Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-11/2021 - Höfnun beiðni um undaþágu frá umsóknarfresti vegna umsóknar um námsán á vorönn 2021.

ÚRSKURÐUR

 

Ár 2021, miðvikudaginn 31. mars, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-9/2020.

Kæruefni

Málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna barst þann 15. desember 2020 erindi kæranda þar sem kærð er afgreiðsla umsóknar kæranda um styrk til jöfnunar á námskostnaði á haustönn námsárið 2020-2021 þar sem umsókn hans var synjað.

Um hina kærðu ákvörðun og valdsvið málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna.

Málskotsnefnd óskaði eftir því að kærandi legði fram afrit að hinni kærðu ákvörðun. Engin slík gögn bárust frá kæranda.

Þann 5. janúar 2021 ítrekaði málskotsnefnd beiðni um upplýsingar. Þann 6. janúar upplýsti málskotsnefnd kæranda um að ákvarðanir um að synja um styrk vegna jöfnunar á námskostnaði væru ekki kæranlegar til málskotsnefndar Menntasjóðs. Samkvæmt gildandi reglum væri hægt að gera athugasemdir við ákvörðun námsstyrkjanefndar með því að senda námsstyrkjanefnd skriflegar athugasemdir innan 30 daga. Upplýsti málskotsnefnd kæranda um að þar sem hann hefði sent erindi sitt á rangan aðila yrði það framsent réttu stjórnvaldi. Þann sama dag var mál kæranda framsent námsstyrkjanefnd hjá menntasjodur@menntasjodur.is í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kæranda sent samhliða tilkynning um framsendinguna.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 79/2003 um námsstyrki skipar mennta- og menningarmálaráðherra þriggja manna nefnd, námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Í 3. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003 með síðari breytingum er Lánasjóði íslenskra námsmanna (nú Menntasjóði námsmanna) falin umsýsla og nauðsynleg framkvæmd fyrir nefndina. Ekki er í lögum nr. 79/2003 eða lögum nr. 50/2020 um Menntasjóð námsmanna gert ráð fyrir að Menntasjóður taki stjórnvaldsákvarðanir vegna umsókna um námsstyrki heldur er slíkt á forræði námsstyrkjanefndar sem ákvarðar um úthlutanir á styrkjum samkvæmt lögunum, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 79/2003.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2020 skipar ráðherra stjórn Menntasjóðs námsmanna sem m.a. skal skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum hjá Menntasjóði. Ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs eru samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laganna kæranlegar til málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna sem sker úr um hvort þær séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Samkvæmt þessu eru það einungis ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs sem eru kæranlegar til málskotsnefndar Menntasjóðs. Kæra í máli þessu varðar tilkynningu Menntasjóðs til kæranda á grundvelli laga nr. 79/2003 um að umsókn kæranda um styrk til jöfnunar á námskostnaði hafi verið synjað. Brestur nefndina vald til að skera úr um lögmæti meðferðar máls kæranda hjá Menntasjóði og ber að vísa kæru kæranda frá nefndinni.

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru kæranda vegna afgreiðslu Menntasjóðs á umsókn hans um styrk til jöfnunar á námskostnaði á grundvelli laga nr. 79/2003 er vísað frá málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna.

 

Til baka