Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-17/2022 - Höfnun á beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs.

                                                               ÚRSKURÐUR

Ár 2022, þriðjudaginn 17. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. M-17/2022.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 25. nóvember 2022 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna frá 25. ágúst 2022 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. nóvember 2022 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var s

ent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs voru settar fram í bréfi dagsettu 21. janúar 2022 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar meistaranám við Háskólann í Reykjavík. Í júní 2021 fékk kærandi kröfu frá Menntasjóði í heimabanka sinn með gjalddaga 30. júní 2021. Um var að ræða innheimtu skuldabréfs vegna námsláns. Hafði Menntasjóður lokað skuldabréfi kæranda frá 2019 og hafið innheimtu námslánaskuldar hans. Í svari Menntasjóðs við fyrirspurn kæranda var upplýst að honum hafi verið sendur tölvupóstur um fyrirhugaða lokun í ágúst 2020 og í júní 2021. Að sögn kæranda hafði hvorugur tölvupóstanna borist honum. Kærandi sendi erindi til stjórnar Menntasjóðs þann 5. júlí 2021 þar sem hann óskaði eftir frestun á lokun skuldabréfsins. Stjórn Menntasjóðs synjaði erindi kæranda þann 25. ágúst 2021.

Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kærunni að kærandi hafi lokið BS-námi vorið 2021 og hafi byrjað meistaranám um haustið 2021. Kærandi kveðst uppfylla öll skilyrði til að mega halda skuldabréfinu opnu. Honum hafi ekki borist umræddir tölvupóstar frá Menntasjóði. Óumdeilt sé af beggja hálfu, kæranda og Menntasjóðs, að kærandi hafi notað tiltekið tölvupóstfang í samskiptum sínum við sjóðinn.

Kærandi kveðst hafa gripið til aðgerða tafarlaust er hann sá kröfu Menntasjóðs í heimabanka sínum. Hann hafi reynt allt sem í hans valdi stóð til að lagfæra það sem hafi farið úrskeiðis, m.a. sent Menntasjóði beiðni um að mega halda bréfinu opnu, ásamt vottorðum frá Háskólanum í Reykjavík um námsframvindu og yfirstandandi nám. Einu svörin sem hafi fengist hafi verið að málið yrði tekið fyrir á stjórnafundi og að kærandi gæti sótt um frest á gjalddaga vegna náms til að fresta greiðslum tímabundið. Stjórn Menntasjóðs hafi synjað beiðni kæranda á þeim grundvelli að honum hefðu verið sendir umræddir tölvupóstar um lokun skuldabréfsins og að hann hefði ekki óskað eftir að halda bréfinu opnu innan tilskilins frests. Einnig hafi í synjunarbréfinu verið tíunduð dæmi um notkun kæranda á tölvupóstfangi hans í fyrri samskiptum hans við sjóðinn líkt og hann væri að reyna að víkja sér undan því að hafa umrætt póstfang, sem sé ekki rétt.

Kærandi tekur fram að erfitt hafi reynst að senda sjóðnum gögn eftir að byrjað hafi verið á innheimtu skuldabréfsins. Hafi hann sett beiðni og tilskilin gögn inn á „mínar síður“ en engar staðfestingar hafi borist í tölvupóst/innhólf kæranda þrátt fyrir að hann endurtæki sendingarnar nokkrum sinnum. Hafi hann þurft að fylgja sendingunum eftir símleiðis.

Kærandi kveður móður sína hafa haft samband við Menntasjóð þann 16. ágúst 2021 vegna málsins. Starfsmaður sjóðsins hafi upplýst hana um að tiltölulega algengt væri að tölvupóstar frá Menntasjóði færu rakleiðis í ruslpóst námsmanna, nema námsmenn færu sérstaklega í póstkerfi sitt og merktu við að „no-reply-póstar“ ættu að fara í innhólf. Samkvæmt þessu hefði tölvupóstur sem Menntasjóður sendi kæranda þá a.m.k. átt að vera í ruslpósti þegar hann hafi séð kröfuna í heimabankanum, en svo hafi hins vegar ekki verið raunin. Það sama gildi um fyrrgreinda staðfestingarpósta frá mínum síðum Menntasjóðs sem ekki hafi borist kæranda.

Í svörum sjóðsins til kæranda hafi komið fram að ekkert athugavert hafi fundist við tölvukerfi sjóðsins. Kærandi telur þessi svör ekki fullnægjandi enda bilanaleit í tengingum ekki lýst. Þá geti tölvukerfi opinberra stofnana virkað mismunandi. Bendir kærandi á tilkynningu á Facebook síðu Menntasjóðs frá 26. ágúst 2021 þar sem því sé lýst að truflanir hafi verið í tengingu hjá sjóðnum og viðskiptavinir beðnir að staðfesta netfang sitt.

Kærandi tekur fram að ekkert athugavert hafi fundist við póstkerfistengingar hans en hann hafi falið sérfróðum aðilum að skoða tölvupóstinn í ljósi þessara atvika. Allir póstar hafi borist honum eðlilega nema frá Menntasjóði. Kærandi kveðst ekki hafa haft neina ástæðu til að vanrækja að bregðast við tölvupóstum frá Menntasjóði enda alltaf ætlað sér að fara í áframhaldandi nám sem hann stundi nú. Er honum hafi verið ljóst hvað hafi átt sér stað hafi hann komið tilskildum gögnum til sjóðsins. Að mati kæranda sýni allar athafnir hans að umræddir póstar hafi ekki borist honum og að honum hafi ekki verið kunnugt um lokun skuldabréfsins.

Kærandi tekur fram að Menntasjóði sem stofnun innan stjórnsýslunnar beri að haga bréfasendingum sínum með öruggum og sannanlegum hætti enda geti ákvarðanir í tilteknum tilvikum haft veruleg og íþyngjandi áhrif á lántaka. Í þessu tilviki ungan mann sem stundi enn nám sem sé af þeim sökum ekki kleift að hefja endurgreiðslur. Nauðsynlegt hefði verið að sjóðurinn sæi til þess að tilkynningin kæmist til skila með sannanlegum hætti, s.s. með móttökustaðfestingu og/eða ábyrgðarpósti enda ekki um einfalda tilkynningu að ráða. Vanræksla eigi ekki að koma niður á kæranda. Það sé á ábyrgð Menntasjóðs að vara nemendur við fyrrgreindum ágalla, þ.e. að tölvupóstur frá sjóðnum geti lent í ruslpósti og ganga úr skugga um að tilkynning berist með ótvíræðum hætti. Að öðrum kosti að ráða bót á gæðum tölvupóstsendinga sinna tafarlaust og uppræta vandamálið.

Með ákvörðun sinni hafi Menntasjóður fyrirgert tækifæri námsmanns í yfirstandandi námi til að hafa áhrif á lokun skuldabréfs síns. Stjórn sjóðsins hafi synjað beiðni kæranda án þess að taka beiðni hans til efnislegrar meðferðar. Að mati kæranda sé ekki nægjanlegt að vísa til þess að kæranda hafi borið að kynna sér reglur sjóðsins, enda um íþyngjandi og veigamikla ákvörðun að ræða. Kærandi telji kröfur sínar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé lögð áhersla á að um sé að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og af þeim sökum mikilvægt að mál sé rannsakað nægjanlega og upplýst áður en ákvörðun er tekin. Eðlilegt sé að leggja þá ábyrgð á Menntasjóð að fyrir liggi staðfesting á því að ákvörðunin hafi komist til vitundar viðkomandi lántaka áður en gripið sé til svona íþyngjandi ákvörðunar. Vísar kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Sjónarmið Menntasjóðs

Í athugasemdum Menntasjóðs kemur fram að kærandi hafi síðast fengið námslán á haustönn 2018. Eftir þann tíma hafi hann hvorki sótt um námslán né tilkynnt til sjóðsins að hann væri enn í námi fyrr en hann sendi tölvupóst þann 1. júlí 2021 þar sem hann hafi upplýst um að hann væri að ljúka Bsc. námi og hafi séð kröfu í heimabanka. Kærandi hafi sent erindi til stjórnar Menntasjóðs þann 5. júlí 2021 þar sem hann hafi óskað eftir frestun á lokun skuldabréfsins. Stjórn sjóðsins hafi synjað erindi kæranda þar sem umsókn hans hafi borist eftir að umsóknafrestur var liðinn. Vísað hafi verið til þess að lokun skuldabréfsins hafi verið í samræmi við lög og reglur sjóðsins og að ekkert í erindi kæranda hafi gefið til kynna að hann hafi verið með öllu ófær um að sækja um fyrir lok umsóknarfrestsins.

Námslán kæranda hafi verið tekin í gildistíð eldri laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í 4. mgr. 7. gr. laganna segi að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok. Þá komi fram að sjóðsstjórn skilgreini hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum og úrskurði um vafatilfelli. Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segi að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní, tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestist fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Þá komi fram í stöðluðum skilmálum skuldabréfa LÍN að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins ákveði hvað teljist námslok í því sambandi.

Þá vísar stjórn Menntasjóðs í nýjustu úthlutunarreglurnar sem byggi á lögum nr. 21/1992, vegna námsársins 2019-2020 þar sem nánar sé fjallað um lokun skuldabréfs. Í 1. mgr. greinar 7.1 komi fram eftirfarandi:

Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Á það jafnt við um námsmenn sem ljúka námi og námsmenn sem hverfa frá námi án þess að ljúka því. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Um frestun á lokun skuldabréf sé síðan fjallað í grein 7.2 í úthlutunarreglunum og segi þar eftirfarandi um hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla svo unnt sé að fallast á frestun á lokun skuldabréfs:

Tilkynni námsmaður að hann hafi tekið sér námshlé sem er ekki lengra en eitt ár, er heimilt að fresta frágangi á skuldabréfi ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á fyrstu önn eftir námshlé. Síðasti dagur til þess að sækja um frestunina er til og með 15. nóvember 2019 ef námsmaður lauk lánshæfum námsárangri á námsárinu 2018-2019 eða er skráður í lánshæft nám á haustönn 2019, sbr. gr. 2.2 um lánshæfar einingar.

Eins og fram komi í reglunum sé skuldabréfi námsmanns lokað þegar námsmaður hætti að þiggja lán og almennt sé miðað við lok síðasta aðstoðartímabils sem „námslok.“ Bendir stjórnin á að kærandi hafi ekki byggt á því að hann hafi með einhverju móti reynt að sækja um frestun á lokun skuldabréfs innan umsóknarfrestsins og þannig uppfyllt skilyrði laga nr. 21/1992 og/eða úthlutnarreglnanna. Komi beinlínis fram í kæru hans til málskotsnefndar að hann hafi fyrst aðhafst varðandi frestun á lokun skuldabréfs eftir að hann fékk kröfu í heimabanka sinn, þ.e. átta mánuðum eftir að umsóknarfrestur var liðinn.

Snúi kæran til málskotsnefndar að miklu leyti um þá staðhæfingu kæranda að tilkynning um fyrirhugaða lokun á skuldabréfinu hafi ekki borist á netfang hans. Eins og fram hafi komið í ákvörðun stjórnar í máli kæranda væri tölvupóstur sjóðsins til hans skráður í kerfum sjóðsins eins og hann hafi borist á póstfang kæranda og geti tölvudeild sjóðsins ekki séð að kerfisvilla gæti hafa valdið því að pósturinn hafi ekki borist honum. Til nánari skýringa þá hafi sjóðurinn ekki fengið póst kæranda endursendan (e. bounce back) eins og almennt gerðist þegar tölvupóstar berist ekki til viðtakanda. Þá hafi verið kannað hvort þær 811 tilkynningar um fyrirhugaða lokun skuldabréfa sem sendar hafi verið út á sama tíma og tilkynning kæranda hafi lent á villu eða ekki borist viðtakanda en engar vísbendingar hafi fundist um það. Þær truflanir sem kærandi vísi til í kæru sinni sem snúi að staðfestingu netfanga við innskráningu á heimasvæði viðskiptavina í ágúst 2021 séu með öllu ótengdar útsendingarkerfi sjóðsins. Ekkert í gögnum og/eða upplýsingum málsins gefi það til kynna að ágalli hafi verið við útsendingu tilkynningar til kæranda. Þvert á móti sé ekki annað að sjá en að vandað verklag hafi verið viðhaft við útsendingu umræddrar tilkynningar.

Stjórn Menntasjóðs bendir á skilmála þess skuldabréfs er kærandi hafi undirritað þar sem skýrt sé tekið fram að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins ákveði hvað teljist námslok. Lög, reglugerðir og aðrar reglur sem sjóðurinn starfi eftir séu jafnframt skýrar um þá fresti sem gildi um lokun skuldabréfa. Þá sé að finna upplýsingar um námslok og lokun skuldabréfa á heimasíðu sjóðsins. Sé sjóðurinn og stjórn hans bundinn af þeim reglum sem um hann gildi og hafi einungis heimild til að fresta lokun skuldabréfa hjá þeim lánþegum sem sérstaklega sæki um frestun fyrir tilskilinn tímamörk.

Telji stjórn Menntasjóðs að ekkert í málatilbúnaði kæranda leiði til þess að hægt sé að fallast á að afsakanlegar ástæður séu fyrir því að umsókn kæranda um frestun á lokun skuldabréfs hafi borist u.þ.b. níu mánuðum eftir umsóknarfrestinn og að víkja eigi frá umsóknarfrestum sjóðsins um frestun á lokun skuldabréfs kæranda. Vísað sé til úrskurðar málskotsnefndar í máli nr. L-12/2015 sem sé sambærilegt þessu máli í öllum helstu aðalatriðum er máli skipti. Þá vilji stjórn sjóðsins benda á að þrátt fyrir að skuldabréfi kæranda hafi verið lokað hafi hann möguleika á að óska eftir undanþágu á meðan hann stundi nám. Sé niðurstaða stjórnar í máli kæranda í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs og málskotsnefndar. Fer stjórn Menntasjóð fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hvaða kröfur megi gera til Menntasjóðs um tilkynningar til lánþega og hvenær tilkynning um fyrirhugaða lokun skuldabréfs teljist komin til viðtakanda. Kærandi er lántaki hjá LÍN og lauk BS-námi vorið 2021 og hóf meistaranám um haustið 2021. Kærandi fékk síðast námslán á haustönn 2018. Eftir þann tíma sótti hann hvorki um námslán né tilkynnti sjóðnum um að hann væri enn í námi. Í gögnum frá Menntasjóði kemur fram að sendar hafi verið úr kerfum sjóðsins tvær tilkynningar til kæranda á tölvupóstfang það sem hann hefur skráð hjá sjóðinum. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið tilkynningarnar.

Um námslok, lokun skuldabréfa og málsmeðferð við lokun skuldabréfa er fjallað um í lögum um LÍN og úthlutunarreglum hvers námsárs. Í 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestist fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Í skuldabréfi því sem kærandi undirritaði vegna námslánsins segir: „Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Stjórn sjóðsins ákveður hvað teljist námslok í þessu sambandi.“ Þá segir í niðurlagi í meginmáli skuldabréfsins að öðru leyti gildi „um skuldabréf þetta ákvæði laga nr. 21/1992 með áorðnum breytingum.“

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2018-2019, sem er síðasta námsárið sem kærandi þáði aðstoð sjóðsins, segir í 1. mgr. greinar 7.1 um frágang á skuldabréfi:

Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Á það jafnt við um námsmenn sem ljúka námi og námsmenn sem hverfa frá námi án þess að ljúka því. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna.

Í 4. mgr. 7. greinar segir eftirfarandi um endurgreiðslu:

Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir lokun skuldabréfs. Ljúki námsmaður námi á haust- eða vormisseri, miðast námslokin við 29. júní og fyrsti afborgunardagur er 30. júní tveimur árum síðar. Ef námslok eru á sumarönn sem nær fram yfir 1. júlí, miðast námslokin við 31. ágúst og fyrsti afborgunardagur er 1. mars tveimur og hálfu ári síðar. Ef námsmaður er byrjaður að greiða af eldri námslánum og hefur nám að nýju er ekki veitt aftur hlé frá endurgreiðslum fyrri lána.

Kærandi þáði síðast námslán á haustmisseri 2018. Samkvæmt framansögðu skulu námslok hans því miðast við 29. júní 2019 og endurgreiðslur hefjast 30. júní tveimur árum síðar, þ.e. á árinu 2021.

Í gögnum málsins er afrit að tölvupósti sem Menntasjóður ber að hafi verið sendur til kæranda þann 19. ágúst 2020 um fyrirhugaða lokun skuldabréfs vegna námsláns hans. Í framhaldi af því skyldu endurgreiðslur hefjast 30. júní 2021. Í umræddum tölvupósti kom fram að kæranda væri heimilt til 15. október 2020 að sækja um frestun á umræddri lokun ef hann stundaði lánshæft nám.. Einnig liggur fyrir í málinu afrit af tölvupósti Menntasjóðs til kæranda dagsettum 1. júní 2021 þar sem kærandi er upplýstur um að lokun skuldabréfsins sé hafin. Kærandi kveðst hvorugan tölvupóstinn hafa fengið.

Með tölvupóstinum þann 19. ágúst 2020 var send tilkynning til kæranda um þá afstöðu LÍN að miða bæri námslok hans við tiltekna dagsetningu, enda er dagsetning fyrsta gjalddaga námsláns ekki ákveðin þegar námsmaður þiggur lán. Málskotsnefnd telur mikilvægt að rétt sé staðið að þeim tilkynningum sem sendar eru námsmönnum í því skyni að fastsetja þessar dagsetningar bæði með tilliti til hagsmuna námsmanna, ábyrgðarmanna námslána og hagsmuna LÍN, m.a. með tilliti til innheimtu námslána og fyrningarreglna. Þannig hvílir skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að viðhaft sé vandað verklag við útsendingu bréfa er máli skipta við undirbúning stjórnvaldsákvarðana. Sönnunarbyrði hvílir jafnan á stjórnvöldum um að bréf sem þau fullyrða að hafi verið sent hafi borist málsaðila.

Í þessu sambandi hefur verið talið að þessari sönnunarbyrði sé almennt aflétt með því að stjórnvald hafi viðhaft fullnægjandi verklag við útsendingu erindis, sbr. úrskurð málskotsnefndar um málsmeðferð í máli L-3/2014. Í þessu sambandi bendir málskotsnefnd einnig á lokabréf umboðsmanns Alþingis í máli 10918/2021. Í því máli kom fram sú afstaða umboðsmanns að hafi opinber stofnun komið upplýsingum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafði tiltekið við hlutaðeigandi, teldust þær upplýsingar eða boð hafa borist með sannanlegum hætti.

Um árabil hefur verið sá háttur á hjá LÍN og síðar Menntasjóði að afgreiðsla námslána sé með rafrænum hætti. Námsárið 2018-2019 sóttu námsmenn um námslán rafrænt í gegnum „Mitt LÍN“, sbr. grein 5.1 í úthlutunarreglunum fyrir það námsár. Námsmenn láta auk þess sjóðnum í té tölvupóstfang sem sjóðurinn notar í samskiptum sínum við þá. Er einnig ítrekað í lokamálslið greinar 7.1 úthlutunarreglnanna um frágang skuldabréfs að upplýsingar sendar í tölvupósti á netfang sem námsmaður hefur látið sjóðnum í té teljist sendar á fullnægjandi hátt.

Menntasjóður hefur gert grein fyrir því að við athugun á því hvernig staðið hafi verið að útsendingu umræddra tölvupósta til kæranda hafi ekki komið í ljós neinir tæknilegir vankantar á framkvæmd. Þá hafi athugun ekki leitt í ljós að neinn þeirra 811 tölvupósta sem sendir hafi verið með tilkynningu um námslok um leið og tölvupósturinn til kæranda hafi misfarist. Engin gögn liggja fyrir í málinu frá kæranda um að tölvupóstur til hans hafi misfarist með einhverjum hætti. Samkvæmt framansögðu liggja engin gögn fyrir í málinu um að sökum tæknilegra vandamála eða annarra hindrana hafi tölvupóstur LÍN ekki borist kæranda. Verður því að byggja á því í máli þessu að umræddur tölvupóstur dagsettur 19. ágúst 2020 hafi borist kæranda með sannanlegum hætti. 

Er það niðurstaða málskotsnefndar í þessu máli að leggja verði til grundvallar að kæranda hafi verið tilkynnt með fullnægjandi hætti um fyrirhugaða lokun skuldabréfs og er hin kærða ákvörðun stjórnar Menntasjóðs því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hin kærða ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 25. ágúst 2021 í máli kæranda er staðfest.

                                   

Til baka