Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-15/2021 Kæra vegna synjunar á undanþágu frá afborgun námsláns

ÚRSKURÐUR

 

Ár 2022, þriðjudaginn 17. maí kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu M-15/2021:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 24. október 2021 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna (hér eftir Menntasjóður) frá 25. ágúst 2021 um að synja kæranda um undanþágu frá afborgun námsláns. Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. október 2021 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs í máli kæranda bárust með bréfi dagsettu 22. nóvember 2021. Var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 23. nóvember 2021 og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með tölvupósti þann 7. janúar 2022 óskaði málskotsnefnd eftir afriti af erindi kæranda til Menntasjóðs sem ekki hafði fylgt með í gögnum málsins frá sjóðnum. Umbeðin gögn bárust nefndinni samdægurs. Voru þau send kæranda sem sendi athugasemdir sínar þann 3. febrúar 2022. Þann 5. apríl sendi málskotsnefnd tölvupóst til kæranda þar sem óskað var frekari gagna. Engin svör bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Þann 12. maí 2021 sendi kærandi tölvupóst til Menntasjóðs um að hún hefði ekki fengið sendan greiðsluseðil vegna afborgunar og að bréf sjóðsins vegna gjalddagans hafi ekki borist fyrr en 23. apríl 2021. Kvaðst kærandi vera undir settum tekjumörkum og vera búin að sækja um undanþágu. Kærandi var upplýst að engin umsókn hefði borist og þann 21. júlí óskaði hún undanþágu frá afborgun. Segir í erindi kæranda til stjórnar Menntasjóðs að tæknilegir örðugleikar hafi staðið í vegi fyrir því að umsókn hennar á „mínu svæði“ hjá sjóðnum hafi borist. Hafi hún ekki gert sér grein fyrir því. Lýsti kærandi aðstæðum sínum að hún hafi verið í afleysingavinnu og væri um þessar mundir að sækja um vinnu. Þegar hún fengi fastráðningu eða samning væri hægara um vik að skipuleggja afborganir en í núverandi stöðu væri það ómögulegt.

Í ákvörðun stjórnar Menntasjóðs í máli kæranda þann 25. ágúst 2021 segir að frestur til að sækja um undanþágu sé 60 dagar samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) frá gjalddaga afborgunar sem var 1. mars 2021. Umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en 12. maí 2021 eða eftir að umsóknarfrestur var liðinn. Engar upplýsingar liggi fyrir um að aðstæður kæranda hafi verið með því móti að hún hafi verið algjörlega ófær um að sækja um undanþágu innan frestsins. Synjaði stjórn Menntasjóðs því erindi kæranda.

Sjónarmið kæranda

Kærandi segir í kærunni að hún hafi rekið sig á að hún gæti ekki sent inn beiðni um umsókn á „mínum síðum“ hjá Menntasjóði. Hafi hún sent tölvupóst til sjóðsins vegna þessa. Í þrígang hafi hún reynt að sækja um og hafi nú komist að því hvaða tæknileg villa hefði valdið þessu. Telur kærandi að LÍN hafi stofnað nýtt fyrirtæki á nýrri kennitölu sem hafi valdið því að ekki hafi borist greiðsluseðlar til greiðenda sem búsettir væru erlendis. Hún hafi hvorki fengið greiðsluseðil sendan með bréfpósti eða tölvupósti. Þá hafi kerfisvandi valdið því að hún hafi fengið bréf vegna innheimtu frá Debitum sem er innheimtufyrirtæki. Kærandi kveðst ekki vera með íslenskan heimabanka síðan 2015 og ef hún fengi ekki greiðsluseðla senda í pappírsformi eða rafrænt fengi hún ekki þær upplýsingar sem væru nauðsynlegar. Vísar kærandi til dóms sem felldur hafi verið í Danmörku vegna innheimtu LÍN. Samkvæmt honum væri mikilvægt að LÍN/Menntasjóður skoðaði tekjur fólks og tæki mið af þeim. Bendir kærandi einnig á að úrskurður í máli nr. L-10/2001 sýni mikilvægi þess að stjórn Menntasjóðs skoði tekjur greiðenda og taki mið af þeim.

Kærandi tekur fram að tekjur hennar séu nákvæmlega á tekjuviðmiði sjóðsins og vísar í þeim efnum til skattframtals sem hún sendi með kæru sinni. Hefði hún nýverið lokið eins árs afleysingarsamningi og væri að sækja um vinnu í Svíþjóð.

Kærandi telur að ákvörðun stjórnar Menntasjóðs í máli hennar hafi byggt á röngum og ófullnægjandi gögnum. Samkvæmt reglum sjóðsins sé hún undir tekjuviðmiði, samanber innsent skattframtal ársins 2020.

Í athugasemdum kæranda vegna athugasemda Menntasjóðs kveðst kærandi andmæla því að ekki hafi verið um tæknilega örðugleika hafi verið að ræða. Hún hafi sent umsókn sem pdf-skjal bæði á Menntasjóð og á sba@menntasjodur.is. Þá hafi verið erfiðleikar við að senda kæru í gegnum heimasíðu Menntasjóðs.

Þann 5. apríl 2022 sendi málskotsnefnd tölvupóst til kæranda þar sem þess var farið á leit við kæranda að hún upplýsti hvenær hún hafi sent þessa tölvupósta. Hafi þeir verið sendir fyrir mánaðarmótin apríl / maí 2021 var kærandi beðin um að senda afrit þeirra til málskotsnefndar. Engin svör bárust frá kæranda.

Sjónarmið Menntasjóðs.

Í athugasemdum stjórnar Menntasjóðs vegna kærunnar kemur fram að umsókn kæranda um undanþágu frá afborgun á gjalddaga 1. mars 2021 hafi ekki borist fyrr en eftir tilskilinn frest og því hafi umsókn hennar verið hafnað. Skýrt sé samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN að umsókn um undanþágu frá gjalddaga þurfi að berast í síðasta lagi 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og geti stjórn sjóðsins ekki veitt undanþágu frá reglunni nema sýnt sé fram á að kærandi hafi með öllu verið ófær um að sækja um undanþágu innan frestsins eða rekja mætti ástæður þess að umsókn hafi borist seint til mistaka af hálfu starfsmanna sjóðsins. Ekkert slíkt ætti við í tilviki kæranda.

Kærandi hafi byggt á því í kærunni til málskotsnefndar að hún hafi ítrekað reynt að sækja um undanþágu en ekki tekist vegna tæknilegrar villu. Engin gögn séu til um að kærandi hafi skráð sig inn á Mitt lán og byrjað umsókn um undanþágu og því til staðfestingar vísar stjórn Menntasjóðs til útskriftar úr tölvukerfi sjóðsins yfir samskipti kæranda við sjóðinn vegna umsóknar um undanþágu. Í þeirri útskrift kemur fram yfirlit sem sýnir umsóknir um undanþágur og stöðu þeirra á árunum 2019-2021. Engin umsókn sé skráð vegna afborgunar vorið 2021. Tölvupóstur frá kæranda sem hún hafi sent í kjölfar tæknivandamála hafi ekki borist fyrr en 12. maí 2021.

Kveður stjórn Menntasjóðs ákvörðun í máli kæranda vera í samræmi við lög og reglur og fer þess á leit að niðurstaða í máli kæranda verði staðfest.

Niðurstaða

Kærandi í máli þessu sótti um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu sem féll í gjalddaga 1. mars 2021. Kærandi reyndi að komast inn á mínar síður 30. maí 2021 og hefur stjórn Menntasjóðs miðað við að umsókn hennar hafi borist 12. maí 2021, þ.e. 12 dögum eftir að frestur til að sækja um undanþágu rann út. Stjórn Menntasjóðs synjaði beiðni kæranda um undanþágu með vísan til þess að umsókn hennar hafi borist eftir lögbundinn 60 daga frest skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. 

Í 6. og 7. mgr. 8. gr. er fjallað um umsókn um undanþágu með eftirfarandi hætti:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Eins og áður greinir var gjalddagi sá sem kærandi sótti um undanþágu vegna þann 1. mars 2021. Er því ljóst, sbr. og 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að lögbundinn frestur til að sækja um undanþágu rann út 30. apríl 2021. 

Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi Menntasjóðs að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins.

Eins og að framan er rakið hefur kærandi vísað til þess að hún hafi ekki komist inn á „mínar síður“ á heimasíðu Menntasjóðs fyrr en í byrjun júní 2021. Þá hafi hún reitt sig á tilkynningar Menntasjóðs um gjalddaga en þær hafi ekki borist henni.

Í skuldabréfum námslán LÍN eru gjalddagar fastákveðnir og tilgreindir sem 1. mars og 1. september ár hvert. Því mátti kærandi vita að henni hafi borið að greiða á gjalddaga eða sækja um undanþágu ella innan tilskilins frests. Þá eru aðgengilegar nánari upplýsingar um gjalddaga og fresti til að sækja um undanþágu heimasíðu Menntasjóðs og á „mínum síðum.“ Frestur til að sækja um undanþágu rann út 30. apríl. Er kærandi gerði tilraun til að sækja um undanþágu á „mínum síðum“ í lok maí var umsóknarfrestur því þegar liðinn.

Engin gögn liggja fyrir í málinu sem benda til þess að kærandi hafi sent umsókn fyrir tilskilinn frest en málskotsnefnd fór þess sérstaklega á leit við kæranda að hún sendi slík gögn. Að mati málskotsnefndar benda framkomin gögn í málinu ekki til þess að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um undanþáguna fyrir tilskilinn frest. Með vísan til þessa fellst málskotsnefnd á það með stjórn Menntasjóðs að ekkert sé komið fram um að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um undanþágu innan tilskilins 60 daga frests. Er niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar stjórnar Menntasjóðs frá 25. ágúst 2021 í máli kæranda því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 25. ágúst 2021 í máli kæranda er staðfest.

 

 

Til baka