L-03/2008 - Námslengd - hámarksfjöldi lánaanna
Úrskurður
Ár 2008, fimmtudaginn 28. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2008:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 7. febrúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 13. desember 2007 þar sem synjað var beiðni hans um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 11. febrúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 27. febrúar sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 28. sama mánaðar en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dags. 11. mars sl. komu fram frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Í ljósi þeirra óskaði málskostnsnefnd eftir því við kæranda í bréfi dags. 16. maí sl. að hann aflaði gagna um skipulag náms síns við University College í London um námstíma, skilgreiningu skólans á því hvað teldist fullt nám sem og upplýsinga um það hvort skólinn notaðist við ECTS-einingar í viðmiðun sinni og útreikning náms hans samkvæmt þeim. Var stjórn sjóðsins sent afrit bréfsins sama dag. Kærandi svaraði beiðni nefndarinnar í bréfi dags. 23. maí sl. og var stjórn LÍN kynntar þær upplýsingar frá kæranda með bréfi dags. 19. júní sl. og var stjórninni jafnframt gefinn 14 daga frestur til að gera athugasemdir og leggja fram frekari gögn. Með bréfi dagsettu 1. júlí sl. gerði stjórnin frekari athugasemdir við málflutning kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf PhD-nám við University College London 1. apríl
2005. Áður hafði hann notið námslána í sjö ár. Stjórn LÍN samþykkti í hinum
kærða úrskurði að veita kæranda námslán haustið 2007 en áður hafði honum verið
synjað um sumarlán 2007 á þeirri forsendu að hann hefði fullnýtt svigrúm sitt
til lána. Stjórnin synjaði honum hins vegar um námslán umfram haustönn 2007 þar
sem hann væri eftir hana búinn að fá námslán samtals í 10 ár eða 20
aðstoðarmisseri.
Kærandi byggir kröfu sína á því að stjórn LÍN beri að
líta svo á að skólaár í PhD-námi hans nemi 12 mánuðum en ekki 9 mánuðum eins og
hún hafi miðað við í hinum kærða úrskurði enda liggi fyrir staðfesting
ofangreinds skóla á því. Sé túlkun stjórnar LÍN á áðurnefndu ákvæði
úthlutunarreglnanna sérstaklega þröng í ljósi þess að þar er talað um að skólaár
sé að jafnaði tvö misseri eða samtals 9 mánuðir. Þá sé í grein 2.1.2. talað um
að sækja þurfi sérstaklega um sumarlán en síðan segi að námsmaður, sem flýti
námslokum með sumarnámi, eigi rétt á fullu láni í þrjá mánuði yfir sumartímann
ljúki hann tilteknum ECTS-einingum á skólaárinu umfram fullt vetrarnám samkvæmt
skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Aðalatriðið í greininni virðist
því vera að sumarlán sé tekið til að flýta námslokum en ekki sem hluti af fullu
námi en sumarmánuðirnir þrír í námi kæranda séu ekki teknir umfram fullt
vetrarnám heldur reiknist sem hluti af fullu vetrarnámi.
Að því er varði
heildarsvigrúm tekur kærandi fram að á árunum 1992-1997 hafi hann tekið lán í 10
misseri á BA og BE stigi og því klárað 5 ára hámarkslánarétt í grunnháskólanámi
samkvæmt grein 2.4.2 í úthlutunarreglunum. Þegar hann hafi hafið cand.mag. nám í
dönsku við Kaupmannahafnarháskóla 2002 hafi hann því átt rétt á lánum í 5 ár á
framhaldsstigi. Meðan á síðargreindu námi stóð, hefði hann fengið lán í 4
misseri, þ.e. haust 2002, vor og haust 2003 og haust 2004, og hljóti það að þýða
að hann hafi átt rétt á lánum í 3 skólaár þegar hann hóf núverandi PhD-nám sitt
1. apríl 2005. Hafi þetta verið staðfest af ráðgjafa LÍN í símtali í desember
2004 þegar kærandi leitaði staðfestingar á því að hann gæti lokið doktorsnámi
sínu á námslánum. Þá bendir kærandi á að svör LÍN varðandi 10 ára regluna verið
nokkuð óljós og misjöfn síðustu mánuðina.
Stjórn LÍN byggir synjun sína
á erindi kæranda á því að hann hafi nú þegar fullnýtt svigrúm sitt til lána.
Áður en kærandi hóf PhD-nám sitt við University College London, hafi hann fengið
námslán í 7 ár og því átti rétt á lánum í 3 ár (6 aðstoðarmisseri), sbr. grein
2.4.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. Í hinum kærða úrskurði hefði stjórnin
samþykkt að veita kæranda námslán haustið 2007, en áður hafði honum verið synjað
um sumarlán 2007 á þeirri forsendu að hann væri búinn að fullnýta svigrúm sitt
til lána samkvæmt greinum 2.4.2. og 2.4.3. Stjórnin hefði hins vegar synjað
kæranda um námslán umfram haustönn 2007 þar sem hann hefði eftir hana verið
búinn að fá námslán samtals í 10 ár (20 aðstoðarmisseri).
Bendir stjórn
LÍN á að kærandi geri ekki greinarmun á hugtökunum "fullt nám" og "fullt
skólaár" sem aftur virðist valda misskilningi við túlkun greina 2.1.1. og 2.1.2.
í reglum sjóðsins. Mergur málsins sé að fullt nám sé miðað við nám í 2 misseri á
ári (2x4,5 mánuði). Með fullu sumarnámi umfram fullt vetrarnám teljist námsmaður
hafa lokið 33,3% námi umfram "fullt nám" á einu og sama skólaárinu. Í einingum
talið teljist t.d. fjögurra ára nám í 9 mánuði jafngilda þriggja ára námi í 12
mánuði, þannig: "4 skólaár x [(30+30) ECTS-einingar] = 240 ECTS-einingar. 3
skólaár x [(30+30+20) ECTS-einingar] = 240 ECTS-einingar"
Við ákvörðun
heildarsvigrúms og talningu aðstoðarmissera sé viss ívilnun á hinn bóginn fólgin
í þeirri reglu að aðstoð á sumarönn reiknast einungis sem aðstoð í hálft
misseri, sbr. síðustu mgr. greinar 2.1.2. í reglum sjóðsins, þannig: 4 skólaár x
2 misseri = 8 aðstoðarmisseri (4 ár í svigrúmi) 3 skólaár x 2,5 misseri = 7,5
aðstoðarmisseri ( 3,75 ár í svigrúmi).
Kærandi hafi hafið núverandi nám
sitt 1. apríl 2005 og við lok vormisseris 2007 hinn 30. júní 2007 hafi hann því
fengið samfellt lán vegna náms í 27 mánuði sem samsvari 3 árum í svigrúmi. Hann
hefði fengið lán skólaárið 2004-2005, vor og sumar, alls í 1,5 aðstoðarmisseri,
skólaárið 2005-2006, haust, vor og sumar, alls í 2,5 aðstoðarmisseri og
skólaárið 2006-2007, haust og vor, alls í 2 aðstoðarmisseri, samtals í heildina
6 aðstoðarmisseri. Í kjölfarið hefði kæranda verið synjað um aðstoða vegna náms
sumarið 2007 en síðar hefði verið samþykkt að veita honum lán vegna náms haustið
2007 að hans ósk. Hefði sú niðurstaða verið rökstudd með hliðsjón af óvenjulegum
upphafstíma námsins og reglunni um að sumarnám sé metið sem hálft
aðstoðarmisseri við ákvörðun heildarsvigrúms. Þannig hafi verið ljóst að væri
upphaf náms kæranda skráð á sumarönn í staðinn fyrir á vorönn 2005, næði
lánshæfur námstími hans yfir þrjár sumarannir (en ekki tvær) og heildarsvigrúm
hans væri þar með hálfu aðstoðarmisseri lengra. Hefði kærandi þar með átt rétt á
láni í eina önn til viðbótar haustið 2007.
Stjórn LÍN telur upplýsingar
frá University College London um skipulag náms kæranda við skólann ekki breyta
þeirri staðreynd að fullt nám samkvæmt úthlutunarreglum LÍN sé að jafnaði 9
mánuðir yfir skólaárið sem telji 2 misseri og að hægt er að sækja um
sumarmisseri vegna þriggja mánaða í viðbót og telji það sem hálft misseri, eða
alls 2,5 misseri yfir 12 mánaða tímabil, sbr. greinar 2.1.1. og 2.1.2. í
úthlutunarreglum sjóðsins.
Niðurstaða
Óumdeilt er að kærandi á rétt á námslánum í þrjú ár en
ágreiningur málsins snýst um það hvort miða eigi fullt nám við tvö misseri á
ári, samtals 9 mánuði, eða 12 mánuði. Af framlögðu bréfi frá University College
London má ráða að ekki er notast við ECTS-einingar við útreikning í doktorsnámi
við skólann. Þá kemur fram á heimasíðu skólans að PhD-nemar verða að vera
skráðir í fullt nám í að minnsta kosti 3 almanaksár en í 5 almanaksár ef ekki er
um fullt nám að ræða. Kemur þar einnig fram að með almanaksári sé í reglum
skólans átt við um það bil 12 mánaða tímabil.
Eins og mál þetta er vaxið
verður í ljósi þessa að telja að túlkun LÍN á útreikningi heildarsvigrúms
kæranda til að njóta námslána í núverandi námi sínu sé ekki í samræmi við ákvæði
3. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og gr. 2.1.1. í úthlutnarreglum sjóðsins.
Er þá einkum litið til þess að námsmaður á samkvæmt framangreindu lagaákvæði að
jafnaði rétt á að taka námslán á hverju misseri sem hann er við nám miðað við
hæfilegan námstíma í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað. Þá
verður ekki talið að orðalag framangreindrar greinar 2.1.1. í úthlutunarreglum
LÍN um að miða skuli við tvö jafnlöng misseri, samtals 9 mánuði, fyrir fullt nám
á skólaári, feli í sér ófrávíkjanlega viðmiðun, sbr. orðfærið "að jafnaði".
Verður framangreind ákvörðun stjórnar LÍN um að hafna lánsumsókn kæranda
því felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. desember 2007 í máli kæranda er felldur úr gildi.