Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

M-18/2021 - Synjun beiðni um niðurfellingu ábyrgðar á námsláni.

ÚRSKURÐUR

Ár 2022, þriðjdaginn 17. maí kvað málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu M-18/2021.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 16. desember 2021 sem barst málskotsnefnd 20. sama mánaðar kærði kærandi ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna frá 22. september 2021 þar sem synjað var beiðni hans um niðurfellingu ábyrgðar hans á námsláni skuldara hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Stjórn Menntasjóðs var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar Menntasjóðs voru settar fram í bréfi dagsettu 21. janúar 2022 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 17. mars 2022 óskaði málskotsnefnd eftir afriti frá Menntasjóði af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli kæranda og barst umrætt skjal samdægurs. Málskotsnefnd óskaði síðan frekari gagna frá Menntasjóði um ábyrgðarskuldbindingar kæranda gagnvart LÍN og bárust þau gögn þann 12. apríl og 10. maí 2022.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi var ásamt móður sinni og þriðja aðila ábyrgðarmaður á námslánum systur kæranda sem tekin voru á árunum 1989 til 1992, nefnd S-9000 í kerfi LÍN, en S-lán eru námslán sem tekin voru í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsaðstoð. Um er ræða innheimtu skuldar samkvæmt tólf skuldabréfum T-lána hjá LÍN á árunum 1989-1992. Kærandi var upphaflega ábyrgðarmaður á fjórum skuldabréfum og móðir hans á sjö skuldabréfum. Þriðji aðili bar ábyrgð á einu skuldabréfi. Um var að ræða verðtryggð lán og skyldu endurgreiðslur standa yfir þar til skuldin væri uppgreidd eða þar til lánþegi hefði greitt af láninu í 40 ár. Er kom að endurgreiðslu voru námslánin uppreiknuð og fjárhæð þeirra færð í innheimtukerfi lánasjóðsins og sameinuð undir lánsnúmerinu S-9000.

Skuldari námslánanna var úrskurðuð gjaldþrota þann 14. apríl 2008 og í kjölfarið var kæranda ásamt öðrum ábyrgðarmönnum stefnt til greiðslu skuldarinnar. Þann 14. desember 2009 var stefna LÍN árituð um greiðsluskyldu kæranda vegna 787.851,- króna ábyrgðarskuldbindingar ásamt dráttarvöxtum, og annarra ábyrgðarmanna, m.a. móður kæranda, vegna 2.675.460,- króna ábyrgðarskuldbindingar ásamt dráttarvöxtum, þann 14. desember 2009. Krafa LÍN á hendur upphaflegum skuldara, systur kæranda, fyrndist hins vegar þann 29. desember 2010.

Móðir kæranda lést á árinu 2014 og fékk kærandi ásamt öðrum erfingjum leyfi til einkaskipta á búi hennar. Í kjölfarið var innheimtu vegna upphaflegrar ábyrgðar móður kæranda á skuldabréfum hjá LÍN beint að kæranda og öðrum erfingjum sem tóku við skuldbindingum dánarbúsins. Þann 15. nóvember 2019 var árangurslaust fjárnám gert hjá kæranda vegna dómkröfu LÍN á hendur honum að fjárhæð 787.851,- króna og vegna dómkröfu að fjárhæð 2.675.460,- krónur en síðarnefnda krafan er dómkrafa vegna ábyrgðarskuldbindingar móður kæranda. Áður en fjárnámið var til lykta leitt hafði Héraðsdómur Reykjavíkur, sbr. úrskurð í máli gegn kæranda þann 20. desember 2017, úrskurðað að fyrning hefði verið rofin með áritun héraðsdóms á stefnu LÍN á hendur kæranda þann 14. desember 2009 og að þá hefði nýr 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda byrjað að líða.

Kærandi sem er öryrki fór þess á leit við Menntasjóð þann 30. ágúst 2021 að honum yrði gert kleift að greiða skuldina í samræmi við stöðu sína og tekjur eða að öðrum kosti yrði ábyrgðin felld niður. Í erindi sínu lýsti kærandi því að er móðir hans lést á árinu 2014 hafi hann ákveðið að taka ábyrgð á dánarbúi hennar þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar að lánin væru fyrnd gagnvart skuldara og ábyrgðarmönnum. Nokkrum mánuðum síðar hafi innheimtuaðgerðir LÍN hafist á ný af fullum krafti. Í kjölfarið hafi kærandi óskað upplýsinga frá lögmannsstofunni Gjaldskil um útsend innheimtubréf, greiðslukröfur og upplýsingar um ábyrgðir sem sendar hafi verið móður hans. Hafi honum borist slíkar upplýsingar en engar sambærilegar hafi verið sendar honum sem ábyrgðarmanni. Kærandi kveður þó að samkvæmt gögnunum hafi engar tilkynningar verið sendar móður hans sem ábyrgðarmanni á árunum 2008-2012. Samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 hafi LÍN borið að senda slíkar tilkynningar til ábyrgðarmanna og upplýsa þá um stöðu þeirra lána sem þeir væru í ábyrgð fyrir. Vísaði kærandi til þess að samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn skuli ábyrgð falla niður ef vanræksla er veruleg. Telur kærandi þetta ámælisverð vinnubrögð.

Kröfueigandi hafi hafnað ábendingu hans um aðför í fasteign í málinu og þess í stað gert árangurslaust fjárnám. Skuld kæranda sem hafi upphaflega verið rúmar 2 milljónir króna sé nú komin upp í rúmar 14 milljónir króna. Staða kæranda sé því þannig að á honum hvíli ábyrgð sem honum hafi verið sagt af kröfueiganda að væri fyrnd eða afskrifuð. Vegna veikinda hafi kærandi enga möguleika á að auka tekjur sínar til að greiða skuldina og þó hann næði heilsu myndi honum varla endast ævin til þess.

Stjórn Menntasjóðs synjaði beiðni kæranda þann 22. september 2021 og var niðurstaðan tilkynnt honum með bréfi dagsettu 27. september 2021.

Sjónarmið kæranda   

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi ásamt móður sinni og þriðja aðila gengist í ábyrgð á námslánum systur sinnar. Um væri að ræða S-lán og vísar kærandi til þess að um slík lán gildi lög nr. 21/1992 um námslán og námsstyrki. Vísar kærandi til dóms Hæstaréttar nr. 622/2011 þar sem V hafi verið sýknaður af kröfu LÍN um að felldur yrði úr gildi úrskurður málskotsnefndar LÍN sem hafði kveðið á um að úrskurður stjórnar LÍN væri felldur úr gildi og ábyrgð kæranda væri fallin niður. Hafi niðurstaða Hæstaréttar verið að skýra bæri ákvæði þágildandi laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki þannig að ábyrgð ábyrgðarmanns gæti ekki staðið lengur en 20 ár.

Með lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki hafi umræddu ákvæði laganna verið breytt þannig að í stað 20 ára endurgreiðslutíma hafi komið 40 ára endurgreiðslutími. Síðan hafi ákvæði þetta verið sett aftur í lög nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna og tengt aldri og upphæðum þannig að hámarksendurgreiðslutími skuli vera 25 ár. Telur kærandi fullt tilefni til að efast um að vilji löggjafans standi til þess að ábyrgðarmenn námslána verði eltir út yfir gröf og dauða og krafðir um greiðslu slíkra skuldbindinga, slíkt sé bersýnilega ósanngjarnt og siðlaust. Til stuðnings þessu vísar kærandi til 5. mgr. 20. gr. laga um Menntasjóð þar sem fram komi að sjóðsstjórn hafi heimildir til að afskrifa höfuðstól lánþega að hluta eða öllu leyti. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt bráðabirgðaákvæði II, hafi löggjafinn ákveðið að við gildistöku laga um Menntasjóðs yrðu felldar úr gildi ábyrgðir námslána sem væru í skilum. Efast kærandi um gildi slíkrar ívilnunar með tilliti til jafnræðisreglu 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 sem finna megi í 65. gr. hennar.

Kærandi kveðst vera öryrki og miðað við stöðu hans og framtíðarhorfur sé honum ómögulegt að greiða þá ábyrgðarskuldbindingu sem Menntasjóður hafi krafið hann um, bæði vegna persónulegrar ábyrgðar hans og afleiddrar ábyrgðar kæranda vegna dánarbús móður hans. Telur kærandi beinlínis ósanngjarnt að krefja hann um greiðslu vegna 27 ára gamallar ábyrgðarskuldbindingar. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar Menntasjóðs verði felld úr gildi og ábyrgðarskuldbindingin sömuleiðis en til vara að stjórn Menntasjóðs verði falið að bjóða kæranda raunhæft samkomulag með tilliti til greiðslugetu hans.

Sjónarmið Menntasjóðs

Í athugasemdum stjórnar Menntasjóðs er vísað til þess að skuldari hafi verið úrskurðuð gjaldþrota á árinu 2008 og kæranda stefnt til greiðslu skuldarinnar í kjölfarið. Stefna í máli gegn kæranda hafi verið árituð 14. desember 2009 og árangurslaust fjárnám gert hjá honum í þann 15. nóvember 2019. Stefna um greiðsluskyldu kæranda hafi verið árituð þann 14. desember 2009 og hafi árangurslaust fjárnám hjá kæranda á grundvelli kröfunnar þann 15. nóvember 2019.

Kærandi hafi undirritað ábyrgðarskuldbindinguna í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og gildi þau því um ábyrgðarskuldbindingu hans á námsláni nr. S-9000, sbr. m.a. úrskurð málskotsnefndar í máli L-2/2018. Í þeim lögum komi fram að eina heimild sjóðsins til að fella niður ábyrgð sé ef námsmaður setji aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Sama regla gildi enn með þeirri undantekningu sem kveðið sé á um í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 60/2020 um Menntasjóð. Þar komi fram að ábyrgð ábyrgðarmanna á námslánum teknum í gildistíð eldri laga skuli falla niður við gildistöku laganna ef lánþegi var þá í skilum við LÍN. Óumdeilt sé að námslán það sem kærandi tók ábyrgð á var ekki í skilum á þeim degi sem lögin tóku gildi. Geti ákvæðið því ekki átt við um kæranda.

Stjórn Menntasjóðs hafi engar heimildir að lögum til að fella niður ábyrgð kæranda á skuldabréfi að námsláni nr. S-9000 nema önnur ábyrgð komi í staðinn. Þyki einnig rétt að árétta að dómstólar hafi ítrekað staðfest greiðsluskyldu kæranda vegna ábyrgðarskuldbindingarinnar og verði ábyrgðarskuldbinding hans á umræddu námsláni því að teljast óumdeilanleg. Niðurstaða stjórnar Menntasjóðs sé því í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar Menntasjóðs námsmanna og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Kærandi hefur kært ákvörðun stjórnar Menntasjóðs frá 22. september 2021 um að synja niðurfellingu ábyrgðar hans á námsláni nr. S-9000. Í erindi sínu til Menntasjóðs óskaði kærandi einnig eftir því að honum yrði boðið raunhæft samkomulag með tilliti til greiðslugetu hans.

Námslán það sem kærandi tókst á hendur ábyrgð á var tekið í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Kærandi var upphaflega ábyrgðarmaður á fjórum skuldabréfum lántaka hjá LÍN sem útgefin voru 1989 og 1990 og móðir hans á sjö skuldabréfum útgefnum 1990-1992. Þriðji aðili bar ábyrgð á einu skuldabréfi. Er endurgreiðsla hófst við námslok lántaka voru skuldabréfin sameinuð undir lánsnúmerinu S-9000 í kerfi LÍN. Í kjölfar gjaldþrots skuldara og andláts móður kæranda hvílir greiðsluskylda á kæranda ekki aðeins vegna upphaflegrar ábyrgðarskuldbindingar hans heldur einnig þeirrar ábyrgðar er móður hans tókst upphaflega á hendur. Fyrningu kröfunnar var slitið með áritun héraðsdóms á stefnu í máli kæranda þann 14. desember 2009 og hófst þá 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt 4., sbr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sbr. úrskurð héraðsdóms í máli gegn kæranda. Árangurslaust fjárnám var gert hjá kæranda vegna framangreindra skulda þann 15. nóvember 2019.

Í erindi sínu til Menntasjóðs kveður kærandi LÍN hafa vanrækt að senda tilkynningar samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 til sín og móður sinnar á árunum 2008-2012. Ekki er tekið á þessu atriði í rökstuðningi stjórnar í hinni kærðu ákvörðun. Telur málskotsnefnd rétt að skoða hvort um rætt atriði kunni að skipta máli við meðferð máls kæranda.

Lög um um ábyrgðarmenn tóku gildi 4. apríl 2009. Ákvæði þeirra um upplýsingaskyldu lánveitanda eiga að gera ábyrgðarmönnum kleift að fylgjast með stöðu ábyrgðar sinnar, upplýsa ábyrgðarmenn um vanefndir skuldara og gefa þeim kost á að halda skuld í skilum þegar skuldari vanefndir og koma þannig í veg fyrir að skuldin verði gjaldfelld. Í þessu máli liggur fyrir að skuldabréf lántaka hafði fallið í gjalddaga og ábyrgð kæranda og annarra ábyrgðarmanna var orðin virk áður en umrædd lög tóku gildi. Eftir áritun héraðsdómara á stefnu LÍN gegn kæranda og öðrum ábyrgðarmönnum í lok árs 2009 báru ábyrgðarmennirnir ásamt skuldara beina ábyrgð á greiðslu dómkröfu LÍN á hendur þeim. Höfðu kærandi og móðir hans því ekki lengur stöðu ábyrgðarmanna heldur töldust skuldarar að dómkröfu LÍN á hendur þeim. Verður ekki séð í ljósi atvika þessa máls að skortur á tilkynningum LÍN til kæranda eða móður hans hafi verið til þess fallinn að hafa slík neikvæð áhrif sem umrædd ákvæði laga um ábyrgðarmenn er ætlað að koma í veg fyrir. Skaðinn var skeður við gjaldfellingu lánsins fyrir gildistöku laganna. Skortur á tilkynningu til kæranda eða móður hans samkvæmt fyrrgreindum lögum getur því ekki haft áhrif á gildi kröfu LÍN gagnvart kæranda.

Í kæru sinni til málskotsnefndar hefur kærandi vísað til nýrra laga um Menntasjóð og niðurfellingu ábyrgða samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða sem kærandi efast um að standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ljóst er að umrætt ákvæði á ekki við í tilviki kæranda þar sem það á einungis við um ábyrgðir á námslánum sem voru í skilum við gildistöku laganna. Eru undirliggjandi rök fyrir niðurfellingu ábyrgðanna í hinum nýju lögum þau að lántaki muni áfram greiða af láninum. Sú staða er ekki fyrir hendi í tilviki kæranda. Hann er skuldari samkvæmt dómkröfu og krafan var gjaldfelld sökum vanskila. Kærandi er þ.a.l. ekki í sömu stöðu og ábyrgðarmenn á námslánum sem voru í skilum við gildistöku laga nr. 60/2020. Er því ekki fallist á að brotin sé jafnræðisregla í tilviki kæranda. Verður skuld hans við LÍN ekki felld niður sökum þessa.

Bent er á að umboðsmaður Alþingis hefur nýlega fjallað um sambærilega kröfu um niðurfellingu ábyrgðar á námsláni í máli nr. 11431/2021. Í því máli hafði upphaflegur skuldari orðið gjaldþrota á árinu 2011 og ábyrgðin fallið á kæranda sem var ábyrgðarmaður. Benti umboðsmaður á að við gildistöku nýrra laga um Menntasjóð hefði kærandi ekki lengur verið ábyrgðarmaður, heldur skuldari samkvæmt skuldabréfi sem hann gaf út vegna þeirra skuldbindinga sem höfðu fallið á hann við gjaldþrotið. Taldi umboðsmaður að aðstæður kæranda við gildistöku hinna nýju laga hafi því verið efnislega ólíkar aðstæðum þeirra ábyrgðarmanna sem ákvæðið snerti. Sjónarmið um jafnræði hefðu því ekki áhrif á niðurstöðu málsins. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu málskotsnefndar Menntasjóðs sem hafði staðfest ákvörðun stjórnar Menntasjóðs um að synja niðurfellingu ábyrgðarinnar.

Kærandi hefur vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 622/2011 þar sem ábyrgð V á námsláni var felld úr gildi sökum þess að 20 ár voru liðin frá fyrsta gjalddaga lánsins og gæti ábyrgð hans ekki varað lengur samkvæmt lögum nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki óháð því hvort lánataki fengi undanþágur eða frestun á greiðslu þess. Um var að ræða virka ábyrgð V á námsláni sem ekki hafði verið gjaldfellt. Kærandi er ekki í sömu stöðu. Ábyrgð vegna námsláns lántaka féll á kæranda við gjaldþrotaskipti á búi lántaka á árinu 2008. Í kjölfarið var kærandi dæmdur til að borga ábyrgðarkröfu LÍN og ber hann því beina ábyrgð gagnvart LÍN á greiðslu dómkröfunnar. Ljóst er að fordæmi umrædds dóms Hæstaréttar getur ekki átt við kröfu LÍN á hendur kæranda sem ekki hefur lengur stöðu ábyrgðarmanns, auk þess sem dómurinn á við um ábyrgðir samkvæmt lögum nr. 57/1976, sem höfðu 20 ára gildistíma.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málskotsnefndar Menntasjóðs að í lögum og reglum sem gilda um starfsemi LÍN sé ekki að finna heimild til þess að fella niður sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanns, án þess að annar ábyrgðarmaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn.

Varakrafa kæranda er að stjórn Menntasjóðs verði falið að bjóða honum raunhæft samkomulag með tilliti til greiðslugetu hans. Í erindi sínu til Menntasjóðs óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort sjóðurinn gæti á einhvern hátt gert honum kleift að greiða skuldina miðað við stöðu hans. Í ákvörðun stjórnar Menntasjóðs er kæranda bent á að hafa samband við löginnheimtuaðila sjóðsins, Gjaldskil, til að semja um greiðslu kröfunnar. Í kæru sinni kveður kærandi það ámælisvert að kröfuhafi hafi vísað samningsumleitunum hans til lögmannsstofu og gert kröfu um að samið sé við hana.

Vegna þessa bendir málskotsnefnd á að opinberum aðilum er heimilt að fela innheimtuaðila innheimtu krafna. Krafa LÍN (nú Menntasjóðs) á hendur kæranda er í höndum innheimtuaðila og telur málskotsnefnd ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Menntasjóðs að leiðbeina kæranda um að hafa samband við innheimtufyrirtæki vilji hann semja um greiðslu skuldarinnar.

Með vísan til framangreinds telur málskotsnefnd hina kærðu ákvörðun hvorki vera í andstöðu við lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, lög nr. 60/2020 um Menntasjóð, né ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Ákvörðun stjórnar Menntasjóðs í máli kæranda er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar Menntasjóðs í máli kæranda frá 22. september 2021 er staðfest.

 

Til baka