Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-1/2021 - Staðfesting ákvörðunar stjórnar Menntasjóðs fá 27. janúar 2021.

ÚRSKURÐUR

Ár 2021, mánudaginn 20. desember, kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-1/2021.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 2. febrúar 2021 sem barst málskotsnefnd þann 9. febrúar 2021 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna frá 27. janúar 2021 (hér eftir Menntasjóður) þar sem hafnað var kröfu kæranda um að greiddir yrðu dráttarvextir af kröfu hennar á hendur Menntasjóði sem var komin til vegna ákvörðunar stjórnar sjóðsins þann 11. desember 2020.

Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 11. febrúar 2021 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs voru settar fram í bréfi dagsettu 9. mars 2021 og var afrit þess ásamt meðfylgjandi gögnum sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur 19. apríl til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar þann 16. apríl 2021 og voru þær framsendar Menntasjóði. Menntasjóður sendi viðbótarathugasemdir 29. apríl 2021 sem voru framsendar kæranda og frestur veittur til athugasemda. Kærandi sendi athugasemdir sínar þann 28. maí 2021 og voru þær framsendar Menntasjóði sem ítrekaði fyrri athugasemdir sínar þann 8. júní 2021. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga frá Menntasjóði þann 13. ágúst 2021. Svar sjóðsins barst 3. september 2021 og var framsent kæranda og var honum gefinn festur til að gera athugasemdir. Svar kæranda barst málskotsnefnd 22. september 2021.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi, sem er greiðandi námslána hjá Menntasjóði (áður LÍN), átti við veikindi að stríða og sótti um undanþágu frá árlegri afborgun vorið 2019 og haustið 2019 sökum skyndilegra og verulegra breytinga á tekjum. Kærandi fékk það svar 30. september 2019 að það væri mat sjóðsins að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Kærandi bar synjunina undir stjórn LÍN sem staðfesti hana með ákvörðun dagsettri 28. janúar 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til málskotsnefndar LÍN þann 29. apríl 2020.

Með úrskurði málskotsnefndar þann 30. október 2020 var fallist á það með kæranda að skyndilegar og verulegar breytingar hefðu orðið á högum hennar sem skerti til muna ráðstöfunarfé hennar og möguleika á að afla tekna þannig að rétt kynni að hafa verið að lækka eða fella niður afborganir hennar á gjalddögunum 1. mars og 1. september 2019. Var undanþágan byggð á fyrri málslið 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og því lagt til grundvallar að skilyrðið um verulega fjárhagsörðugleika í síðari málslið sama ákvæðis ætti ekki við um veitingu undanþágu til kæranda. Ekki var fallist á rök kæranda um að ekki væri heimilt að taka tillit til tekna maka hennar. Var ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda felld úr gildi og sjóðnum falið að skoða mál kæranda að nýju.

Kærandi sendi erindi til stjórnar Menntasjóðs, sem tók við af LÍN með lögum nr. 60/2020, þann 6. nóvember 2020, sem tekið var fyrir á fundi stjórnar þann 9. desember 2020. Féllst stjórnin á beiðni kæranda um undanþágu frá afborgunum umræddra gjalddaga. Þar sem gjalddagarnir hefðu þegar verið greiddir var kæranda bent á að hún gæti óskað endurgreiðslu. Kærandi óskaði eftir endurgreiðslu þann 28. desember 2020 og krafðist jafnframt dráttarvaxta á greiðsluna mánuði eftir upphaflega synjun sjóðsins, þ.e. frá 30. október 2019.

Þann 27. janúar 2021 synjaði Menntasjóður kæranda um greiðslu dráttarvaxta þar sem undanþága frá afborgun hafi fyrst verið veitt með ákvörðun stjórnar Menntasjóðs þann 11. desember 2020 og það væri aðeins eftir að sú ákvörðun hafi verið tekin að skylda til endurgreiðslu afborgunarinnar hafi stofnast.

Menntasjóður endurgreiddi kæranda afborganir gjalddaganna 1. mars og 1. september 2019 þann 7. janúar 2021 með greiðslu 136.580 króna og 358.550 króna.   

Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að tekin verði til greina krafa kæranda um að Menntasjóði verði gert að greiða dráttarvexti af endurgreiðslufjárhæð vegna beggja afborgana ársins 2019 frá 30. október 2019, en þá var liðinn mánuður frá því að beiðni hennar var upphaflega synjað af LÍN.

Kærandi telur rökstuðning Menntasjóðs fyrir synjun greiðslu dráttarvaxta ekki standast. Svo virðist sem Menntasjóður telji upphaflega ákvörðun í málinu hafa verið rétta, sem hafi þó verið hafnað af málskotsnefnd. Menntasjóður hafi eigi að síður fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu. Hjá Menntasjóði komi fram sú skoðun að það hafi ekki verið fyrr en 9. desember 2020 sem kærandi hafi í raun uppfyllt skilyrði undanþágu afborgana þar sem hin ógilta ákvörðun hafi falið í sér fullgilda niðurstöðu þar til henni hafi verið hnekkt. Kærandi telur þetta ganga gegn viðurkenndum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti. Væri fallist á afstöðu Menntasjóðs mætti með öllu afskrifa rétt þeirra til skaðabóta sem yrðu fyrir fjárhagstjóni vegna ólögmætra stjórnvaldsákvarðana, þar sem hin ólögmæta ákvörðun hefði í raun verið lögmæt á meðan henni hafi ekki verið hnekkt.

Kærandi ítrekar að álitaefnið snúist um hvort fyrir hendi sé réttur til dráttarvaxta af endurgreiðslukröfu vegna niðurfellingar afborgana af námslánum og þá frá hvaða tímamarki. Til að leysa úr því þurfi að ákvarða hvenær krafan hafi stofnast og í kjölfarið hvenær heimild hafi kviknað til að krefjast dráttarvaxta vegna greiðsludráttar. Kærandi bendir á að krafa sé skilgreind sem lögvarin heimild tiltekins aðila til að krefjast þess af öðrum aðila að hann geri eitthvað eða láti eitthvað ógert. Kröfu fylgi því skuldbinding fyrir skuldarann. Gjalddagi sé svo það tímamark þegar kröfuhafinn geti fyrst krafið skuldarann um efndir.

Kærandi vísar til þess að krafa hennar byggi á heimildarákvæði 1. málsl. 6. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 21/1992 um LÍN. Ákvæðið feli ekki í sér frelsi fyrir viðkomandi stjórnvald til geðþóttaákvörðunar í máli heldur leggi þá skyldu á stjórnvald að taka ákvörðun tiltekins efnis ef hið skyldubundna mat leiði til þeirrar niðurstöðu að skilyrði ákvæðisins teljist uppfyllt. Önnur framkvæmd bryti gegn jafnræði borgaranna.

Kærandi bendir á að þegar stjórnvaldsákvörðun sé felld úr gildi geti hún að lögum ekki haft þau réttaráhrif sem henni hafi verið ætlað að hafa. Meginreglan sé sú að ákvörðunin sé ógild frá öndverðu. Krafa kæranda verði því með réttu að mati kæranda talin hafa stofnast 30. september 2019, þegar ákvörðun LÍN um að synja beiðni hennar hafi verið tilkynnt henni með tölvupósti.

Um rétt til dráttarvaxta vísar kærandi til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í 1. mgr. 5. gr. komi fram að hafi gjalddagi verið ákveðinn fyrir fram sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Í 3. mgr. 5.gr. segi svo að hafi ekki verið samið um gjalddaga kröfu sé heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi hafi sannanlega krafið skuldara með réttu um greiðslu.

Kærandi byggir á því að hafi borgara verið ranglega synjað um greiðslu úr hendi hins opinbera og sú synjun síðan verið felld úr gildi, hafi réttaráhrif hinnar nýju ákvörðunar verið talin ná til þess tíma er borgarinn upphaflega átti rétt á efndum. Hafi gjalddagi þeirrar kröfu sem borgarinn hafi í upphafi verið hlunnfarinn um verið fyrir fram ákveðinn hafi verið litið svo á að hann eigi að meginstefnu rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.

Synjun LÍN á kröfu kæranda þann 30. september 2019 hafi átt rætur að rekja til umsóknar hennar um niðurfellingu greiðslna á gjalddögum námslána hennar 1. mars og 1. september sama ár. Kærandi byggir á því að á tímamarki synjunar LÍN hafi legið fyrir krafa kæranda um niðurfellingu greiðslnanna og sú afstaða LÍN að fyrir hendi væru fullnægjandi upplýsingar til að taka mætti afstöðu til kröfunnar. Réttaráhrif ógildingar málskotsnefndar og nýrrar ákvörðunar stjórnar Menntasjóðs þann 9. desember 2020 hafi verið þau að þann 30. september 2019 hafi kærandi átt kröfu á LÍN um endurgreiðslu gjalddaganna 1. mars 2019 og 1. september sama ár. Kærandi eigi því rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga af endurgreiðslufjárhæðinni frá því mánuði eftir upphaflega synjun sjóðsins, þ.e. frá 30. október 2019 til 7. janúar 2021 er krafan hafi loksins verið greidd.

Sjónarmið Menntasjóðs

Menntasjóður byggir á því að endurgreiðslukrafa kæranda hafi myndast þann 9. desember 2020 þegar stjórn sjóðsins hafi fallist á, í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar Menntasjóðs, að veita kæranda undanþágu frá afborgunum sem kærandi hefði greitt á gjalddögunum 1. mars 2019 og 1. september 2019.

Í athugasemdum Menntasjóðs er rakið að kærandi hafi sett fram þá kröfu í erindi til stjórnar að dráttarvextir yrðu reiknaðir á kröfu hennar frá 11.apríl 2019, þ.e. frá og með þeim degi sem kærandi hafi fyrst sótt um endurgreiðsluna. Bendir Menntasjóður á að þennan dag hafi ekki legið fyrir beiðni hjá sjóðnum enda hafi afborgun á gjalddaganum 1. september 2019 ekki verið mynduð í kerfi sjóðsins á þessum tíma. Niðurstaða stjórnar Menntasjóðs í máli kæranda hafi því snúist um túlkun á vaxtalögum og ákvörðun stjórnar þess efnis að vextir skyldu reiknast á kröfuna frá og með 9. janúar 2021 í samræmi við 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga en þar segi að heimilt sé að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi hafi sannanlega krafið skuldara með réttu um greiðslu. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2001 segi að ákvæðið sé sett til áréttingar á því að kröfuhafi geti ekki krafist dráttarvaxta nema sá tími sé kominn að hann geti krafið skuldara um greiðslu.

Menntasjóður telur ljóst að kærandi geti ekki krafið sjóðinn með réttmætum hætti um endurgreiðslu á þeim afborgunum sem um ræðir nema í fyrsta lagi eftir að ákvörðun stjórnar sjóðsins um að veita undanþágu liggi fyrir, eða þann 9. desember 2020, enda hafi kærandi greitt með eðlilegum hætti af námslánum sínum. Þó kæranda hafi verið veitt undanþága síðar séu engin haldbær rök fyrir því að endurgreiðslukrafa kæranda geti hafa stofnast fyrir það tímamark og kærandi geti þ.a.l. krafist dráttarvaxta af kröfunni.

Einnig sé bent á eðli þeirrar kröfu sem um ræði. Að kærandi sé með námslán sem tekin hafi verið í gildistíð laga nr. 21/1992 um LÍN og að skv. 8. gr. laganna greiði lántakar af lánum sínum árlega, annars vegar með fastri greiðslu á fyrri hluta árs og hins vegar með viðbótargreiðslu sem sé innheimt á síðari hluta ársins og sé háð tekjum fyrri árs. Fram komi í ákvæðinu að sjóðnum sé heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu uppfylli lánþegi viss skilyrði sem tiltekin séu í lögunum. Skuli skuldari sem sæki um undanþágu leggja til stjórnar þær upplýsingar sem stjórnin telji skipta máli.

Fyrir liggi að kærandi hafi sótt um undanþágu frá fastri afborgun ársins 2019 þann 26. mars 2019. Sama dag hafi hún fengið tölvupóst frá sjóðnum þar sem henni hafi verið tjáð að þau gögn og þær upplýsingar sem fyrir lægju staðfestu ekki verulega fjárhagsörðugleika og hafi því verið óskað eftir því að hún sendi sjóðnum frekari gögn. Kærandi hafi sent inn gögn þann 15. apríl 2019 og samdægurs hafi starfsmenn sjóðsins beðið hana að senda upplýsingar um staðgreiðslu. Þær hafi ekki borist fyrr en 20. september 2019 í kjölfar umsóknar kæranda um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns með gjalddaga 1. september 2019. Kærandi hafi fengið svar frá sjóðnum 10 dögum síðar um að það væri mat sjóðsins að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Sameiginlegar tekjur kæranda og eiginmanns hennar hafi verið yfir þeim viðmiðum sem sjóðurinn styddist við mat á því hvort umsækjandi teldist í verulegum fjárhagsörðugleikum og engin gögn hafi legið fyrir um fjárhagsörðugleika að öðru leyti. Þá hafi sjóðurinn einnig litið til tekna kæranda á árinu 2018. Kærandi hafi í kjölfarið farið þess á leit að fá undanþágu frá árlegri endurgreiðslu og hafi stjórn LÍN á fundi 28. janúar 2020 ekki talið kæranda uppfylla undanþágu skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Kærandi hafi síðan kært synjunina til málskotsnefndar LÍN. Málskotsnefndin hafi fellt úr gildi ákvörðun stjórnar í máli kæranda og falið stjórn sjóðsins að skoða mál kæranda að nýju og meta aðstæður hennar og eftir atvikum kalla eftir frekari gögnum. Hafi stjórnin tekið mál kæranda aftur fyrir og fallist á beiðni um undanþágu vegna beggja gjalddaga ársins 2019.

Með hliðsjón af framangreindu verði að telja að úrlausn sjóðsins á umsókn kæranda um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ársins 2019 hafi verið í samræmi við þær reglur er sjóðurinn starfi eftir. Það sé hlutverk sjóðsins og stjórnar hans að leggja heildstætt mat á það hvort kærandi uppfylli 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og niðurstaðan verið sú að svo hafi ekki verið. Engu breyti þar um þótt málskotsnefnd hafi síðar fellt ákvörðun stjórnar úr gildi og hafi falið stjórn sjóðsins að meta aðstæður kæranda að nýju. Þar til ákvörðun stjórnar, þann 9. desember 2020, þess efnis að fallast á að veita kæranda undanþágu frá árlegri endurgreiðslu hafi legið fyrir, hafi það verið mat sjóðsins að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Að öðru leyti ítreki stjórnin það sem fram komi í ákvörðun dagsettri 29. janúar 2021 í máli kæranda.

Í viðbótarathugasemdum Menntasjóðs segir að kærandi hafi vísað til fjölda dóma Hæstaréttar sem ekki verði séð að hafi þýðingu í málinu og sé því ekki þörf á að svara sérstaklega. Af athugasemdum kæranda megi ráða þann skilning að þegar málskotsnefnd hafi fellt úr gildi ákvörðun stjórnar sjóðsins með úrskurði sínu þann 30. október 2020 hafi það valdið því að ákvörðun stjórnar um að synja kæranda um undanþágu frá afborgun gjalddaganna 1. mars 2019 og 1. september 2019 hafi verið ólögmæt og að kærandi hafi við úrskurð málskotsnefndar átt rétt á undanþágu frá afborgun og endurgreiðslu á fjárhæð sem næmi þeim afborgunum sem hún hefði greitt. Menntasjóður mótmælir þessari túlkun kæranda sem rangri og vísar til 5. gr. a laga nr. 21/1992 um LÍN og 21. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð þar sem fram kemur að hlutverk málskotsnefndar sé að skera úr um hvort ákvarðanir stjórnar sjóðsins séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og að nefndin geti staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Í tilviki kæranda hafi málskotsnefndin fellt ákvörðun stjórnarinnar úr gildi og falið henni að skoða mál kæranda að nýju og meta aðstæður hennar og eftir atvikum kalla eftir frekari gögnum. Stjórn Menntasjóðs hafi því tekið mál kæranda fyrir að nýju og með nýrri ákvörðun þann 9. desember 2020 hafi stjórnin í samræmi við þá heimild sem hún hafi í lögum og reglugerðum ákveðið að veita kæranda undanþágu frá afborgun á gjalddögunum 1. mars og 1. september 2019.

Í svari Menntasjóðs við fyrirspurn málskotsnefndar um útreikning endurgreiðslu kemur fram að við greiðslu á gjalddögunum hafi höfuðstóll lánsins lækkað og þar af leiðandi hafi verið reiknaðir lægri vextir og verðbætur á lánið á því tímabili sem afborganir lánsins voru greiddar. Við bakfærslu á greiðslum ársins 2019 hafi lánið verið endurreiknað og þá líti kerfið svo á að greiðslur hafi aldrei borist sem leiðir til þess að reikningsleg áhrif á stöðu G-lánsins voru engin.

Niðurstaða

Ágreiningsefni þessa máls varðar kröfu kæranda um dráttarvexti af endurgreiðslu LÍN á tveimur afborgunum námsláns. Eins og að framan er rakið sótti kærandi í mars 2019 um undanþágu frá greiðslu árlegra afborgana af námsláni sínu með gjalddaga 1. sama mánaðar og í september 2019 um undanþágu afborgunar með gjalddaga 1. september 2019. Vísaði kærandi til þess að skyndilegar og verulegar breytingar hefðu orðið á tekjum hennar vegna fjarveru frá vinnu sökum veikinda. Stjórn LÍN synjaði beiðninni með ákvörðun 28. janúar 2020. Kærandi hafði greitt umræddar afborganir, en skaut synjun stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Málskotsnefnd felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði sínum 30. október 2020 og fól stjórn Menntasjóðs (áður LÍN) að skoða mál kæranda að nýju. Málið var aftur tekið fyrir á fundi stjórnar Menntasjóðs þann 9. desember 2020 og féllst stjórnin við endurskoðun á málinu á beiðni kæranda um undanþágu frá afborgunum umræddra gjalddaga. Þar sem gjalddagarnir hefðu þegar verið greiddir var kæranda bent á að hún gæti óskað endurgreiðslu frá sjóðnum. Kærandi óskaði eftir endurgreiðslu þann 28. desember 2020 og krafðist jafnframt að dráttarvextir yrði reiknaðir á hið endurgreidda fé mánuð eftir upphaflega synjun sjóðsins, þ.e. frá 30. október 2019 til 7. janúar 2021 þegar krafan var á endanum greidd. Menntasjóður hafnaði því að sér bæri skylda til greiðslu dráttarvaxta, en endurgreiddi kæranda afborganir gjalddaganna 1. mars og 1. september 2019 þann 7. janúar 2021 með greiðslu 136.580 króna og 358.550 króna.

Krafa kæranda lýtur því að tilkalli til dráttarvaxta á fé sem hún greiddi LÍN, en fékk síðan endurgreitt með ákvörðun stjórnar Menntasjóðs. Að lögum gilda ekki sérreglur um heimtu vaxta af ofgreiddu fé þegar um annað er að ræða en skatta og önnur opinber gjöld, sbr. Hrd. í máli nr. 389/2004. Þar sem að gjalddagi endurgreiðslunnar var ekki fyrir fram ákveðinn var Menntasjóði að lögum aðeins skylt að greiða dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því að kærandi hafði sannanlega uppi kröfu um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Stjórn Menntasjóðs ákvað að veita kæranda undanþágu frá afborgunum ársins 2019 þann 9. desember 2020. Í kjölfarið krafðist kærandi endurgreiðslu þann 28. desember 2020 og endurgreiddi Menntasjóður henni þann 7. janúar 2021. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á með kæranda að henni beri dráttarvextir á hinar endurgreiddu fjárhæðir. Þá eru að öðru leyti ekki lagaskilyrði fyrir því að viðurkenna aðra vexti á kröfu hennar. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 27. janúar 2021.

ÚRSKURÐARORÐA

Hinn kærði úrskurður frá 27. janúar 2021 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka