Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-6/2022- Höfnun á beiðni kæranda um afturkölln á úrskurði í máli M-1/2021

ÚRSKURÐUR

um beiðni um afturköllun og afhendingu gagna

Ár 2022, föstudaginn 18. mars, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-6/2022 um beiðni kæranda í máli M-1/2021 um afturköllun úrskurðarins, beiðni um afhendingu gagna varðandi meðferð málsins og upplýsinga vegna tafa á meðferð málsins.

Kæruefni

Með tölvupósti sem barst málskotsnefnd þann 3. janúar 2022 fór kærandi þess á leit að fá afhent eftirfarandi gögn vegna máls M-1/2021:

1.               Afriti af öllum fundargerðum þar sem málið var tekið fyrir.

2.               Afriti af öllum samskiptum nefndarinnar, nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar, við Menntasjóðinn, þar með talið, en ekki tæmandi talið, tölvupósta og skráningar af fundum og úr símtölum við sjóðinn.

3.               Afriti af öllum samskiptum nefndarinnar, nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar, við aðra en Menntasjóðinn, þar með talið, en ekki tæmandi talið, tölvupósta og skráningar af fundum og úr símtölum.

 

Kærandi óskaði einnig eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1.      Nefndin gaf út að úrskurðað yrði í júní eða byrjun júlí 2021, en úrskurður lá ekki fyrir fyrr en í desember 2021. Hver er ástæðan fyrir ítrekuðum töfum á málinu?

2.      Þann 13.8.21 óskaði nefndin eftir ákveðnum gögnum frá Menntasjóð í málinu, hver var ástæðan fyrir því að óskað var eftir þessum gögnum?

3.      Í gögnunum frá Menntasjóði dags. 3. september 2021, sem nefndin hafði frumkvæði að að óska eftir, kemur fram skýrt brot sjóðsins. Hvergi er vikið að þessum gögnum í úrskurðinum, hver er ástæða þess?

4.      Í niðurstöðukafla skortir allan rökstuðning. Þannig er eingöngu reifað að almennar reglur gildi um endurgreiðslu ofgreidds fjár í tilvikinu og Menntasjóði hafi því verið skylt að greiða dráttavexti frá og með þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því kærandi lagði sannanlega fram kröfu um greiðslu. Þetta er nákvæmlega það sem kærandi hefur haldið fram.

 

Bendir kærandi á að í framhaldinu hafi svo í úrskurðinum verið vísað til þess að kærandi hafi krafist endurgreiðslu 28. desember 2020 og þar sem endurgreiðsla hafi farið fram innan mánaðar frá þeim tíma sé ekki til staðar réttur til dráttavaxta. Hér vanti bersýnilega rökstuðning fyrir því af hverju nefndin kjósi að líta fram hjá megin málsástæðu kæranda þess efnis að gild krafa um endurgreiðslu hafi verið sett fram þegar í upphafi og dráttavexti ætti í síðasta lagi að reikna frá því mánuði eftir 30. september 2019 þar sem sjóðurinn hafi þá búið yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum til að taka afstöðu til kröfunnar. Að mati kæranda er hin upphaflega krafa um endurgreiðslu augljós grundvöllur synjunar LÍN frá 30. september 2019. Varpar kærandi fram þeim spurningum hverju LÍN hafi verið að synja ef engin krafa var til staðar fyrir 30. september 2019 og af hverju þær kröfur sem ákvörðun sjóðsins beindist að uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

Bendir kærandi á að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum sé áréttað á fleiri en einum stað að ríkari kröfur séu gerðar til rökstuðnings í kærumálum en á fyrsta stjórnsýslustigi. Ástæða þessa sé annars vegar að við meðferð slíkra mála séu gerðar meiri kröfur til réttaröryggis og hins vegar að úrskurður æðra setts stjórnvalds bindi og hafi leiðbeiningargildi fyrir það lægra setta. Þannig eigi rökstuðningur  í kærumálum að vera bæði skýrari og ítarlegri en í málum á fyrsta stjórnsýslustigi.

 

Niðurstöðukafli úrskurðar málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna frá 20. desember 2021, í máli nr. M-1/2021, uppfylli bersýnilega ekki áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 3. málsl. 2. mgr. og 4. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2020, þar sem lestur hans varpi engu ljósi á það af hverju ekki á að fallast á kröfu kæranda á grundvelli þeirrar málsástæðu sem kærandi lagði fram. Þessi annmarki veki upp verulegan vafa um hvort niðurstaða nefndarinnar sé málefnaleg og rétt, og feli í sér brot á öryggisreglu og sé því verulegur annmarki. Úrskurðurinn sé þar af leiðandi ógildanlegur.

 

Í ljósi ofangreinds verulegs annmarka krefjist kærandi þess að málskotsnefnd geri annað af tvennu eftirfarandi:

a.       Afturkalli ákvörðun sína, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, og taki málið í heild fyrir að nýju.

b.      Bæti úr framangreindum annmarka með viðhlítandi eftirfarandi rökstuðningi. Hér þurfi að hafa í huga að úrskurðum í kærumálum skal ávallt fylgja rökstuðningur, sbr. 4. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, sem fullnægi kröfum 22. gr. laganna og því eigi 14 daga frestur 3. mgr. 21. gr. ekki við um þennan kröfulið.

Niðurstaða

I.       Kærandi hefur óskað eftir nánar greindum upplýsingum vegna málsins, þ.e. fundargerðum auk afrita af öllum samskiptum nefndarinnar, nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar, við Menntasjóðinn og aðra, þar með talið, en ekki tæmandi talið, tölvupósta og skráningar af fundum og úr símtölum.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða mál hans. Í úrskurði nefndarinnar eru talin upp öll samskipti og gögn sem aflað var í málinu og fékk kærandi afrit þeirra allra og var gefinn kostur á að senda athugasemdir. Hér var um að ræða bréf sem send voru kæranda og Menntasjóði og svör sjóðsins. Ekki var um að ræða nein samskipti við aðra en kæranda og Menntasjóð og er því ekki öðrum gögnum til að dreifa í málinu nema fundargerðum og sendast þær kæranda meðfylgjandi úrskurði í málinu. Rétt er að geta þess að mál hjá nefndinni eru ekki afgreidd með símtölum.

II.      Kærandi hefur óskað eftir skýringum á töfum sem urðu á afgreiðslu málsins hjá málskotsnefndinni. Kæra kæranda barst málskotsnefnd Menntasjóðs 2. febrúar 2021 og var úrskurður kveðinn upp í máli kæranda þann 20. desember 2021. Meðal málsmeðferðartími er fjórir til fimm mánuðir, en einstaka mál geta tekið lengri tíma.

Það er meginregla stjórnsýsluréttar að í ljósi jafnræðissjónarmiða skuli við það miðað að jafnaði að afgreiða mál í þeirri tímaröð sem þau berast. Hins vegar er til þess að líta að þau mál sem nefndinni berast eru afar ólík og misjafnt hve undirbúningur þeirra tekur langan tíma. Því er almennt þannig varið að mál eru úrskurðuð þegar nefndin telur að gagnaöflun og umræðum um þau í nefndinni sé lokið. Vegna þessa tók meðferð máls kæranda lengri tíma en venja er hjá nefndinni.

III.     Kærandi hefur fundið að því að málskotsnefnd hafi aflað gagna sem síðan hafi ekki verið gert neitt með í málinu. Fyrirspurn málskotsnefndar til Menntasjóðs var hluti af undirbúningi og rannsókn málsins í þeim tilgangi gerð að málsatvik væru nægilega upplýst áður en ákvörðun væri tekin í málinu. Þessar upplýsingar voru hins vegar ekki þess eðlis að þær hefðu áhrif á niðurstöðu nefndarinnar.

IV.     Kærandi er ekki sammála niðurstöðu nefndarinnar og telur hana haldna annmörkum og skorta rökstuðning. Telur kærandi að nefndinni bera að afturkalla úrskurðinn eða setja fram frekari rökstuðning.

Um afturköllun segir í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993:

Stjórnvald getur afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar:

 1. það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða

 2. ákvörðun er ógildanleg.

Það er kærandi máls sem hefur óskað að málskotsnefnd afturkalli ákvörðun sína en ráðið verður af stjórnsýslulögum að um slíkt gildi ákvæði 1. mgr. 24. gr. laganna um endurupptöku sem eru eftirfarandi:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

    1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
    2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá hefur almennt verið talið að stjórnvaldi sé heimilt að verða við erindi aðila um endurupptöku máls hans á grundvelli óskráðrar meginreglu ef ákvörðunin er haldin verulegum annmarka.

Í úrskurði nr. L-6/2020 taldi málskotsnefnd að stjórn LÍN hefði ekki lagt réttan lagagrundvöll að niðurstöðu í máli kæranda og að byggja hefði átt niðurstöðu í máli kæranda á fyrri málslið 6. mgr. 8. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem heimiluðu lækkun eða niðurfellingu afborgana vegna verulegrar skerðingar ráðstöfunartekna og möguleika á að afla tekna. Ekki hafi verið heimilt að krefjast þess að kærandi legði fram upplýsingar um að hún ætti í verulegum fjárhagsörðugleikum þar sem slíkt sé einungis áskilið í síðari málslið 6. mgr. 8. gr. laganna. Var ákvörðun stjórnar sjóðsins felld úr gildi og lagt fyrir stjórn sjóðsins að taka mál kæranda fyrir að nýju.

Ljóst er af niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. L-6/2020 að ekki lá fyrir, er úrskurður var kveðinn upp, hvort skilyrði væru fyrir lækkun og þá hve mikil sú lækkun ætti að vera eða hvort heimilt væri að fella niður afborganir námsláns kæranda. Um er að ræða matskennda ákvörðun stjórnar Menntasjóðs, sem er fjölskipað stjórnvald. Stjórn Menntasjóðs ákvað að veita kæranda undanþágu frá afborgunum ársins 2019 þann 9. desember 2020. Í kjölfarið krafðist kærandi endurgreiðslu þann 28. desember 2020 og endurgreiddi Menntasjóður henni þann 7. janúar 2021. Sökum þessa var ekki fallist á það með kæranda í máli nr. M-1/2021 að er úrskurður féll í fyrra máli hennar hafi legið ljóst fyrir að hún ætti rétt á endurgreiðslu þeirra afborgana er hún hafði innt af hendi, eða eftir atvikum hversu há sú endurgreiðsla yrði. Var af þessum sökum, eins og rökstutt er í niðurstöðu, talið að gjalddagi endurgreiðslunnar hafi ekki verið fyrir fram ákveðinn, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Hafi Menntasjóði að lögum aðeins verið skylt að greiða dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því að kærandi hafði sannanlega uppi kröfu um greiðslu. Framangreint kemur fram í úrskurði í seinna máli kæranda, þ.e. í máli M-1/2021. Verður ekki fallist á með kæranda að rökstuðning hafi skort fyrir niðurstöðu málsins eða hún að öðru leyti verið haldin þeim annmörkum að heimili endurupptöku málsins eða gefi tilefni til afturköllunar.

Með vísan til ofanritaðs er kröfu kæranda um afturköllun synjað. Eins og rakið er hér að ofan verða fundargerðir afhentar kæranda. Ekki er til að dreifa neinum öðrum gögnum í málinu sem kærandi hefur ekki fengið aðgang að.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni kæranda um afturköllun á úrskurði í máli M-1/2021 er hafnað.


Til baka