðherra sem mismuni fólki og takmarki rétt til úthlutunar námsláns án þess að nein lögmæt og/eða málefnaleg sjónarmið liggi þar að baki. Kærandi gerir einnig þá kröfu að málskotsnefnd ógildi fyrri ákvörðun sjóðsins og stjórnar sjóðsins um að synja umsókn kæranda um úthlutun námsláns og veitingu námsstyrks nema kærandi leggi fram tvo ábyrgðarmenn til tryggingar endurgreiðslu á námsláninu. Að auki fer kærandi fram á að málskotsnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að umsókn kæranda um námslán og námsstyrk sé samþykkt og gildi frá og með haustönn 2020 án þess að gerð sé krafa um að kærandi leggi fram sjálfskuldarábyrgð frá einum eða fleiri ábyrgðarmönnum.

Í rökstuðningi sínum vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 190/2018 um þau lögmæltu skilyrði sem námsmenn þurfi að uppfylla til að teljast tryggir lántakar. Þar hafi Hæstiréttur samþykkt skilyrði úthlutnarreglna sjóðsins sem hefðu komið fram með skýrum og ótvíræðum hætti í lagatexta þágildandi laga um sjóðinn. Vísar kærandi til þess að umrætt skilyrði um að námsmaður hafi ekki fengið afskrifað námslán sjóðsins sé ekki að finna í almennum lögum frá Alþingi og skorti því skýra og ótvíræða lagaskoð fyrir fyrrgreindu reglugerðarákvæði. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 239/1987 komi fram að skýra og ótvíræða lagaheimild þurfi fyrir reglugerð sem kveði á um takmörkun mannréttinda. Kærandi telji að þessi krafa eigi við um þar sem réttur námsmanna til úthlutunar námslána sé í reynd byggður á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar enda fjalli lög nr. 60/2020 um ákveðinn lágmarks framfærslurétt námsmanna. Lögmætisregla stjórnskipunarréttarins geri sömu kröfu til setningu reglugerða að mati kæranda. Jafnfram feli lögmætisreglan í sér að eftir því sem tiltekin reglugerð sé meira íþyngjandi eða feli í sér meiri skerðingu réttinda aukist krafan um að fyrir liggi skýr og ótvíræð lagastoð. Kærandi heldur því fram að 10.1 grein úthlutunarreglnanna skorti skýra og ótvíræða lagastoð, nánar tiltekið það skilyrði um að námsmaður teljist ekki tryggur lántaki ef sjóðurinn hefður áður þurft að afskrifa námslán gagnvart honum.

Þá bendir kærandi á að kröfum um lánshæfi í grein 1.4 í úthlutunarreglunum hafi nú verið breytt og sé það til marks um að stjórn sjóðsins hafi lagt til við ráðherra að draga í land með það skilyrði að námsmaður fái ekki lán hjá sjóðnum hafi sjóðurinn afskrifað lán gagnvart honum.

Í athugasemdum kæranda vegna athugasemda Menntasjóðs kveðst hann mótmæla því að stjórn sjóðsins megi skilgreina hver teljist tryggur lánþegi í skilningi 11. gr. laga um Menntasjóð án þess að sú skilgreining rúmist innan laga um Menntasjóð námsmanna. Gangi skilgreining í grein 10.1 í úthlutunarreglunum í reynd lengra í að takmarka rétt námsmanna en lög um Menntasjóð heimili. Það að 11. gr. laganna feli ráðherra það verkefni að mæla fyrir um í reglugerð hver teljist tryggur lánþegi veiti ráðherra ekki lagastoð til að skilgreina upp á sitt eindæmi merkingu tilgreinds hugtaks, né að skýra það þrengra en fram kemur í almennum lögum frá Alþingi. Í athugasemdum við frumvarpið komi m.a. fram að ótryggur lánþegi geti t.d. átt við þegar lánþegi er á vanskilaskrá eða bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Kærandi bendir í fyrsta lagi á að þarna komi ekkert fram um þá sem hafi fengið afskrifað námslán hjá sjóðnum og bendir á að gjaldþrotaskipti séu ekki ævilangt ferli. Þeim ljúki yfirleitt á fjórum árum og eftir það sé það vitanlega ekki eins hvernig til takist hjá öllum að ná tökum á fjármálum heimilisins og byggja upp gott lánshæfi. Kærandi bendir á að krafa 10.1 greinar um þá sem áður hafi fengið námslán afskrifað hjá sjóðnum feli í reynd ekki annað í sér en ólögmæta og órökrétta refsingu gagnvart tilteknum námsmönnum en ráðherra hafi enga lagaheimild til að ákveða mönnum slíkar refsingar.

Í öðru lagi bendir kærandi á að samkvæmt orðanna hljóða haldi höfundar frumvarpsins ekki fram að hafi bú viðkomandi einhvern tíman verið tekið til gjaldþrotaskipta teljist sami aðili ótryggur lánþegi um alla ókomna framtíð. Telji kærandi það vera sjálfsagða kröfu að með hugtakinu tryggur lánþegi hafi löggjafinn ætlast til að stjórnvöld rannsökuðu raunverulegt lánshæfi viðkomandi. Ráðherra komi í reynd í veg fyrir slíkt með því að ákveða fyrirfram að allir sem hafi áður fengið afskrifað námslán teljist af þeim sökum ótryggir lánþegar um ókomna framtíð.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að túlkun ráðherra á hugtakinu tryggur lánþegi taki sjálfkrafa til allra sem hafi fengið afskrifað námslán sé hvorki í samræmi við lagatexta né athugasemdir í frumvarpi enda hljóti slík regla að teljast bersýnilega órökrétt og illa til þess fallin að ná fram markmiði sínu.

Í fjórða lagi telji kærandi svo þrönga túlkun brjóta gegn meðalhófsreglunni með því að ráðherra gangi lengra en nauðsynlegt þyki til að ná markmiðum laganna enda fráleitt að ákveða fyrirfram að aðili sem hafi fengið afskrifað námslán sé af þeim sökum ótryggur lánþegi um alla framtíð.

Kærandi telur að greinarmunur sé á lagatexta 8. gr. laga um Menntasjóð og grein 10.1 í úthlutunarreglunum. Annars vegar sé um að ræða kröfu um að vera ekki í vanskilum við sjóðinn og/eða skráður á vanskilaskrá og hinsvegar að hafa ekki áður fengið afskrifað námslán hjá sjóðnum en vera ekki í vanskilum við sjóðinn eða skráður á vanskilaskrá. Hvergi komi fram í lagatexta að ekki megi úthluta námsláni til námsmanns er hafi áður fengið afskrifað námslán en sjóðurinn hafi hins vegar sjálfur endurskilgreint hugtakið tryggur lánþegi með þeim hætti að það taki einnig til þeirra er hafi áður fengið afskrifað lán hjá sjóðnum.

Í athugasemdum sínum rekur kærandi almenn skilyrði 8. gr. laga um Menntasjóð sem hann telur sig uppfylla. Kærandi nefnir einnig að í frumvarpinu hafi verið tekið fram að tíðkast hafi í tíð eldri laga að veita ekki námslán til einstaklings sem áður hafi þurft að afskrifa hjá nema viðkomandi útvegaði ábyrgðarmann. Ekki verði hins vegar ráðið um afstöðu löggjafans til þessa. Ljóst sé hins vegar að löggjafinn hafi viljað festa fyrrnefnda atriðið í lög þ.e. að veita ekki lán þeim er væru í vanskilum. Að mati kæranda sé ljóst að ef löggjafinn hafi viljað halda síðarnefndar fyrirkomulaginu, kröfu um að hafa ekki fengið afskrifað lán, þá hefði það þurft að koma fram með skýrum hætti. Vafa beri að skýra kæranda í hag.

Kærandi bendir á tvö álit umboðsmanns Alþingismáli til stuðnings því að ráðherra hafi gengið of langt í að takmarka rétt tiltekinna námsmanna til úthlutunar námsláns. Annars vegar UA 2134/1997 og hins vegar UA 1319/1994.

 

 

Sjónarmið Menntasjóðs

Í athugasemdum Menntasjóðs kemur fram að gerð hafi verið krafa um að kærandi legði fram ábyrgðarmenn en Menntasjóður hafi þurft að afskrifa lán gagnvart honum og teljist hann því ótryggur lánþegi samkvæmt þeim reglum er sjóðurinn starfi eftir. Aðilar sem falli undir þá skilgreiningu þurfi að leggja fram þær ábyrgðir er sjóðurinn telji viðunandi, sbr. grein 10.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs fyrir námsárið 2020-2021 en ákvæðið eigi sér stoð í 11. gr. laga um Menntasjóð.

Í tilefni af rökstuðningi kæranda bendir stjórnin á að réttur einstaklinga til námslána sé ekki tryggður í stjórnarskrá lýðveldisins en markmið laga um Menntasjóð sé þó að tryggja þeim sem undir lögin falli tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og námsstyrkja, sbr. 1. gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt þurfi einstaklingar þó að uppfylla almenn skilyrði til að eiga rétt á námsláni hjá sjóðnum og komi þessi skilyrði fram í III. kafla laganna. Meðal annars þurfi einstaklingar að stunda lánshæft nám, vera fjárráða og vera í skilum við Menntasjóð námsmanna.

Kærandi hafi vísað til þess að lagastoð skorti fyrir því skilyrði sem sem sjóðurinn hafi sett þeim er teljist ótryggir lántakar, þ.e. að þeir þurfi að leggja fram sjálfskuldarábyrgð tveggja ábyrgðarmanna til að eiga rétt á námsláni. Kærandi telji reglugerðarheimildina of almenna og hafi í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 239/1987 sem fordæmi. Þessum röksemdum sé mótmælt og bent á að reglugerðarheimild ráðherra sé í 36. gr. laga um Menntasjóð og 11. gr. mæli síðan skýrt fyrir um að þeir sem teljist ekki tryggir lánþegar og eigi þar af leiðandi ekki rétt á lánum geti lagt fram ábyrgðir sem Menntasjóður telji viðunandi og með því öðlast rétt til töku námsláns. Með vísan til þessa telji Menntasjóður engan vafa leika á réttmæti og lögmæti kröfunnar um að þeir sem teljist ótryggir lánþegar afli sér ábyrgðarmanna til að eiga rétt á námsláni hjá sjóðnum.

Í viðbótarathugasemdum sínum bætir sjóðurinn við að með lögum nr. 78/2009 um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna hafi verið hætt að krefja námsmenn sjálfkrafa um ábyrgðarmann eða aðra tryggingu vegna lána hjá sjóðnum. Hins vegar hafi námsmenn sem ekki hafi talist lánshæfir samkvæmt reglum stjórnarsjóðsins þurft að leggja fram ábyrgð sem sjóðurinn taldi viðunandi. Stjórnin hafi þannig fengið mat um það hvaða skilyrðum bæði lántakendur og ábyrgðarmenn skyldu fullnægja til þess að teljast lánshæfir og hafi það verið útfært í úthlutunarreglum sjóðsins ár hvert.

Sams konar regla hafi tekið gildi með lögum nr. 60/2020 en í 11. gr. laganna sé beinlínis mælt fyrir um að námsmenn þurfi að vera tryggir lánþegar samkvæmt úthlutunarreglunum til þess að eiga rétt á lánum hjá sjóðnum. Að öðrum kosti þurfi þeir að leggja fram ábyrgðir sem Menntasjóður telji viðunandi. Í 36. gr. laganna komi síðan fram að ráðherra setji úthlutunarreglur um útfærslu og framkvæmd laganna að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Samkvæmt fyrrgreindri heimild sé það því ráðherra að tillögu stjórnar sem ákveði og setji reglur um til hvaða atriða skuli líta við mat á því hvort námsmaður teljist tryggur lántaki. Ekki sé nánar útfært í ákvæðinu við hvað beri að miða þegar metið sé hvort násmaður teljist tryggur lántaki. Í frumvarpi því sem varð að lögum um Menntasjóð námsmanna segi eftirfarandi um 11. gr.:

Almennt verður ekki gerð krafa um að lánþegar leggi fram tryggingar í formi ábyrgðar eða fasteignaveðs nema í tilvikum þar sem viðkomandi telst ekki tryggur lánþegi samkvæmt nánari fyrirmælum í úthlutunarreglum, eins og verið hefur. Þetta gæti t.d. átt við þegar lánþegi er á vanskilaskrá eða bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. 

Í frumvarpinu séu talin upp í dæmaskyni tvö tilvik þar sem lánþegi teljist ekki vera tryggur en ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Þá liggi engar aðrar leiðbeiningar fyrir um hvenær námsmaður skuli teljast tryggur heldur sé það mat í höndum þeirra er setji úthlutunarreglur sjóðsins ár hvert eins og verið hefur. Þá verði ekki talið að þau álit umboðsmanns Alþingis er kærandi hafi vísað til geti verið fordæmisgefandi.

Niðurstaða

Þann 1. júlí 2020 tóku gildi og komu til framkvæmda ný lög um námslán, lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, sem leystu af hólmi lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með gildistöku laga nr. 60/2020 féllu lög nr. 21/1992 úr gildi. Með hinum nýju lögum var nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna breytt í Menntasjóð námsmanna, sbr. ummæli í greinargerð með frumvarpi (150. löggjafarþing 2019-2020. Þskj. 373- 329. mál, bls. 14), og eldra lánakerfi LÍN áfram rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið.

Kærandi hefur kært ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 3. mars 2021 þar sem hafnað er beiðni hans um að fá námslán hjá Menntasjóði án þess að leggja fram ábyrgð tveggja ábyrgðarmanna vegna endurgreiðslu lánsins. Eins og nánar er lýst hér að framan sótti kærandi um námslán hjá Menntasjóði og í kjölfarið krafist sjóðurinn þess að kærandi legði fram sjálfskuldarábyrgð frá tveimur ábyrgðarmönnum þar sem hann teldist vera ótryggur lánþegi í skilningi 11. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, sbr. grein 10.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs fyrir námsárið 2020-2021, þar sem sjóðurinn hafi þurft að afskrifa námslán hjá honum í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi hans á árinu 2016. Telur kærandi umrætt skilyrði greinar 10.1 úthlutunarreglna um afskriftir gagnvart lánþegum ekki standast lögmætisregluna, það skorti lagastoð, og því beri að virða það að vettugi. Í því sambandi hefur kærandi m.a. vísað til þess að réttur námsmanna til námslána byggi á 76. gr. stjórnarskrárinnar og að við skerðingu slíkra mannréttinda þurfi skýra og ótvíræða lagastoð, sbr. Hæstaréttardóm nr. 239/1987. Þá telur kærandi að sjóðnum hafi verið óheimilt að skilgreina hverjir teljist tryggir lánþegar í skilningi laga nr. 60/2020 án þess að sú skilgreining rúmist innan laga um Menntasjóð námsmanna. Stjórn sjóðsins mismuni fólki án þess að undir liggi lögmæt og/eða málefnaleg sjónarmið. Kærandi vísar m.a. til dóms Hæstaréttar nr. 190/2018 um þau lögmæltu skilyrði sem námsmenn þurfi að uppfylla til að teljast tryggir lántakar. Þá séu gjaldþrotaskipti ekki ævilangt ferli og slík regla órökrétt og illa til þess fallin að ná markmiði sínu, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við meðalhóf.

Það er undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar sem leidd hefur verið af ákvæðum stjórnarskrár og stjórnskipunarvenjum að stjórnvöld séu bundin af lögum. Í þessari reglu felst að að reglugerðir verða að eiga sé stoð í lögum og að þær megi ekki vera í andstöðu við lög. Eftir því sem réttindi borgaranna eru mikilvægari, s.s. stjórnarskrárvarin réttindi eru gerðar ríkari kröfur til skýrleika lagaheimilda sem takmarka réttindi. Kærandi hefur vísað til þess að rétturinn til námsláns sé varinn af 76. gr. stjórnarskrárinnar. Um sé að ræða stjórnarskrárvarinn framfærslurétt á félagslegri aðstoð. Málskotsnefnd fellst ekki á það og bendir á að rétt á félagslegri aðstoð eiga þeir þegnar þjóðfélagsins sem ekki eiga möguleika á að sjá sér farborða. Námslán eru hins vegar félagsleg ívilnun sem felur í sér möguleika á lánafyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum til að afla sér framhaldsmenntunar að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í lögum og reglum þar að lútandi. Um nánari röksemdir vísast til úrskurðar málskotsnefndar LÍN í máli L-4/2001.

Í 8. gr. laga um Menntasjóð koma fram almenn skilyrði þess að veita megi námslán . Þar segir:

Rétt á námsástoð eiga þeir sem uppfylla eftirfarandi almenn skilyrði ásamt skilyrðum 9. eða 10. gr. eftir atvikum:

    1. stunda lánshæft nám, sbr. II. kafla,

    2. eru fjárráða,

    3. uppfylla kröfur um lágmarksnámsframvindu samkvæmt úthlutunarreglum,

    4. eru ekki í vanskilum við Menntasjóð námsmanna,

    5. þiggja ekki námslán eða sambærilega aðstoð frá öðru ríki vegna lánshæfs náms,

    6. uppfylla aðrar kröfur sem lög þessi gera til veitingar og endurgreiðslu námsaðstoðar.

Í úthlutunarreglum Menntasjóðs 2020-2021 eru ofangreind skilyrði endurtekin og eftir atvikum útfærð nánar, m.a. skilyrði 4. tl. sem fram kemur í 5. mgr. greinar 1.4 með svohljóðandi hætti:

Til þess að námsmaður teljist lánshæfur hjá sjóðnum má hann ekki vera í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um lán.

Miðað við gögn málsins er ágreiningslaust að kærandi uppfyllir kröfur 4. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um Menntasjóð um að vera ekki í vanskilum við Menntasjóð námsmanna enda hefur sjóðurinn afskrifað námslánaskuld kæranda í kjölfar gjaldþrots hans á árinu 2016 og á sjóðurinn því ekki lengur kröfu á hendur honum.

Þrátt fyrir að námsmaður hafi verið metinn lánshæfur samkvæmt III. kafla laganna þarf hann til að fá lánveitingu einnig að uppfylla fjölmörg skilyrði IV. kafla laganna sem útfærð eru í úthlutunarreglunum, m.a. það að teljist hann ekki tryggur lánþegi beri honum að leggja fram tryggingu. Með 36. gr. laga um Menntasjóð er kveðið á um almenna heimild ráðherra til að setja úthlutunarreglur um útfærslu og framkvæmd laganna, þ.m.t. fjárhæð og úthlutun námslána, sem og kröfur um lágmarksnámsframvindu, að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Þá kemur og fram í 2. og 3. mgr. 11. gr. að skilgreining á því hver er tryggur lánþegi komi fram í úthlutunarreglum sjóðsins og með hvaða skilyrðum ótryggir lánþegar geti fengið lán hjá Menntasjóði. Þannig segir í 2. og 3. mgr. 11. gr.:

Námsmenn sem fá námslán úr Menntasjóði námsmanna skulu undirrita skuldabréf við lántöku teljist þeir tryggir lánþegar samkvæmt úthlutunarreglum.

Þeir sem teljast ekki tryggir lánþegar geta lagt fram ábyrgðir sem Menntasjóðurinn telur viðunandi. Ábyrgðir geta m.a. verið fasteignaveð, ábyrgðaryfirlýsing fjármálastofnunar eða yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns með sömu skilmálum og lán lánþega er með, allt að tiltekinni fjárhæð.

Samkvæmt þessu verður að telja að stjórn Menntasjóðs sé ótvírætt heimilt að útfæra nánar í úthlutunarreglunum hver teljist ótryggur lánþegi með það fyrir augum að afmarka nánar í hvaða tilvikum beri að krefjast þess af lánþegum að þeir leggi fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi. Hér má benda á að Hæstiréttur féllst á í máli nr. 190/2017 að sambærilegt ákvæði 5. mgr. 6. gr. laga um LÍN veitti stjórn sjóðsins fullnægjandi stoð til að setja kröfur um framlagningu ábyrgða fyrir efndum í úthlutunarreglum sjóðsins.

Ofangreind skilyrði 3. mgr. 11. gr. hafa verið útfærð í úthlutunarreglum 2020-2021 sem eiga við í tilviki kæranda sem sótti um námslán vegna þess skólaárs. Segir eftirfarandi í grein 10.1:

Ábyrgðar á námsláni er krafist ef lánþegi telst ekki tryggur lántakandi. Lánþegi telst ekki tryggur lántakandi þegar hann er á vanskilaskrá, bú hans er í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Þá kemur til skoðunar hvort sú afmörkun hugtaksins ótryggur lánþegi sem fram kemur í grein 10.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs um að sjóðurinn megi ekki hafa þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi brjóti gegn meginreglu stjórnsýsluréttarins um skyldubundið mat.

Í óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalds felst að þegar skilyrði til töku stjórnvaldsákvörðunar eru ekki að öllu leyti lögbundin, heldur að einhverju leyti matskennd, þá er stjórnvaldi ekki heimilt að afnema það mat með öllu með setningu verklagsreglna. Það útilokar þó ekki að matið sé þrengt með slíkum reglum, í þágu þeirrar skyldu stjórnvalds að gæta jafnræðis. Með úthlutunarreglunum grein 10.1 hefur eins og áður greinir hugtakið ótryggur lántaki verið einskorðað við þrenns konar tilvik, þ.e. „þegar hann er á vanskilaskrá, bú hans er í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um Menntasjóð er að finna nánari skýringar á því hvað átt er við með hugtakinu ótryggur lánþegi í skilningi 2. mgr. 11. gr. en þar segir:

Almennt verður ekki gerð krafa um að lánþegar leggi fram tryggingar í formi ábyrgðar eða fasteignaveðs nema í tilvikum þar sem viðkomandi telst ekki tryggur lánþegi samkvæmt nánari fyrirmælum í úthlutunarreglum, eins og verið hefur. Þetta gæti t.d. átt við þegar lánþegi er á vanskilaskrá eða bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. 

Skilyrðin tvö sem vísað er til í greinargerðinni með frumvarpinu, lúta að tilvikum þar sem telja verður einsýnt að lánveitandi megi með nokkurri vissu líta svo á að lánþegi hafi takmarkaða burði til að taka á sig fjárhagsskuldbindingar eða standa í skilum með afborganir. Að því er lýtur að því skilyrði sem bætt er við í úthlutunarreglunum um að sjóðurinn megi ekki hafa afskrifað lán gagnvart lánþega þykir ekki óeðlilegt eins og gert hefur verið í reglum sjóðsins að líta til viðskiptasögu og gera greinarmun á vanskilum lánþega gagnvart Mennntasjóði eða LÍN og vanskilum gagnvart öðrum lánveitendum sem Menntasjóður hefur almennt ekki aðgengi að upplýsingum um.

Til hliðsjónar má benda á 5. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis og greiðslumat sem gildir um lánshæfismat vegna neytendasamninga. Þó er til þess að líta að hið umþrætta ákvæði úthlutunarreglnanna er fortakslaust og gildir að því er best verður séð um aldur og æfi og ekki gefið neitt svigrúm til að meta fjárhagsaðstæður lánþega að öðru leyti þrátt fyrir að langur tími sé liðinn og viðskiptasaga viðkomandi og eignastaða gefi til að hann geti talist tryggur lánþegi. Að því leyti er ákvæðið ekki til þess fallið að þjóna því markmiði að greina með nokkurri vissu á milli þeirra sem telja má trygga lánþega annars vegar og ótrygga lánþega hins vegar.

Að því er lýtur að máli kæranda er til þess að líta að ekki stendur til að synja kæranda um námslán heldur einungis gera kröfu til þess að hann setji tryggingu. Með því að vísa til afskrifta sjóðsins gagnvart kæranda er byggt á viðskiptasögu milli sjóðsins og kæranda. Kærandi varð gjaldþrota á árinu 2016. Verður ekki talið ómálefnalegt af sjóðnum að krefja hann um leggja fram tryggingu í formi ábyrgðar að námsláni svo skömmu eftir gjaldþrot hans og afskriftir sjóðsins á námsláni hans í kjölfarið sem er tveimur árum eftir skiptalok, sbr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Samkvæmt framangreindu verður að telja að í þessu tilviki hafi Menntasjóði ekki verið óheimilt að krefjast þess af kæranda að hann legði fram tryggingu í formi ábyrgðar vegna námsláns hjá Menntasjóði. Er hin kærða ákvörðun í máli kæranda staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun frá 3. mars 2021 í máli kæranda er staðfest.

 

Til baka