L-51/2013 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs
Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 23. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-51/2013.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 7. október 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júlí 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. október 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 6. nóvember 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 12. desember 2013.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi lauk meistaragráðu í lögfræði við Háskólann í Reykjavík
á haustönn 2010. Að námi loknu var hann á vinnumarkaði til hausts 2011 er hann
hóf meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun við Háskóla Íslands, sem er
lánshæft samkvæmt reglum LÍN. Skólaárið 2011-2012 lauk kærandi 30 ECTS-einingum
í náminu og 48 ECTS-einingum skólaárið 2012-2013. Kærandi naut námsláns hjá LÍN
skólaárið 2009-2010, en var ekki á námslánum skólaárið 2010-2011. Í nóvember
2011 barst kæranda bréf LÍN um að á árinu 2012 yrðu liðin tvö ár frá því að hann
fékk síðast afgreitt námslán frá sjóðnum og bæri því að loka skuldabréfi hans og
hefja endurgreiðslu námslána þann 30. júní 2012. Kærandi sótti um frestun á
lokun skuldabréfs þann 30. nóvember 2011 og var það samþykkt af LÍN. Í bréfi
dagsettu 23. október 2012 og í tölvupósti 13. nóvember 2012 var kæranda send að
nýju tilkynning LÍN um lokun á skuldabréfi hans og honum jafnframt tilkynnt að
hann hefði frest til að sækja um breytingu á því fyrir 1. desember 2012. Þann
24. janúar 2013 barst kæranda tilkynning LÍN um frágang (lokun) skuldabréfs og
að afborganir þess myndu hefjast 30. júní 2013. Með tölvubréfi til LÍN sama dag
óskaði kærandi eftir skýringum sjóðsins á lokun skuldabréfsins þar sem hann
síðastliðin tvö ár væri búin að vera í námi og hefði skilað lánshæfum
námsárangri. Í svari sjóðsins þann 7. febrúar 2013 kemur fram að kæranda hafi
verið send tilkynning með bréfi í október 2012 og ítrekun í tölvupósti í
nóvember sama ár að til stæði að loka skuldabréfinu og hefði hann þurft að sækja
um frestun á því fyrir 1. desember 2012. Með bréfi dagsettu 1. apríl 2013 óskaði
kærandi eftir úrskurði stjórnar LÍN um þá ákvörðun sjóðsins að loka
skuldabréfinu. Segir kærandi í bréfinu að honum hafi ekki borist neinar
tilkynningar frá sjóðnum haustið 2012 um fyrirhugaða lokun skuldabréfsins og
ennfremur væru forsendur þess að loka skuldabréfinu ekki fyrir hendi þar sem
hann hefði sótt um frestun þann 30. nóvember 2011 og væri auk þess enn í námi.
Með úrskurði stjórnar LÍN þann 19. apríl 2013 var erindi kæranda hafnað með
vísan til þess að með fyrrgreindu bréfi dagsettu 23. október 2012 og
tölvupóstinum 13. nóvember 2012 hafi honum verið tilkynnt um þá ákvörðun
sjóðsins að loka skuldabréfi hans og honum jafnframt veittur frestur til að
sækja um breytingu á því fyrir 1. desember 2012. Það hafi kærandi ekki gert fyrr
en með tölvupósti þann 24. janúar 2013 og hafi umsókn hans því verið of seint
fram komin að mati stjórnar LÍN. Með bréfi dagsettu 23. maí 2013 fór kærandi
fram á endurupptöku stjórnar LÍN á úrskurði sínum. Hafði kærandi þá aflað
staðfestingar kerfisstjóra Háskóla Íslands um að tölvupósturinn, sem LÍN kvaðst
hafa sent honum í nóvember 2012 með ítrekun um lokun skuldabréfs, hefði aldrei
borist honum. Stjórn LÍN tók mál kæranda fyrir að nýju á fundi sínum þann 3.
júlí 2013 og staðfesti þar fyrri ákvörðun sína og synjaði erindi kæranda með
úrskurði, sem hér sætir endurskoðun.
Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að það sé óumdeilt í málinu að haustið 2012 hann hafi
uppfyllt skilyrði þess að fá frestun á lokun þess skuldabréfs sem málið snúist
um. Þær tilkynningar sem LÍN kveðst hafa sent þann 23. október 2012 og 13.
nóvember 2012 um fyrirhugaða lokun hafi aldrei borist honum. Hann kunni ekki
skýringar á því hvers vegna bréfið sem LÍN kveðst hafa lagt í póst í október
hafi ekki borist honum. Þar kunni að mega kenna um mistökum LÍN, eins og í ljós
kom varðandi tölvupóstinn sem sjóðurinn fullyrti ranglega að hafa sent honum í
nóvember 2012. Sönnunarbyrðin verði ekki lögð á kæranda um móttöku
tilkynninganna. Á LÍN hvíli leiðbeiningaskylda og það sé lánasjóðsins að sýna
fram á að tilkynningar hans hafi borist lántaka og það hefði hann getað tryggt
með því að senda bréf sitt í ábyrgð í stað almenns pósts. Þau rök stjórnar LÍN
að engu breyti um niðurstöðu málsins hvort kæranda hafi borist margnefndur
tölvupóstur um lokun skuldabréfs sé með ólíkindum, m.a. vegna þess að fyrri
úrskurður stjórnar LÍN hafi grundvallast á því fyrrnefndar tilkynningar hefðu
borist kæranda. Kærandi leggur áherslu á að hann hafi þann 30. nóvember 2011
sótt um frestun á lokun skuldabréfs í samræmi við ákvæði 2.5.1 í
úthlutunarreglum LÍN 2011-2012. Í úthlutunarreglunum komi hvergi fram að lántaki
sem eigi rétt á frestun á lokun skuldabréfs þurfi að sækja um á hverju ári. Ef
það hafi verið meiningin hafi hvílt rík skylda á stjórn LÍN að upplýsa
lántakendur um það enda sé ekki hægt að gera þær kröfur til lántaka að þeir
fylgist með breytingum á úthlutunarreglum, sem virðist færðar inn að hentugleika
sjóðsins. Kveðst kærandi ekki fá séð að reglurnar eða breytingar á þeim séu
birtar í Stjórnartíðindum. Máli sínu til stuðnings kveðst kærandi vísa til
tveggja úrskurða málsskotsnefndar nr. L-4/2010 og nr. L-8/2009.
Sjónarmið LÍN
LÍN bendir á að kærandi hafi lokið
meistaranámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík á haustönn 2010. Samkvæmt
grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sé skuldabréfi lokað þegar námsmaður hætti að
þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Engar upplýsingar
hafi legið fyrir um að kærandi stundaði lánshæft nám á vorönn 2011 og hafi
námslok hans því verið ákveðin þann 29. júní það ár og hafi endurgreiðsla átt að
hefjast tveimur árum eftir lokun skuldbréfs eða 30. júní 2013. Þann 23. október
2012 hafi kæranda verið sent bréf um að skuldabréfi hans yrði lokað og
afborgunargreiðslur myndu hefjast vorið 2013. Jafnframt hafi honum verið bent á
að væri hann í lánshæfu námi gæti hann sótt um frestun á lokun skuldabréfsins
fyrir 1. desember 2012. Þá hafi honum einnig samkvæmt kerfum LÍN verið send
tilkynning í tölvupósti þann 13. nóvember 2012. Tilkynning um frágang
skuldabréfa hafi svo verið send á heimili kæranda þann 18. janúar 2013 og í
kjölfar þess hafi hann spurst fyrir um frestun á lokun skuldabréfsins og fengið
þau svör að hann væri liðinn. Með bréfi til stjórnar LÍN dagsett 1. apríl 2013
hafi kærandi sótt um frestun á lokun skuldabréfs en verið synjað með úrskurði
stjórnar þann 19. sama mánaðar á þeim grundvelli að beiðnin væri of seint fram
komin. Þegar kærandi hafi í maí 2013 sent stjórn LÍN beiðni um endurupptöku
málsins hafi kerfisstjórar LÍN rannsakað útsendingu á tölvupóstum þann 13.
nóvember 2012, sem hafi leitt í ljós að hann hafi borist á önnur netföng þótt
enginn tölvupóstur hafi fundist á netfang kæranda. Hafi stjórn LÍN haft hliðsjón
af þessu í niðurstöðu sinni, sem þó hafi ekki breytt fyrri ákvörðun þar sem í
grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN komi sú regla skýrt fram að það sé skilyrði
fyrir frestun á lokun skuldabréfs að sótt sé um það fyrir 1. desember 2012.
Stjórn LÍN tekur fram að leiðbeiningaskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr.
37/1993 stofnist ekki nema aðili leiti eftir henni. Reglur um frestun á lokun
skuldabréfs séu skýrar í úthlutunarreglum LÍN, en auk þess séu lánþegar minntir
á frestinn með tilkynningum. Um frestun þurfi að sækja á hverju ári með sama
hætti og sækja þarf um námslán fyrir hvert námsár, enda geti aðstæður aðila
breyst á milli ára. Því sé ekki fullnægjandi að sækja um einu sinni á ári og
ætla að það gildi takmarkalaust. Stjórn LÍN hafnar því að þeir úrskurðir sem
kærandi vísar í máli sínu til stuðnings séu fordæmisgefandi í málinu. Í þeim
málum hafi grein 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN, eins og hún þá var orðuð, verið
talin villandi og óskýr. Í framhaldinu hafi greininni verið breytt og eftir það
fari ekki á milli mála fyrir hvaða tímamark þurfi sækja um frestun á lokun
skuldabréfs. Telur stjórn LÍN úrskurð sinn vera í samræmi við fyrri úrskurði
sína og málskotsnefndar í sambærilegum málum og hvað nefndina varðar er
sérstaklega vísað til úrskurðar nr. L-25/2013.
Niðurstaða
Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestast fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Samskonar ákvæði var í eldri reglugerð um LÍN nr. 602/1997. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 segir í grein 2.5.1, sem fjallar almennt um lokun skuldabréfs, að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Þá segir í greininni að sá tímapunktur teljist námslok í skilningi laga nr. 21/1992 og reglugerðar um LÍN. Í grein 2.5.2 er síðan fjallað um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir: "Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 1. desember 2012 og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli - Námsframvinda." LÍN kveðst hafa sent kæranda bréf dagsett 23. október 2012 og tölvupóst þann 13. nóvember 2012 þar sem honum var tilkynnt um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hans og að hann hefði frest til 1. desember 2012 til að sækja um breytingu á því. Afrit bréfsins og tölvupósts eru lögð fram í málinu. Kærandi hafnar því að hafa fengið þessi bréf og telur sannað í málinu að tölvupósturinn hafi aldrei borist honum. Þar sem LÍN hafi valið að senda honum ekki bréfið með ábyrgðarpósti verði sjóðurinn að bera hallann af því að geta ekki sannað að hafa sinnt tilkynningaskyldu sinni. Stjórn LÍN fellst á að mikill vafi kunni að vera um tölvupóstinn, en telur að það eigi ekki að skipta máli um niðurstöðu málsins. Umræddar tilkynningar séu sendar lánþegum til áminningar en séu ekki hluti af leiðbeiningarskyldu LÍN sem stjórnvalds, enda sé umsóknarfresturinn skýr í úthlutunarreglum sjóðsins. Á heimasíðu LÍN koma fram upplýsingar um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir að ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi en er hættur að sækja um námslán geti hann sótt um frestun á lokun skuldabréfsins. Hann þarf þá að leggja fram gögn sem sanna að hann sé ennþá í námi og sé með lánshæfan árangur. Ljóst er af síðari málslið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 að stjórn LÍN ber að skilgreina hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum. Í grein 2.5 í úthlutunarreglum LÍN er þetta skilgreint af hálfu LÍN og í úthlutunarreglunum 2012-2013 er tekið fram með skýrum hætti að sækja skuli um frest á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember 2012. Þessu til viðbótar eru á heimasíðu LÍN leiðbeiningar um námslok og lokun skuldabréfa. Þessar reglur og leiðbeiningar eru aðgengilegar öllum lántakendum og verður að leggja þá ábyrgð á þá að kynna sér reglur sjóðsins og fylgja þeim. Þá liggur fyrir í málinu að kærandi hafði á árinu 2011 sótt um frestun á lokun skuldabréfs. Málskotsnefnd bendir á að fram kemur í úthlutunarreglunum að heimilt sé að fresta lokun skuldabréfs ef námsmaður lýkur lánshæfum árangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Skal þá sækja um frestun fyrir 1. desember það ár. Er þannig ljóst sækja þarf um frestun á lokun skuldabréfs vegna fyrra náms á hverju ári meðan námsmaður stundar nýtt nám. Málskotsnefnd getur því ekki fallist á það með kæranda að niðurstaða þessa máls eigi að ráðast af því að ekki sé sannað að honum hafi borist tilkynningar frá LÍN um frest til breytinga á lokun skuldabréfs. Fyrir liggur í málinu að kærandi sótti ekki um frestun til LÍN fyrr en í fyrsta lagi með tölvupósti þann 24. janúar 2013. Það er viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu að taka til efnismeðferðar mál sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Að baki reglum LÍN búa málefnalegar ástæður er lúta að stjórn á fjárreiðum sjóðsins sem gera það mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir. Almennt beri því að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, svo sem þegar tekst að sanna að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að sótt væri um innan frests eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Hvorugt á við í þessu máli að áliti málskotsnefndar. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda og er hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 3. júlí 2013 í máli kæranda er staðfestur.